8.7.2010 | 06:32
Dagbók 8.7.2010
Í dag eru liðin fjörutíuogeitt ár síðan að pabbi lést. Þessi dagur, 8. júlí kemur fram einu sinni á ári, merkilegt nokk! Ótrúlegt hvað hann pabbi minn hefur verið sterkur í mínu lífi þó hann hafi kvatt mig, eða reyndar kvaddi aldrei, þegar ég var sjö ára. (Já, já, ég veit að þarna kemur fram biturð, það er bara svoleiðis - lífið var sko ekkert létt á þessum barndómsárum).
Ég sit ekki og syrgi á þessum degi, en það er alltaf smá depurð sem læðist í hjartað og svo "hvað ef" jafnvel þótt að mamma segði að við ættum aldrei að spyrja "hvað ef" Mamma er ótrúlega djúpvitur kona, jafnvel í dag þegar hún er komin með heilabilun, koma frá henni gullkorn og oft eins og hún viti miklu meira en nef hennar nær.
Vala mín, sem heitir einmitt í höfuð mömmu, var kölluð í flug í morgun og vakti mig 5:30 til að láta vita, svo ég glaðvaknaði og gat ekki sofnað. Ég stóð mig vel í "Síberíukúr" í gær, borðaði meira að segja ávexti í morgunmat - en stúdentsefnin mín (úr Hraðbraut) buðu í morgunmat uppi í skóla, og þar var allt fljótandi í hollum og næringarríkum ávöxtum. Ég gleymi stundum að borða ávexti, en þarf að passa það betur. Borðaði indælis kjúklingasalat frá Krúsku í kvöldmat, en það fæst í Pétursbúð, búð allra búða.
Útskriftin er ekki á morgun heldur hinn, ég er að verða búin að gera allt klárt og prenta svo út skírteini á föstudag, þegar allar einkunnir eru komnar. Keypti mér dýrindis Karen Millen kjól í gær, m.a. til að verðlauna mig fyrir dugnaðinn í aðhaldinu og svo náttúrulega síðasti séns áður en konan verður atvinnulaus! Annars á maður (kona) ekki að segja frá svona eyðslu á þessum síðustu og verstu tímum. Auðvitað eru kjólar ekkert annað en "snuð" ....
Hvað um það, ætla að vera "gorgeus" á útskriftinni, enda mín síðasta (sjötta) útskrift og mín eigin útskrift úr skólanum líka!
Í næstu viku flýg ég svo til unganna minna í Danmörku og ætla að njóta sólar með þeim (búin að panta gott veður). Talaði við Evu yfir sjóinn í gær og sagðist hún hafa horft á myndina "It´s complicated" og talaði um að myndin væri eins og byggð á mömmu sinni, hmmmm... Já, lífið mitt er flækja, þá e.t.v. blessuð karlmálin helst en ég virðist eiga erfitt með að leysa þau. "Can´t live with them and can´t live without them.
Jamm og já, þetta voru s.s. morgunfréttir fimmtudaginn 8. júlí 2010.
Amma "gamla" has left the building.
Smá grenjusena (kannski bara ég sem græt yfir henni) úr Mamma Mia fylgir hér með:
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert frábær... til hamingju með þetta allt, gangi þér vel með þetta allt saman og haltu áfram að hafa gaman
Jónína Dúadóttir, 8.7.2010 kl. 07:03
Sagt er að maður eigi ekki að syrgja, en ég stend mig að því að syrgja þá sem ég mundi vilja hafa í kringum mig, en þá kemst ég ævilega að því að yndislega fólkið mitt er bara rétt handan við hornið og ég get talað við það.
Sorgin sem kemur yfir mig vegna atburða sem gerast af bæði mínum völdum og annarra er miklu verri, þó maður vilji þær breytingar sem við báðar höfum látið gerast þá fylgir þeim gjörningum sorgarferill sem þarf að takast á við.
Báðar höfum við veikst af því sem við buðum okkur upp á og það gengur ekki elsku Jóhanna mín.
Fylgdu hjarta þínu hvað varðar sjálfan þig, vertu meðvituð um þig, allt sem gerist, taktu völdin með því að vera meðvituð.
Þetta með elsku mennina, stelpurnar mínar segja að ég sé búin að setja út angana, en Jóhanna mín You dont have to live with a men to bee with him
Til hamingju með allt sem þú hefur gert í þínu lífi það er nefnilega heilmikið.
Knús kveðjur
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.7.2010 kl. 08:05
Les oft bloggið þitt mér til skemmtunar, Jóhanna. Kann vel við blogg þar sem höfundurinn gefur svolítið af sjálfum sér, þó ekki sé nema af og til.
En þú, og fleiri konur, falla oft í þá gryfju að láta eins og þið séuð ekki menn, og þurfið að koma því á framfæri í rituðu máli að þið séuð konur. En -- konur eru menn. Tegundin heitir maður. Skiptist í karl og konu. Og sjaldnast leynir sér hvort er hvort. Það er ljóst að þú ert kona og kannt því vel. Haltu því áfram. Þannig ertu maður.
Sigurður Hreiðar, 8.7.2010 kl. 12:07
Gott innlegg hjá þér, Sigurður Hreiðar, enda penni hinn besti.
Var að lesa síðustu færsluna þína, brosið kom fram og ég hugsaði að ég vildi óska að ég væri fagurlimuð, en Þau forréttindi hverfa nú með aldrinum.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.7.2010 kl. 12:50
Þakka þér Jónína, sömuleiðis
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.7.2010 kl. 19:35
Takk fyrir innleggið þitt Milla mín, ég hef stundum verið full ör í að fylgja hjartanu - kannski það mitt vandamál! Geng á tilfinningum stundum frekar en skynseminni.
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.7.2010 kl. 19:37
Takk fyrir Sigurður Hreiðar, það er ekki algengt að karl-menn setji inn athugasemd á svona persónuleg blogg, þeir eru eflaust feimnir við það, eða finnst það of væmið.
Varðandi menn og konur, þá er þetta bara svona létt grín að setja kona í sviga. Menn eru alltaf menn, en stundum eru konur menn og stundum konur. Vitna í bókatitilinn "Maður og kona" Þar hefði ekki getað staðið "Maður og maður" ..
Já, já, ég er svo sannarlega kona og reyndar þá maður líka.
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.7.2010 kl. 19:40
Frábær færsla hjá þér, myndbandið er flott
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.7.2010 kl. 00:17
Takk Jóna Kolbrún
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.7.2010 kl. 07:10
Sammála þér um þetta, Maður og maður hefði verið ótækt bókarheiti, meira að segja Maður og kvenmaður eða Karlmaður og kvenmaður. Karl og kona hefði alveg getað dugað -- en kannski verðum við að muna eftir því að á þeim dögum er bókin kom út var ekki alveg búið að slá því föstu að kona væri maður…
Sigurður Hreiðar, 9.7.2010 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.