Einn dag verður það "ekki frétt" að lesbía hafi verið kosin í biskupsembætti

Einu sinni var það frétt í hinum vestræna heimi að:

- konur fengu að kjósa 

- svartir fengu að taka sama strætó og hvítir

-  kona varð forseti 

-  svartur maður varð forseti 

 

Einn dag verður það bara þannig að það þarf ekki að taka fram kynið, litarháttinn eða kynhneigðina við frétt.   Þessi eða hin MANNESKJAN var kjörin í embætti. 

En þangað til eru það vissulega góðar fréttir að verið er að brjóta niður múra sem byggja á aðgreiningu vegna kynhneigðar.

 

Einn dag verður það EKKI frétt að lesbía verði kosin biskup 

 


mbl.is Lesbía kosin biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Mér finnst að með því að færa kynhneigð fólks í tal, með þeim hætti sem gert er í fréttinni, og hefur verið gert við stjórnarskipti á Íslandi, þá séu menn að opinbera fordóma sína, eins þótt þeir kjósi að nota viðurkennd orð til að fjalla um málið.

Flosi Kristjánsson, 15.5.2010 kl. 11:27

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst örla á neikvæðni með svona fréttatilkynningum, mátti ekki bara nefna hana með nafni.?

Ásdís Sigurðardóttir, 15.5.2010 kl. 11:52

3 Smámynd: Vendetta

Þessi erkibiskup af Canterbury, Rowan Williams, mælti fyrir því á sínum tíma að múslímsk sharia-lög yrðu tekin upp í Bretlandi. Svo að hann byggir sennilega andstöðu sína gegn samkynhneigð á Kóraninum.

Vendetta, 15.5.2010 kl. 12:21

4 Smámynd: Ragnheiður

Tek undir með þér Jóhanna. Einhverntímann verður þetta ekki frétt

Ragnheiður , 15.5.2010 kl. 12:44

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég sá ekki mikið um það í fréttum hér á Íslandi þegar að Eva Brunne var vígð Biskup í Svíþjóð á síðasta ári. Hún eins Mary Glasspool hefur lengið verið í sambúð með konu.

Ég sá heldur ekki neitt í fréttum um  Emmanuel Milingo kaþólskan erkibiskup í Zambíu sem er fjölkvænismaður.

Öll möguleg kynhegðun rúmast innan kristni enda kristnu fólki mest í mun að geta túlkað rit trúarinnar á sem frjálsastan hátt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.5.2010 kl. 12:49

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Og þannig eru syndir fortíðarinnar orðnar að dyggðum nútímans :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.5.2010 kl. 13:33

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Konur höfðu setið á konungsstóli sem ríkjandi drottningar mörgum öldum áður en þær voru kosnar sem forsetar – bæði í kaþólskum löndum og prótestantískum.

Hitt beinist gegn boðum fagnaðarerindis kristindómsins, að samkynhneigður aðili í sambúð með öðrum slíkum sitji í embætti prests eða biskups.

En sumir kæra sig kollótta ...

Jón Valur Jensson, 15.5.2010 kl. 14:46

8 identicon

Ég verð nú að taka undir með Jóni Val í þessu.

Samkynhneigð fer ekki saman með leiðtogahlutvekri í kristilegri kirkju.  Ef menn ætla að breyta boðskap og reglum biblíunnar eftir tíðaranda og henntisemi hverju sinni þá fer boðskapurinn sem þeir flytja nú að verða ansi þunnur og í raun ekki lengur boðskapur jesú krist og ekki kristin trú lengur.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 15.5.2010 kl. 15:01

9 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Ekki myndi ég nú vilja kæri skólastjóri, afleggja hugtökin karl og kona, þá held ég að lífið yrði óskaplega litlaust. Að ég tali nú ekki um málfræðina.

Ég á erfitt með að skilja þessa þörf að gera hið beina bogið. 

Kristinn Ásgrímsson, 15.5.2010 kl. 17:08

10 identicon

Það er fólk eins og þið Jón Valur, sem komið óorði á kristna. Til allrar hamingju hef ég þekkt kristið fólk sem trúir á guð en ekki á einhverja skræðu, setta saman af allskyns gömlum ritum eftir meira eða minna fordómafulla vitleysinga.

Örn Ólafsson (IP-tala skráð) 15.5.2010 kl. 19:51

11 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Who cares? Kristnin er hvort sem er hálfstolin og skrumskæld vara út teygjuefni, með allri virðingu fyrir þeim sem það klæðir. Hins vegar tel ég að konur með dýpri raddir en gengur og gerist séu trúverðugri biskupar en þær naglalökkuðu. Allir þekkja orðatiltækið Enginn verður óbarin lesbía. ... Nei ég tek þetta allt aftur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.5.2010 kl. 20:07

12 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

...og einn dag eigum við öll eftir að hlægja af þessu bronsaldarblaðri forfeðra okkar, ekki bara ég og nokkrir aðrir.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 15.5.2010 kl. 20:30

13 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Mörgum er sérstaklega í mun að breyta kristinni kenningu þó þeir þekki hana bærilega vegna ýmissa hagsmuna, td. kvennabaráttu, kynjafræða, osfv. Öðrum sem ekki þekkja kristindóminn er sama þó hann sé skrumskældur í takt við nýjar tískusveiflur og áróður. Vita etv. ekki hvað breytingin felur í sér. Kristin kirkja fordæmir ekki samkynhneigða en er á móti kynlífi þeirra. Hún veit eins og satt er að kynlíf manna er enginn mælikvarði á innsta veruleika þeirra (andstætt því sem nútíminn telur) heldur getur það tekið á sig ýmsar myndir sem á endanum reynast hjómið eitt.

Guðmundur Pálsson, 15.5.2010 kl. 23:26

14 Smámynd: Jens Guð

  Einn góðan veðurdag skiptir ekki máli og verður ekki fréttaefni hvort manneskja er kona eða karl,  svört eða hvít,  samkynhneigð eða gagnkynhneigð,  brúneyg eða bláeyg:  http://www.youtube.com/watch?v=vPZydAotVOY

Jens Guð, 15.5.2010 kl. 23:49

15 Smámynd: Dingli

Þá fyrst verður Kári klári frægur, þegar hann finnur litning þann sem kynvillugenið liggur á.

Dingli, 16.5.2010 kl. 04:09

16 identicon

Já nú er það nýjasta sem er orðið þrælpólitískt að konur giftar muslimum megi ekki nota BURKU á almannafæri??   Jú köllunum þeirra er illa við að aðrir karlmenn sjái andlit þeirra??  Það væri mesta blessun heimsins fyrir konur og börn að því ofstæki og ofríki karlaveldis þessa trúflokks linni þar sem ekkert er skrifað um BURKUNA í hinni helgu bók þeirra.  Fjölkvæmni er í lagi og giftast börnum er í lagi??  Er ekki eitthvað að hér??   Hvað með sæmdarmorð sem stunduð eru í Evrópu af föður eða bróður??  Hvað skyldi hafa komið fyrir svona einstaklinga andlega??  Getur verið að uppeldið hafi eitthvað með þetta að gera?  Örugglega það að klæðast sprengjuvestum bæði konur karlar og ungmenni til að deyða aðra eða aka bifreiðum hlöðnum sprengiefni til að drepa nógu marga áður en þau fara í einhvern dýrðarljóma sem þeim var talin trú um er sjúkt og það er eitthvað mikið að.

Yfir 300 manns hafa látið lífið og á annað þúsund slasast við þessi hryðjuverk sem beinast að þeirra eigin fólki.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 09:27

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Góðan dag,

hér hefur margt verið rætt í fjarveru minni, en ég skellti þessu bloggi inn í gærmorgun og fór svo í sveitaferð! 

Ég hef því miður ekki tíma til að svara hverjum og einum efnislega, þakkarverð eru þó innleggin öll, en sjálf er ég hrifnust af því sem er uppbyggilegt og mannbætandi. En svona almennt út frá öllum innleggjum langar mig að bæta við eftirfarandi:

Í dag ER það frétt þegar lesbía er biskup og þess vegna er það tekið fram í fyrirsögninni. Það er von mín að í framtíðinni skipti kynhneigðin ekki máli og þurfi hreinlega ekkert að taka það fram. Í dag er það að sjálfsögðu fréttnæmt, því það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist.  

Segjum að við sæjum frétt, "lesbía vinnur í 100 m hlaupi" .. slík frétt þætti okkur (flestum) absúrd. 

Það er annar handleggur hvort að kirkja með svona stéttaskiptingu  leikmenn, prestar, biskupar, páfi o.s.frv. er til góðs eða hreinlega eitthvað sem Jesús ætlaðist til?  Það held ég reynda ekki og held að í raun sé kirkjan - hvort sem er lúthersk eða kaþólsk búin að villast ansi vel frá einföldum boðskap kristinnar trúar. 

Rætt er um fagnaðarerindi kristindómsins,  fyrir mér er það nú bara að Jesús reis upp frá dauðum,  í þeirri merkingu að við erum enn að tala um hann í dag, hann er enn veruleiki fyrir mörgu fólki.  Meira að segja veruleiki þeirra sem aldrei hafa lesið Biblíuna, en upplifa eða finna fyrir þessari mildu mynd Jesú, sem bauð allt fólk velkomið.  Þá er ég ekki að tala um fólk sem leitar í ritningarversum að neikvæðum hlutum um annað fólk, til að upphefja sjálft sig eða kynhneigð sína svo að gagnkynhneigðin megi vera ríkjandi. 

Leiðtogahlutverk í kristinni kirkju krefst einskis nema góðmennsku í garð náunga okkar.  Og hverrar kynhneigðar við erum hefur nákvæmlega ekkert að gera með góðmennsku okkar og ég skil bara hreint út sagt ekki svona yfirlýsingar eins og 

"Samkynhneigð fer ekki saman með leiðtogahlutvekri í kristilegri kirkju."

Hér er enginn að tala um að afleggja hugtök, átta mig ekki á þeirri niðurstöðu út úr umræðunni. 

Það er víða pottur brotinn eins og Þór bendir á hér í innleggi 09:27 -  Ég hef áður rætt það hversu hættulegt er að byggja samfélag á fornum hugmyndum manna og þörf kirkjunnar sem okkar allra til að lifa í nútímanum. 

Ekki lifa samkvæmt fornum ritum. 

Hér er ekki verið að ræða að gera beint bogið, heldur að við getum öll staðið bein og sátt sem manneskjur og sinnt okkar störfum án þess að sérstaklega þurfi að taka fram kyn, kynhneigð, litarhátt o.s.frv. 

Fyrir þá sem eru mjög uppteknir af orðum Biblíunnar, þá má ekki strika út orð Páls í Galatabréfinu:  "Þið eruð öll eitt í Kristi" ..   það er ekkert "nema" þarna og því sé ég engan grunn fyrir ykkur sem sjáið rautt yfir því að samkynhneigðir séu valdir til leiðtogastarfa í kirkjum nema eigin fordóma. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2010 kl. 10:04

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Geri hér tvær athugasemdir við svar þitt, Jóhanna:

1) "Rætt er um fagnaðarerindi kristindómsins, fyrir mér er það nú bara að Jesús reis upp frá dauðum, í þeirri merkingu að við erum enn að tala um hann í dag, hann er enn veruleiki fyrir mörgu fólki."

"Í þeirri merkingu að ..." – Áttu við, að Jesús hafi ekki risið upp frá dauðum í raun og veru, heldur í einhverri allt annarri merkinu? Þá ertu með komin út í umtúlkun í takt við dr. Gunnar Kristjánsson, en ekki í samræmi við boðun postulanna og trú kristinna manna um aldir. Hafirðu ekki verið með þessa umtúlkun, varstu einfaldlega að tala með óljósum hætti, en við þurfum að fá skýrt svar.

2) "Þá er ég ekki að tala um fólk sem leitar í ritningarversum að neikvæðum hlutum um annað fólk, til að upphefja sjálft sig eða kynhneigð sína svo að gagnkynhneigðin megi vera ríkjandi," segir þú þarna á einum stað. Ekki er ljóst, hvort þú ert að fullyrða þetta um þá menn almennt, sem á grundvelli Biblíunnar hafna hjónavígslu samkynhneigðra, en mér virðist ástæða til að minna þig á þá hvatningu Páls postula í Títusarbréfi, 3.2, að "lastmæla engum, vera friðsöm, sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd."

Sé það svo, að þú alhæfir þarna um ástæður þeirra kristnu manna og kvenna, sem andmæla í nafni Ritningarinnar hjónavígslu tveggja karla eða tveggja kvenna frammi fyrir altari kirkjunnar, þ.e.a.s. ætlir þeim þann ljóta hug að "leita(r) í ritningarversum að neikvæðum hlutum um annað fólk, til að upphefja sjálft sig eða kynhneigð sína svo að gagnkynhneigðin megi vera ríkjandi," þá ertu sannarlega að ætla þeim illan hug og annarlegan tilgang og sjálfsupphafningu. Hefurðu ekki þar með gengið harla langt í þá átt að lastmæla kristnum systrum og bræðrum fremur en að vera "sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd"?

Myndirðu t.d. á prestastefnu nota "rök" eins og þessi, þ.e. að brennimerkja þannig andmælendur þína með því að eigna þeim ljótan og eigingjarnan tilgang, þegar þeir leita upplýsingar í Biblíu sinni?

Gengur þeim, sem andmæla þér í þessu máli, illt eitt til? Ert þú ein og þínir samherjar með sannleikann í höndunum og réttan lesskilning á Biblíunni?

Er þér gersamlega fyrirmunað að sjá, að til sé annað kristið fólk, sem vill beygja sig undir orð Guðs, leita vilja hans og láta hann móta afstöðu sína? Þarftu að eigna slíku fólki bæði annarlegan tilgang, neikvæði um annað fólk og viðleitni til að hefja sjálft sig upp yfir aðra?

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 11:53

19 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Fyrsti byskupinn í kristni var kona Lydia hét hún, Páll postuli skipaði hana í embætti, sennilega hefur hún verið samkynhneigð.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.5.2010 kl. 12:16

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tilhæfulaus er þessi tvíþætta fullyrðing Kristjáns Sigurðar.

Postulasagan getur tvívegis um Lýdíu (og það eru einu staðirnir í Nýja testamentinu um hana): 16.14: "Kona nokkur úr Þýatíruborg, sem sótti samkundu Gyðinga, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar og hún bað okkur: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar fyrst þið teljið mig trúa á Drottin.“ Þessu fylgdi hún fast fram." – og Post. 16.40: "Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan hédu þeir af stað."

Þarna er Lýdía alls ekki kölluð biskup né með vígslu aðra en venjulega skírn. Og að sjálfsögðu er fráleitt að gefa sér þessa kjánalegu ályktun (ef ályktun skyldi kalla!): "sennilega hefur hún verið samkynhneigð"!

Kristjáni Sigurði Kristjánssyni gengur naumast sannleiksást til að skrifa svo!

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 13:26

21 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

1) "Við þurfum að fá skýrt svar" segir þú Jón Valur, varðandi hugmyndir mínar um upprisuna. 

Við munum öll rísa upp frá dauðum "í raun og veru" en kannski ekki á þann hátt sem hefðbundið telst.  Ef þú vilt leita að hugmyndafræðinni í Biblíunni, þá má helst líkja þeim líkama sem við rísum upp í við dýrðarlíkamann sem talað er um í Filippíbréfi. Í Jóhannesarguðspjalli er talað um Jesú sem "dýrlegur er orðinn."

Það má ekki taka frásögur Bibliunnar um upprisu líkama of bókstaflega.  Í lífi okkar erum við að upplifa upprisu -  það þekkir fólk sem hefur farið á botninn af einhverjum ástæðum.  Dagarnir rísa upp fyrir fólki og fólkið með. Frásögn Bjarna Eyjólfssonar í bókinni "Úr djúpi reis dagur" er ein slík upprisulýsing. 

-----

2)  Jón Valur, Biblían er þannig verk að í henni má finna allt milli himins og jarðar. Hægt er að nota tilvitnanir úr henni máli sínu til stuðnings, bæði í jákvæðum og neikvæðum tilgangi.  Þar eru þversagnir og mótagnir.

Nýlega á bloggi sr. Þórhalls Heimissonar talaði ég um að við ættum að láta hjartað ráða. 

Ég skrifaði:  

"p.s. kærleikurinn kemur hvorki úr bók né Cheerios pakka. Hann kemur frá hjartanu, hjartanu sem Guð skapaði og þar sem andi Guðs býr.   Guð skapaði ekki Biblíuna,  heldur skapaði hann menn til að skapa Biblíuna, lesa hana, túlka, endurrita, upplifa o.s.frv.  og það er aðeins með anda góðs Guðs sem við getum lesið Biblíuna. Biblían er dauður hlutur án mannsins."

Þá svarar þú og finnur eitthvað neikvætt sem Jesús er látinn hafa sagt: 

""Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi," sagði Jesús (Mt. 15.19), þarf að minna þg á það, Jóhanna? Þess vegna ættirðu að varast þessa rómantísku guðfræði, nýguðfræðina, sem á einmitt uppruna sinn á 19. öld, þegar rómantísk hugmyndafræði var í gangi um ótakmarkaða möguleika mannsins og að eðli hans væri nógu gott til þess að þurfa ekki annað en fyrirmynd Jesú til að geta gert vel. Annað kenndu bæði Páll og Lúther – og Jóhannes skírari og Jesús. "Yður ber að endurfæðast," sagði hann, – að endurskapast af Anda Guðs í iðrun og afturhvarfi. Kærleikurinn, sem Kristur talar um, er ekki verk manna, heldur Guðs."

Kom þetta s.s. helst upp  í huga þinn þegar ég talaði um að kærleikurinn kæmi úr hjartanu sem Guð skapaði? 

illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi ??

Það erum VIÐ sem veljum það sem kemur frá hjörtum okkar,  og ef við náum ekki að hafa kærleikann með í verki og hinn góða anda þá getur verið að allt áður talið komi þaðan. En af hverju datt þér ekki þetta vers í hug úr Jóhannesarguðspjalli? 

"Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.“ Þarna átti hann við andann er þau skyldu hljóta sem á hann trúa."

Ekki á ég von á að Jesú hafi verið að tala þarna um að illar hugsanir, lastmælgi o.s.frv. væri falið í þessu lifandi vatni? 

Ég trúi á Jesú, en ég trúi ekki á Biblíuna. Mér finnst engin ástæða til að varast rómantíska nýguðfræði og vilja trúa því að í eðli sínu sé maðurinn góður og óska þess að einhvern timann nái heimurinn því marki að verða algóður. 

Með því þurfum við að hætta að skipta okkur niður í 1. og 2. flokks, nú eða 3. flokks manneskjur eftir kyni, kynhneigð, litarhætti o.s.frv. 

Við eigum að trúa á Guð með glöðu geði og af einlægni en ekki "beygja okkur undir vilja Guðs" .. Þess á ekki að þurfa.  

-- 

Það er rétt hjá þér að ég geng hart fram, og ég tel að það séu nokkrar ástæður fyrir því að fólk vill ekki samþykkja ein hjónavígslulög á landinu: 

 Eigingirni sumra gagnkynhneigðra  (þeir vilja halda hjónabandinu fyrir sig - og hafa einkarétt á kynlífi) 

Fókus ákveðinna einstaklinga á neikvæðum textum í garð samkynhneigðra  (Þeir sjá einungis ritningartexta sem banna samlíf fólks af sama kyni, en horfa fram hjá ýmsum textum sem banna ýmislegt annað en láta í léttu tómi liggja. Jafnframt láta þeir texta um kærleikann ekki eiga við,  eins og að elska náungann eins og sjálfan sig.)

Hvað á ég við? 

Mér finnst ekki hægt að taka fram Biblíuna og benda á setningar til þess að fordæma líf þá aðallega kynlíf annarra - þeirra kynlíf sé synd á meðan þitt eigið er bara hallelúja amen! 

Sannleikurinn hlýtur að liggja í því að við verðum að  elska hann eins og okkur sjálf.  

Ég skal líta í eigin barm - nú eða nafla, eins og bloggið mitt ber með sér - og skoða hvaða sárindum ég veld.  "Brennimerki" er nú full hart til orða tekið og sem betur fer eru ekki margir sem tala eins og þú. 

Persónulega finnst mér að þessi umræða ætti að vera óþörf og er orðin hundleið á henni,  sem betur fer mun ljósið sigra myrkrið  og  ný kynslóð  vera víðsýnni og betri en sú sem er nú að hverfa. 

Er bjartsýn og tel að allt muni fara vel með Guðs hjálp og góðs fólks.

Gleði, gleði, gleði. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2010 kl. 13:44

22 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Bendi svo kristnum meðbræðrum og systrum að hlusta á þennan

söng "Ég er eins og ég er" og leyfa svo hjarta sínu að ráða, að sjálfsögðu með anda Krists.

Ég trúi ekki að nein manneskja sem kallar sig kristna vilji senda aðra inn í myrkur lokaðs skáps.

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2010 kl. 13:56

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ósköp eru þetta dapurleg svör frá þér, Jóhanna, fyrir þína guðfræði.

Ég fagna því þó, að í fyrra og styttra svarinu, þessu um upprisuna, virðistu hafna leið dr. Gunnars Kristjánssonar og þeirra erlendu manna eins og Bultmanns, sem hann hefur tekið sér til fyrirmyndar með umtúlkun og "afmýthólógíseringu" upprisunnar.

Um svör þin við seinni þætti innleggs míns skal ég ræða hér á eftir.

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 14:20

24 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Lýdía var kaupmaður frá Þýratíru og settist að í Filippí. Hún er fyrsti nafngreindi Evrópubúinn sem tekur kristni og hún átti engan mann.

Hús hennar verður miðstöð kristnihalds í Filippí. Því má álykta að hún hafi verið biskup og ekki nóg með það heldur að hún hafi verið samkynhneigð ofan í kaupið.

En ef notað er brot af kostulegri röksemdafærslu ýmissa "fræðimanna og farísea" má alveg segja að hún hafi verið Páfi.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.5.2010 kl. 14:34

25 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þvæluuhugsun er þetta, Kristján Sigurður Kristjánsson, gersamlega órökstuddar "niðurstöður", sem þar að auki mæla bæði þvert gegn því, sem Páll boðar í bréfum sínum, og gegn öllum kristnum praxís í fornkirkjunni. Hvað rekur þig til svo grautarlegra ályktana?

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 17:31

26 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það má líka færa gild rök að Páll hafi líka verið samkynhneigður og mjög kynferðislega þroskaður sem slíkur, hann er einhleypur, boðar ábyrga kynferðislega hegðun og fordæmir kynferðislega misnotkun. Þetta kemur skýrt fram í skrifum hans.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.5.2010 kl. 17:51

27 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Reyndar var samkynhneigð og hefur alltaf verið sjálfsögð svo sjálfsögð að hugtakið samkynhneigð er vart hundrað ára gamalt.

Hugtakið samkynhneigð er afurð þýskra fanta sem helltu saman í pott öllu því versta frá Lúter, Marx, Darvín og fleirum suðu þetta saman og helltu helvítinu yfir aðallega austur Evrópu og Þýskaland og áttu sitt hámark kring um 1943.

Sömu aðferð nota ýmsir um það sem Páll hefur skrifað.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.5.2010 kl. 18:37

28 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég skil ekkert í þér, Mofi, að láta þetta rugl standa hér.

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 23:16

29 Smámynd: Jón Valur Jensson

Æ, það var víst hún Jóhanna sem er gestgjafi hér (Mofi er annars staðar með sína umræðu um málin). Og hún unir líklega ágætlega við svona þokuhugsun sem sennilega er reyndar til þess eins að sproksetja málið allt og e.t.v. til að rugla suma óupplýsta. Má reyndar vart á milli sjá, hvort er lakara, þetta bull um Pál og Lýdíu eða ábúðarmiklar yfirlýsingar nýhyggjuprestanna um að þeir séu Jesú menn og kærleikans í máli þessu, en hinir flestir fordómafullir menn sem gangi illt eitt til.

Jón Valur Jensson, 16.5.2010 kl. 23:23

30 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

?

Jóhanna Magnúsdóttir, 16.5.2010 kl. 23:24

31 Smámynd: Dingli

Trúi hvorki á Guð, Jésúss, né Biblíuna.  Hin "helga" bók, er þó stórmerkilegt rit eða ritsafn. Samansafn visku og siðfræði víðsvegar að, sem hugsuðir og lærdómsmenn fyrri tíma tóku saman og skráðu. Margt af boðskap Biblíunnar er enda að finna í allskonar átrúnaði þúsundum ára áður, en hann festi rætur í þeirri bók.

En það sem ég vildi sagt hafa, er að ólíkt hugnast mér betur biblía Jóhönnu en Jóns Vals.

Dingli, 16.5.2010 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband