12.10.2010 | 08:28
Upp, upp, mín sál og íslensk pólitík ... frá leiðindum til gleði
Þegar ég hugsa um íslenska pólitík í dag þá koma í hugann orð eins og leiðindi, þreyta, ótti, vonleysi, eiginlega er það orðið bara þannig að mér finnst pólitík orðin eitthvað "ojbara" og sný mér bara í hina áttina og fer að horfa eða hugsa eitthvað annað.
Ég veit að mörgum líður svona.
En nú ætla ég að herða upp hugann og horfast í augu við pólitíkina - að svo miklu leyti sem ég kann.
Því miður er það svo að þó ég sé bara býsna klár í mörgu, kann ég ekki mikið á pólitík, og hreinlega skil ekki... Af hverju er til dæmis stjórn og stjórnarandstaða?... Jú, jú, ég veit að stjórnarandstaða er til að hindra að stjórnin geri ekki einhverja "bölvaða vitleysu" .. Hvernig ætli gengi að reka fyrirtæki sem hefði bæði stjórn og stjórnarandstöðu? Yrði þessu fyrirtæki eitthvað ágengt? Er ekki hægt að lita að Ísland sem fyrirtæki, nú eða sem fjölskyldu sem þyrfti að reka? Hvað ef að pabbi og mamma væru alltaf að rífast og aldrei eða sjaldan sammála, hvað verður þeim þá úr verki og hversu uppbyggilegur verður andinn á heimilinu?
Ég held að við séum á kolvitlausri braut. Auðvitað er þetta partur af lýðræðisskipulaginu, en sorry þetta virkar (augljóslega) mjög illa hjá okkur.
Mér finnst engin spurning að við - sérstaklega kannski vegna þess að við erum ekkert svo stórkostlega mörg, þurfum að breyta stjórnskipulaginu. Reka Ísland eins og samhenta fjölskyldu eða fyrirtæki. Til stjórnar þarf að fá fólk sem hefur sannað sig að geti staðið sig vel, fólk sem ÞJÓÐIN treystir til góðra verka.
Hvernig á að forða frá "bölvaðri vitleysu" ..
Öll mál sem eru þess eðlis að þau hreinlega breyti ásjónu landsins, þannig að óafturkræft þykir verður þjóðin að fá að kjósa um. Líka ef familían ætlar að breyta þannig að hún vilji ganga í einhvers konar félagsskap með öðrum sem að hefur stórkostlegar breytingar á efnahagi hennar í för með sér. Svona eins og ESB. Þar sem það er dýrt að kjósa - (kemur hin hagsýna húsmóðir inn í) þá mætti líka hafa marktækt slembiúrtak sem dreyfðist jafnt á aldur og væri ca. 50/50 karlar, konur sem myndu kjósa.
Það sem þarf að hafa að leiðarljósi er síðan jafnræði og jafnrétti. Það er hreinlega hallærislegt að sumir fái 200 þúsund í laun á meðan aðrir fái 2 milljónir í laun. Það meikar ekki sens og er engum manni hollt - fyrir utan það að peningar skapa svo sannarlega ekki hamingjuna, en um leið þá ættum við ekki að þurfa að kvíða mánaðamótum vegna skorts á peningum. Við þurfum að minnka aftur bilið milli ríkra og fátækra og í guðanna bænum hættum að tala um þessa stéttaskiptingu...
Er þetta stéttarbil náttúrulögmál? ...
Þegar ég skoða atvinnuauglýsingar er voðalega vinsælt að auglýsa eftir fólki sem vinnur "lausnamiðað" .. Það þarf svona lausnamiðaða stjórn við völd, stjórn sem veitir allt sem pólitíkin veitir EKKI í dag, gleði, orku, von, hugrekki ...
Ég ætla að leyfa mér að trúa því að við með allt okkar hreina vatn, heita vatn, fisk, hreint loft að ógleymdum aðal fjársjóðnum; fólkinu í landinu (sem á flottu máli er kallað mannauður) getum með góðri stjórnun nýtt okkur þessar auðlindir, ekki bara vitað af þeim - það er ekki nóg - til þess að rísa upp úr leiðindunum þannig að hvert einasta íslenska mannsbarn geti verið sátt, fengið nóg að borða og öruggt húsaskjól. Það er reyndar lágmarkskrafa - en nú er ekkert sem heitir, eins og mamma min sagði alltaf, það verður að fara að vinna að lausnum með stjórn sem nýtur trausts og fær "backup" frá þjóðinni. Það má ekki gleyma andlegu hliðinni, í stjórnarliðinu þarf að hafa góðan þjálfara sem hvetur og heldur utan um liðsandann. Við eigum að vera svo áköf að við tökum okkur öll stöðu til að hvetja áfram - eins og á góðum íþróttaleik, þar sem leikmenn eru hvattir til dáða.
Áfram Fjölskyldan, áfram þú og áfram ég ....
Áfram Ísland!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Jóhanna, þetta er pistill sem lýsir fallegri hugsun, vitanleg á öllum að geta liðið vel og allir eiga að hafa nóg til lífsviðurværis.
Gallinn er bara sá, að heimurinn er ekkert sérstaklega réttlátur.
Þetta með pólitíkina, hún endurspeglar hversu ólík við erum. Meðan sumir kjósa vinstri stefnur þá kjósa aðrir hægri og allir eru sannfærðir um sannleiksgildi skoðana sinna. En hættulegastir eru þeir sem fullyrða að þeir hafi höndlað hinn endanlega sannleik, því það er engum manni mögulegt.
Svo er það tekjuskiptingin. Hún er að mínu mati réttlátasta formið því þá fá menn að njóta ávaxta erfiðis síns. Ef allir hefðu jafnar eða sambærilegar tekjur, þá væri minni hvati fyrir fólk að leggja mikið á sig í ströngu námi sem undirbýr fólk fyrir hin ýmsu ábyrgðarstörf eins og t.d. að verða læknir.
Svo ef ég tek dæmi sem ég þekki mjög vel og nefni sjómennskuna, þá myndu fáir nenna að leggja það á sig að þvælast um borð í fiskiskipum, fá óreglulegan svefn og sinna erfiðri vinnu við stórhættulegar aðstæður. Ég myndi glaður vinna í landi ef ég gæti fengið sambærileg laun, þótt þau væru í við lægri. En á sjóinn myndi ég ekki fara nema að ég fengi mikið hærri laun en ég fengi í landi því mér líður svo vel með fjölskyldunni.
Í góðærinu svokallaða þá lækkuðu laun sjómanna mikið. Þá var mjög erfitt að manna skipin og sá mannskapur sem fékkst var beinlínis stórhættulegur sjálfum sér og öðrum, margir voru þeir andlega veikir. Það segir sig sjálft að með þannig mannskap er erfitt að reka útgerð til lengdar.
Svo er það einhvern veginn þannig að þeir sem vilja jöfnuð vilja frekar jafna sig upp á við heldur en niður á við.
Einum stýrimanni var ég með fyrir fjöldamörgum árum sem var yfirlýstur alþýðubandalagsmaður og mjög sanntrúaður jafnaðarmaður. Það kom að því að fækka þurfti í áhöfninni sökum þess að við vorum að fara á rækju. Við sem vorum yfirmenn, en ég var bátsmaður á þessu skipi, vorum öruggir með plássið, það voru eingöngu hásetar sem þurftu að fara, það var bara spurning um fjölda þeirra og útgerðin leyfði okkur yfirmönnunum að ákveða hve margir við yrðum um borð.
Þessi ágæti jafnaðarmaður heimtaði að við yrðum fimm, því það þýddi hærri laun fyrir okkur, við hinir vildum vera sex til sjö, til þess að fleiri gætu haft atvinnu, skipið var gert út frá litlu bæjarfélagi og á þessum tíma var erfitt að fá vinnu.
Ég hef nefnilega orðið áþreifanlega var við það að þeir sem vilja jöfnuð eru oft ekki tilbúnir til að lækka sín eigin laun til að vinna að takmarki sínu.
Jón Ríkharðsson, 12.10.2010 kl. 09:39
Sæll Jón, og þakka þér fyrir að gefa þér tíma til að skrifa athugasemdir - þetta eru allt verðugar pælingar hjá þér.
"Þetta með pólitíkina, hún endurspeglar hversu ólík við erum. Meðan sumir kjósa vinstri stefnur þá kjósa aðrir hægri og allir eru sannfærðir um sannleiksgildi skoðana sinna. En hættulegastir eru þeir sem fullyrða að þeir hafi höndlað hinn endanlega sannleik, því það er engum manni mögulegt."
Ég er sammála því að við erum ólík til hægri og vinstri og líka sammála því að það er ekki til einn réttur sannleiki. En um leið sýnist mér þessi leið - þar sem alltaf er einhver sem er tilbúinn til að púa á þig sértu í stjórn, vinstri púi á hægri og svo hægri á vinstri, vera leið sem er fyrirfram dauðadæmd. Manneskjan kemur á þing með eldmóð sem stöðugt er verið að blása á, það endar í mörgum tilfellum eflaust þannig að það slokknar á þessum eldmóð.
Vandamálið virðist líka liggja í því, eins og kom berlega fram í viðtali við Lilju Mósesdóttur nýlega, að fólk sé bara í peppliðinu með hugmyndum eigin flokks - svona næstum "no matter what" en púi á hugmyndir hinna. Lilja var þó það STÓR í sér og hafði sjálfstraust til að sjá hið jákvæða sem pólitískir andstæðingar höfðu fram að færa. Kannski vantar bara fleira fólk af hennar sauðahúsi á þing.
Svo er það tekjuskiptingin. Hún er að mínu mati réttlátasta formið því þá fá menn að njóta ávaxta erfiðis síns. Ef allir hefðu jafnar eða sambærilegar tekjur, þá væri minni hvati fyrir fólk að leggja mikið á sig í ströngu námi sem undirbýr fólk fyrir hin ýmsu ábyrgðarstörf eins og t.d. að verða læknir.
Mér finnst það sorglegt ef að hvatinn til að fara í læknisfræði er að fá sem hæstar tekjur. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Þarna fara menn i nám á röngum forsendum. Ég fór í sálfræði vegna þess að mig langaði að hjálpa fólki - fann mig ekki í sálfræðinni og fór í guðfræði. Aldrei hugsaði ég út í það að velja fag eftir því hvaða tekjur ég fengi út úr því. Ég er ekki að segja að læknar eða aðrir eigi ekki að fá borgað skv. ábyrgð - en þessi peningagulrót getur virkað öfugt - þ.e.a.s. að menn fari í nám áröngum forsendum.
Ég þekki menn sem eru starfandi lögfræðingar og viðskiptafræðingar í dag en hefðu óskað sér þess heitast á sínum tíma að fara í sagnfræði eða jarðfræði, en létu peningana stjórna. Er ekki eitthvað rangt við þetta?
Starfánægja verður ekki mæld í peningum, en að sjálfsögðu þarf fólk að fá greitt álag miðað við vinnuframlag.
Þú tekur dæmi af sjómennsku og dæmi um að þegar ekki var nógu vel greitt mættu þar til vinnu fólk sem að þínu mati var ekki hæft.
Hvað með öldrunarstofnanir? Ég hef komið inn á deildir þar sem vaktin er stundum einungis mönnuð fólki sem er hálftalandi á íslensku. Ég er þar ekkert að dæma um önnur gæði folksins. En er það ömmum okkar og öfum, pöppum og mömmum, eða okkur sjálfum - þegar fram í sækir - bjóðandi? Bjóðandi að geta ekki átt þokkalegar samræður við starfsfólkið og að starfsfólkið skilji það varla?
Sem betur fer er mikið af fólki, aðallega konum, sem vinnur þarna hugsjónastarf - en að sjálfsögðu væri þetta fólk tilbúið að þiggja mannsæmandi laun fyrir að stuðla að mannsæmandi lífi fyrir hina öldruðu. En af einhverjum ástæðum þykja verkamennirnir mismunandi verðugir launa sinna.
Myndir þú, Jón, vilja fá þessa menn sem þér leist miður en svo vel á á sjónum til að sinna þér á öldrunarstofnun? .. Þar þykir jú eðlilegt að greiða lág laun.
Öll viljum við geta haft það bærilegt, og það er rétt hjá þér að það getur verið erfitt að bakka - en flest vitum við það líka innst inni að hamingjan fæst ekki keypt með peningum, en óhaminga getur svo sannarlega myndast þegar að kvíða þarf hverjum mánaðamótum - nú eða þarf að bíða í röð eftir mat hjá hjálparstofnunum.
Ég er að biðja um það að bilið grynnki á milli ríkra og fátækra, ekki að biðja um að allir fái sömu launaupphæð í umslagið - no matter what.
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2010 kl. 10:33
Leiðrétting: pöppum átti að sjálfsögðu að vera pöbbum
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2010 kl. 10:34
Jón - hvernig stjórn vilt þú annars fá?
Líst þér illa á svona eina stjórn skipuð vel menntuðu og/eða reynslumiklu fólki, sem hefði þá vonandi verið að mennta sig af hugsjón en ekki bara af tilhugsun hvað það fengi borgað? ..
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2010 kl. 10:38
Jóhanna, þetta er ansi viðamikið mál sem við erum að tala um. Ég ætla að senda þér tölvupóst og reyna að leitast við að útskýra mínar skoðanir eins vel og mér er freksast unnt. Það er nefnilega skortur á djúpri umræðu í samfélaginu, það er sennilega hluti skýringarinar á því hvernig allt þeta er.
Þegar maður svarar í svona athugasemdarkerfum þá er oft hætt við að fólk misskilji hvert annað. Þú færð eflaust frekar langan póst frá mér, en ég geri ráð fyrir að þú sért þolinmóð að eðlisfari, þar sem þú hefur velið þér vettvang í sálfræði og guðfræði.
Jón Ríkharðsson, 12.10.2010 kl. 12:36
Takk fyrir Jón, ég er búin að sjá bréfið þitt - ég mun svara um leið og ég hef tíma.
Ég er þolinmæðin uppmáluð!
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.10.2010 kl. 18:13
Sæl Jóhanna! Gott að´reyfa þessi mál. Þú nefnir umönnun aldraðra og réttilega þetta með "málleysi",nokkra annars ágætra umönnunaraðila. Eitt vil ég vekja athygli á sem er ekki hægt að breyta úr þessu. Maður minn var Alzheimersjúklingur og dvaldi um tíma á elliheimilinu Grund. Efsta hæð Grundar,var nýtt fyrir þá sjúklinga,hæðin er öll undir súð,og allir gluggar eru á þaki hússins. Það þýðir að ekki er hægt að sitja við glugga og horfa út,sem hefði breytt svo miklu fyrir marga. Einn góðan veðurdag var byrjað á viðgerð á þaki hússins og þrengdi það mjög pláss,vistmanna og umönnunarfólks,því var komið fyir plasti,þar sem iðnaðarmenn unnu við að skipta um fög og gler. ´Þá heyrði ég að til stæði að byggja kvisti,sem hefðu gert öllum þar kleift að horfa út sitjandi við glugga. Sú ákvörðun hefði ekki kostað svo mikið meira,þar sem mesta vinnan var að rífa þakið upp,smiðir ekki svo lengi að bæta þessu við. Nei,þar kom húsafriðunarnefnd að,sem útkljáði að þetta mætti ekki því það skemmdi útlit hússins. Ég veit ósköp vel að Vesturíslendingar gáfu fé í þetta hús,en talað var um að það mætti ekki spilla því sem þeir gáfu af góðum hug. Ég segi nú öðru eins hefur nú verið breytt án þess að lýti væri að. Er ekki líðan þessara veiku einstaklinga meira virði en breyting á húsi,sem þeir eru vistaðir í,að ekki sé sagt að mér og mörgum öðrum þætti það "upplyfting". Ég orðaði þetta við einn arkitekt ("frægan"),svarið var,fólk á ekkert að vera þarna,sem þýðir ekki á að nota þennan hluta hússins fyrir neina starfssemi,basta. kveð,segi líka góða nótt.P.S. er að bíða eftir að sjá björgun námumannanna í Chile,vona að guð gefi að þeim verði öllum bjargað,en er hugsað til þess síðasta,sem fer upp.
Helga Kristjánsdóttir, 13.10.2010 kl. 03:26
Þakka þér þitt innlegg Helga, það er stundum skrítin forgangsröðunin í henni veröld.
Jóhanna Magnúsdóttir, 14.10.2010 kl. 18:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.