Að velja úr 500 manna lista - er það raunhæft?

Ég starfaði einu sinni við það að selja legsteina,  fólk kom í sakleysi sínu inn og ætlaði að velja legstein, svartan, rauðan eða hvítan kannski.  Málið var þó ekki svo einfalt, hægt var að velja grástein, blágrýti, granít, marmara, líparít, gabbró ..  og ekki nóg með það,  það var hægt að velja alls konar útlit, lögun, mikið unna og lítið unna steina.  Svo þegar fólk var búið að svitna yfir steininum og komast að niðurstöðu,  kom nýtt val, það að velja letur á steinana og þar á eftir grafskriftina.  

Sumir áttu ekki erfitt með þetta, en margir fórnuðu höndum og sögðu; "ég vildi óska að það væri bara um tvær tegundir steina að velja á milli."  

Þar sem ég þekkti þetta vandamál, þá bauðst ég oft til að aðstoða fólk við að velja stein, letur og svo framvegis.  Það var að sjálfsögðu líka starf mitt sem sölumanneskju líka.

Ég nota þetta legsteina dæmi bara vegna þess að það er úr mínum persónulega reynslubanka.

Það er fleira sem við lendum í að velja úr;

Þegar ég var ung og þurfti að fá mér síma, hringdi ég í Landsímann og pantaði síma. Fékk, að mig minnir, símtæki hjá þeim.  Í dag er hægt að velja um símafyrirtæki,  alls konar greiðslumöguleika, alls konar síma o.s.frv.  

Ég er eflaust svo gamaldags að ég vil bara síma sem er hægt að hringja úr.  Þarf ekki að hafa myndavél, útvarp eða vöfflujárn í símanum mínum ;-)

Úrvalið af öllu hefur aukist og valið er sett á okkar herðar.  

Ef við höfum úr of miklu að velja þá hefur það stundum þannig áhrif að við hreinlega lömumst og veljum ekkert!

Tilfinningin fer að vera eins og þegar við eigum óleyst heimaverkefni í skólanum og þau eru svo yfirþyrmandi að við veljum að gera ekkert eða eitthvað allt annað, eins og fara bara á Facebook! ..  

Þó að frelsi til að velja hljóti að vera gott, getur það virkað neikvætt - þegar um of mikið val er að ræða.

Ég held að það sé einn af þáttunum sem höfðu áhrif á lélega kosningu til stjórnlagaþings. Að velja 25 úr 500 manns - er það raunhæft?   Og af hverju var ekki kynnt betur að það væri í lagi að kjósa einn af þessum 500?   Þetta er, að mínu mati - og vissulega eftir á að hyggja, ein stærstu mistökin og af mistökunum verðum við að læra.  

Framkvæmdin verður að vera öðru vísi,  það hefur sýnt sig. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þjóðin setjist á skólabekk og kynni sér ítarlega skoðanir 500 manns.  

Líklegast væri betra að skipa þverpólitíska valnefnd, nú eða ópólitíska (ef það er til)  sem fengi það verkefni að kynna sér þessa 500 og velja svo sterkustu kandídatana.  Þau sem teljast líkleg til að koma með góðar og sanngjarnar tillögur fyrir þau sem endanlega ákveða stjórnarskrána.

Það er vissulega ekki fyrir mig að ákveða,  en tilgangurinn með þessari færslu er að sýna fram á það að þetta mikla val getur haft (og hafði örugglega í þessu tilviki)  fráhrindandi áhrif á kosningaþátttöku.  Ekki endurtaka sömu mistökin aftur.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Eitt stk vöfflujárn hehe 

Það er sjaldnast jafnvægi við erum alltaf leitandi í allar áttir og lærum sjaldnast af reynslunni.  Það er gott að búa við "Marteinn Mosdal helkennið" í skamman tíma en þá öskrar sálin á frelsi og val sem hefur á móti ruglandi áhrif á hugann.   

Sammála þér of mikið vöruval!

www.zordis.com, 29.1.2011 kl. 11:56

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála hér hefði verið betra að hafa forkosningu um þessa 500 manns, eða bara skoðanakönnun og síðan kosið úr kannski 100 manna hópi eða minna sem eftir stóð.  En einhverju þarf að breyta það er nokkuð ljóst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2011 kl. 12:32

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Væri ekki hægt að gera svona stjórnarskrártillögur á netinu. Það væri hægt að koma upp heimasíðu þar sem byrjunin væri að koma með tillögur fyrir hvern lið í stjórnarskránni það sem fólk vill breyta sem verður svo lokað á eftir að allt er klappað og klárt með einhverjum opnunarmöguleikum. Næsti liður yrði svo að kjósa um hvert atriði fyrir sig á svipaðan hátt og maður sér á Útvarp Sögu.

Þetta er lýðræðislegt og eftir þetta fjallar alþingi um pakkann (spurning)  síðan þjóðarkosningar að loknu eða bara þjóðarkosningar.   

Valdimar Samúelsson, 29.1.2011 kl. 13:16

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég skrapp út til að heimsækja mömmu, og í bílnum á leiðinni sprakk ég úr hlátri. Úff ég vonaði að enginn færi að upplifa að ég væri að líkja frambjóðendunum á stjórnlagaþingi við legsteina! .. Að sjálfsögðu ekki,  það er valið sem ég er að bera saman, þegar úrvalið verður yfirþyrmandi! ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.1.2011 kl. 13:44

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Já, Ásthildur, - kannski þarf einhvers konar forval að fara fram, því að þjóðin getur hreinlega ekki staðið í þeim stórræðum að kynna sér 500 manns. Þá kemur til kasta "sölumannsins" eða þess fagaðila sem veit hvað hentar og hverjir eru hæfir. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.1.2011 kl. 13:46

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Spurning Valdimar - það má örugglega finna góðar leiðir og um að gera að nýta sér rafræna tækni. Við fáum alveg örugglega fleiri af ungu kynslóðinni til að taka þátt, en það er auðvitað fólkið sem mun erfa landið!

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.1.2011 kl. 13:47

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

P.s.  Zordís - eitt stykki vöfflujárn coming up!

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.1.2011 kl. 13:48

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehehe  legsteinar og stjornlagathingskandidatar, god samliking.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2011 kl. 18:54

9 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Hm, ég held að fyrir það fyrsta þurfi að hækka þröskuldinn fyrir að fólk komist í framboð. Meðmælendur áttu að vera minnst 30 og mest 50 - hljómar þetta ekki eins og djók?! Hver sem var gat boðið sig fram án þess að sýna fram á fleiri stuðningsmenn en 30-50. Hvernig væri að hafa frekar 500 meðmælendur sem lágmark, eða jafnvel 1000?

Svo held ég að það þurfi að gefa sér góðan tíma í að vanda vel lagarammann í kringum þetta allt. Ég er sammála stjórnlagaþingshugmyndinni, en þetta var undirbúið í flýti og hroðvirknislega unnið. Það stemmir illa við þá staðreynd að stjórnarskráin á að vera vandað plagg og enginn flautaþyrilsháttur á því að breyta henni.

Einar Sigurbergur Arason, 10.2.2011 kl. 01:28

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er dálítið hæpið að mínu mati að fara setja einhverjar skorður, hvernig eiga þær að vera að menn hafi viss próf upp á vasan eða slíkt eða þröskuld eins og að þú sér ekki þroskaheftur og kunnir að lesa og skrifa?

Þetta átti að vera þverskurður af samfélaginu en ekki einhver menntaelíta.  Frekar þarf einhverskonar forval, og jafn vel aftur forval.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.2.2011 kl. 08:14

11 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Auðvitað viljum við að þetta sé þverskurður af samfélaginu en ekki einhver elíta. Reyndin var hins vegar að aðeins 30% kusu, hinir nenntu ekki á kjörstað, og flestir þeirra sem náðu kjöri voru þekkt nöfn. Þetta er afleiðing af þessum aragrúa frambjóðenda.

Forval væri góð hugmynd - en hversu margir myndu mæta til að kjósa í forvali, og hvar færi það fram? Einhverjar snjallar hugmyndir um það?

Sá þröskuldur sem ég stakk upp á með því að frambjóðendur þurfi fleiri meðmælendur, á hann að þurfa að vera eitthvert samasemmerki við að við fáum menntaelítu á þingið? Þetta væri á vissan hátt forval - og fólki væri í lófa lagið að stofna með sér samtök um að koma á framfæri hinum og þessum frambjóðendum sem vonandi gætu verið þverskurður af þjóðfélaginu, þó það sé engan veginn tryggt. Það er heldur ekki tryggt að forval myndi skila þessum þverskurði. Krafa um fleiri meðmælendur væri örugglega ódýrari lausn en forval.

Hvorug leiðin er samt gallalaus. Spurningin er bara, hvað sjáum við sniðugast í stöðunni? Einhverjar hugmyndir?

Einar Sigurbergur Arason, 11.2.2011 kl. 23:44

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég skil hvað þú ert að fara, en ég skil ekki hvernig þröskuld þú vilt setja.  Án þess að takmarka breidd úrtaksins.  Hins vegar bendi ég á að það var ekki nægilega auglýst fyrir almenningi að það var NÓG AÐ NEFNA BARA EITT NAFN án þess að skemma kjörseðilinn.  Fólk stóð í þeirri trú að það þyrfti að fylla út alla 25 reitina.  Ef áherslan hefði verið lögð á þetta atriði er ég viss um að þátttakan hefði verið meiri.  Hlutur ríkisútvarpsins var líka til skammar.  Það hefði átt að veita miklu meiri tíma í að kynna bæði frambjóðendur og ekki síður framkvæmd kosninganna og hvernig fólk ætti að bera sig að. Áhugaleysi ríkisfjölmiðlisins var ótrúleg og til skammar, rétt eins og þetta skipti ekki máli.

Tökum þessa hlið fyrst og sjáum hvernig hægt er að laga þar, áður en við förum að skoða að takmarga framboðin.  Það er mitt mat.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2011 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband