ICESAVE Í SVART HVÍTU? ...

Ég las viðtal við Eygló Harðardóttur, þar sem hún talar um að hver kjósandi þurfi að kynna sér IceSave málið í kjölinn.  Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri, kunnáttu né tíma til þess.  Einhvern veginn ímynda ég mér að aðrir séu færari til þess en ég.  Mitt starf er að sinna unglingum á daginn, þeirra gleði og sorgum og svo er ég í aukavinnu eitt kvöld í viku.  IceSave samningar eru ekki á mínu náttborði, heldur ýmsar bækur um uppbyggingu andans.

Þrátt fyrir þessi orð hér að ofan, er ekki þar með sagt að ég hafi ekki fylgst með umræðu og lesið rök með og á móti og þegar ég tylli niður fingri - til að setja niður pælingar um IceSave koma þeir sem eru fullvissir í sinni sök, hvort sem það er já eða nei.  En ég veit að enn eru margir í óvissu og fara inn og út um IceSave dyrnar.

Þegar "Viltu vinna milljón" var sýnt á sínum tíma, var einn möguleikinn fyrir þann sem sat fyrir svörum að spyrja salinn. 

Allir höfðu takka til að ýta á,  en auðvitað var aðeins ætlast til að þeir svöruðu sem vissu svörin, en það hjálpaði ekki þeim sem sat í heita sætinu að fá eitthvað gisk um rétt svar.

Rökin fyrir IceSave ákvörðunum eru af ýmsum toga, lögfræðileg, siðfræðileg og ekki síst tilfinningaleg. 

Mig grunar að margir kjósi út frá tilfinningalegum rökum, en hafi ekkert endilega lesið samninga eða kynnt sér málin í kjölinn,  enda ekki margir sem hafa tækifæri til.

Niðurstöður í skoðanakönnunum sýna að þjóðin er klofin í niðurstöðu sinni.  En munurinn á svarinu í IceSave og svarinu í Viltu vinna milljón er sá að í því síðarnefnda er aðeins til eitt rétt svar.  Hin eru hreinlega röng.

Það væri einfalt ef IceSave væri svona svart/hvítt mál og ég öfunda fólk sem sér það þannig.

Á ég að ýta á takka með svar sem er gisk? ..  Ég er hér að færa rök fyrir því að ýta EKKI á takka, ef við erum ekki viss.  Það er ekki það að nenna ekki að kjósa, ég er alveg tilbúin að mæta og skila auðu. 

Ég er með þessu að játa það að ég hef ekki nægilega visku til að dæma í þessu máli. 

Því býð ég þér sem ert þess fullviss, hvað er rétt,  að taka afstöðu fyrir mína hönd.

Ég finn mig ekki heiðarlega að svara Já og ekki heiðarlega að svara Nei, en að lifa af heilindum er það sem ég kýs fyrst og fremst.

hjarta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Til að mynda sér skoðun er stundum betra að fækka flækjustigunum og einfalda hlutina fyrir sér. 

Mér finnst einfaldlega eðilegast að í svo stóru hagsmunamáli verði látið reyna á það fyrir alþjóðlegum dómstólum hverjar okkar skyldur í raun eru. 

Ég vil ekki sem Íslendingur skorast undan að greiða það sem mér ber skylda til. En fyrst vil ég vita fyrir víst hver sú skylda er!  Mér finnst það ekki liggja ljóst fyrir þó samninganefndir hafi setið yfir reikningsdæmum sínum.

Marta B Helgadóttir, 8.4.2011 kl. 15:06

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Flott innlegg hjá þér Marta, takk fyrir það. Mér finnst þetta ágætis vinkill hjá þér, þar sem við erum í svona mikilli óvissu og enginn veit með vissu hversu mikið á að borga, hvort sem samningur er felldur eða samþykktur.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.4.2011 kl. 15:34

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. spurning hvort að maður hafi forsendur til að samþykkja samning sem maður hefur ekki lesið, svo þegar spurt er hvort hann sé góður segja sumir "já, það er eina vitið að segja já" og aðrir segja, "nei, það er algjör firra" og prýða sig alls kyns rökum með og á móti.  Varla hægt að byggja sína ákvörðun á því.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.4.2011 kl. 15:40

4 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ég get tekið undir með Mörtu ! Ég vil ekki borga skuldir óreiðumanna að skipun elítunnar, nema við, Íslendingar, verðum dæmdir til þess. Því segi ég nei á morgun og læt reyna á, hvort Bretar og Hollendingar treysti sér í mál gegn okkur !

Kv., KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 8.4.2011 kl. 15:43

5 Smámynd: Birna Jensdóttir

Ég mun líka segja Nei á morgun.Það er ekki lagaleg skylda okkar að greiða þetta samkvæmt öllum helstu spekingum eða þeim sem telja sig til spekinga segja.Ég vil láta dæma okkur til að greiða,þá fáum við í það minnsta að vita hve há upphæðina á að vera sem á að greiðast og á hve löngum tíma.

Birna Jensdóttir, 8.4.2011 kl. 17:09

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sigmundur Davíð útskýrði Icesavemálið fyrir þjóðinni í Kastljósi kvöldsins.

Hann ræddi mögulega niðurstöðu EFTA dómstólsins varðandi sakfellingu fyrir brot á EES samningnum vegna þess að innstæðueigendum Landsbankans í Englandi og á Íslandi var mismunað.

Sigmundur greip til líkingamáls, þreif í jakka Sigmars þáttastjórnanda og sagði að fyrir hrun þá hefðu bæði enskir og íslenskir sparifjáreigendur getað keypt sér 10 svona jakka.

En eftir hrun þá hefði sá enski, sem fékk allt greitt út í pundum getað keypt sér aðra 10 jakka, en íslenski sparifjáreigandinn sem fékk allt sitt einnig greitt út í íslenskum krónum, gat einungis keypt sér 6 jakka. Og Sigmundur spurði: „Hvor fær sitt bætt? Englendingurinn fær allt sitt, Hollendingurinn fær allt sitt. Íslendingurinn hinsvegar fær minna“

Það er augljóst. sagði Sigmundur Davíð, að það er sá íslenski sem hefur orðið fyrir mismunun. 6 jakkar eru ekki það sama og 10.

Þegar hér var komið sögu þá fór ég að klóra mér í hausnum og fann að samúð mín var hjá íslenska aðilanum sem gat ekki keypt sér nema 6 jakka. Dæmið varð þó aldrei raunverulegt í mínum huga þar sem þetta magn af jökkum vafðist fyrir mér. Sigmundur Davíð er að vísu af efnafólki og giftur inn í milljarðafjölskyldu og áttar sig betur á svona kaupastandi heldur en ég.

Hvað um það - niðurstaða formanns Framsóknarflokksins var sú að það væri ekki hægt að dæma þjóð, sem fær borgað í ónýtum gjaldeyri, fyrir brot á milliríkjasamningum.

Ég hinsvegar dró þá ályktun að þetta væri gengis-mismunur en ekki mismunun eins og Sigmundur taldi.

Ég vissi að króna er ekki það sama og pund og ég vissi að krónan skítféll - en ég vissi ekki að þessi skilningur á mismunun væri í EES samningum? Ég hélt að aðgerðir íslenska ríkisins, þegar það tryggði íslenska sparifjáreigendur en lét þá bresku og hollensku róa, væri hin saknæma mismunun. Ef skilningur Sigmundar er rétt þá erum við í góðum málum

En svo rifjaðist það upp fyrir mér að þetta er ekki í fyrsta sinn sem jakkainnkaup hafa ruglað Framsóknarmenn í ríminu. Í janúar 2008 varð mikill hvellur þegar Björn Ingi keypti 5 jakkaföt á kostnað flokksins. Þá fannst mörgum framsóknarmönnun innkaupin vera misferli.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.4.2011 kl. 23:08

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þú ýtir á "já" takkann, þá sendirðu skilaboð til bankaeigenda að þó þeir klikki, þá er allt í lagi. Skattgreiðendur borga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.4.2011 kl. 00:24

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

http://huxa.blog.is/blog/huxa/  Hérna er mitt svar :)

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.4.2011 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband