Áhyggjur og krabbamein

brosandi_blom.jpgÞessi brosandi mynd er svona smá mótvægi við fyrirsögnina,  en þetta þarna ætti kannski frekar að standa - áhyggjuleysi og krabbamein. 

Í gær tók ég þátt í Kvennakirkjumessu sem haldin var í Frikirkjunni í Hafnarfirði.

Þegar ég var í bílnum á leið til messu  - ákvað ég hvernig ég hæfi prédikun mína, eða réttara sagt samtal mitt við kirkjugesti.  Mér til mikillar gleði voru þarna ekki aðeins konur á miðjum aldri sem er jú uppistaðan í sóknarbörnum Kvennakirkjunnar (og við erum að sjálfsögðu flottur hópur) en líka  þrjú tilvonandi fermingarbörn,  pabbi,  afi,  lítil systir og og bara svona fólk af öllum stærðum og gerðum.  Ég verð að játa það, hér og nú,  að unga fólkið er uppáhalds og það er lika mesta áskorunin að tala við þau.  Ég vildi ekki heldur að þau væru að koma þarna til að hlusta á einhverja kerlingu þylja upp eitthvað óskiljanlegt blaður - heldur að þau fengju gott og uppbyggilegt veganesti. 

Þess vegna ákvað ég að hafa prédikunina aðeins styttri en upphaflega var planað,  og fyrir fram hafði ég auðvitað skrifað "á mannamáli" og  ákveðið að tala þannig að ég fengi fólk til að taka þátt og svara.  Það tókst bara vel. 

Yfirskrift prédikunarinnar var Fjallræðan,  en áherslan var á því að fylgja hjarta sínu,  vera maður sjálfur en ekki sýnast og að hafa ekki áhyggjur af einhverju sem kannski aldrei yrði.  Ritningarlesturinn á undan hafði fjallað um liljur vallarins og fugla himins sem að sjálfsögðu þiggja líf en eru ekki að spekúlera hvað morgundagurinn ber í skauti sér. 

Fyrirsögn bloggsins er:  áhyggjur og krabbamein,  en það er af þeirri ástæðu að ég spurði fólkið í upphafi hvort það hefði áhyggjur,  hver þarna inni væri með áhyggjur,  .. ég sjálf rétti upp hendi og fleiri hendur komu á loft, auðvitað! 

Þá sagði ég söguna af því þegar að ég greindist með sortuæxlið sem er illkynja krabbamein og þegar að læknirinn sagði við mig,  þegar búið var að krukka í mig tvisvar og ég var á biðtíma að fá úr því skorið hvort meinið hefði dreift sér, eða hvort það þyrfti að skera meira, "Veistu það Jóhanna að áhyggjurnar geta gert þig veikari  en krabbameinið."   Í dag er ég krabbameinslaus,  en viti menn - ég ber ennþá áhyggjur! ... 

Það er rosalega mannlegt að hafa áhyggjur,  en það er svo mikilvægt að gera sitt ítrasta til að lágmarka þessar áhyggjur,  sérstaklega þegar þær gera manni meira illt en gott.  Við höfum máttinn til þess og það er gott að biðja Guð um að styrkja þennan mátt (fyrir okkur sem trúum á Guð eða æðri mátt). 

Stress er mjög óhollt og ekki síður dánarorsök en krabbamein.   Í raun ætti okkur að bregða jafn mikið við að heyra orðin áhyggjur og stress,  eins og krabbamein því að  áhyggjur og stress geta orðið eins og huglægt krabbamein. 

Vegna þessa alls þá ákvað ég að æðruleysisbænin væri sú bæn sem hentaði best aðstæðunum og umræðuefninu og ég las hana í upphafi ræðunnar og  í miðri prédikun þá fórum við með hana saman.  

 "Guð - gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli."

Bænin fjallar um sátt,  að sættast við það sem að höndum ber -  sættast við að við getum ekki breytt sumu,  en við þurfum oft hugrekki  til að breyta því sem við getum breytt og svo þurfum við einmitt að vita muninn á því sem við getum breytt og því sem við getum ekki breytt. 

Þarna er alls ekki verið að segja að við eigum bara að leggja hendur í skaut,  heldur endilega hafa þor og dug til að breyta þar sem það er í okkar valdi til að breyta.  En sumir hlutir eru hreinlega ekki í okkar valdi,  við tökum á þeim þegar þeir koma til okkar,  eins og við getum,  en kjarninn er að vera ekki að hafa áhyggjur af einhverju sem kannski aldrei verður.  Það sem við veitum athygli það vex og ef við dveljum í áhyggjunum þá vaxa þær svo sannarlega.   

Það er ágæt æfing að anda djúpt að sér fríska loftinu - í gær kallaði ég fríska loftið Guð,  því fyrir mér er andardrátturinn næring Guðs,  og anda síðan frá sér áhyggjum og öðru því sem hefur staðnað í líkamanum ... senda það langt út fyrir hafsauga.  Brosa svo með sjálfum sér og þakka fyrir allt það sem við höfum.  Í mínu tilfelli er það heilsan,  fjölskylda mín, vinir ..  allt fólkið sem ég er búin að kynnast og er sambýlingar í þessum blómapotti sem kallast "jörð" ..  

Bob Marley er með þetta. 

"In every life we have some trouble, don´t make it double" .... 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Bob Marley klikkar ekki og þetta lag mun lifa.

Takk fyrir þessi skrif Jóhanna mín, ég hef nú ekki áhyggjur svona dags daglega, en þær hellast yfir mig á stundum og þá hugsa ég bara eitthvað fallegt því eins og segir í bæninni: " sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt"

Gott að minna sig á þetta og sleppa svo.

Knús til þín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.10.2010 kl. 09:46

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Milla mín,  sömuleiðis. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2010 kl. 11:19

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Að gefnu tilefni:

Ég hef ákveðið að hafa aðeins opið fyrir athugasemdir frá fólki sem hefur hugrekki til að tjá sig undir eigin nafni.  Mig langar jafnframt til þess að biðja um kurteisi og tillitssemi,  þessi ræða er gerð til að byggja upp en ekki brjóta niður. 

Ef fólk hefur ekki neitt uppbyggilegt til málanna að leggja,  vinsamlegast sleppið því í þessari lotu,  ég skal rökræða um tilvist Guð á öðrum stöðum.  Mér þykir það ekki viðeigani hér. 

Knús og kveðja, 

Jóhanna 

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2010 kl. 11:23

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. er að nota gömlu tölvuna mína og þar eiga stafir til að detta út þegar slegið er inn ... leiðrétt síðasta athgusemd mín  "tilvist Guðs" (vantaði s)   og  "viðeigandi"  (vantaði d)

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2010 kl. 11:25

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 takk fyrir mig.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2010 kl. 11:44

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir sömuleiðis Ásdís

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2010 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband