Að vera ég - Dale Carnegie tími I

Nú er ég búin að vera atvinnulaus síðan 1. september og þegar fólk er atvinnulaust þá á það akkúrat að gera eitthvað sem það hefur ekki gefið sér tíma til að gera áður og ekki er verra ef það er mannbætandi.  Það sem ég er m.a. að gera núna er að undirbúa mig fyrir næstu kafla lífs míns.

Nú hugsar eflaust einhver að Dale Carnegienámskeið er ekki eitthvað sem fólk hoppar inn í. Þar sem ég hafði ekki fengið neinn styrk til námskeiða né endurmenntunar síðan 2007,  þá hreinlega sótti ég um það til fyrrverandi atvinnuveitanda að fá þetta námskeið - gerði það á meðan ég var enn skráð í vinnu, svo það er greitt úr þar til gerðum endurmenntunarsjóði.  En þar sem ég veit að ekki næstum allir geta, annað hvort tímans vegna eða af fjárhagsástæðum nýtt sér námskeiðin, þá langar mig til að deila svolítið af því sem ég læri - og það sem mér finnst kannski mikilvægast. 

Ég er ekki nýgræðingur í þessum efnum, búin að kenna tjáningu 103 í nokkur ár. Ég var því búin að komast að mörgum leyndarmálum gegnum kennsluna og gegnum mína lífsreynslu aðra. 

Það sem ég byrja alltaf að segja mínum nemendum er þetta lykilatriði þegar við erum að tjá okkur,  eða bara lykilatriði í lífinu sjálfu.  AÐ VERA MAÐUR SJÁLFUR.  (Nema þú sért á leiksviði og til þess ætlast að þú túlkir annan). 

Fjársjóður okkar liggur ekki á glámbekk.  Við sitjum á honum og við erum okkar eigin fjársjóður. 

Lífsreynsla okkar og það sem við höfum tileinkað okkur og tekið inn í gegnum lífið er það sem við skulum deila. Enginn kann betur að segja frá því en við.

Ég lærði þetta t.d. "The hard way" í guðfræðideild þegar ég átti að flytja prédikun og samdi "lærða" prédikun með alls konar háfleygum orðum og tilvitnunum sem hreinlega klæddu mig engan veginn og voru ekki ÉG.  Ég fékk líka mikla neikvæða gagnrýni og tók því svo illa að ég fór heim - undir sæng og grét og ætlaði aldrei að prédika aftur né flytja hugvekju.  Ég væri bara ómöguleg.  Seinna sótti ég svo námskeið hjá Auði Eir og þá lærði ég að tala frá hjartanu.  Segja frá og tala af einlægni.  Ég flutti síðan prédikun í Seltjarnarneskirkju og ég fann að ég var komin á rétta braut. Fékk afskaplega góð viðbrögð og mér hafði tekist það sem mig langaði svo mikið til. Að gera fólk glaðara þegar það færi út en þegar það kom til kirkju, enda er fólk oftast að koma til kirkju til að heyra fagnaðarerindi en ekki láta sér leiðast. 

En aftur að námskeiðinu í gærkvöldi. Ég ætla ekki að punkta það hér niður hvað nákvæmlega var farið í heldur hvað það gerði fyrir mig og hvað upp úr stendur og mér finnst skipta mestu máli - líka fyrir þig! 

Við vorum látin skrifa framtíðarsýn okkar, hvar við værum stödd eftir 3 - 6 mánuði í lífinu. Það var ekki skrifað sem óskalisti, heldur sem staðreynd. 

Dæmi: "Í dag er 15. janúar 2011,  ég lauk námskeiði í desember sem breytti lífi mínu til betri vegar, hjálpaði mér við að ná fókus á minni framtíðarsýn. Ég er að skrifa bókina sem ég er búin að vera með í maganum í þúsund ár, við hlið mér er sálufélagi minn.  Ég er dugleg að veita vinum mínum og börnum athygli og er sátt í hjarta við tilveru mína og stjórnandi í eigin lífi .. bla bla bla... "  Þetta skrifaði ég ekki - en þetta er dæmi og gæti alveg átt við mig.  Ég skora á ÞIG að gera þetta líka.  Ef við stefnum ekkert lendum við í engu.  Okkur var sagt frá Helen Keller sem var spurð hvað væri verra en að vera blind og heyrnarlaus,  en hún hafði svarað "að hafa enga sýn" .. (vision) ..  

Sjálf hef ég verið eins og skúta undanfarið, fljótandi um og vantað vind í seglin og ekki alveg vitað hvert ég ætti að sigla.  Nú er ég bjartsýn, fyrir utan það að ég veit að ég hef óteljandi hluti að gefa. Alveg eins og ÞÚ! 

Auðvitað fórum við í fleira, minnisatriði, hópurinn hristist saman. Við fengum hugmyndir um tæki eða tækni við að nálgast annað fólk til að víkka sjóndeildarhring okkar. 

Verkefni fyrir næsta tíma er auðvitað að lesa svolítið af bókunum sem tilheyra námskeiðinu,  en þær eru m.a. "Lífsgleði njóttu"  en það er bók sem mér skilst á fólki að hafi hreinlega breytt lífi þess.  Það segir m.a. Sigga Klingenberg á disknum sínum "Þú ert frábær" ..  sú bók breytti hennar lífi til hins betra - frá depurð í gleði.  Síðan er það bókin "Vinsældir og áhrif"  sem ég er nú þegar farin að glugga í og aðalatriðið sem ég tók eftir við upphaf bókar, er að allt fólk þarf á athygli að halda.  Þetta held ég að skipti gríðarlegu máli og þá sérstaklega gott að hafa í huga hvað varðar börn og unglinga. 

Unglingar og unga fólkið í dag þarf tíma og athygli - það er hluti af mínum reynslubanka líka. Reyndar þurfum við öll athygli - og ég þarf sjálf athygli.  Líka sjálfrar mín,  en auðvitað byrjum við alltaf á kjarnanum, þ.e.a.s. okkur sjálfum.  Við björgum ekki eða breytum heiminum, landinu, borginni, fjölskyldunni.. ef við erum sjálf í rusli og óbreytt.  (Það var líka komið inn á þetta á námskeiðinu). 

Jæja, þetta var s.s. mitt hugarflug eftir tíma eitt. Ég er gríðarlega bjartsýn á að ég eigi eftir að bæta mig, verða betri manneskja og komast út úr þeirri einangrun sem ég í raun hef lifað í.  Já, ég er umvafin vinum og fjölskyldu, og kem fyrir eins og extrovert sem blaðra um allt.  En í raun er þarna inni afskaplega lokuð manneskja sem er algjörlega fyrir sig.  Ég vil geta gefið meira af mér. 

Ég er ekki að segja að við eigum ekki að eiga prívatlíf, en ég vonast til að ef að ég rækti mína góðu eiginleika betur og ég geti hlúð betur að hinu jákvæða svo að hin "særða" ég læknist af þeirri djúpstæðu hryggð sem ég hef borið inní mér fyrir sjálfa mig og hefur truflað mig í að þiggja þann vind sem ég þarf á að halda til að mín seglskúta sigli áfram í átt að mínum sjónarmiðum.

Verkefni næsta tíma er að segja frá atvikum í okkar lífi á tímabilinu 6 - 17 ára sem breyttu lífinu og gerðu okkur að því sem við erum.  

Þeir sem þekkja til, þeir vita að sjö ára umbreyttist heimurinn hjá lítilli stelpu, "mamma ykkar hefur það gott en pabbi ykkar er dáinn"  Það er setning sem er eins og hoggin í vitund mér.  En án þess að geta sagt að það hafi orðið til góðs að pabbi dó,  þá ætla ég að leyfa mér að segja að það hafi verið ein af mínum stærstu kennslustundum i lífinu. Ég hafði verið "brjálað" barn,  eða óhemja eins og mamma orðaði það.  Ég vitkaðist við að missa pabba og fór að taka ábyrgð á sjálfri mér, og reyndar fór ég um leið að taka ábyrgð á svo mörgu og mörgum öðrum. Ég gat auðvitað ekki hagað mér eins og vitleysingur í skólanum - kastað appelsínuberki í kennarann - þegar ég var komin með ábyrgð. Ég ætla ekki að tala um neikvæðu hliðar þessarar ábyrgðar en setja upp hinar jákvæðu. Þær eru á þá lund að ég læt mig fólk varða. Mér kemur við hvernig fólki líður - hvernig "stærri máttar" koma fram við "minni máttar" og svo framvegis.  

Pabbi hafði lesið með okkur Huldu systur bænirnar á kvöldin, ég tók yfir þennan lestur þó ég væri þremur árum yngri og ég faðmaði alltaf systur mína.  -  Nú er þetta orðið voðalega langur lestur og ég gæti skrifað heilan helling i viðbót, en það sem ég er að segja að hafi gerst i mínu lífi er að ég fór að taka af skarið.  Einn vinnufélagi minn kallaði mig "afskiptamálaráðherra" það orð getur vissulega hljómað neikvætt - en ég vissi að hann meinti það ekki neikvætt.  Hann meinti það að ég læt mig málin varða,  og tek af skarið.  Ég hef í gegnum lífið verið í stjórnum og stjórnandi í ótal félögum,  og þá næstum alltaf í sjálfboðastarfi,  og jafnvel þegar ég er ekki formlega í stjórn hef ég verið spurð - hvenær er þetta eða hvenær er hitt og jafnframt verið í hlutverki trúnaðarmanns og þá milligöngumanneskja oft milli undir- og yfirmanns eða manna. 

Ástæðan?  Kannski vegna þess að ég lærði þegar ég var sjö ára að ég þurfti að taka ábyrgð, lærði að fólk og samskipti við fólk er það sem skiptir mestu máli í lífinu.  Auðvitað skiptir það eðli sem þú ert fædd/ur með máli.  Pabbi var sjálfur diplómat og vann sem starfsmannastjóri og stóð sig vel í sínu starfi,  það má þá kannski segja að genetískt hafi ég haft einhverja forgjöf.  En enn og aftur skiptir máli hvernig maður nær að virkja það, eða ná fram því sem við eigum þarna inni í okkur,  genetískt eða lært.  

Kannski væri ég alveg eins í dag, ef pabbi hefði ekki fallið frá,  hefði bara lært það á annan hátt og ekki þurft að ganga í gegnum þessa miklu sorg, sem er líklegast enn að hrærast einhvers staðar djúpt.  En ég veit að sumt skil ég betur og sumt finn ég betur með fólki vegna þess að ég hef sjálf þessa lífsreynslu og síðar á ævinni aðra lífsreynslu sem gerði það að verkum að ég á auðveldara með að setja mig í spor annarra. 

Nóg er komið,  þetta varð meira að segja miklu lengra en ég ætlaði mér. Ef þú hefur gefið þér (og mér) tíma til að lesa þá er það sem vindur í mín segl. Ef eitthvað af þessum skrifum virkar einnig þér til innblásturs þá er ég komin á fulla ferð! 

Gleði, gleði .. ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elskuleg mín, það er alltaf uppbyggjandi að lesa skrif þín.  Þú gefur mikið af þér hér og örugglega annarsstaðar líka. Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.9.2010 kl. 11:38

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk mín kærust ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.9.2010 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband