Tvö ár liðin og Amarcord

Nú eru tvö ár liðin á morgun frá því að Unnur vinkona mín dó. Mér finnst best að hugsa það ekkert of djúpt því þá þykknar svo illilega upp inni í mér. Ég reyni bara að skauta á yfirborðinu.

Samband okkar Unnar var sterkt vinkonusamband. Við vorum eins og svart og hvítt, svo ólíkar. Hún dökk og ég ljós. En við áttum afskaplega sterka tengingu og vorum einhvern veginn svo samstíga í nördahætti okkar. Við áttum sameiginlegt áhugamál og það voru kvikmyndir. Reyndar á ég það enn og er enn nörd.

Að sjálfsögðu sóttum við Fjalaköttinn á sínum tíma, en verð að viðurkenna að oft voru myndirnar full djúpar. Einhvern tímann sprungum við úr hlátri þegar verið var í einhverri gáfumannamyndinni að taka gifsafsteypu af getnaðarlim manns. Fólk sat með franskar alpahúfur, kringlótt gleraugu og í röndóttum grænum, rauðum og brúnum lopapeysum (reyndar vorum við klæddar þannig líka) og horfði spekúlatívt á aðfararirnar. Við seinþroska og því varla vaxnar upp úr gelgjunni, þoldum ekki álagið og sprungum úr hlátri við allt annað en ánægju annararra bíógesta Tjarnarbíós. 

Okkur leiddist ekki.

Ein af myndunum okkar Unnar sem við sáum saman var Amarcord eftir Fellini. Mig minnir að hún hafi verið sýnd í Austurbæjarbíó. Þessi mynd er gerð 1973 en ég man ekki hvað við vorum gamlar. Ég man þó eftir strák sem okkur þótti sætur og eftir að menn fóru að synda í sjónum og sögðu að eistun væru eins og baunir á eftir. LoL 

Ég er félagi í kvikmyndaklúbb sem virkar svona eins og leshringur, þ.e.a.s við skiptumst á að sýna hvert öðru áhugaverðar myndir og ræða þær, og í kvöld er ég að fara að sjá Amarcord í annað skiptið á ævinni hjá vinum mínum Siggu og Leifi. 

Ég á örugglega eftir að hugsa mikið til Unnar minnar á meðan á myndinni stendur, enda eins og segir í upphafi bloggsins liðin tvö ár á morgun síðan hún kvaddi.  Ég samdi þetta ljóð þegar hún dó og birti það hér með aftur. Get ekki orðað vináttu okkar betur en það.  En ég sakna hennar og hlátursins hennar. Heart  Við kynntumst 13 ára gamlar, báðar nýju stelpurnar í bekknum. Ég feimin og til baka, en hún meira opin, en báðar svolítið skrítnar.

Þú komst  inn svo sérstök, svo sterk og svo svöl

Inn í bekkinn og varst nörd eins og ég

Við náðum því saman í hippaskóm og hjali

Fjalaketti og mali og enn meira tali

Þar til kennarinn sagði hingað og ekki lengra

og rak okkur fram á gang og þaðan ultum við heim

Í hláturskasti sem ætlaði aldrei að hjaðna

En nú hefur hlátur þinn hljóðnað

Þú kvaddir í nótt – þinn tími kominn til að fara...

Fara eitthvert annað, þangað sem ég kem síðar

Kem inn svo sérstök, svo sterk og svo svöl

Inn í himnasali og verð nörd eins og þú..

 

Hér er svo trailer Amarcord


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Krútta mútta!

Luv ya....

Eva Lind Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 18:34

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 26.1.2010 kl. 21:17

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 26.1.2010 kl. 21:36

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Falleg minníng...

Steingrímur Helgason, 26.1.2010 kl. 23:16

5 Smámynd: Jens Guð

  Ég er með ljóðadellu.  Enda fæddur og uppalinn í Skagafirði þar sem menn heilsuðust og kvöddust með því að kasta kveðju hver á annan í kvæðaformi.  Ef ég væri mjög gagnrýninn (sem ég er ekki)  myndi ég gera örfáar athugasemdir við ljóðið.  Eftir stendur að það er dálítið flott.  Eftir að hafa lesið bloggfærsluna (forsendur ljóðsins) er þetta áhfrifaríkt ljóð.  Fallegt og snertir mann.  Já,  þetta er fallegt og flott ljóð.

Jens Guð, 26.1.2010 kl. 23:41

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Eva dóttir og takk Hrönn, Ásdís og Steingrímur.

Takk Jens, ekki lýtur nú ljóðið neinum leikreglum um ljóðagerð .. það bara fæddist svona á "einu augabragði" eins og sumir myndu segja, þó ekki undir áhrifum áfengis hehe.. 

Takk aftur. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.1.2010 kl. 00:20

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. sá myndina í kvöld - hún er algjört konfekt kvikmyndagerðar og ég hafði í raun litlu gleymt á tja.. 32 árum, en ég hef verið ca. 16 ára þegar ég sá hana í fyrra skiptið.

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.1.2010 kl. 00:24

8 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 27.1.2010 kl. 06:48

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Jóhanna mín, við veljum okkur ekki fjölskyldu en við veljum okkur vini.  Þess vegna getur vinasamband orðið jafnvel nánara en fjölskyldubönd og kærara.  Þó það sé örugglega ekki í þínu tilviki, þá sýnir það samt hve náið samband getur myndast milli vinkvenna og karla.  Þá getur verið eins og hluta af manni vanti hreinlega.   Það er svo margt sem við þurfum að ræða og rifja upp með þeim sem okkur eru nánastir.  Þess vegna skil ég þig vel.  Blessuð sé minning hennar.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2010 kl. 09:07

10 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Það tekur enga stund að verða vinur,en það tekur alla ævi að vera vinur.

Ingvi Rúnar Einarsson, 28.1.2010 kl. 22:28

11 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég missti líka mína bestu vinkonu og var á hvefanum í því í mörg ár, skil þig svo vel elsku vinkona.
Kærleik til þín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.1.2010 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband