8.12.2010 | 00:06
Ekki auðvelt að flytja hugvekju eftir að sexbomba á sextugsaldri hefur haldið salnum í krampakasti ;-)
Ég var boðin á jólafund hjá Kvenfélagi Garðabæjar til að fara með hugvekju, en ég verð eflaust eins og konan sem fékk þessa eftirskrift: "þrátt fyrir góða greind gekk hún aldrei í kvenfélag!" .. Ekki að maður eigi nokkurn tíma að segja aldrei!
Jæja, dagskráin var hlaðin og ég átti að flytja hugvekjuna svona í restina (sem ég og gerði) en fundurinn var orðinn býsna langur og margir góðir "konfektmolar" í boði, fyrir utan venjuleg fundarstörf, nefndaræður o.fl. var afhentur styrkur til Holtsbúðar, sem er hjúkrunarheimili í Garðabæ fyrir aldraðra og Sveinn H. Skúlason forstöðumaður flutti þakkir og ræddi aðeins um starfið, Kvennakór Garðabæjar söng o.fl. o.fl. Fundurinn var borinn uppi af flottum konum og mættar voru til leiks flottar konur, og gaman að segja frá því að rautt var eins og þemalitur, enda jólaliturinn.
Það var þess utan einstaklega gaman að fá að heyra hvað þessar konur eru að láta gott af ser leiða i samfélaginu og var þvi fundurinn mjög upplýsandi um hvernig kvenfélag starfar.
Eftir kaffi, brauðtertur og hnallþórur - steig Helga Thorberg á svið, og kynnti bók sína: Loksins Sexbomba á sextugsaldri, hún las, sagði frá og svaraði spurningum. Helga var fyndin og hitti vel í mark með hnyttnum lýsingum af ástarlífi konu á sextugsaldri m.a. þar sem hún var að finna sig í rafmagnsleysinu og meðal skorkvikinda í Dóminikanska lýðveldinu. Ég fór þó aðeins að stressast, því ég tók eftir að nokkrar konur voru orðnar lúnar enda búnar að sitja frá átta og klukkan langt gengin ellefu.
Bomban var brilljant og efni bókarinnar virkilega eitthvað sem gaman er að skoða. En svo kom loksins að mér - og það er bara hreint ekki auðvelt að stíga á svið með hugvekju (jafnvel með húmor) eftir svona leiklistarperformance! ..og vissi jafnframt að sumar konurnar voru komnar með hugann heim í ból.
Mér fannst ég tala óþarflega hratt - stytti hugvekjuna og heimfærði aðeins upp á kvöldið. Ekki alslæmt þó.
Well .. fullorðin kona sem sat við borðið mitt, sem ég á að muna hvað heitir því hún kynnti sig - tók í hönd mína og sagði "voðalega er gott að heyra eitthvað svona fallegt" .. ég ætti því kannski að hætta að kvarta yfir senuþjófnaði sexbombu og vera glöð að geta glatt með einhverju fallegu.
Svo er ekki verra að hugsa til þess að eftir tæpt ár er mín sjálf orðin sexbomba á sextugsaldri!! .. Þá mega aðrar vara sig!
Athugasemdir
Vel mælt....
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 8.12.2010 kl. 09:11
Jóhanna mín, ég er alveg viss um að konurnar hafa farið heim með frið í hjartanu eftir hugvekjuna þína. Gott veganesti í bólið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2010 kl. 10:29
Takk .....
Sóldís Fjóla
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 8.12.2010 kl. 14:48
Já bomba mín kær, eins gott að aðrir fari að vara sig.
Knús í hús
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.12.2010 kl. 17:57
Þakka þér sömuleiðis Sóldís Fjóla
Þakka ykkur líka innilega Ásthildur og Milla
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.12.2010 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.