Menntun er forvörn og sparnaður fyrir þjóðfélagið

Ég tók eftir þessari grein þegar hún kom og langaði að skrifa um hana, en hafði ekki tíma. Náði sem betur fer að veiða hana upp úr hafsjó frétta með því að gúgla eins og sagt er á góðu máli. 

Það sem vakti athygli mína var m.a. þetta:  

"Í tilkynningu frá Barnaheillum segir að jafnræði til náms sé einn af hornsteinum íslensks samfélags og þegar þrengi að, sé brýnt að hlúa að menntuninni. Sterk efnahagsleg rök hnígi að því að skerða alls ekki skólagöngu barna og ungmenna heldur auka við hana á krepputímum ef þess sé nokkur kostur."

Ég sat á Þjóðfundinum 2009 þar sem þúsund manns lögðu sitt af mörkum til að leita að gildum og stoðum samfélagsins.  Stærsta gildið var HEIÐARLEIKIi og stærsta stoðin var MENNTUN.  

Ef við ætlum að vera heiðarleg þjóð þá verðum við að virða gildi og stoðir Þjóðfundar, annars erum við ekki að nýta það tæki sem hann er.

Varðandi menntun barna og unglinga, þá vil ég taka undir með Barnaheillum hversu mikilvægt er  að hlúa að menntun barnanna.  Auk þess langar mig að bæta því við hversu mikilvægt það er að bjóða upp á tækifæri til menntunar öllum þeim sem hafa þrá til menntunar.  Líka þeim sem hafa fallið úr námi en eru tilbúnir að takast á við menntun í dag sem þeir voru ekki tilbúnir á sínum tíma.  Ýmislegt getur hafa komið til.

En - og þarna er stórt EN,  menntunin þarf að höfða til einstaklingana og umhverfið að vera þannig að nemendum líði vel í sínu námi og að eldmóður þeirra sé virkjaður.  Ef að skólinn er þannig að öllum leiðist þá er eitthvað að.  Mikilvægt er að menntun sé ekki bara bókleg, heldur að þar fái nemendur tækifæri á að rækta sjálfsmynd, tjáningu, sjálfstæði o.s.frv. og það á öllum skólastigum,  því þetta er nám sem aldrei hættir.  Áherslan á að vera á hamingju nemendanna í skólanum og í náminu, hamingjusamir nemendur falla varla frá námi. 

Með því að styrkja sjálfsmynd nemenda og leyfa þeim einnig að átta sig á þeirra innra fjársjóði,  draga fram þeirra eigin hæfni og talentur,  þá erum við um leið að vinna að forvörnum.  Sterkari einstaklingar fara síður út í óreglu.  Þegar upp  er staðið er það því sparnaður fyrir samfélagið ef að vel að menntun er staðið og hún byggð upp þannig að sterkari einstaklingar komi út í þjóðfélagið. 


mbl.is Barnaheill skora á stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Mig vantar gjarnan þankahríð frá lesendum, ef einhver hefur tíma í jólaundirbúningi, en ég er að fara að starfa að verkefni fyrir Velferðarsvið borgarinnar vegna brottfalls nemenenda. Ef þið hafið skoðanir endilega deila þeim!

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.12.2010 kl. 13:15

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er viss um að besta leiðin er að ræða við nokkra nemendur sem hafa gefist upp á náminu mynda einskona hóp með þeim og spyrja þá um þeirra brottfall og hvað þeim finnst mega betur fara.  Það er nefnilega svo að þeir sem eru mitt í hringiðunni eru oftast með puttana á slagæðinni.   Gangi þér vel og ég veit að það er ekki betri manneskju hægt að fá í þessa vinnu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.12.2010 kl. 09:20

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk mín kæra Ásthildur fyrir góð ráð og hlý orð í minn garð!

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.12.2010 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband