Hundaeigendur, og menn almennt, eru mun stærra vandamál en hundar ...

Ég er ein af þeim sem er fylgjandi hundahaldi, þó að sjálfsögðu sé það bundið ákveðnum reglum. Það er s.s. okkar mannanna að halda þær reglur.

Ég tel kostina við hundahaldið yfirskyggja ókostina.  

dog-food.jpg

Ókostir: Þegar hundaeigendur þrífa ekki upp eftir hunda sína,  þegar hundur bítur og/eða ræðst að manneskju (eins og hefur verið í fréttum núna tvisvar nýlega).   Þegar hundar eru lausir og valda fólki hræðslu sem er hrætt fyrir.   Þetta eru  þrír meginókostir við hundahald,  fyrir fjöldann. 

Hundaeigandi aftur á móti þarf líka að þrífa inni hjá sér, hár sem falla af hundinum og það er mikil vinna að sinna hundi svo vel fari. Viðra hann og passa upp á að hann fái nægilega hreyfingu. 

Það eru alltaf til svartir sauðir meðal hundaeigenda, og það eru alltaf til svartir sauðir alls staðar reyndar. 

Fór út að ganga í morgun með Simba ofurhund og mættum við öskrandi manni, sem var að koma heim af djamminu eflaust.  Mér varð ekki um sel,  en það olli því samt ekki að ég yrði hrædd við alla menn. 

Varðandi að hirða upp hundaskít, þá gildir það sama um sígarettustubba, tyggjó og annað.  Sumt fólk er sóðar, hvort sem það er með hund, reykir eða tyggir tyggjó.  Það tekur ekki þá samfélagslegu ábyrgð að halda umhverfinu okkar snyrtilegu. 

Í þessu þjóðfélagi einangrunar sem við lifum í dag þá tel ég að hunda- og kattahald sé jákvætt.  Það að hafa dýri að sinna, eða draga sig út í göngutúr (þó varla með ketti) er jákvætt fyrir einstaklinginn.  Fólk sem ekki getur eða vill eignast börn fær í sumum tilfellum lífsfyllingu út úr þvi  að sinna hundinum sínum (eða ketti).  Börn hafa gott af því að umgangast dýr og læra að virða þau.  Það er þekkt hvað varðar einhverf börn, að þau hafa gott af því að umgangast hunda t.d. 

Farið er með hunda skipulega inn á sum elli-og hjúkrunarheimili  þvi þeir kveikja gleði hjá gamla fólkinu. 

Við þurfum að beina athyglinni að hundaeigandanum þegar upp koma vandamál með hunda. Ég persónulega myndi ekki vilja eiga hund sem bítur og er hættulegur öðru fólki.  Hundar geta verið geðbilaðir eins og manneskjur,  en við setjum þá ekki á sjúkrahús eða í samtalsmeðferð eða hvað? 

Það skal tekið fram að ég var dauðskelkuð við hunda sem barn, lenti í því í Danmörku að mig elti Great Dane (hann var jafn stór mér) langar leiðir.  Ég áttaði mig að vísu á því að ef ég hljóp héldu hundar að ég væri í eltingaleik! .. Þegar ég svo fór að kynnast hundum þá sá ég kostina og hversu miklir gleðigjafar þeir geta verið.  Ég hef líka lent í því á fullorðinsárum að eiga fótum mínum fjör að launa,  en það var þegar ég ætlaði að stytta mér leið á Spáni og klifraði yfir girðingu og mætti þar varðhundum.  Það var adrenalínkikk æfi minnar þegar ég flaug yfir girðinguna til baka. 

Þetta gerði mig ekki hrædda við alla hunda, ekki frekar en að það gerir mig ekki hrædda við alla karlmenn þegar að þeir hafa verið með áreiti eða öskur á eftir mér þegar ég hef gengið heim að kvöldi til úr bænum.  Það mætti nú samt alveg skoða það að banna lausagöngu útúrdrukkinna og/eða ógnandi einstaklinga, bæði kvenna og karla. Wizard

En s.s. niðurstaðan er sú að við getum ekki dæmt alla hunda af fáum hundum og hundaeigendum. Vonum að hundaeigendur líti í eigin barm og hafi sína hunda í taumi.  Mæli með því að þeir sem eru hræddir, reyni að vinna á fóbíu sinni,  því það hlýtur að vera vont að ganga með þennan ugg í brjósti. 

p1010008.jpg

 

Sonardóttirin Eva Rós og Simbi ofurhundur að leik. 

 

 

 Úr Marley and me: "A dog doesn´t care if you´re rich or poor, give him your heart and hell give you his." ..

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er eins með hundana og blessað unga fólkið, fullorðna fólkið er þeirra stærsta vandamál.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.5.2011 kl. 12:14

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ekki hundum að kenna þó þeir þurfi að skíta, það er eigandanum að kenna ef hann ekki þrífur upp skítinn!

Það er ekki hundum að kenna ef þeir eru látnir ganga lausir í þéttbýli, það er eigandans að passa sitt dýr!

Það er ekki hundum að kenna ef þeir ráðast á fólk, það er eigandans að þjálfa sinn hund svo hann geri það ekki. Það er hægt að kenna öllum hundum þetta, ef byrjað er nógu snemma. Hins vegar ef það mistekst á að svæfa viðkomandi hund. Hundur sem einu sinni sýnir slíka tilburði mun nokkuð örugglega gera slíkt aftur. Það er ekki hundinum að kenna, það er eigandum að kenna!

Sjálfur á ég frábæra tík, ættlausa blendingstík golden/labrador. Hún er frábær en nú komin á seinnipart sinnar ævi. Því er ég vissulega samþykkur hundahaldi.

Það eru því miður eigendur hundanna sem efiðara er að treysta, sumir hverjir fara ekki eftir því sem ætlast er til.

Það eru örfáir hundaeigendur sem ekki standa sig, þeim á vissulega að refsa. Til þess hafa yfirvöld fullt vald. Því miður virðist þó umræðan alltaf snúast um hvort hundr séu æskilegir eða ekki, þegar hún ætti að vera um hvort sumir hundaeigendur séu æskilegir eða ekki!

Við skulum ekki gleyma því að hundurinn er talinn vera með elstu heimilisdýrum mannkynsins. Það er leitt ef nokkrum einstaklingum sem ættu ekki að eiga slík dýr tekst að eyðileggja fyrir fjöldanum.

Gunnar Heiðarsson, 21.5.2011 kl. 21:24

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Loksins orð af viti um blessaða hundana, Jóhanna. -- Gaman að lesa þetta um hundana á Spáni, við hjón lentum í hundum (fórum næstum í hundana) á Mallorca fyrir 15 árum eða svo þegar við ætluðum að ganga meðfram strandlengjunni og þurfum á nokkru bili að fikra okkur upp í kletta eftir stíg hoggnum í þá og virtum að vettugi blómapotta sem raðað hafði verið þvers á stíginn hér og þar, klofuðum bara yfir. Allt í einu vorum við með tvo illilega og hágjammandi rakka frekar smáa og einn stóran, urrandi og illilegan framan í okkur. Við námum staðar og hlustuðum á þessa hundamúsík nokkra stund uns opnaðist hús þar ofan við klettabrúnina og út kom kvendi ekki árennilegra en hundarnir og vísaði okkur norður og niður, sömu leið og við höfðum komið upp og suður. Hvað við gerðum með hægð en konan kallaði kvikindi sín til baka.

Fundum götu sem lá í okkar átt og meðfram stéttinni á nokkuð löngum hluta var limgerði hátt og strítt og hvað nema hundkvikindin eins og kolbrjáluð þar fyrir innan. Þrátt fyrir viðvarandir konu minnar og tilraunir hennar til að toga mig sem fyrst sem fjarst þessari hættu gerði ég í því að espa hundana svo lengi sem ég dró lappirnar fram með gerðinu. Og naut þess að heyra kvendið reyna að hemja óargadýrin sín megin með misfögru orðbragði -- á ensku, sem betur fór, annars hefði ég ekki skilið nema tóninn.

Fréttum síðar að á þessum parti á suðausturströnd Mallorca hefði fínt og frægt fólk amirískt keypt sér stórar lóðir og rammgirt þær svo enginn sæi þar inn nema fuglinn fljúgandi. Með heimild til að loka leiðum allt í sjó fram. Og byggt þar misstór slot til að búa í sjálf með bústofni sínum þegar lítið er að gera í Amiríku.

Sigurður Hreiðar, 21.5.2011 kl. 22:39

4 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

það er að veltast um glæpalýður higað og þangað sem er ekki kvartað um ónæði af þeim að ráði. Í 99% tilfella er manninum að kenna ef Hundur ræðst að honum.Farið vel að Dýrum þá gera þau ekki mein,en ekki glæpahiskið..

Vilhjálmur Stefánsson, 21.5.2011 kl. 23:54

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gunnar Hreiðarsson:   eins og talað út úr mínum munni.

Hjartanlega sammála.

En hver er þessi tregða að fara að samþykkum Umhverfisráðs og aflífa þau dýr sem bíta og valda þar með hættu.

Móðir ungra barna liggur nú ósjálfbjarga á spítala eftir að Dalmaíuhundur gekk gjörsamlega í skrokk á henni. Hún er handleggsbrotin. brotin á báðum ökklum og var að auki bitin í kviðinn. Ég hefði viljað sjá kvikindið aflífað starx sama dag. Það á ekki að þurfa neina rekistefnum í svon atilvikum. Það yrði þá líka kannski til þess að fleiri sýndu tilhlýðilega ábyrgð í uppeldi hunda sinna.

Þeir hundaeigendur sem sinna hlutunum af ábyrgð og virðingu fyrir samborgurum sínum eiga alla mína samúð.  

Marta B Helgadóttir, 22.5.2011 kl. 02:55

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka góða og málefnalega umræðu og innlegg. Takk fyrir frásöguna Sigurður Hreiðar.

Það er augljóst að halda þarf betur utan um að fylgja eftir þeim reglum sem hafa verið settar. Ég veit ekki hvað olli því að hundurinn sem réðst á konuna sem bar út póstinn trylltist svona, slítur sig lausan o.s.frv.  Hef þó heyrt að Dalmatíuhundar séu viðkvæmir og þurfi mjög mikla hreyfingu.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.5.2011 kl. 07:37

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Vil bara láta vita af meðfylgjandi frétt 

vegna þess að ég var búin að gagnrýna mjög mikið þá linkind sem stundum hefur verið sýnd gagnvart samþykktum um hundahald í þéttbýli:

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/05/24/dalmatiuhundurinn_svaefdur/

Marta B Helgadóttir, 24.5.2011 kl. 11:28

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég hef búið erlendis í stórborgum þar sem ég hef séð hjá nágrönnum hve hundur eða köttur getur orðið einmana fólki bæði félagsskapur og yndi. Það er bara dásamlegt að sjá.

Hinsvegar má það bara ekki vera svo að öðrum stafi hætta af. 

Marta B Helgadóttir, 24.5.2011 kl. 11:31

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég held að þetta hafi verið eina lausnin í stöðunni með þennan hund og eigendur hafi neyðst til að horfast í augu við að hundinum var ekki treystandi, hversu vænt sem þeim þótti um hann.  ..

Sammála þér Marta með að eins gleði má ekki vera annars manns ógn. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.5.2011 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband