7.6.2011 | 07:47
Hvernig líður þér?
Þegar verið var að setja af stað kennslukönnun fyrir nemendur, einu sinni sem oftar, stakk ég upp á viðbótarspurningunni "hvernig líður þér í skólanum"..
Spurningin er gild hvar og hvenær sem er, og ekki síður mikilvæg en niðurstaða einkunna, upphæð á launaseðli, eða það sem við metum kannski oftar.
Það er holl spurning að spyrja sig; hvernig líður mér? Það er hluti af sjálfsþekkingunni, sem er grundvöllur fyrir því að lifa þokkalega hamingjusamlegu og meðvituðu lífi. Lífi þar sem við erum viðstödd en ekki fjarlæg. Lífi þar sem við njótum augnabliksins, en erum ekki stödd í fortíð, framtíð - einhvers staðar langt í burtu.
Margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir líðan sinni og því þykir góð hugmynd að skrifa tilfinningadagbók, það þarf ekki að vera mikið, aðeins nokkur orð á morgnana og nokkur á kvöldin. Jafnvel bara eitt orð. Svo finnst sumum betra að teikna líðan sína.
Það má kannski nota svona tilfinningakalla;
Glöð/glaður, leið/ur, kvíiðin/n, hamingjusöm/samur, reið/ur, prirruð/aður ...
Ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfitt að gera sér grein fyrir tilfinningum sínum er stundum sú að þeir hafa bælt þær inni, jafnvel allt frá æsku.
Ég gekk nýlega fram hjá föður og ungrar dóttur, dóttirin var grátandi og hann sagði "Þetta var ekkert svona vont" .. skilaboðin voru til barnsins; "ég veit betur hvernig þér líður" .. Hér er ekki um að ræða vondan pabba, og alls ekki. Þetta var sagt í góðri meiningu, - en hugleiðum hvort að svona viðbrögð geta haft varanleg áhrif.
"Hættu að gráta" .. hver hefur ekki fengið að heyra þetta í bernsku? Eða kannski var hlegið að áhyggjum barnsins? Þær ekki teknar alvarlega? Hvað fengu strákarnir að heyra? "Vertu ekki að grenja eins og stelpa"? .. Það var þó aðeins meiri sveigjanleiki fyrir stelpurnar - og augljóslega frekar samþykki fyrir því. Grátur er tjáningarmáti. Í upphafi einn sterkasti tjáningarmáti barnsins, svo fara orðin að koma, en barnið er ekkert endilega búið að læra að koma tilfinningum sínum í farveg orða og því grætur það. Það er þá sem er svo mikilvægt að við sem fullorðin hjálpum barninu að yrða tilfinninguna í staðinn fyrir að slökkva á henni eða hreint út sagt banna hana.
Kannski erum við ófær, vegna eigin bernsku?
Hvað ef að við sem fullorðnar manneskjur lýstum áhyggjum okkar og einhver gerði grín að þeim? Hvaða tilfinning poppar upp við það?
Börn eiga nefnilega rétt á sínum tilfinningum, og það verður að virða þær og ræða. Ef að barn háorgar út af litlu sári, getur vel verið að þar á bak við séu önnur sár. Sjálf eigum við það til að fá útrás yfir bíómyndum, fallegu lagi, jafnvel í jarðarför hjá fólki sem er okkur lítið tengt, - þá spretta upp okkar eigin sár og sorgir yfir einhverju eða einhverjum sem við söknum.
Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um þegar við stöðvum tilfinningaflæði barna, spyrja þau reglulega hvernig þeim líður, leyfa þeim að gráta hjá okkur, og hugga þau með því að tala við þau og vera til staðar, veita þeim athygli. Athygli er í þessu lykilorð eins og í öllum samskiptum.
Ef að barn fær ekki jákvæða athygli leitar það eftir neikvæðri athygli, og við þekkjum flest hvað það getur verið erfitt að eiga við. Börn eiga rétt á útskýringum, ef við höfum ekki tíma til að sinna þeim þá að útskýra hvers vegna og hvað við erum að gera. Þau eru yfirleitt skynsöm.
Þegar ég segi frá þessu, þá er ég að tala út frá reynslu minni sem barns og sem uppalanda, en ég gerði auðvitað mistök eins og við mörg höfum gert. Við lærum af mistökunum og þess vegna miðla ég þeim áfram.
Íslendingar hafa oft verið taldir tilfinningalega lokaðir, og nú nýlega var tekið viðtal við konur af erlendu bergi brotnar og vandræði þeirra með að nálgast Íslendinga. Þær töluðu um að Íslendingar horfðust ekki í augu við þær fyrr en í glasi.
Hvað segir það okkur?
Þó að við höfum e.t.v. verið alin upp á þann máta að ekki var á okkur hlustað, tilfinningar ekki virtar, eða hlutirnir ekki útskýrðir - þó að við sem höfum nú þegar alið upp okkar börn höfum fallið í þann pakkann líka, þá hefur unga kynslóðin tækifæri til að vera opnari, hlusta á börnin - og við sem erum ömmur og afar, frænkur og frændur, vinir og vinkonur, getum lagt okkar af mörkum.
Tilfinning er orð sem er byggt á tveimur samsettum orðum Til og finn - Það snýst um að finna til í sjálfum sér, hvort sem það er að finna til gleði eða sorgar, en bæði sprettur frá sama kjarna. Þess vegna er mikilvægt að þekkja sig, til að þekkja tilfinningar sínar. Það er þess vegna sem við oft þurfum að grafa pinkulítið í okkur, stundum mikið, fella þá tilfinningamúra sem við e.t.v. höfum hlaðið utan um okkur, læra af fortíð þó við ætlum svo sannarlega ekki að dvelja í fortíð - heldur upplifa núna.
En svona í lokin; hvernig líður þér? ...
"Að elska og finna til" .. syngur Magni sem trúir á betra líf ..
Athugasemdir
Allur skalinn af tilfinningum hjá mér oftá tíðum en oftast er það góði BROSkallinn :) og FLOTTUR pistill hjá þér...tala nú ekki um þetta frábæra lag með MAGNA :D
Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 7.6.2011 kl. 12:58
Jóhanna Magnúsdóttir, 7.6.2011 kl. 15:57
Það er ótrúlega góð tilfinning sem getur varað allan dagin, ef maður lítur útum gluggan að morgni og segir upphát eða í hljóði "góðann dagnn dagur - hvað ætlar þú að kenna mér í dag?"
Þá tekur maður eftir því hvað maður er að upplifa allan daginn og getur lært helling um sjálfan sig og umhverfið..........
Maður tekur eftir því hvernig maður bregst við hinum ýmsu hlutum, atvikum og aðstæðum...........
Það er ótrúlegt hvað maður getur lært og upplifað með réttu hugarfari í upphafi dags........
Eyþór Örn Óskarsson, 7.6.2011 kl. 22:30
Gott innlegg Eyþór - takk fyrir það!
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.6.2011 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.