Færsluflokkur: Ljóð
30.5.2011 | 07:07
Rauð kvöldganga í Vesturbænum ..
Fyrsta sem fyrir augu bar var ósköp rauður bíll
svo ákveðinn í hasti var kvöldsins rauði stíll
Strax á næsta götuhorni sá ég rólu rauða
gekk í rólegheitunum upp Túngötuna auða
Þarna má alveg vera úti að aka en ekki keyra inn
ekki hafði ég áhyggjur af því, í þetta sinn
Ljósastaurinn hneigði sig og góða kvöldið bauð
nóttin var á næsta leyti ofurlítið rauð
Gatan hennar Öldu, ljúf sem aldrei fyrr
og veröldin nam staðar, algjörlega kyrr
Brunahaninn beið þar stilltur, ávallt reiðubúinn
Mér sýndist hann samt vera bara orðinn býsna lúinn
Ljósleiðararnir leiddir eru nú í Vesturbæinn
laskaðar keilurnar lúlla sér, en nýtast vel á daginn
Af endurskini lýsti og á rafmagnskassa krotað
krassið er frekar sóðalegt en hefur engan rotað
Gamalt hjól og glitauga þekkt hefur betri daga
því fylgir örugglega mikil og merk, en ósögð saga
Við heimkomuna í húsið biðu túlípanar lúnir
kominn tími til leggja mig, frasar mínir búnir
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2011 | 08:04
Silfur Egils og Jóga á mánudagsmorgni ... "emotional landscape" ..
Ég veit að lagið Jóga var samið fyrir aðra Jógu, en ég held að allir megi taka það til sín. Sjálf er ég sem landið, hið tilfinningalega landslag, sem undir niðri krauma sem kvika í eldfjalli og langar til að brjótast út yfir jarðskorpuna. Elvira Mendez ýtti svolítið við kvikunni í Silfri Egils í gær, þegar hún kynnti ritið, eða ritlinginn: Indignez vous eftir hinn 93 ára Stéphane Hassel; "Cry out" er heitið á ensku .. Heykslist sagði Egill Helga. Ég myndi bara kalla ritið Vaknið! ..
Við þurfum að vakna og halda okkur vakandi. Ekki samþykkja samfélag þar sem fjármagn er sett í forgang en fólkið og félagsauður er sett aftar í röðina. Í bókinni er mælt með friðsamlegri byltingu gegn kapítalískri áhættufjárfestingu. En mikilvægt atriði sem kom fram í máli Elviru "The Banks will not change if we don´t change" .. (Bankarnir breytast ekki ef við breytumst ekki - eða breytum ekki hegðun okkar). Þetta fer eftir framboði og eftirspurn.
Við þyrftum að skoða þessi mál og ræða með röksemi í stað karpsemi (sem Gunnar Hersveinn kynnti - einnig í Silfri Egils) Góðu fréttirnar eru að það er fullt af fólki sem er mjög vel vakandi og margir farnir að ýta við þeim sem enn sofa eða eru fastir jafnvel í martröð. Að vera vakandi þýðir í þessu samhengi að vera meðvitaður.
..smá um karpsemi vs/röksemi:
Karpsemi er andstæða röksemi. Einkenni á karpi er löngun til að sigra andstæðing (viðmælandi þá álitinn andstæðingur) karpið verður persónulegt, og þar birtist vissa, og einkenni er að hlusta ekki á hinn. (könnumst við við þetta?)
Röksemi - þá er markmiðið að leita að svari, en svarið ekki fyrirfram gefið. Aðferðin er að hlusta, hlusta á umhverfið og viðmælandann og jafnvel að geta skipt um skoðun.
Við hljótum að sjá hver stigsmunurinn er á virðingu eftir hvort við körpum eða rökræðum. Getur verið að við séum ekki nógu góð í að virða hvert annað? .. Nú eða sjálf okkur, - því hver er sjálfsvirðingin í því að valta yfir náungann?
Brosið okkar kemur aftur á endanum til okkar og á það þá ekki líka við um ullið okkar ... "Ullaðu á heiminn og hann ullar á þig" .. ?
Þetta er spurning um að samþykkja ekki óréttlæti, við þurfum ekki að hneykslast eða hvað? Þurfum við ekki bara að fara að taka þjóðgildin hátíðlega, um heiðarleika, jafnrétti, o.s.frv. og meina það sem við segjum ... "Nennir einhver að vera heiðarlegur" ? .. spyr Gunnar Hersveinn.
"Thousands of candles can be lit from one candle without diminishing it's life. Happiness never decreases by being shared" - Buddha
Ljóð | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.12.2010 | 09:44
Að vera kát en ekki óþolandi kát ...
Í dag vaknaði ég glöð - og var með ákveðið lag í huga frá Peggy Lee - "vinkonu" minni frá unga aldri. Ég hafði nefnilega verið að hlusta á það á Youtube í gærkvöldi og var svo ánægð að muna eftir því í morgun og hlusta á það. Ég hljóma auðvitað eins og einhver óþólandi kát manneskja - en ef það gleður einhvern að ég er ekki óþolandi kát, þá játast ég því alveg. Ég er bara í uppbyggingu og það gengur svona fj.... vel! Framkvæmd og afleiðing er svona keðjuverkandi. Úr því ég get grátið yfir sorgarlögum þá get ég hlegið yfir gleðilögum og hvort á ég þá að velja svona í morgunsárið? ...
Það er fleira sem er gott að velja - og ég hlustaði á fólk í gær ræða það. Það er gott að velja það að tala ekki illa um aðra, gagnrýna ekki og kvarta. Um leið og við einbeitum okkur að því að leita eftir kostum þeirra sem í kringum okkur eru (stundum okkar nánustu) þá fer okkur sjálfum ósjálfrátt að líða betur - svo þetta er að sjálfsögðu allt upphugsað í eigingjörnum tilgangi. Þ.e.a.s. til að OKKUR líði vel.
Þetta er þessi pæling að meðmæla en ekki mótmæla. Tala vel um en ekki illa. Vera glaður með en ekki fúll á móti ... og svo framvegis.
Þetta er líka spurning um virðingu fyrir náunganum og ekki síst sjálfum sér. Að virða náungann þýðir ekki að við þurfum að virða skoðanir hans - þar liggur oft misskilningurinn.
En fyrst og fremst þurfum við að virða okkur sjálf, nærast á hinu góða til að geta gefið gott af okkur.
Ég óska öllum til hamingju með 1. desember 2010 en það er ekki verra að hafa svona 1. dag mánaðar sem svona upphafspunkt að því að íhuga sín viðhorf og hvort betur megi vanda sig gagnvart sjáflum sér eða öðrum.
Takið ekki textann um að henda pillunum of alvarlega ... Pillur eru ekki "all bad" ..
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.9.2010 | 13:16
Þyrnirós ...
Í heila öld svaf hún svefni værum
og sendibréfunum svaraði ekki.
Hún kaus að sinna ei kvenna kærum
og losa með því um ljóta hlekki.
Svo komu þar konur og kirkjuna kysstu
og fjölmiðlar fóru að hafa hátt.
Hún fann hún var komin á brúnina ystu
en karlabarn klagaði ljósvakans mátt.
"Það á ekki að fjalla um kynhvöt og kirkju
í hverskonar hvirfilvindi´ erum við lent?
Er ekki hægt að fjalla um garðyrkju
eða um kynferðisbrot bara svona almennt"?
Kastljósi vill hann frá kirkjunni beina
og leyfa þar pukri að grassera í friði,
en Jesús vill ekki neinu leyna
hann ávallt stendur með sannleikans liði.
Úr musteri reiður hann rekur út fjanda
og tendrar þar inni ljósið bjarta.
Burt ryki er blásið af heilögum anda
og friður Guðs ríkir í hverju hjarta.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.8.2010 | 22:06
Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
"Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
Hún er miklu dýrmætari en perlur.
Hjarta manns hennar treystir henni
og ekki er lát á hagsæld hans.
Hún gerir honum gott og ekkert illt
alla ævidaga sína.
Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
Hún er eins og kaupförin,
sækir björgina langt að.
Hún fer á fætur fyrir dögun,
skammtar heimilisfólki sínu
og segir þernum sínum fyrir verkum.
Fái hún augastað á akri kaupir hún hann
og af eigin rammleik býr hún sér víngarð.
Hún gyrðir lendar sínar krafti
og tekur sterklega til armleggjunum.
Hún finnur að starf hennar er ábatasamt,
á lampa hennar slokknar ekki um nætur.
Hún réttir út hendurnar eftir rokknum
og fingur hennar grípa snælduna.
Hún er örlát við bágstadda
og réttir fram hendurnar móti snauðum.
Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói
því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.
Hún býr sér til ábreiður,
klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.
Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum
þegar hann situr með öldungum landsins.
Hún býr til línkyrtla og selur þá
og kaupmanninum fær hún belti.
Kraftur og tign er klæðnaður hennar
og hún fagnar komandi degi.
Mál hennar er þrungið speki
og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar
og etur ekki letinnar brauð.
Börn hennar segja hana sæla,
maður hennar hrósar henni:
Margar konur hafa sýnt dugnað
en þú tekur þeim öllum fram.
Hvaðan skyldi nú þessi speki vera komin, og skyldi letinnar brauð vera pizza?
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2010 | 07:23
Góðan dag veröld - Síberíukúrinn rifjaður upp
Það var árið 2006 sem ég fór að grínast með einhvers konar kúr sem ég gaf heitið Síberíukúrinn. Það er ekkert "vit" í honum en virkar vel fyrir þá/þær sem eru orðnir örvæntingarfullir með kílóin sín.
Hann er ekki eins dramatískur og Landspítalakúrinn sem gekk hér mun fyrr, en það var megrunarkúr sem uppistóð af svörtu kaffi, molasykri og skinku eða einhverju álíka gáfulegu en sumir keyptu, já ótrúlegt en satt. Mataræðið skipitir eflaust um 70% þegar þú ert að reyna að létta þig, en hreyfing hjálpar svo sannarlega til, auk þess sem það styrkir.
Ég, ásamt fleirum eigum það til að safna óþarfa forða yfir veturinn - og tja, jafnvel yfir sumarið líka. En þeir sem eru agaðir geta náð af sér kílói á viku með réttu mataræði og hreyfingu og í dag stefni ég á það. Það þýðir að í dag er fyrsti dagur í "Síberiukúr" hjá mér og systur minni, en ég ætla að vera "sponsorinn" hennar í aðhaldinu.
Auðvitað á Síberíukúrinn ekkert skylt við Síberíu fyrir utan það að virka frekar óspennandi, en það er hægt að leika sér með ýmislegt þar. Erfiðast er að sleppa kaffinu.
Svona lítur hann út í sinni einföldustu mynd:
Sleppa:
- öllum sætindum
- snakki
- öllu brauði nema spelt- og hrökkbrauði
- hvítu hveiti og hrísgrjónum
- allri mjólkurvöru
- majonessósum
- kaffi og gosi
- áfengi
- Ávexti
- grænmeti
- kjúklingabringur og fisk (allt kjöt ókey nema alls ekki unnar kjötvörur)
- baunir af öllum sortum og gerðum
- fræ
- hummus eða avocado í stað smjörs
- brún grjón
- grænt te
- vatn - lots of it
Brauð dagsins: Speltbrauð smurt með avocado og ferskum tómatsneiðum - pipar malaður yfir. Nammi namm.
Njótum þess að borða og aldrei borða með samviskubiti.
Svo er góður siður að borða ekki á kvöldin, þá vaknar maður miklu gáfaðri og ferskari á morgnana
Fékk annars martröð að ég var látin stíga á vigt fyrir framan alla eins og "The Biggest Looser" ég ætla ekki að gera það en mun gefa upp vigt eftir viku - eftir að hafa farið eftir eigin reglum.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.10.2009 | 15:30
Örsaga undir áhrifum ....
Það er sólarlagsbil í Austurlöndum einhvers staðar í fyrndinni.
Fínleg kona með dökkt mittissítt hár fetar sig varlega inn í hvítkalkað hús, það er rökkur inni og það tekur konuna örlitla stund að venjast birtunni.
Jasmínangan berst að vitum hennar og eina lýsingin inni er af hálfbrenndum kertum sem staðsett eru á syllum og borðum víð og dreif um herbergið. Konan hefur meðferðis grænleitt glas með ilmolíu og nálgast ofur varlega mann sem situr þungt hugsi á lúnum trébekk í rökkrinu.
Hún finnur að andrúmsloftið er mettað af einhverju stórkostlegu, einhverju sem umlykur þennan mann og eftir því sem hún nálgast hann meir verður tilfinningin sterkari.
Hún krýpur á fyrir framan hann og togar um leið marglitað, slitið, pils sitt örlítið upp fyrir hnén svo það þvælist ekki fyrir henni. Tilfinningarnar bera hana sem snöggvast ofurliði og hún fellur fram og kyssir fætur mannsins og sölt tárin taka að streyma niður hvarmana og mynda læki eftir fótum mannsins sem laugast af tárum hennar.
Hún þerrar fætur hans með síðu hári sínu og nuddar þær blíðlega með ilmolíunni úr grænu flöskunni. Fætur þessa manns höfðu víða farið og eru lúnir eftir miklar göngur.
Maðurinn horfir í augu hennar með miklu þakklæti og djúpum skilningi, snertir vanga hennar blíðlega og hún grípur fast í hendi hans og augnablikið verður sem þúsund ár.
Konan rís síðan hægt en fimlega á fætur, kyssir blíðlega á enni mannsins og fer jafn hljóðlega út aftur eins og þegar hún kom inn.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)