Með mjólk í tómatsósuflösku ..

Í góða veðrinu í gær fengum við systurnar okkur göngutúr upp á Droplaugarstaði að heimsækja mömmu. Ég las nokkrar blaðsíður úr Vigdísi, sem er framhaldssagan okkar og Hulda systir saumaði erfiðustu sporin í útsaumi sem mamma er að vinna við.

Á heimleiðinni ákváðum við að gagna "götu bernskunnar" en það er Grettisgatan. Við bjuggum þar á 57A, fyrst reyndar bjuggu mamma og pabbi á fyrstu hæðinni með eldri systkini mín tvö, en svo þegar ég kom í heiminn 1961 flutti fjölskyldan upp á aðra hæð í aðeins stærri íbúð; alveg þriggja herbergja og þar bættust við tvö yngri systkini mín og bjuggum við öll sjö manna fjölskylda til ársins 1969 þegar pabbi dó, þá fluttum við okkur upp á Háaleitisbraut. 

Við Hulda systir vorum auðvitað í Nostalgíukasti að rifja upp bernskuminningar, hver bjó í hvaða húsi o.s.frv.  Allt var einhvern veginn miklu stærra í minningunni og miklu fínna reyndar líka, sem það og var. Bakgarðurinn hjá Guðbjörgu, en það var frúin sem bjó á efstu hæðinni hjá okkur á átti reyndar alla Grettisgötu 57A,  var alltaf glæsilegur. Vel hirtur, girtur og reyndar þannig að við máttum ekki leika okkur þar yfir sumartímann.  Máttum þó gera snjóhús á veturnar. 

Þetta verður örugglega bara partur eitt af þessum Grettisgötuminningum, því þær eru svo margar, en eitt af því voru hópferðir í Hljómskálagarðinn, þar sem við fórum í endalausa leiki í steinunum. Við  söfnuðumst saman krakkahópur, yfirleitt fór ég með mínum eldri systkinum, a.m.k. systur,  og lögðum í leiðangur. 

Nestið samanstóð af mjólk í þveginni tómatsósuflösku, þó að alltaf væri svona któmatsósukeimur af stútnum. Mamma útbjó svo fyrir okkur samlokur, oftar en ekki þannig að saman var sett ein sneið franskbrauð  og önnur rúgbrauð og smjör á milli. 

Einu sinni sem oftar þegar hersingin var á leið í Hljómskálagarði slóst í fór nýr strákur í götunni. Hann var svolítið stælóttur og fór að skoða nestispakkann sinn á leiðinni. Mig minnir að hann hafi búið hjá ömmu sinni og afa. Hann þreif upp dýrindis tebollu, en bakarísbakkelsi var hátíðarfyrirbrigði hjá mér og minni fjölskyldu.  Leit á hana og sagði svo "oj, rúsínur" og henti bollunni ofan í kjallaratröppur á leiðinni.  Ég man ennþá sjokkið sem ég fékk, og hvað mig langaði næstum að stökkva á eftir bollunni. Ég leit þennan strák aldrei sömu augum eftir, að hafa hent svona dýrindis bollu í ræsið á meðan við hin vorum bara með hversdagslegt brauð í okkar farteski, en líklegast hefur hann bara viljað ganga í augun á okkur hinum greyið. 

--

Kannski er svona æskuminning bara lýsandi fyrir eitthvað sem er að gerast í dag. Einhver er einhvers staðar að henda verðmætum í ræsið, sem aðrir sjá ofsjónum yfir og hefðu fegnir vilja þiggja? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 18.1.2010 kl. 17:56

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.1.2010 kl. 00:50

3 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég kannast við tómatsósuflöskur með mjólk. Á mínu æskuheimili á þessum tíma voru sömu samlokurnar. Mitt vandamál var að geta ekki borðað þær svo mitt nesti var yfirleitt tekex með smjöri.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 19.1.2010 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband