Rassabossa trúfélagið

Ég hef verið að fylgjast með búrku-umræðum á Facebook og bloggi og sitt sýnist hverjum.  Í raun er þessi umræða ekki svart/hvít í mínum huga.

Sumir eru með rök að enginn eigi að skipta sér af klæðaburði fólks.  Fólk eigi að hafa frelsi til að tjá sig m.a. með klæðaburði.  Búrka sé þar með talin og einnig sé það hluti af trúfrelsi fólks að fá að klæða sig í takt við sín trúarbrögð. 

Eflaust klæða einhverjar konur sig í búrku af frjálsum vilja,  eins langt og sá frjálsi vilji nær.  Ég hef stundum líkt þeim frjálsa vilja við þann vilja kvenna að ganga í háhæluðum skóm sem eru eins og pyntingatæki í sumum tilfellum.  Það má alveg tala um ákveðinn tískuþrældóm (slave to fashion)  í þeim tilfellum og þá kannski trúarþrældóm (slave to religion) þegar búrkan er notuð - því fjandakornið hún getur ekki verið þægileg, eða hvað?  Kannski jú ef notandinn er haldinn félagsfælni, er óöruggur með sjálfan sig,  nú eða á "bad hair day" .. Whistling    

Ef að konum er skipað að vera í búrku án þeirra vilja - þá er það svo sannarlega eins og hvert annað ofbeldi.  

Það liggur í augum uppi að búrka er hamlandi fyrir tjáningu - en við tjáum okkur svo sannarlega ekki aðeins með orðum - heldur einmitt með líkamstjáningu.  

Þorgerður Katrín velti af stað fyrsta steininum í þessari skriðu um búrku-umræðu. Þorgerður Katrín tilheyrir kaþólsku kirkjunni sem er stofnun sem styður ekki jafnfrétti karla og kvenna.  Konur fá þar ekki prestvígslu.  Stundum væri ágætt að skoða heima hjá sér áður en maður fer að benda út í heim er það ekki? 

En eiga ekki trúfélög að fá að starfa eftir trúarsannfæringu sinni?  Hvað segðum við um trúfélag með boð um klæðaleysi félagsmanna, heima sem að heiman?  Ætti ekki að virða þeirra trúarsannfæringu um að fá að biðjast fyrir á bossanum?  Væri það ekki liður í tjáningar-og trúfrelsi þeirra? 

nekt_300305.jpg

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Hugsað upphátt:

Burku-umræðan er um margt áhugaverð.

Í Frakkalandi voru búrkur bannaðar þrátt fyrir að aðeins um 2.000 konur noti þær í 66 milljóna samfélagi eða 0,03% þjóðarinnar. Margir hafa bent á að í ljósi þess hvað þetta er fátt fólk sé augljóst að um æsing vegna annarra hluta sé að ræða og þá kannski helst annars vegar að hægri öfl sjái sér hag í að ná í atkvæði íhaldssams útlendingafælnifólks og hins vegar að umræðan sé lýsandi fyrir vaxandi ótta vesturlandabúa um að múslímar séu að hafa varanleg áhrif á vestræna menningu.

Turnspíruumræðan í Sviss er af svipuðum toga. Þar eru víst aðeins 4 spírur og engin þeirra notuð til bænakalls. Samt fór skyndilega í gang einhver móðursýki yfir þeim og þær voru bannaðar. En þegar fjöldi þeirra og hlutverk er skoðaður kemur í ljós að viðbrögðin eru ekki líkleg til að stafa af þeim sjálfum, heldur af einhverju öðru.

-

Frelsissjónarmiðið sem rök gegn banni er vitaskuld ansi sterkt, en á móti kemur að þyki ljóst að konur velji þetta að jafnaði ekki sjálfar, er ekki um neitt frelsi þeirra að ræða. Þá verður þetta prinsippmál um frelsi til klæðavals á móti tilraun til að tryggja frelsi kúgaðra kvenna í þessum ákveðnu sporum.

Ætlum við að færa frelsisfórnir þarf árangurinn af því að vera nokkuð ljós (ef hægt er að mæla hann) og það á alveg eftir að koma í ljós hjá Frökkum t.d. eftir því sem ég best veit.

Langtímaleiðin til að frelsa konur í miðausturlöndum segja fróðir að sé fólgin í því að hjálpa þeim í sinni frelsisbarráttu og lauma inn styrkingu hér og þar í þeim átökum, en ekki að banna yfirborðseinkenni eins og búrkuna. Mér dettur þó í hug að slíkt bann geti alveg nýst í þeim efnum sem tæki til að knýja fram breytingar við einhverjar aðstæður.

En það sem blasir kannski einna helst við er að ef þetta er hugsað sem tilraun til að tryggja frelsi kvenna, þá vantar alveg frá talsmönnum breytingarinnar vilja til að kanna það ítarlega hvort bann hjálpi konum og gera niðurstöðurnar aðgengilegar. Snúist þetta um kúgaðar konur ætti að leggja allt kapp á að sýna fram á að þetta hjálpi þeim, en verði þess ekki valdandi að þær verði bara lokaðar af heima í stað þess að fá að fara út.

En á meðan tillögurnar koma frá íhaldssömum stjórnmálavæng með tengsl við kaþólsku kirkjuna og með vísun í íslensk gildi held ég að það sé nokkuð ljóst að hagur kvennanna sem eiga í hlut er ekki efst á baugi.

Kristinn Theódórsson, 24.11.2010 kl. 22:01

2 Smámynd: Kristjana Jónsdóttir

Guð hefur húmor og ég er viss um að við getum beðið til Guðs hvort sem við erum klædd eða ekki.  Allir hafa rétt á að standa fyrir trúarsannfæringu sinni hvort sem þeir gera það sem einstaklingar eða samfélög.

Kristjana Jónsdóttir, 24.11.2010 kl. 22:05

3 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Leiðrétting:

En á meðan tillögurnar koma frá íhaldssömum stjórnmálavæng - frá aðila með - með tengsl við kaþólsku kirkjuna..

Kristinn Theódórsson, 24.11.2010 kl. 22:08

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Guð hefur húmor og ég er viss um að við getum beðið til Guðs hvort sem við erum klædd eða ekki.

Ég legg til þá hugmynd að húmor endurspegli ófullkomleika og máttleysi. Þar sem hvorugt hrjáir guð, að sögn, tel ég að hann hafi ekki húmor.

Kristinn Theódórsson, 24.11.2010 kl. 22:10

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir að hugsa upphátt í athugasemdum Kristinn! .. Maður þarf nefnilega svolítið að gera þetta, því þetta er ekkert einfalt mál og á því margar hliðar.

Skásta leiðin væri eflaust að halda áfram að vinna að því að vekja konur til umhugsunar, mennta o.s.frv.  þar til þær sjálfar gerðu uppreisn gegn klæðnaðinum - þ.e.a.s. ef þær hefðu hug á því.  Svo hefur maður auðvitað heyrt af konum sem hafa "konvertað" og farið yfir í Íslam og klæðst búrkum o.s.frv.

Spurning bara hvort að konur hafi tækifæri til menntunar og upplýsingar og/eða tækin.  Ég hafði ekki hugsað út í þann möguleika að konur yrðu jafnvel innilokaðar á heimilum sínum ef óheimilt væri að vera í búrkum á opinberum stöðum.  En eflaust yrði það raunin í einhverjum tilfellum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.11.2010 kl. 22:31

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Allir hafa rétt á að standa fyrir trúarsannfæringu sinni hvort sem þeir gera það sem einstaklingar eða samfélög."

Ég held alveg að Guð geti haft húmor - eða amk miðað við þá guðsmynd sem ég hef í huga.  Eflaust frjálsari í huga en margur maðurinn. 

Ég er þó ekki sammála að allir hafi rétt á að standa fyrir trúarsannfæringu sinni, því að sum trúarsannfæring brýtur á  mannhelgi annarra - brýtur á jafnrétti o.s.frv.    Það er t.d. skv. trúarsannfæringu einhverra að umskera stúlkubörn. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.11.2010 kl. 22:34

7 identicon

Af hverju þarf að banna búrkur út frá trúarlegu sjónarmiði? Mér finnst engin sérstök ástæða til að skipta sér af því hvernig fólk kýs að klæða sig svo framarlega sem það veldur engum skaða eða vandræðum fyrir aðra, en á vesturlöndum er ætlast til þess að hægt sé að bera kennsl á fólk. Það er ekki vel séð að fólk sem hylur andlit sitt fari inn í banka,  flugvélar og opinberar byggingar þar sem engin leið er að gera sér grein fyrir hver er á bak við grímuna. Hvers vegna ætti að veita einhvern afslátt frá því, bara af því viðkomandi fatnaður er kallaður búrka og telst vera trúarlegt tákn hjá einhverjum? Það er allt annað að banna fólki að hafa skartgripi sem eru trúarleg tákn, eða slæður, þá er farið að skerða persónufrelsi fólks algerlega að nauðsynjalausu. Það getur varla skaðað nokkurn mann þó hann/hún sjái kross, davíðsstjörnu eða hvað annað sem fólk notar, á hálsmeni eða öðrum skartgripum. Hún amma mín gekk alltaf með slæðu þegar hún fór út úr húsi í gamla daga, er eitthvað verra að sjá konur með slæður þó við vitum að þær séu trúartákn? svo framarlega sem slæðan hylur ekki andlitið.

Dagný (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 23:45

8 identicon

Þessar dömur vilja nota búrkur vegna þess að heilinn í þeim var forritaður í að vilja þetta.

Hvað segir biblían annars um klæðnað kvenna, skart og annað... hvernig væru kristnar konur ef við værum undir biblískum lögum; Staða þeirra væri einmitt mjög svipuð og hjá konum innan íslam.

Annars ætti Þorgerður að segja sem minnst, hún er kaþólikki, þeir hafa einmitt staðið gegn réttindum kvenna í árþúsund.
Nú eru td margir biskupar úr ensku kirkjunni að flýja til kaþólsku kirkjunnar, vegna þess að konur fá að verða biskupar.

Við lestur biblíu/kórans, þá er það klárt mál að konur eru eign karla, fyrirskipanir um klæðaburð kvenna er einmitt vegna "Praise the dicks" í feðraveldistrúarbrögðum Abrahams

doctore (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 09:37

9 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég fæ sjálfa mig engan veginn til að trúa þeim rökum að konur noti búrku af einhverjum öðrum ástæðum en að þess sé krafist af þeim. Stundum segja karl-múslimar að þær kjósi að bera búrkuna til að verja sig fyrir áreiti. Ég álít þau rök vera bull! Fyrr mætti þá fyrrvera áreitið ef það væri á sig leggjandi að bera utan á sér heilt hústjald alla daga með smágötum fyrir augunum. 

Ég hef sjálf búið erlendis þar sem múslimar voru fjölmennir sem innflytjendur, þ.e. í Þýskalandi og á norðurlöndunum.

Það er langur vegur á milli þess að nota slæðu, (sem múslimakonur gera jú með mjög mismunandi hætti) annarsvegar og hinsvegar að nota búrkuna. Hana notar engin kona ótilneydd, einungis öfgasinnaðir múslimar krefjast þess af konum sínum að þær noti búrku.

Hvorutveggja er tákn um kúgun og undirgefni.

Við íslendingar erum (ennþá) í aðstöðu til að fyrirbyggja ýmis vandamál sem fylgja múslimum sem innflytjendum. Við þurfum ekkert að ímynda okkur að málin myndu þróast öðruvísi hér en annarsstaðar nema ef við gerum fyrirbyggjandi ráðstafanir og lærum af nágrannlöndunum.

Það er til dæmis alveg óásættanlegt að fólk klæði sig þannig að ekki sjáist í andlit fólks meira en svo að í raun þurfi fingraför til að auðkenna sig.  Um þetta getum við hæglega sett okkar innflytjendum skilyrði. Þeir öfgasinnuðu múslimar sem krefjast búrkunnar myndu þá einfaldlega ekki kjósa að flytjast hingað.

Til þessa þarf kjark sem íslensk stjórnvöld þurfa að sýna! Við getum lært af þeim "mistökum" sem bæði Danir og Þjóðverjar gerðu, að vera OF umburðarlyndir, t d með því að gera ekki að skilyrði að fólk læri og nái tökum á tungumálinu okkar. Þegar fram líða stundir yrði annars til "ríki í ríkinu" sem lætur ekki stjaka við sér. Eftirá er erfitt að færa slík málefni til betri vegar. 

Marta B Helgadóttir, 25.11.2010 kl. 09:37

10 identicon

Stutt pils, buxur, jafnvel berir fætur eru bannaðir í mörgum múslímaríkjum. Það á jafnt við um ferðamenn sem og heimamenn (konur). Þeir segja að ferðamenn verði að lúta sömu reglum því þeim þyki annað móðgun. Nú þykir mér erfitt að horfa á múslímakonur í þessari múnderingu því ég lít á þennan klæðnað sem tákn um frelsisskerðingu kvenna. Því sé ég ekkert að því að banna búrkur hérlendis á sömu forsendum.

Dagga (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 13:23

11 identicon

Við getum heimfært þetta video "If America Became a Christian Nation" yfir á okkur; Hvað ef ísland væri kristin þjóð með biblísk/kórans lög
http://doctore0.wordpress.com/2010/11/24/discovering-religion-ep-19-if-america-became-a-christian-nation/

Biblísk lög eru algerlega í takt við lög í íslam, enda sami guð, byggt á því sama.. Tribalismi á fullu, skapað til að undiroka og ráða yfir

doctore (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 13:39

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég er alveg sammála Mörtu og Döggu.  Hér á landi á að banna búrkuna áður en nokkrum kúgara dettur í hug að flytja hingað til lands með konuna "sína" innpakkaða í svona fáránlegan felubúning.

Því er oft borið við að "fjölskyldurnar" ákveði það sjálfar hvort búrkan sé notuð, en í öllum tilfellum eru það auðvitað karlmennirnir sem ráða slíkum "ákvörðunum fjölskyldunnar".  Búrkan er ekkert annað en kúgunartæki og undirgefnin er innprentuð í konurnar frá fæðingu og allir geta séð að þegar slík innræting gengur mann fram af manni í marga ættliði, þá er enginn vandi að halda því fram að konurnar klæðist þessu "sjálfviljugar".

Manni finnst alveg stórmerkilegt að sjá nokkurn mann, hvað þá kvenmann, verja þetta ofbeldi gegn konum.  Ég bloggaði um það í fyrra einhverntíma að banna ætti þennan viðbjóð áður en hann næmi land hérna, en fékk lítið annað en skammir fyrir, eins og Þorgerður Katrín er að fá um bloggheim allan núna.

Fólk ætti að hugsa almennilega um þetta og leggja minni áherslu á að ráðast að þeim sem setja fram skoðanir á málinu.

Axel Jóhann Axelsson, 25.11.2010 kl. 15:47

13 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Hvernig er með konur (nunnur) og karla (múnka) sem eru lokuð inni í klaustrum á Íslandi, "sjálfviljug" eins og íslamskar konur eru "sjálfviljugar" í búrka í gestalöndum sínum. Við leyfum nunnu- og munkaklaustur hér á landi. Í klaustrunum eru innisetumennirnir, þ.e., múnkarnir og nunnurnar, allir útlendingar (að ég held án undantekninga). Þetta fólk fær, þá sjaldan sem það vill, að ganga óáreitt um götur borgar og bæja Íslands í sínum fáránlegu klæðum.

Mér datt bara þetta í hug, að spara grjótkastið úr glerhúsunum og skoða okkur sjálf eilítið þegar við erum að gagnrýna aðra? Varðandi Moskur Múslima, ekki vildi ég heldur sjá Sýnagónur Gyðinga neitt frekar hér á landi. Guði sé lof fyrir að við erum laus við þann óþjóðalýð. (Úppps!!! Það má ekki skammast út í Gyðinga á síðum Mbl.is, en það er í lagi að svívirða Múhameðstrúarmenn - afhverju...!!!..???).

Bless, Björn bóndi.

Sigurbjörn Friðriksson, 25.11.2010 kl. 18:05

14 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég hef oft velt fyrir mér hvernig ég myndi haga mér hvað klæðaburð varðar, ef ég flyttist búferlum og endaði í samfélagi sem væri mjög ólíkt mínu.  Segjum t.d. að ég flytti til Indlands.  Myndi ég þá ótilneyddur fara að ganga klæddur eins og innfæddir, eða myndi ég bara laga fatastíl míns menningarheims að hitastiginu?  Myndi mér ekki finnast ég hálf bjánalegur í kufli með túrban?

Ég er bara að reyna að segja að þetta er kanske ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera.  Ég er eiginlega að segja þetta við sjálfan mig, vegna þess að ég finn fyrir verulegri andúð á þessum sið.  Mér finnst augljóst að þetta sé neikvætt fyrirbæri, en það er sennilega mjög áríðandi fyrir margar konur sem alist hafa upp í menningarheimi múslíma að bera blæju, eða ganga jafnvel í búrku.  það er sennilega álíka áríðandi eins og það er fyrir flestar konur af okkar menningarheimi að vera þolanlega siðaðar dömur.

Þannig að sennilega er best að bannað þetta bara.

Theódór Gunnarsson, 25.11.2010 kl. 21:19

15 identicon

Það eina sem gerir kristni skárri en íslam er einmitt það að kristnir dissa mestan hluta biblíu.
Hvernig voru kristnir hér áður fyrr þegar klerkar réöu lögum og lofum.. það var helvíti á jörðu, menn drepnir þvers og kruss fyrir engar sakir, galdra og kjaftæði.

Nei krissar, þið getið ekki verið krissar og dæmt íslam; Þið eruð bara önnur hlið á sama pening

doctore (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband