Um daginn og (Lauga)veginn og "Catwalk"

Það þarf ekki mikið til að gleðja mig. Góð ganga upp og niður Laugaveginn í góðum félagsskap er nóg fyrir mig. Í dag var félagsskapurinn Lotta systir og þessi LL blanda er bara virkilega góð; þ.e.a.s. Lotta og Laugavegurinn.

Ég átti eftir að vinna smá skipulag fyrir skólann svo ég var að því í ca. tvo tíma, en þegar því var lokið þá sturtaðist ég og svo var haldið í göngu að heimsækja mömmu á Droplaugarstaði, en við Lotta höfðum ákveðið það í morgunkaffinu - en við búum í mínútufjarlægð þannig  sameiginlegt morgunkaffi er svolítið daglegt brauð eða a.m.k. helgarbrauð hjá okkur. 

Jæja, hvert var ég komin, hoppaði sem sagt kát út um dyrnar - og þá beið Tómasína mín á pallinum,  og naut sólar. 

april_mai_2010_004.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég rölti þessa mínútu yfir til Lottu og mætti þar Snæfríði Charlottudóttur, sem vildi alls ekki láta taka mynd af sér, en ég náði hnakkasvipnum af henni! 

april_mai_2010_014.jpg  Lotta var klár í Laugaveginn, og við báðar vel dúðaðar lögðum af stað í leiðangurinn.  Fundum þó fljótlega að veðrið var mun betra en við áttum von á og fór þá systir mín að fækka fötum.  Við ákváðum að koma við á Austurvelli til að tékka á mótmælum eða slíku, en að sjálfsögðu voru þar heilmikil 1.maí hátíðahöld sem við vissum ekkert af, frekar svona lítið að fylgjast með, virðist vera! 

Jæja, Austurvöllur var saltaður, en upp Laugaveginn gengum við rösklega, enda aldrei rölt í okkar fjölskyldu. Mættum þar manni á Bermuda skyrtu og stuttbuxum og pældum í því eftir hvaða veðurspá hann efði farið.  Tókum síðan beygju upp Barónsstíg og beina leið á Dropó þar sem mamma beið spennt.  Það er alltaf pinku erfitt að fara til hennar, hana langar oftast að koma með, en á morgun sæki ég hana og hún kemur í mat. Hún sagði tímann svo lengi að líða og að á deildinni hennar eru "veikir menn" sem koma inn í herbergið hennar.

Úff, hvað þetta er vont að þurfa að lifa við svona. Þess vegna á að njóta hverrar mínútu, grípa daginn og lifa hátt meðan við getum!  Við sátum og spjölluðum við mömmu, skrifuðum í gestabókina hennar eins og alltaf og hún yfirheyrði Lottu hvort að hún hefði ekki örugglega skrifað að ég hefði líka komið.  Reyndar söng ég stef - má ekki gleyma að segja frá því - úr "Je ne sais quoi" fyrir mömmu og henni fannst að ég gæti farið í Eurovision.  Takk mamma Heart en það eru aðeins hún og Ísak Máni  sem hafa trú á sönghæfileikum mínum.  Tölum ekki meira um það. 

Við kvöddum mömmu, með loforði um að ég sækti hana klukkan fimm á morgun.  Gengum út í blíðuna aftur sem reyndar var orðin óblíðari, en það var vegna þess að sólin hafði tekið pásu. 

Við virtum fyrir okkur Heilsuverndarstöðina, eitt glæsilegasta hús Reykjavíkur sem stóð þarna tóm og einmana, en héldum svo "straight" á Skólavörðustíginn, þaðan niður á Laugaveg aftur, þar sem við mættum Bahamagaurnum aftur!  Okkur datt jafnvel í hug að einhver hefði bara manað hann upp í að ganga svona upp og niður Laugaveg, en auðvitað spurðum við ekki. 

Haldið var niður á saltaðan Austurvöllinn, sá þar m.a. Jón Val Jensson með Icesave skilti, og mér sýndist að maðurinn þyrfti eiginlega að komast í klippingu!   Settumst niður fyrir utan Thorvaldsen og fengum okkur Cappuchino og Lotta auðvitað Latte því það passar betur við nafnið hennar.  Því miður var þar fólk sem var búið að drekka einum, tja nei kannski þremur of marga stóra bjóra, og var farið að segja "haltu kjafti" við þjónustufólkið. 

Ótrúleg þolinmæði sem þar var sýnd, en kannski ekki eins þægilegt fyrir þá gesti sem voru edrú, eða svona þokkalega edrú.  Gleymdi auðvitað að segja frá því að Lotta hitti flest allt samstarfsfólk sitt af leikskólanum á leiðinni, allt hresst lið.  Ég hitti hana Ragnhildi sem er fyrrverandi nemandi og fögnuðum við því að hittast nú einhvers staðar annars staðar en á Facebook, sem virðist vera orðinn aðal staðurinn til að hitta fólk í dag. Ekki góð þróun. 

Jæja, haldið heim á leið og þá mætti ég hvítri kisu - held kisunni úr sögunni um Láka á Ránargötunni og hún var svo elskuleg að stilla sér upp fyrir myndatöku. 

april_mai_2010_015.jpg
Það má kannski kalla þessa laugardagsgöngu "Catwalk" !

Heim kom ég - sæl og glöð með lungun full af góða veðrinu og þegar ég kom inn opnaði ég tölvuna, kíkti á póstinn og fékk skemmtilegt skeyti frá frænku minni (ég vona að ég megi segja frá þessu)  en hún er dóttir afasystur minnar, sem sagðist hafa lesið skrif mín, en hún hvatti mig til að taka vigslu og gerast biskup! .. 

Jæja, þetta er áskorun númer þrjú held ég, hinar tvær voru frá svona semi- trúlausum mönnum. Annar sagðist ætla að ganga í þjóðkirkjuna yrði ég biskup, hinn er sonur minn sem hefur óbilandi trú á mömmu sinni. Smile

Ég skal leggja mitt á vogarskálarnar að betra og bættara þjóðfélagi - þó það verði ekki í formi þess að vera biskup. Mér sýnist að hann Bjarni Karlsson væri kjörinn aðili í það hlutverk, eftir hans brilljant ræðu eftir prestastefnu.  Það er kominn tími til að uppfæra kirkjuna til nútímans.  Svo þarf að sjálfsögðu að hugsa að fleiri mannréttindum, eins og að allir fái sínum grunnþörfum fullnægt, þ.e.a.s. fái mat og húsaskjól - og reyndar elsku líka, hún er nauðsynleg, því manneskjan lifir ekki á brauði einu saman, heldur af ást, hlýju og vináttu. 

Eigum góðan laugardag, sem og aðra daga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég treysti þér til að gera þjóðfélagið betra, eigðu góða helgi og farðu vel með þig mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.5.2010 kl. 18:17

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Bjarni Karlsson er flottur, en það ert þú líka

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 1.5.2010 kl. 19:44

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk sætu

Jóhanna Magnúsdóttir, 1.5.2010 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband