"Hvað ef maður fer að efast um Jesú" ?

Ungur maður var með efasemdir um Jesú, og spurði mig þessarar spurningar. Hann hafði áhyggjur af því að hann ætti erfitt með að trúa á Jesú, sérstaklega þar sem nú væri hann búinn að horfa á myndir og heyra frásögur af trúarbrögðum sem innihéldu frásagnir sem væru svo líkar sögunni af Jesú. Efasemdir eru góðar, þær benda til þess að fólk sé að hugsa. 

Mín útlegging eða hugmyndafræði  er langt í frá hefðbundin, enda eigum við ekki að þurfa að trúa einhverju sem aðrir trúa, heldur því sem við sjálf trúum. Þess vegna get ég ekki svarað unga manninum með konkret svari: "sko staðreyndin er að Jesús er svona og Jesús er hinsegin." Við erum ekki að tala um staðreyndir heldur trú.  Þess vegna svara ég núna hvernig mín trú er: 

Ég álít að fólk þurfi að hugsa mun meira abstrakt og að Biblían sé í raun frekar abstrakt listaverk en kennslubók í lögum, félagsfræði, sagnfræði eða náttúruvísindum  til að mynda. 

Ef svo væri hefðum við sparað ógrynni í námgagnaframleiðslu og bókalistar skólanna yrðu einfaldaðir til muna. Félagsfræði 103 - Biblían,  Saga 103 - Biblían,  Náttúrufræði 103 - Biblían o.s.frv... 

Það er að sjálfsögðu margt í Biblíunni sem rúmast innan minnar hugmyndafræði um spurninguna:  "Hver er Jesús" og ætla ég að taka það sérstaklega fram hér. 

Guð hefur mörg birtingarform (meira að segja í Biblíunni)  og Guð gaf okkur trú, Guð gaf okkur skynsemi, Guð gaf okkur tilveruna - náttúru og andrúmloftið og Guð gaf okkur okkur sjálf.   Guð er s.s. bæði umvefjandi OG í okkur.  Guð gaf okkur EKKI trúarbrögð, við vorum einfær um að skapa þau. 

Jesús er birtingarmynd tengsla manns og Guðs. 

Á þessum tíma var þetta sett upp sem tengsl karlmanns og föður hans. Það skiptir engu máli, þetta getur líka verið maður og móðir hans eða kona og móðir hennar.  Kynið skiptir þarna engu máli - en gerði það á ritunartíma Biblíunnar. Til eru rit sem tala um móður jörð og föður himinn. Móðir jörð var strokuð út, en eftir stóð faðir himinn og er það auðvitað út af karllægum áherslum. 

Áður en einhver fer að súpa hveljur - þá vil ég ítreka að þetta er aðeins hvernig ÉG trúi þessu og er ekki að ætlast til að neinn annar geri það,  og ég tel ekki að það sé til ein RÉTT guðfræði,  við höfum öll okkar guðfræði út frá okkar nafla.  Að sjálfsögðu getum við séð guðfræði sem stemmir við okkar hugmyndir,  því ekkert er nýtt undir sólinni,   þó við höfum ekki endilega rekist á það. 

Í umræðu hjá Mofa nokkrum sem skrifar hér á blogginu þar sem hann hefur áhyggjur af því að hans heimsmynd sé að hrynja vegna þess að hvíldardagurinn sé ekki haldinn heilagur,  lesbía sé kjörin biskup o.fl. sem honum finnst ekki lögmálsvænt, skrifaði ég eftirfarandi og bæti hér ýmsu í:

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

Þetta ljóð er eftir Steingrím Thorsteinsson sem var uppi frá 1831 - 1851, svo hugmyndafræðin um Guð í sjálfum okkur eða vera af Guði er ekkert ný af nálinni. 

Í Biblíunni stendur:

"Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð."  Jóh. 8:47 

Þið sem teljið ykkur trúa á Guð, hafið sjálfstraust til að bera til að trúa því að þið séuð af Guði og hafið Guð í ykkur. 

Horfum á stóru myndina, en liggjum ekki yfir smáatriðum. Smáatriði er eins og hvers kyns við erum, hverrar kynhneigðar eða hvaða litarháttur er á okkur.  Stóra myndin felur í sér að við erum manneskjur sem þurfum að lifa í sátt og samlyndi á einni jörð. 

Við erum öll jöfn fyrir Guði, og það sem þarf til að vera þjónandi leiðtogi er að vera virtur sem manneskja fyrir góð verk.  Þá skiptir kyn, kynhneigð eða hverjum viðkomandi er giftur - eða hversu oft viðkomandi hefur verið giftur nákvæmlega engu máli.  Það skiptir hins vegar máli hvernig við komum fram við aðra menn og konur, við maka og börn.  Viðmót okkar skiptir máli og verkin okkar skipta máli.

Kærleikurinn er það sem skiptir máli og það er STÓRA málið.

Hvort sem að Jesús var til eða ekki til, er nóg að hann sé til í huga okkar og við megum sjá hann eins og við viljum. Margir hafa aldrei lesið Biblíuna, en þekkja Biblíusögur og söngva. Eflaust er það "hollasta" myndin sem hægt er að hafa. Sú sem birtist í söngnum "Jesús er besti vinur barnanna" - á meðan að það er gott þá er það að sjálfsögðu í lagi. 

Jesús sagði hluti sem skipta mjög miklu máli fyrir trúna okkar.  Hann sagði sögu af miskunnsömum manni sem hjálpaði náunga sínum án tillits til lögmáls og trúarbragða. Bara vegna þess að náunginn þurfti hjálp. Aðrir mönn sem töldu sig bundna af lögmáli um að mega ekki snerta blóð t.d. gengu fram hjá honum.  Þeir hjálpuðu ekki manninum vegna þröngsýni og lögmálskenninga. Halló! 

Jesús benti líka á það að auðvitað mætti gera nauðsynjaverk eins og lækningar á Hvíldardegi, og tók það fram að  Hvíldardagurinn væri gerður mannsins vegna en ekki maðurinn vegna Hvíldardagsins. 

Þessi framangreindu atriði skipta einna mestu máli í allri minni Biblíulesningu. Jesús fór eftir EIGIN sannfæringu - og gaf fyrirmynd í því.  

Ef að barn væri að drukkna í laug á þriðjudegi og í Biblíunn stæði: Ekki bleyta fætur yðar á  þriðjudegi, skyldu menn hika við,  eða muna að kærleikurinn trompar allt?  .. Þetta er einfalt atriði, en samt sem áður er fólk sem er þannig forritað í dag að það trúir svona í blindni á ákveðna texta eða textabrot.  "Enginn verður verri þótt hann vökni." 

Æðsta boðorðið er um kærleikann, að elska Guð, elska náunga sinn og að elska sjálfan sig til að geta elskað Guð og náungann.  

Hvað með Jesú?  Ekki hafa áhyggjur hvort að Jesús var til eða ekki, ekki hafa áhyggjur af því hverju þú átt að trúa - trúðu ef þú trúir,  trúðu ekki ef þú trúir ekki.  En fyrst og fremst þarftu að lifa sem heil manneskja og koma fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig. 

Það er alveg nóg. 

Ef að seremóníurnar í kirkjunum eru farnar að virka hlægilegar eða vandræðalegar í augum þínum þá skaltu bara horfa á þær sem leikrit.  Það þarf ekki að skaða trú þína.  En auðvitað er gott að eiga kirkju þar sem við fáum innblástur,  gleði og fleira sem gaman er að innbyrða í samfélagi og þiggja sem nesti sem okkur vantar í daglegu amstri. 

 Það sem ég skrifa hér að ofan er ÉG - "Hvernig á ég að vera eitthvað annað" eða að hafa skoðanir annarra.  Um leið og ég fer að "hlýða" lögmáli sem ég er ósammála er ég ekki lengur ég.  Viljum við vera önnur en við erum?

Virðum rétt náungans til að vera hann, hún, það - á meðan hann brýtur ekki á náunga sínum, heldur elskar hann.  

Það á ekki að neyða Jesú upp á neinn - það er sjálfsagt að við segjum frá okkar hugmyndafræði - en að segja að eitthvað sé staðreynd sem við getum ekki sannað er ekki sérlega gáfulegt. Það getur verið staðreynd í okkar huga og fullvissa, en það þarf ekki að vera það hjá öðrum. 

Það er mikilvægt að kenna börnum frá grunni gagnrýna hugsun og leyfa þeim að finna síðan út hvað þau vilja gera og jafnframt læra af þeim og þeirra hugsanagangi.

Aðal málið er að upp vaxi góðar og sterkar manneskjur sem þora, mega og vilja vera þær sjálfar. 

Að hlýða Guði er ekki endilega að taka upp orð í bók og fara eftir því, það er að trúa því að við séum sköpun Guðs og að okkur sé gefin sú skynsemi og það hjarta að gera gott okkur og náunga okkar til heila.  

Allt hér niðurskrifað er mín sýn,  ég virði annarra sýn á meðan hún er ekki slík að hún bitni á meðbræðrum og systrum eða verði til fordóma í þeirra garð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hver einasta manneskja á að vera heiðarleg við sjálfa sig... að trúa einhverjum galdrasögum er ekki heiðarlegt, að boða galdrasögur er beinlínis glæpsamlegt.

Ég veit að trúuðum getur reynst erfitt að koma trúarvírusnum úr huga sér, þeir snúa upp á sig, hatur verður ást, miskunanrleysi verður miskunn... þessu vefur fólk um huga sér... rétt eins og maður sem fær póst frá Nígeríu.... same thing; Eini munurinn liggur í því að kirkjan náði að gera svindl trúarbraðga að hornsteinum og svona.

Gleyma Jesú, gleyma öllum guðum... ekki reyna að blekkja ykkur, þið vitið vel að á bakvið þá blekkingu er gulrótin um eilíft líf... sem haugalygi frá a-ö

DoctorE (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þína lífssýn Doctor E, passaðu þig á fordómunum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.5.2010 kl. 12:33

3 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Vandinn við trú og kærleik í sömu sæng er að fólk á það til að telja trúarstappið sjálft vera kærleik - sbr. kristniboð í Afríkulöndum sem stundum snýst upp í ýmsan ófögnuð.

Eða margar óskiljanlega ósmekklegar messur sem haldnar eru í kirkjum landsins sem prestarnir eru hættir að sjá að séu ljótar eða geti einu sinni verið það, því þeir skilgreina kærleik sem trú og trú sem kærleik.

Þess vegna þykir mér þetta dálítið varhugavert allt saman, en viðurkenni fúslega að það er allur gangur á þessu og það sem ég er að tala um kannski undantekningin - held samt stærri þátt en fólk gerir sér grein fyrir.

Dæmi um sóðamessur: http://www.kt.blog.is/blog/kt/entry/1054848/ og http://kt.blog.is/blog/kt/entry/1038594/

Fólk sem ekkert sér að þessum orðum biskups og sr. Svavars er samdauna svo jaðrar við geðveilu.

Annars að mínu mati fínog velviljuð grein , Jóhanna.

Kristinn Theódórsson, 22.5.2010 kl. 14:18

4 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

já, ég skil ekki þetta endalausa blaður um að trú sé kærleikur og kærleikur sé trú, fyrir utan að meika nákvæmlega engan sens, bara einhver stórfurðulegur leikur að orðum, þá er þetta svo yfirgengilega hrokafull afstaða að það nær engri átt. Hvaða rétt hafa kristnir á að eigna sér hugtak eins og kærleikur, og reyna svo að einoka það með einhverju orðahjali eins og t.d biskup, sem beinlínis kallar alla trúlausa kærleikslausa líka. Þetta er svo yfirgengilega ógeðfellt að manni svelgist hreinlega á. Trú er ekki kærleikur. Trú er trú, þ.e að taka einhverju sem sönnu án þess að hafa nokkrar heimildir fyrir því, og kærleikur er ást á náunganum. Þetta hljómar ekki einu sinni svipað.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 22.5.2010 kl. 15:15

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Komið þið sælir, tveir uppáhalds trúleysingjarnir mínir búnir að kommenta. Ég var að koma úr sveitaferð - sólbrennd, sveitt og sæt - tölvulaus svo ég vissi ekki á hverju ég átti alveg von í kommentakerfinu.  

Skrifaði ég einhvers staðar að trú sé sama og kærleikur?  Ef svo er þá biðst ég forláts, því að það er bara alls ekki rétt.  Finn það ekki sjálf í textanum en endilega bendið mér á hvar það er. 

Ég skrifaði m.a.: 

"En fyrst og fremst þarftu að lifa sem heil manneskja og koma fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig.  Það er alveg nóg."

Ég skrifaði líka að kærleikurinn trompaði allt.  Þá er ég ekki að meina einhvers konar kærleika sem stýriafli eða valdi,  heldur óeigingjörnum kærleika sem vill mönnum vel. 

Ég er alveg sammála því að það er stundum hroki falinn í  því sem fer fram í boðskap kirkjunnar.  Ég er ekki viss um að mennirnir geri sér endilega grein fyrir því. 

Það getur enginn einn hópur eignað sér kærleikann, það er alveg víst og það nægir ekki að stilla sér upp í einum hópi til að vera "kærleikans megin" í lífinu. 

Það er nákvæmlega það sem frásagan um miskunnsama Samverjann segir. 

 Um leið og ég virði trúleysi sem lífsskoðun og tel að það sé á engan hátt hægt  að stimpla menn  góða eða vonda eftir því hvort þeir telji sig trúaða eða trúlausa,  þá má virða þá sem eru trúaðir  líka á meðan þeir hreykja sér ekki hærra eða troða sinni trú upp á aðra. 

Ég upplifi hér að DoctorE sé að reyna að troða trúleysi upp á mig og fleiri, ekki að það virki vel.   

Ég hef stórar efasemdir um trúboð í skólum, og finnst líka einkennilegt "jafnrétti" að barn sé skráð í trúfélag móður.  Trúarbragðafræðsla finnst mér þó sjálfsögð og það sama gildir um siðferðiskennslu og heimspeki fyrir börn,  og finnst reyndar að megi leggja mun meiri áherslu á það en nú er gert. 

Ástæða pistilsins var að svara spurningu ungs manns,  en ég ákvað að svara henni opinberlega þar sem ég veit að margir eru í sömu pælingum.  Þetta er það sem mér finnst, en ég er dæmd bæði af fólki meðal trúaðra sem  trúlausra.  Af trúuðum eflaust vegna þess að ég fylgi ekki einhverri stefnu eða vegna þess að ég fylgi ekki hefðinni og þyki "óhlýðin."  Af trúlausum vegna þess að þeir eru bara á móti trú generalt - kannski einmitt vegna þess að það er ekki hægt að sanna hana  og telja hana komu illu til leiðar?

Jóhanna Magnúsdóttir, 23.5.2010 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband