21.6.2011 | 09:12
Fellini og frelsunin frá "Röddinni" ...
Giulietta degli spiriti er mynd sem ég horfði nýlega á með félögum mínum í rannsóknarhópnum Deus Ex Cinema.
Myndin er litrík, og mikið konfekt fyrir skilningarvitin. Þrátt fyrir mikinn súrealisma, er myndin býsna sterkur raunveruleiki margra. Raunveruleikinn er reyndar stundum súrealískur.
Efni myndarinnar kallast á við efni það sem ég hef verið að læra um meðvirkni. Þ.e.a.s. sá hluti sem lýtur að því að finna eigin rödd, en vera ekki bundinn í raddir eða bregðast við umhverfinu með lærðri hegðun frá æsku.
Það er staðreynd, að við sjálf erum oftast okkar stærsta hindrun, vantraust okkar á sjálfum okkur. Það er okkar eigin úrtölurödd, sem talar niður drauma okkar, skammar okkur, eða hindrar í að gera hluti sem við gætum gert ef við hefðum ekki þessa hindrun. Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að hafa okkar takmarkanir svo við förum ekki að voða. En við viljum þagga niður í röddinni sem hindrar okkur í að vera við sjálf.
Einn kafli bókarinnar Women, Food and God, eftir Geneen Roth, fjallar um "The Voice" eða Röddina. Stundum nefnt Superego. Þarna er um að ræða okkar innri rödd, ekki þessi sem elskar okkur skilyrðislaust - heldur þá sem er dugleg við að kritisera okkur. Röddin sem gæti sagt "hvað þykist þú eiginlega vera" .. Röddin sem stelur frá okkur draumunum og skellir okkur niður flötum þegar við fáum áhuga á að framkvæma eitthvað sem er óvenjulegt eða erfitt. Þessi rödd gæti t.d. hljómað eins og mamma okkar þegar við vorum börn. Stundum segja mömmur og pabbar eitthvað óvarlegt og drepa þá líka óvart niður sjálfstraust og drauma. Það er ekki vegna þess að þau voru vond, heldur vegna þess að þau kunnu ekki betur, voru e.t.v. að tala eins og þeim var kennt, og kannski kom þessi rödd í raun einhvers staðar úr vanvirkri fjölskyldu í fortíð.
En aftur að myndinni.
Aðalpersónan Júlíetta, er óhamingjusöm og er í því að þóknast öllum í kringum sig, þ.m.t. eiginmanni sem heldur fram hjá henni, en hún hefur valið að láta eins og ekkert sé og halda "kúlinu". Í myndinni er ferðast aftur í tímann og hún sýnd sem barn þar sem hún er að leika í skólaleikriti og er bundin niður. Móðir hennar er stjórnsöm og pabbinn ævintýragjarn og fer í burtu með sirkuskonu. Ég man ekki fléttuna nákvæmlega, en það sem skiptir máli er hér hvernig Júlíetta vinnur úr sínum málum.
Í myndbrotinu sem fylgir er Júlíetta komin á þann stað að íhuga að fremja sjálfsmorð, þegar hún heyrir barnsgrát, - hún spyr hvaðan þetta komi og þá birtist andlit móður hennar sem segir að þetta sé aðeins vindurinn.
Hún neitar því og sér þá litla hurð, sem á að tákna undirmeðvitund hennar, og hún ákveður að opna dyrnar. Móðir hennar segir henni að stoppa, en þá svarar Júlíetta
"Ég er ekki hrædd við þig lengur" .. Um leið og hún segir það opnast dyrnar.
Stundum er það þannig að við tileinkum okkur rödd fortíðar, rödd móður, rödd föður eða einhvers sem hefur haldið aftur af okkur. Við ruglumst á eigin rödd og annarra.
Einhvers sem hefur ekki haft trú á að við gætum staðið á eigin fótum og við höfum þannig tileinkað okkur þá trú ómeðvitað. Við höfum viðhaldið "röddinni" sem talar niður til okkar, dregur úr okkur kjarkinn og viðhöldum óttanum.
Stundum erum við það brotin, orðin það kjarklaus að við þurfum að fá utanaðkomandi stuðning. Nýlega las ég bréf frá nemanda til námsráðgjafa, sem hafði náð sér upp úr óreglu "Ég fór að trúa á mig, af því að þið höfðuð trú á mér." - Oft er sagt að við þurfum að treysta á okkur til að aðrir geri það, en ef við erum mjög brotin, þá þarf oft "pepplið" til.
Hvernig sem Júlíetta fer að þessu hefur hún loksins komist á þann stað í lífinu að hún þaggar niður í röddinni, hlustar á eigin rödd og fer inn í litla herbergið þar sem hún sér sjálfa sig sem litlu stelpuna í skólaleikritinu, og losar böndin sem hún er bundin með.
Hún frelsar hana - leysir úr viðjum fortíðarinnar. Hún hafði öðlast sjálfstraust til þess, tekur utan um stelpuna og sleppir henni svo út þar sem hún hverfur.
Aðeins þannig gat Júlíetta öðlast frelsið. Aðeins þannig að fara til fortíðar og losa um barnið sem var bundið. Hún fór ekki til baka sem barn, heldur fullorðin manneskja og frelsaði barnið.
Á þennan máta frelsum við okkur sjálf, förum inn í okkar eigin meðvitund, skoðum rætur, uppruna og ef að við sjáum þar grátandi barn þá tökum við það í fangið og hleypum því svo út í sólina.
Barnið þarf ekki að vera bundið, það getur bara verið sitjandi undir borði, uppi í stiga, inní rúmi eða hvar sem er. Kannski átt þú svona sögu af sjálfri þér eða sjálfum þér.
Merkilegt nokk eigum við það flest, en oft er djúpt á að finna þetta barn. Oft er sagan í móðu, enda oft sár. Margir muna ekki eftir bernskunni, heldur hafa blokkerað hana, en hún er þarna að sjálfsögðu og kannski er þar grátandi barn sem þarf að hugga.
Til að við getum lifað hamingjusöm í núinu, þurfum við stundum að fara til baka í þáið til rótanna, til barnsins og frelsa það, því að þó við vitum ekki af því þá er það þarna einhvers staðar að halda aftur af okkur og heftir okkur í því sem við erum í dag.
Heftir okkur í að elska, heftir okkur í að elska okkur sjálf og vera við sjálf.
Það þarf ekki að hafa verið dramatísk reynsla á mælikvarða fullorðinna, en hún getur hafa verið mjög erfið og óréttlát á mælikvarða barns. Barn er ekki með sömu viðmið og fullorðnir og raunir þess og tilfinningar eru alveg jafn mikilvægar og raunir okkar sem fullorðinna.
Þess vegna ætti ekki að gera lítið úr tilfinningum barns, eða sorg yfir því sem okkur finnst ómerkilegt.
Börn fara oft að bæla tilfinningar sínar ef við gerum lítið úr þeim, eða jafnvel hlæjum að þeim vegna þess að okkur finnst þær ómerkilegar. Það getur haft þær afleiðingar að þegar eitthvað stórkostlega alvarlegt kemur upp (á bæði barns og fullorðinsmælikvarða) barn verður fyrir ofbeldi eða misnotkun, þá treystir það ekki lengur hinum fullorðna til að taka við tilfinningum sínum.
Það er því dauðans alvara að gera lítið úr tilfinningum barns, jafnvel "væli" því að vælið er oft eina leið þess að tjá tilfinningarnar.
Það þarf að sjálfsögðu að gera mun á því þegar barnið er að gráta vegna þarfa eða langana.
Þörfin er þá þörfin fyrir hlýju, knús, athygli o.s.frv. en löngun er "þörfin" fyrir súkkulaði eða dót í búðinni. En til að flækja málin má líka segja það að barn sem trompast í búðinni yfir dóti, gæti alveg eins verið að tjá vanlíðan, ef að því er ekki mætt eða hefur ekki verið sett mörk.
Ágætis regla er að segja áður en farið er inn í búð; í dag ætlum við að kaupa einn hlut, eða í dag ætlum við bara að kaupa það sem vantar í matinn, ekki dót eða nammi. Þá veit barnið fyrirfram hvað það fær. Aldrei skal brjóta þessa reglu, því þá hrynur allt regluverkið.
Það er gott að reyna að átta sig á því í dag, hverjir eru í þínu "peppliði" og hvort að það sé ekki örugglega maður sjálfur.
En nú er ég hætt og skil ykkur eftir með hana Júlíettu.
Ath! Ég átti þessi skrif "á lager" en langaði að dýpka fyrra blogg um meðvirkni með þessu, endilega kíkið á það ef þið eruð að pæla í svona hlutum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.