3.5.2011 | 23:32
Sólarhylling ..
Ég get ekki státað af mikilli hreyfingu undanfarið. Rölt í vinnuna fram og til baka og léttir göngutúrar við og við var svona það mesta, en svo gerðist það bara alltíeinu, réttara sagt í dag, að konan hreyfði sig.
Ég er búin að fá að heyra það úr mismunandi áttum að hreyfing sé alveg svakalega lífsnauðsynleg, ekki minna fyrir sálina en líkamann. Sumir taka það djúpt í árinni að þú bara hreinlega verðir þunglyndur ef þú hreyfir þig ekki. 30 mínútur á dag lágmark - það er málið!
Jæja, Hulda systir spurði mig í gær hvort ég vildi fara að ganga með henni á morgnana klukkan 7:30, og ég var fljót að svara játandi, reyndar ekki bara hlaupa heldur að fara í eitthvað hlaupaprógram "From Couch to 5K" .. K stendur þá fyrir kílómetrar.
Hún mætti stundvíslega klukkan hálfátta fyrir utan dyrnar hjá mér og við lögðum af stað út í veðurblíðuna. Hlupum 8 x 1 mínútu og gengum í 3 mínútur á milli (held ég). Hlupum út á Seltjarnarnes! Fór svo í vinnuna og var með einn nemanda í viðtali klukkan 10, en þar sem veður var svo gott stakk ég upp á útiviðtali, eða labbrabbi sem hún tók bara mjög vel í. Gengum við í tæpan klukkutíma - næstum út í Nauthólsvík.
Eftir vinnu fór ég svo á lífsgæðanámskeiðið mitt í HR og þá var okkur boðið í klukkutíma Jógatíma með Auði Bjarnadóttur, - og það úti í sól og sumaryl á grasbala við sjóinn. Það var FRÁBÆRT .. mæli með svona sólarhyllingu úti í góða veðrinu.
Athugasemdir
Því skal ég trúa.
Ég er búin að vera í yoga seinni partinn í vetur og hvílík upplifun!! Þetta er frábær hreyfing - allavega fyrir mig :)
Hrönn Sigurðardóttir, 5.5.2011 kl. 00:00
Bjáninn ég las "sólarhryllingur" en það kom nú annað í ljós. Farðu vel með þig mín kæra.
Ásdís Sigurðardóttir, 5.5.2011 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.