Færsluflokkur: Bloggar

Hugsanavírus

Ebóla er alvöru,  og hana ber að varast og umgangast af skynsemi. 

Ég hef orðið vör við að margir hérna heima á Íslandi eru logandi hræddir við Ebólu, og kannski bara logandi hræddir við sjúkdóma yfirhöfuð. -

Óttinn getur lamað og óttinn getur gert fólk veikt.

Það er því mikilvægt að slaka aðeins á og fara ekki að verða veik "fyrirfram" - veik af ótta.

Eftirfarandi færslu skrifaði ég á heimsíðuna mína í gærmorgun:

 Einu sinni fór ég til læknis, - ég var í annarri umferð að láta skera burt sortuæxli á öxlinni minni. -  Ég þurfti að bíða yfir jól og áramót til að fá úr því skorið hvort að enn væri eitthvað illkynja í brúnum skurðarins eða hvort að svæðið væri orðið „hreint."   Ég var auðvitað áhyggjufull að allt færi á versta veg,  og læknirinn sá skelfinguna í augum mínum, - en þá sagði læknirinn þessi fleygu orð: „Óttinn getur gert þig veikari en krabbameinið"  og þá ákvað ég að taka æðruleysið á jólin og áramótin og taka því sem að höndum bæri, hver svo sem niðurstaðan yrði.  Þetta var áramót 2008 - 2009 og ég slapp sem betur fer.

Mér datt þetta  hug þegar ég las texta frá Marianne Williamson um óttann við Ebólu og ætla að færa ykkur hann hér á íslensku.

"Ótti við sjúkdóma,  getur laðað að sér sjúkdóma,  vegna þess að hugsanir okkar verða oft að raunveruleika."

Óttinn við Ebóla er hugsanavírus sem er að breiðast út, a.m.k. jafn mikið og sjúkdómurinn sjálfur breiðist út sem líkamlegur sjúkdómur.  Notið þessa daglegu hugleiðslu til að bæta ónæmiskerfið ykkar,  setjið á ykkur andlegan skjöld, og leggið þannig ykkar af mörkum við að leysa upp alla sjúkdóma með því að eyða þeim úr huga ykkar ...

1)  Lokið augunum, og staðfestið að þið hafið lokað ykkar ytra auga, innra augað hefur opnast.

2)  Sjáið fyrir ykkur ljóskúlu sem er heilagt hvítt ljós - það getur verið bara Ljósið almennt- eða ljós Krists, Búdda, eða hvert það ljós sem þið eigið auðveldast með að samsama ykkur við - og finnið það umvefja líkamann.

3)  Biðjið um að hver fruma innra með ykkur og  fyrir utan drekki í sig þetta ljós, þannig að ekkert myrkur eigi þar aðgang.

4) Með innra auganu, sjáið allan líkamann verða gegnsósa af þessu Ljósi og umbreytast af Ljósinu.

5) Haldið þesari sýn í tvær mínútur á dag.

6) Biðjum um vernd með Ljósinu fyrir alla aðra.

Amen"

Þau sem hafa komið til mín á hugleiðslunámskeið hafa oft heyrt mig tala um mikilvægi þess að tala fallega við frumurnar okkar.  Við erum eins og blómin, ef við vanrækjum okkur og bölvum þá visnum við - ef við nærum okkur með kærleika og tölum fallega við okkur blómstrum við frekar.

Það eru engar „aukaverkanir" með þessu og kannski er allt í lagi að leyfa okkur að njóta vafans og elska okkur í 2 mínútur á dag, alveg inn í kjarna.  Ég starfa sjálfstætt og enginn hleypur í skarðið ef ég er veik, svo ég má ekki vera að því og ég hef notað hugleiðslu þar sem ég tala fallega við sjálfa mig sem „lyf" og er óvenju hraust kona í dag! ... Ég er ekki að mæla gegn hefðbundnum lyfjum, - og þau á heldur ekki að taka með ótta eða skömm.  Heldur blessa þau, því þá virka þau betur.  Trúin skiptir máli - það þekkjum við líka í gegnum lyfleysuáhrif o.fl.

Óttumst minna og elskum meira, það er lykillinn að eiginlega öllu!


mbl.is Án búninganna í tvo daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég væri ung (yngri) á ný ...

Ég veit ekki hvað margir hafa hugsað svona? - "Ef" eða "Hefði" .. en það er auðvitað vita gagnslaust, því ekki breytum við fortíð.  Það er ekki nokkur séns að breyta fortíð,  en svo heppilega vill til að við höfum frjálsan vilja og getum gert hlutina (a.m.k. suma) öðruvísi í fortíð.  Við ölum ekki upp börnin okkar aftur, - og það eru ýmsir hlutir sem kannski er ekki hægt að gera á sextugsaldri sem hægt var þegar við vorum rúmlega tvítug. -  En auðvitað sumt. - 

Það sem ég tel að mikilvægt sé fyrir ungt fólk að vita, er það að vera í tengingu við sjálft sig.  Vera skýr í hvað það vill og þá sérstaklega hvað er boðlegt.  Þ.e.a.s. að vera með sín lífsgildi á hreinu. -

Ég fæ stundum ungar konur í viðtöl, - þær kvarta yfir því að kærastinn vilji að þær horfi með þeim á klám og ef þær kvarta og segjast ekki vilja þá kemur eitthvað "Þú ert bara leiðinleg" - eða "engan tepruskap...."  nú eða hvað annað sem sagt er.  Þá spyr ég þessar ungu konur:  "Hvernig líður þér sjálfri með þetta?"  - og auðvitað væru þær ekki mættar til mín að kvarta ef þeim þætti þetta í lagi. -  Og þá viðurkenna þær að þeim finnist þetta óþægilegt og niðurlægjandi eða hvaða orð sem þær nota. - Þær þora ekki að standa með sjálfum sér. - Og þá brjóta þær á sjálfum sér í framhaldinu, - upplifa skömm fyrir að "leyfa" - og í framhaldi skort á sjálfsvirðingu.  Þannig hefst oft vítahringur sjálfsniðurbrots og vanlíðunar. 

Samband byggist að einhverju leyti á málamiðlun.  Sama hvaða sambönd er um að ræða. - Sambönd jafningja byggja á að miðla þannig að báðum líði vel og út komi "Win-win" eins og í viðskiptasambandi. - Ef að stigið er á tærnar á öðrum og honum líður eins og lúser - búið að plata hann upp úr skónum, eða misbjóða,  þá er einn sem vinnur og hinn sem tapar. -  Það er búið að "selja" einhverjum eitthvað sem hann ætlaði aldrei að kaupa.  

Í parasambandi,  þá upplifir sá sem er búinn að láta misbjóða sér, þetta tap.  Tap á eigin gildum, tap á sjálfsvirðingu.  Honum líður hreinlega ekki vel.  Ef þetta er ítrekað eða jafnvel gagnkvæmt,  par er ítrekað að misbjóða hvort öðru, eða annar að misbjóða hinum - og þessu er "leyft" að viðgangast,  fjarar fljótlega undan þessu sambandi.  

Það sem gerist er þó, að sambandið heldur oft allt of lengi og hvorugur aðili kemur sér út úr þessum skaðlegu aðstæðum. -

Ég tók bara klámið sem dæmi.  Það er hægt að misbjóða og misvirða á svo marga lundu eins og fólk veit.

Fólk er hrætt við að standa með sjálfu sér, vegna þess að það er oft hrætt við að missa maka sinn, eða hrætt við að vera kallað "leiðinlegt." -  Engin/n vill vera leiðinleg/ur er það? -

Ef að málamiðlun felur það í sér að brjóta á eigin lífsgildum, - og koma út úr henni óánægð/ur og svekktur og upplifa að það sé verið að nota okkur.   Þá er hún röng og niðurbrjótandi.  

Eftir því sem við erum færari að hlusta á eigin tilfinningar og VIRÐA ÞÆR,  Þess betur áttum við okkur á því hvenær okkur er misboðið og hvenær ekki. -

Þetta er ekki alveg svona einfalt. Því að í ástarsambandi er stundum ótti.  Ótti við að missa.  Þegar óttinn er til staðar, þá getur fólk ekki verið heilt.  Það lýgur frekar eða heldur leyndarmál fyrir hvoru öðru.  Það segir ekki hvernig því líður RAUNVERULEGA.  Allt er gert til að halda sambandi, sem í raun er orðið sjúkt af lygum.  Samband þar sem óheiðarleiki grasserar er auðvitað sjúkt. -

Við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á neitt annað en heiðarleika, gagnvart okkur sjálfum líka.  Við eigum líka ekki að bjóða maka upp á neitt annað en heiðarleika.  

HEIÐARLEIKI er besti og eini fasti grunnur í nokkru sambandi. -  Án heiðarleika er ekki virðing, traust og ást. -   Ef ást er sönn,  er hún frjáls.   Hún veitir okkur frelsi til að vera þau sem við erum.   Ef við elskum einhvern sem er að þykjast vera annað en hann er,  eða við þykjumst vera önnur en við erum þá er að sjálfsögðu skekkja í "ástinni" þarna.   Við erum að elska eitthvað sem er ekki. -

Já, ef ég væri ung (yngri) á ný, - myndi ég vilja vita hvað heiðarleikinn skipti miklu máli.  Að ekkert entist - raunverulega entist - ef að sannleikurinn er hulinn.  -  Sannleikurinn kemur alltaf í ljós að lokum. -

Ég er hætt að halda leyndarmál, það get ég á hvaða aldri sem er.  Ég er hætt að leyfa einhverjum eða sjálfri mér að komast upp með að ljúga að mér. -  

Ég veit hvað er mér mikilvægast af öllu, - og það er frelsið til að vera ég sjálf.

Sannleikurinn er frelsandi, - en eins og barnsfæðing, er hann sársaukafullur. -  Eftirfarandi ljóð skrifaði ég þegar ég áttaði mig á "prógramminu" sem ég hafði lifað eftir og því sem ég hafði sjálf notað í mínu uppeldi. -   Í því felst engin ásökun, hvorki á sjálfa mig né móður mína.  Við kunnum ekki betur eða gátum ekki betur. - En margar mæður og margir feður, eru enn að fara eftir rangri formúlu.  Kunna ekki að vera heiðarleg, - og forrita börnin þannig að þau geta ekki staðið með sjálfum sér þegar þau fara í sambönd. -   Það stafar af óöryggi foreldranna sjálfra. -  

 

FLÓTTINN FRÁ SANNLEIKANUM OG SJÁLFRI MÉR

Hún er verndandi og góð

kemur inn í lífi mitt fyrir fæðingu

Hún er vanmátturinn og dýrðin

sem skyggir á sjálfan Guð

Kennir mér að þykjast og þóknast

tipla á tánum og setur mig í hlutverk

þar sem ég er stillt og prúð,

sniðug og ábyrg

til að ég  fái athygli, elsku og þakklæti

viðurkenningu og samþykki

sem ég verð að vinna fyrir

því annars á ég það ekki skilið

Hún kennir mér að fela og ljúga

og til að halda leyndarmál

til að vernda heiður hússins

og fjölskyldunnar

Hún kennir mér að skammast mín

fyrir sjálfa mig

og lifa með sektarkennd

þar sem ég sveigi frá eigin gildum

og sannleikanum sjálfum

kennir mér að  óttast

það að segja frá sársauka mínum

að standa með sjálfri mér

því þá gæti ég misst ...eitthvað og einhvern

og lífið verður einn allsherjar flótti

frá sannleikanum og sjálfri mér

og ég týni því verðmætasta

sem er ég sjálf

Hún er mín meðvirka móðir 

Hún er ég 

 

Jóhanna Magnúsdóttir, ágúst 2012

Í minningu dóttur  

 

Elskum meira og óttumst minna. -  

ÁST  


Heiðarleikinn framar öllu

Ég er ánægð með Kristján Þór Júlíusson að hafa viðurkennt að hafa neytt ólöglegra vímuefna. Ég held að mjög margir hafi a.m.k. prófað, - og mjög margir hafi einnig ekið undir áhrifum áfengis.  Það að enginn viti, þýðir ekki að maður ekki gert það. - 

 


mbl.is Hefur neytt ólöglegra fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matargjafir á facebook - hin sanna "kirkja?" ....

11En hann (Jesús) svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

Eins og margir vita, - hefur "fólkið" tekið málin í sínar hendur, - þ.e.a.s. nokkrir velviljaðir einstaklingar hafa stofnað síðu/r á facebook undir heitinu "Matargjafir"  og þar er þeim dreift milli landssvæða. -

Inni á síðunni eru margir gefendur,  sem láta vita hvað þeir vilja gefa og margir þiggjendur sem láta vita að þeir eru tilbúnir að þiggja.

Í raun eru allir að gefa og þiggja, - því það að gefa - felur í sér að þiggja og það að þiggja felur í sér að gefa.   Það er þessi dásamlega hringrás gjafarinnar.

Það er sælt að gefa og það er sælt að þiggja.   Það þarf ákveðna auðmýkt til að þiggja, og það þarf í raun styrk til þess. -  Það þarf styrk til að biðja um hjálp og það þarf styrk til að tengja ekki það að þurfa að biðja við eigin sjálfsmynd. -  Öll eigum við nóg - af okkur sjálfum.  En ekki endilega nóg til að fæða og klæða líkamann.

Mér finnst það mjög kristilegur hugsunarháttur,  miðað við textann sem ég birti hér í upphafi, að gefa með sér.  Ef við eigum tvennt af einhverju, að gefa hitt.  

Það er miklu auðveldara t.d. að láta það liggja ofan í skúffu, eða inní skáp,  en að fara með það í Rauða Krossinn.   Margir henda mat, bakarí henda afgöngum af bakkelsi o.s.frv. -

Við vitum alveg af ójafnvæginu í heiminum, - að sumir svelta og aðrir eru að springa úr "seddu" .. (a.m.k. líkamlegri).  

Það er gott að geta jafnað þetta út og hver er hvatningin? - Það hlýtur að vera kærleikurinn. 

Kærleikurinn að gefa af því sem við höfum eignast. 

Kærleikurinn að þiggja þegar við eigum ekki.

Kærleikur er "galdurinn"  við að lifa sem eitt og láta engan í heimsfjölskyldunni hungra.  Það er óþarfi.

Þess meiri kærleikur í heiminum,  þess fleiri geta lifað í fullnægju, anda sem efnis.

<3

Hér er hlekkur á matargjafir á facebook  

 

 


Listin að LEYFA ..

Fortíðin er liðin tíð, svo LEYFÐU henni að fara.

Framtíðin er leyndardómur, svo LEYFÐU henni að koma.

Nútíðin er andartakið NÚNA –

Taktu við því, þér er rétt þessi gjöf andartaksins. –

Til að njóta gjafarinnar, er gagnlegt að losa um allan ótta (byggðan á fortíð) og áhyggjur (byggðar á ímyndaðri framtíð) ……

 Andaðu djúpt, veittu andanum athygli og VERTU.

LEYFÐU ÞÉR AÐ LIFA  

 


Tólf einkenni þess að við séum andlega vöknuð! ..

 

1. Aukin tilhneyging til þess að leyfa hlutunum að gerast í stað þess að láta þá gerast. -

Þarna er stóra sögnin "að leyfa" – því merkilegt nokk, þá erum það VIÐ sem erum að hindra. –  Við erum oft að taka fram fyrir hendurnar á æðra mætti/almætti/guði – eða jafnvel bara veröldinni. –  Þarna þurfum við að láta af stjórnseminni,  þörfinni fyrir að vita „hvað næst“ – eða sjá fyrir horn.  Lifa í trausti þess að það sem verður, verður og hætta að stoppa það, – „stop having faith in fear“ – eins og einhver orðaði það. -

Bítlarnir sungu:   Let it be ..

2. Aukin „brosköst.“

Þegar okkur fer að líða betur,  þá brestum við jafnvel í söng eða hlátur af minnsta (engu?) tilefni. –  Gleðin kemur innan frá,  gleðina þarf ekki að sækja út á við,  svo af hverju ekki að brosa?

3. Tilfinning fyrir því að vera tengd öðrum og tengd náttúrunni.

„Við erum öll eitt“ .. allt sem lifir og hrærist er tengt – Það er hægt að lesa um það hjá vísindamönnum og hjá andlegum leiðtogum. –  Við komumst nær sjálfum okkur í samskiptum við fólk og í umgengni við náttúruna. -

„The beauty of a living thing is not the atoms that go into it but the way the atoms are put together.  The cosmos is also within us.  We’re made of star stuff, we are a way for the cosmos to know itself.“  Carl Sagan (1934 – 1996)

4. Tíðari tímabil yfirþyrmandi þakklætistilfinningar. 

Þegar við förum að átta okkur á því sem við höfum,  oft það sem við álítum sjálfsagt og hversdagslegt þá finnum við til yfirþyrmandi þakklætis og auðmýktar –  Paulo Coelho, rithöfundur segir að ef við kunnum tvö orð á öllum tungumálum týnumst við hvergi í heiminum, orðin eru „Hjálp“ og „Takk“   Leyfum þakklætinu að hellast yfir okkur um leið og við munum að þakka.  Þakklæti leiðir af sér þakklæti.

Við förum að upplifa að hafa nóg og vera nóg og finnum fyrir þakklæti. -

5.  Tilhneyging til að hugsa og framkvæma hiklaust, án þess að byggja það á ótta sem stafar af fyrri reynslu.

Við gætum kannski talað hér um að láta hjartað ráða för, – og við séum að framkvæma af hugrekki,  stíga inn í óttann í stað þess að láta hann stöðva okkur. Við gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum að byggja á e.t.v. útrunnum hugsunum um getu okkar,  þá komumst við aldrei neitt áfram.  Við erum á punkti X og þó okkur hafi ekki tekist eitthvað einu sinni, þurfum við ekki að reikna með að það sé alltaf svoleiðis.

6.  Óumdeilanleg hæfni til að njóta hverrar stundar. 

Þetta er það sem er kallað að lifa í núninu,  sem er eflaust þekktast frá Eckhart Tolle –  „Mátturinn í núinu“ ..   Að njóta staðar og stundar,  vera til staðar í líkama og sál. –  Hæfni til að njóta andartaksins,  en ekki vera að bíða eftir „þá“  „ef“ eða „þegar“ til að njóta. –  Þegar ég verð búin/n að losa mig við X mörg kíló „þá“  get ég notið mín,  eða  – „ef“ ég kemst á ströndina með rauðvínsglas og horfi á sólarlagið, „þá“ …   Njótum okkar núna. –  Njótum hvers andartaks í ferðalaginu.
Þegar við erum farin að fara „úr skaftinu“ upplifja gremju út í einhvern eða einhverja erum við komin fjarri okkur. –  Þá sækjum við okkur sjálf og komum aftur heim til okkar.

Fortíðin er liðin tíð,  svo LEYFÐU henni að fara.  Framtíðin er leyndardómur, svo LEYFÐU henni að koma.  Nútíðin er andartakið núna – Taktu við því, þér er rétt þessi gjöf andartaksins. –  Til að njóta gjafarinnar,  er gagnlegt að losa um allan ótta (byggðan á fortíð) og áhyggjur (byggðar á ímyndaðri framtíð) ……  andaðu djúpt, veittu andanum athygli og vertu. -

Verum viðstödd  „Be present.“

7.  Við missum hæfileikann til að hafa áhyggjur.

Áhyggjur og kvíði eru hættulegri heilsu okkar en flest annað.  Þess vegna er þessi hæfileiki að geta verið áhyggjulaus mjög mikilvægur. –  Ég stóð sjálfa mig að því um daginn að hafa áhyggjur af því að hafa ekki áhyggjur!  Ætli það sé ekki gamla forritið sem segir mér að það sé kæruleysi?    En við hjálpum engum með áhyggjum og síst okkur sjálfum. –  Áhyggjur eru bæn – með öfugum formerkjum. Í stað þess að senda áhyggjur okkar í ástvini þá sendum þeim kærleika og ljós. –  Það sama getum við gert fyrir okkur, umvafið okkur í ást og traust og leyft góðu hlutunum að gerast í friði og þegar við losnum við áhyggjur og kvíða,  þá slökum við betur á og eigum auðveldara með að taka eftir tækifærunum. – Ef við hlaupum um, tætt eins og hauslausar hænur,  sjáum við ekki neitt. –  Tækifærin fara framhjá okkur. -

Leyfum okkur að trúa að við séum heppin. – eða eins og kúrekinn í söngleiknum Oklahoma syngur:   „I have a wonderful feeling everythings´s going my way.“ -

8.  Missum áhugann á deilum. 

Við tökum ekki þátt í deilum og stríði,  – deilur leiða af sér deilur, stríð leiðir af sér stríð. –   Tökum elskuna og Bítlana  á þetta aftur:  –  „All you need is love“ ..

„Because the twentieth century was a century of violence, let us make the twenty-first a century of dialogue.“ Dalai Lama

9.  Minnkandi áhugi á að túlka það sem hinir eru að segja og gera.

Þetta þýðir að við erum að komast í okkar eigið höfuð, en erum ekki í höfðinu á hinum. – „Hvað ætli þessi sé að hugsa?“ –  Og ef við fáum augngotur,  eða einhver segir eitthvað – jafnvel að við fáum ekki svar í tölvupósti. – Þá förum við ekki að túlka það sem höfnun, ádeilu, afneitun eða eitthvað neikvætt. –  Við leyfum fólki bara að hafa sína svipi fyrir sig, – en förum ekki í túlkun á því, eða jafnvel að umorða eða leiðrétta viðkomandi. -

10.  Minnkandi áhugi á að dæma aðra.

Dómharka er þroskaleysi. – Í þroskasálfræðinni er kennt að þeir sem eiga auðveldast með að setja sig í spor náunga síns,  án þess að dæma, sýni frekar skilning og samhygð og  eru þar af leiðandi  komnir á hærra þroskastig.   Þarna er um ákveðið umburðalyndi að ræða.  "Dæmið ekki svo þér munuð ekki dæmd verða" – Við getum haft okkar álit, og eigum aldrei að samþykkja ofbeldi,  því ofbeldi er ekki kærleikur, –  en við getum líka skoðað orsakir,  hvað er á bak við? –  Hvað ef við sjálf hefðum alist upp við sömu aðstæður og værum sett í sömu spor?

Samhugur er andstæða dómhörku.  Fordómar eru fáfræði, svo lítum í eigin barm áður en við beinum fingri að náunganum. –  Við þurfum ekki að samþykkja vondar gjörðir og eigum ekki að gera það.  En við getum mætt öllum með skilningi og elsku. –  Gott dæmi um það er nunnan í myndinni "Dead man walking."

Fangelsisprestur var eitt sinn spurður hvernig hann gæti umgengist níðinga. – Hann svaraði: "Ég sé þá fyrir mér sem barnið sem þeir voru einu sinni."

11.  Minnkandi áhugi á dómhörku í eigin garð.

Dómharka í eigin garð er eitt af því sem heldur aftur af okkur,  býr til innri viðnám, hindranir og þröskulda. –  "Hver heldur þú að þú sért?" –  „Þú getur ekki“ –   Þegar við gerum mistök, þá í staðinn fyrir að dæma okkur og berja niður, höfum við samhygð með sjálfum okkur, -  þá spyrjum við okkur:  hvað get ég gert betur? –  Hvað gerði ég rétt? ..  Hvað gerði ég rangt? ..  og þannig leiðréttum við okkur,  bætum ofan á það sem við gerðum rétt en tökum út hið ranga. – Við verðum líka að læra að fyrirgefa sjálfum okkur.  Vera okkar besti vinur eða vinkona og muna eftir okkar innra barni.

Skömmin brýtur alltaf niður, svo ef við viljum bæta okkur þá þýðir ekkert að skamma sig.  Skömmina upplifum við þannig að við skömmumst okkar fyrir okkur sjálf.  Að iðrast gjörða sinna er annað, og fyrir það getum við fyrirgefið okkur. – Skömmin minnkar við tjáningu, þess vegna verðum við að yrða hana,  tala um hana og hreinsa þannig út. -

Ekki dæma þig. –   Bara segja frá.

12.  Að tileinka sér að elska án þess að vænta einhvers til baka.

Þetta má kalla skilyrðislausa ást.  Leyfa sér að elska án endurgjafar og án væntinga.  Leyfa sér að njóta þess að finna fiðrildin í maganum vakna án þess að óttast höfnun. –  Við getum elskað vini, fjölskyldu,  félaga, maka,  ástin/elskan/kærleikurinn hefur ýmsar birtingarmyndir. –  En við segjum ekki "Ég elska þig EF ÞÚ ELSKAR MIG" …. "eða ég elska þig ef þú ferð út með ruslið" …  Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir foreldra, þ.e.a.s. að láta börn sín vita að þau séu elskuð eins og þau eru,  – ekki bara fyrir það sem þau gera, – þannig læra þau líka að elska sig og virða, skilyrðislaust. -

 



Tölum um lífið - og tölum um dauðann ...

Nothing real can be threatened.
Nothing unreal exists.
Herein lies the peace of God.

~ A Course in Miracles

Ég hlustaði á útvarpsviðtal nýlega, þar talaði kona sem kenndi sig við stuðningsfélagið Ljónshjarta, sem er félagsskapur sem aðstoðar ungt fólk sem hefur misst maka, og börn þeirra sem hafa misst foreldri. - Konan sagði að umræða um dauðann væri tabú í samfélaginu.   Ég ætla að tala um þetta tabú eða þetta sem fólk talar helst ekki um. -

Það getur verið óþægilegt, því dauðinn er það sem fólk hræðist einna mest, -  enda það eina sem við getum verið í fullvissu um.  Þ.e.a.s. að  við komum til með að deyja einn daginn. -   Það sem okkur þykir jafnvel verra, og er enn erfiðara (að mínu mati og margra annarra) er tilhugsunin um dauða okkar nánustu. -

Það er erfiðari tilhugsun að missa en að deyja sjálf, enda er það algeng fyrsta hugsun við missi okkar nánustu að langa til að fylgja á eftir. -  Og þarna komum við að stóra orðinu: „MISSA" ..  orð sem augljóslega er skylt ensku sögninni „to miss" -   „to miss somebody" -   að sakna einhvers.

Þegar við söknum þá vantar upp á eitthvað í okkar eigin lífi.  Það vantar mömmu, ömmu, pabba, afa,  vin, vinkonu, frænku, frænda - það vantar barn.  Þar kemur sársaukinn, - „að missa"  „að sakna" -  og það myndast tóm þar sem þessi manneskja var, og þá á það að sjálfsögðu við alla sem við missum, og skarðið og tómið verður stærra eftir því nær persónan var okkur.   Það er eins og við stöndum í miðjunni, og þau sem eru næst sjáum við auðvitað  stærst, en eftir því sem þau fjarlægjast verða þau minni. -   Þó að deyi mjög margir þarna útí heimi - þá er okkur flestum ekki sama,  en það hefur sama sem engin áhrif á okkar líf,  það er fólk sem hefur ekki tekið rými í okkar lífi og þess vegna söknum við þeirra ekki eftir þeirra dauða. -

10441370_985551841470881_2450467415292608656_n

 

Það er annað sem er sársaukafullt við dauðann, það er að horfa á aðra í sorg.  Ég sem móðir barna sem hafa misst systur finn fyrir sorg systkina hennar.  Ég sem amma barna sem hafa misst móður finn fyrir sorg barnabarna minna. Ég skynja líka sorg annarra fjölskyldumeðlima, vinkvenna og vina.  Þegar ein manneskja deyr, sem er stór í augum margra, eru margir sem upplifa tóm, - svo ein manneskja er stór og skiptir svo óendanlega miklu máli. -

 

Ég var að ræða við vin minn og jafnaldra og hann sagðist bara aldrei hafa misst neinn náinn. -  Sumir hafa misst einn eða tvo, - í nánasta hring eða utar,  en svo er það fólk sem hefur á miðjum aldri eða yngra misst marga. -  Það virðist engin regla í þessu, miklu frekar óregla.

Mér hefur verið ætlað í minni lífsgöngu að missa marga, eða kannski ekkert ætlað, það bara er svoleiðis. - Í mínum nánasta hring, mér allra næst þá var það fyrst pabbi sem fór, liðlega fertugur,  dó frá mömmu og okkur fimm systkinum á aldrinum átta mánaða til tólf ára.  Það er mikið og þar var stór missir, - pabbi með fallegan persónuleika og hafði snert marga.  Hann átti stóran systkinahóp,  var elsti bróðirinn.  Hann var orðinn starfsmannastjóri og vel liðinn sem slíkur.  Hann skildi eftir stórt skarð.

Þegar ég var tólf ára eignaðist ég það sem við köllum oft „bestu vinkonu" - við vorum einhvers konar sálusystur -  en hún dó árið 2008,  á dánarbeði hennar sagði ég við hana: „Við verðum alltaf saman" - og það bara kom út úr mér - eins og ég væri áhorfandi að sjálfri mér.

Pabbi hennar skrifaði minningargein sem byrjaði á þessum orðum: „Það eru grimm örlög að lifa börnin sín" - og það stemmir við það að það er vont að missa og það er vont að sakna,  og það bætir í þegar að röðin riðlast.  Þ.e.a.s. að við förum ekki í „réttri" röð.   Í bæði móður-og föðurætt minni  höfum við misst ungt fólk frá okkur. Ég veit ekki hvort það er óvenju mikið eða ekki.  Það skiptir ekki máli, en að ungt fólk deyr er staðreynd, jafnvel  þó það sé óhugsandi og óbærilegt. -

Dauðinn er partur af lífinu, og í lífinu vitum við af dauðanum, en það er nú sem betur fer þannig að við erum ekki að lifa hvern dag í ótta við dauðann, og nú kem ég að því sem ég tel að sé svo mikilvægt.  Það er að horfast í augu við óttann og mæta honum með mildi. -  Við óttumst það að missa, - en hvað getum við gert í því akkúrat núna?   - Jú, það er að njóta þeirra sem eru lifandi í kringum okkur. Fólks sem gæti einn daginn verið fólkið sem við söknum. -   Láta ekki ótta við eitthvað sem verður óhjákvæmilega einhvern tímann og við getum engu stjórnað hvenær, - ræna okkur gleðinni af deginum í dag, - ræna því að njóta okkar - njóta lífsins meðan við höfum líf. -  Líka þeirra sem er hér og nú. 

En hvað gerist svo við dauðann? - Það getur líklegast enginn lifandi maður svarað með vissu (því ekki hefur hann dáið), hversu mikill meistari sem hann er - En það sem ég trúi, miðað við mína lífsreynslu og upplifanir  er að hið líkamlega deyr. - Formið okkar, sem er kroppurinn starfar ekki lengur.  En það er eitthvað sem ER og varir og er eilíft.  Lífið er eilíft og með það í huga þá er enginn dauði, aðeins þessi dauði formsins.  Fólkið okkar lifir - sínu lífi og allt er gott.  Það tekur ekki sýnilegt pláss, en það á stórt pláss í hjarta margra.

Það var svo árið 2013,  að tveir úr mínum nánasta hring féllu frá, fyrst dóttir mín í janúar og síðan mamma í september.Í síðasta samali við dóttur mína - áður en hún var sett í öndunarvél, á nýársdag 2013, sagði hún: „Mamma, slökktu ljósið, lokaðu gluggunum, lokaðu dyrunum, ég ætla að loka augunum og gerð þú það líka." 

Þegar við lokum augunum sjáum við með hjartanu, og við sjáum þau sem eru í hjartanu.  Leyfum okkur að skynja og finna - því það sem er raunverulegt deyr aldrei. - 

Sorgin kemur í bylgjum, við grátum og svo mildast aldan, og undiralda friðarins yfirgefur okkur ekki.  

ÁST <3

candle-heart-hands

 Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.


Typpið á milli okkar ... "The Penis between us" ..

Við konur erum ekki endilega sammála um það að máltækið "Konur eru konum verstar" sé sannleikanum samkvæmt.  Reyndar hafa margar upplifað það, og ég líka, að konur hafa verið konum bestar, - en jú, líka verstar. - 

Í bandariskum spjallþætti hlustaði ég á þegar að ráðgjafi sagði að systralag kvenna leystist helst upp þegar að "There was a penis between us" .. eða þegar  Typpin kæmu upp á mill okkar  -  og hvað þýðir það eiginlega? - 

Jú, - konur hata konur sem "stela" frá þeim mönnunum þeirra.  Þær hata oft líka konur sem ekki endilega stela mönnunum, heldur eru "nýja konan"  í hans lífi.  Oft kalla þær þessa konu "druslu"  eða eitthvað álíka. Þær jafnvel þrá manninn aftur, sem var jú sá sem braut trúnað við þær, - en kenna konunni um allt saman,  sem var hinn aðilinn í trúnaðarbrestinum.  Þær líta þá á karlinn sem viljalaust verkfæri konunnar - tálkvendisins.  

Hvað er það? -  Jú, það er einhvers konar systrabandalag sem er brotið.  Það er karlinn sem kemur upp á milli. -  

Flestir þekkja þennan "þríkant"   "Gamla" konan - Karlinn - "Nýja konan."    Karlinn er þarna á milli.  Eina þekking "Nýju konunnar" á þeirri gömlu eru upplýsingar karlsins, sem upphefur sig á kostnað þeirrar gömlu, sem var skv. hans hlið á þeirra sögu hálfklikk, - eru ekki allar fyrri konur klikk? -  Eða urðu þær bara klikk þegar maðurinn braut trúnað, eða stóð ekki við gefin loforð? -  

Mér finnst þetta pæling fyrir okkur konur, - að varast það að fara að hatast út í hvora aðra,  eða láta stilla okkur þannig upp.  

Annað sem gerist í þessu, að karlinn fer oft að vera meðvirkur báðum konunum, - og reynir að halda öllu góðu og verður eins og útspítt hundskinn í valdabaráttu kvennanna sem báðar vilja halda sínu og standa með sjálfri sér.  

Þetta er bara toppur ísjakans sem ég er að minnast á hér. -  En jú, ég tel að konur verði konum verstar þegar að typpið er komið á milli. -   Svo furðulega sem þetta er orðað, en reynum endilega að vera meðvitaðar um þetta.  

Stundum þarf að orða hlutina hreint út til að þeir skiljist. -  


"The Show Must Go On" ...hvað getum við gert til að hjálpa syrgjendum? ...

Þó að flestir sem hafa upplifað sorg, - upplifi eitthvað í þeim dúr sem kemur fram í ljóði Audens um að stöðva allar klukkur o.s.frv. - þá er það ekki þannig.   Lífið heldur áfram allt í kring.  

Ef við viljum hjálpa fólki í sorg, - þá er yfirleitt fátt sem hægt er að segja sem hjálpar, orðin eru svo máttlaus - og það er ekki hægt að taka sorg fólks frá því. - Allir verða að vinna úr sinni sorg sjálfir. Þegar ég tala um sorg, er ég að meina alla sorg. Það getur verið sorg eftir skilnað - sorg eftir dauðsfall - sorg eftir atvinnumissi o.s.frv. -  Það er einstaklingsbundið hversu djúpt hún ristir. 

Við upplifum sorg við missi og verðum svolítið máttlaus. - En hvað geta vinir gert? Jú, þeir geta verið til staðar, - þegar sá eða sú sem hefur misst langar að ræða sorg sína að fyrra bragði, þeir geta líka verið til staðar á praktískan máta, þ.e.a.s. boðið í mat eða kaffi, nú eða komið og eldað eða mætt meðeitthvað með kaffinu í heimsókn til þess sem er í sorg. - Nú svo, vegna þess að allt gengur áfram, - klukkan heldur áfram að tikka, jafnvel farið með bílinn fyrir viðkomandi í skoðun, sótt föt í hreinsun, eða hvaðeina sem venjulega virðist einfalt þegar við erum í jafnvægi og grunnur lífsins hefur ekki hrunið. -

Við erum ekki fædd með þessa vitneskju, - en hér deili ég minni eigin reynslu hvað mér fannst gott í minni sorg og hvað ég hef heyrt aðra tala um.

Ung nýfráskilin móðir sagði mér að hún og börnum hennar eða henni einni væri sárasjaldan boðið í mat, - en manninum hennar fyrrverandi er boðið reglulega í mat. Lyktar smá af "kynjamismun" þarna? - Það má alveg bjóða mömmum og börnum í mat eins og körlunum sem eru einir heima. - Og endilega samt halda áfram að bjóða - líka auðvitað körlum og þeirra börnum - á meðan boðin eru þegin!

Ég held - svona í lokin - að ekki þurfi alltaf missi eða sorg til að við lítum til með vinum okkar, -  bjóðum til okkar, - eða förum til þeirra.  Rafræn nánd er álíka mikil nánd og rafrænn kærasti er mikill kærasti.

Svo ekki bara vera næs á netmiðlum eða síma, og senda hjörtu og knús, -  komum nær. 

Það er nær-veran sem skiptir máli.  


Síðan laug hann. Síðan hélt hann framhjá. Síðan fór hann frá mér.

Nancy Hetrick skrifaði bréf fyrir vefsíðu sem heitir   DivorcedMoms.com

„Mér fannst þetta bréf minna mikið á upplifanir þeirra sem hafa leitað til mín, bæði prívat og á námskeiðið „Sátt eftir skilnað"  sem ég hef haldið reglulega.  Því tók ég mig til og þýddi pistil Nancy á íslensku og hann er hér:

"Hvítur kjóll. Ferskjubleikar rósir sem ilmuðu sem andardráttur barns. Langt slör. Hamingjusöm til æviloka.  Þannig átti það að vera. Ég trúði því. Ég vildi það. Ég þarfnaðist þess.  Síðan laug hann.  Síðan hélt hann framhjá. Síðan fór hann frá mér.

Hann fór frá mér! - Það fer sko enginn frá mér!  Ef einhver ætti að fara, skyldi það sko fjandakornið vera ég!  Þessi trúnaðarbrestur eftir 17 ára hjónaband og 2 börn var lamandi.  Mér fannst eins og hendur mínar og fætur hefðu á hrottafenginn hátt verið slitin af líkama mínum og allt sem ég hafði áður vitað um sjálfa mig hvarf, á stundinni sem hann sagði, „Ég þarf að segja þér svolítið."  Ég var týnd, svamlandi í restinni af vatninu sem varð eftir í lífi mínu, fullviss um að drukknun væri óhjákvæmileg.

Síðan gerðist það einn dag, að hlutirnir fór að breytast.  Um það bil 15 dögum eftir lömun mína, byrjaði umbreytingin.  Sorgin og missirinn, gaf undan fyrir óvægum hugsunum sem færðu mig til fyrstu áranna okkar, þar sem ég áttaði mig á því að hegðun hans meikaði ekki sens (kann ekki betri þýðingu á þessu).  Lygarnar opinberuðust, og ég áttaði mig á því að ég hafði ekki bara verið svikin, heldur hafði ég líka verið algjört fífl.

Og ég varð reið. Ég er ekki að tala um „brjáluð" reið,  ég er að tala um „elta-þig-uppi-setja-gaffal-í andlit-þitt"  reið!!!  Og það tók algjörlega yfir.

Reiðin var með mér allan daginn, í vinnunni, þegar ég var með krökkunum, jafnvel í draumum mínum.  Ég fann fyrir henni í brjósti mér, sem nagandi þunga sem heimtaði að fá rödd sína meðtekna.

Svo, í stað þess að fókusa á minn eigin bata og að vera sterk fyrir börnin mín,  var ég að vakta Facebook - síðuna hans,  að leita að sönnunargögnum fyrir eymd hans. Ég vildi að honum liði hræðilega.  Ég var stödd fyrir framan íbúðina hans, og ímyndaði mér að ég væri að  henda steini í gluggann og rústa bílnum hans.  Ég ímyndaði mér að ég hitti kærustuna hans í dimmu húsasundi og réðist á hana eins og glæpagengi myndi gera.

Og getið bara upp á hvað hann var að gera?  Hann var hamingjusamur með nýju kærustunni í nýja lífinu.  Hver hélt hann að hann væri eiginlega?!  Hvernig dirfðist hann að þjást ekki eins og ég!

Hér er ég 7 árum síðar og skil hversu mikilli orku var eytt.  Vitið þið hverju ég áorkaði?

Hér er það.  Í öllu sínu veldi.

1. Ég var undirlögð af reiði hvern einasta dag og hverja einustu nótt og mér leið hörmulega.  Ekki honum.

2.  Mér mistókst að leggja drög að framtíð fyrir mig og börnin mín. Sex mánuðum síðar var ég næstum peningalaus.

3.  Ég drabbaðist niður heilsufarslega. Ég átti erfitt með svefn. Drakk of mikið og bætti á mig 8 kílóum.

4.  Að viðhalda reiðinni þýddi að ég var ekki í bata.  Ég leit ekki á minn þátt í skilnaðinum.

5. Reiðin mín hélt fókus mínum á fortíðinni í stað þess að hugsa um nútíðina og framtíðina.

Sem betur fer átti ég góða vini sem horfðu í augu mín og sögðu mér að tími væri kominn til að halda áfram.  Sérstaklega var það ein vinkona sem tók í hendur mér einn daginn, og sagði: „Elskan, hann er hamingjusamur.  Hversu lengi ætlar þú að gefa honum valdið til að ákveða hvernig þér líður?  Er ekki kominn tími til að þú takir þitt líf í þínar hendur, og hættir að leyfa honum að vera við stjórn?

Þessi orð hittu beint í mark hjá mér, - og hittu fast og ég ákvað á þessum stað og stund að taka aftur stjórnina á mínu lífi.  Hlutirnir höfðu ekki farið eins og ég hafði ákveðið.  En hvað með það? -  Nú var það undir mér komið að skrifa næsta kafla í lífi míu.   Ég skipulagði helgi þar sem ég var ein - þar sem ég melti þessar nýju hugsanir,  ég var í þögn,  hlustaði á góða tónlist, skrifaði í dagbókina mína og tók ákvörðun um að taka skref áfram.  Ég lokaði hjónabandsbókinni og lét hana fara.  Ég skrifaði honum bréf, þar sem ég fyrirgaf honum og óskaði honum alls góðs.  Ég sendi það ekki.  Það var fyrir mig en ekki hann.   Hann hafði nú þegar haldið áfram.

Næsta morgun, þegar ég opnaði augun, var sólin pinku bjartari. Himininn aðeins blárri. Mér fannst ég jafnvel eitthvað sætari. Ég hafði enga hugmynd um hvað næsti kafli bæri í skauti sér, en ég var tilbúin að fara í stóru stelpu nærbuxurnar og finna út úr því."

Hér er hægt að smella á orginal bréfið HÉR 

Það er vont að vera föst í reiði, - og með fastan fókus á fyrrverandi - því að það þýðir að við erum ekki með fókusinn á okkur sjálfum.  Allir bera ábyrgð á eigin hamingju og heilsu, og það þýðir að elska sig.  Því fyrr sem við treystum okkur að sleppa tökum á fyrrverandi maka  (endilega gefa sér samt tíma)  því betra.   Fara í gegnum allar tilfinningar og ekki flýja þær. -   Þegar hún uppgötvar að hún hafi verið „algjört fífl" - eins og hún segir -  þá er það uppgötvunin að hafa svikið sjálfa sig, sem er svo sár, og þá kemur skömmin svo sterk inn.  Hún svíkur sjálfa sig því hún sér táknin, hennar innri rödd er að reyna að segja henni að það sé ekki allt í lagi, hlutirnir „meiki ekki sens" en hún hefur lifað í afneitun (og ekki viljað eða treyst sér í sannleikann). Reiðin er þá þannig að hún beinist að manninum,  að það sé honum að  kenna að hún hlustaði ekki á sjálfa sig, - og sveik sjálfa sig.  Svo það er mikið að vinna úr.

Næsta námskeið  „Sátt eftir skilnað"  verður haldið 8. nóvember nk.  Hægt að skoða þaðHÉR

Sama hvað „kallinn" var ómögulegur - eða ekki,  þá snýst þetta um að taka sér vald á eigin lífi en ekki gefa eftir valdið á því til hans.   Þessum pistli má alveg snúa við, þ.e.a.s. það getur verið karl sem hefur upplifað sama.

525966_4121119355193_877443323_n


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband