Ég hef miðlað háði, rógi, smánun, ógnun ...

Í skilmálum blog.is stendur eftirfarandi - og ég var minnt á það í gær af Árna Matthíassyni:

 

"Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940."

 

Þar sem ég hef rætt mikið um bæði þessi  tvö skáletruðu atriði og reynt með því  að velta upp steinum og berjast gegn fordómum, sérstaklega fordómum af trúarlegum toga, hafa birst hjá mér ótal athugasemdir. Lang flestar þeirra hafa verið hófsamar, málefnalegar og ígrundaðar og er ég þakklát fyrir þær. En  margar þeirra hafa verið svæsnar beinst gegn trúfólki/trúarbrögðum annars vegar og gegn kynhneigð  hins vegar,  ómaklegar, dónalegar, leiðinlegar o.s.frv.  

 

Ég vil sérstaklega taka það fram að þarna er ekki verið að tala um andstæða póla, trú vs kynhneigð,  því að vissulega eru allir undir trúar eða trúleysisregnhlíf, án tillits til kynhneigðar.

 

Ég hef látið athugasemdirnar standa, hingað til, og telja má á fingrum annarrar handar þau ummæli sem ég hef fjarlægt,  því mér finnst athugasemdir mismunandi fólks sýna hvar umræðan stendur í raun og veru. Ég er nú hugsi hvernig ég ætla að haga þessu í framtíðinni, og bið aðra að staldra við einnig.

 

Nú er það þannig komið skv. lögmanni mbl.is að tilvitnanir í Biblíuna eru særandi efni* sem brjóta gegn hegningarlögum. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að huga að?

 

Eru ekki of margar viðkvæmar sálir, óupplýstar eða illgjarnar sem valda ekki Biblíunni? 

 

Er Biblían verkfæri  manna eða eru menn verkfæri Biblíunnar? 

 

ÁST OG FRIÐUR 

 

p.s. að gefnu tilefni bið ég fólk að vera hófsamt í orðræðu sinni.

 

* ATH. verð að bæta því við hér,  eftir nánari rýni -  að eflaust er það hvernig tilvitnanirnar eru notaðar í  samhengi við annan texta,  en ekki þær einar sér sem eru í bága við hegningarlög, eða hvað veit ég?

 

En spurningin stendur samt áfram hvort að menn valdi ekki Biblíunni á meðan þeir nota ummæli þaðan til að undirstrika andúð sína á kynhneigð náunga síns? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Nú er það þannig komið skv. lögmanni mbl.is að tilvitnanir í Biblíuna eru særandi efni sem brjóta gegn hegningarlögum.

Ha? Hvaða vers þá?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2009 kl. 09:50

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er athyglisverð spurning sem þú setur fram.

Biblían boðar m.a. að rekist fylgjandi Jehóva á einstakling sem trúir á annan Guð skuli mola höfuð þess einstaklings með steini og sýna enga miskunn þó um sé að ræða föður, bróður, son eða konu sem viðkomandi elskar eins og andann í brjósti sér.

Ég þekki engan kristinn mann sem tekur nokkuð mark á þessu. 

Við heiðið fólk erum flokkuð með saurlífisseggjum og "kynvillingum" í Biblíunni á öðrum stað  erum við sögð það skini skroppin að við áttum okkur ekki á því.

Af hverju skyldi ég sem trúi ekki á Biblíuna taka nokkuð mark á þessu, hvað þá að móðgast, þegar kristnir gera það ekki einu sinni sjálfir?  Ég verð að segja að mér finnst hommar vera allt of viðkvæmir fyrir þessu.

Sigurður Þórðarson, 8.12.2009 kl. 10:15

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður vinur minn, þú ferð hér mikinn! Hvar hefurðu séð það í Biblíunni, "að rekist fylgjandi Jehóva á einstakling sem trúir á annan Guð skuli mola höfuð þess einstaklings með steini og sýna enga miskunn þó um sé að ræða föður, bróður, son eða konu sem viðkomandi elskar eins og andann í brjósti sér." – Ég kannast ekkert við þessi orð þar!

Jón Valur Jensson, 8.12.2009 kl. 10:25

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll ágæti Jón Valur.

 Ég er nú ekki svo nákvæmur að skrifa hjá mér biblíutilvitnanir enda las ég ekki bókina með það í huga að taka þátt í rökræðu. Þessi speki var einhversstaðar tiltölulega snemma líklega í Mósesbók 2-3 hluta.  Þetta var heldur ekki orðað nákvæmlega svona heldur sagt eitthvað á þá leið að hittir þú mann sem trúir á annan guð skulir þú osf...

Annars ætti ég alls ekki að vekja athygli á þessu.

Sigurður Þórðarson, 8.12.2009 kl. 11:22

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti, þetta voru textar sem Sigvarður notaði sér til halds og trausts til að sýna fram á að kynlíf samkynhneigðra væri synd: Textarnir  í 3.Mós.18:22:  3.Mós.20:13

 

Þetta voru einu ummælin sem talin voru upp sem meiðandi hjá mbl.is, en þeim fylgdi mikil orðræða um kynvillu og fleira.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 11:34

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Siggi gæti verið að vitna í Sálm 68:22,  137:9 ..  Habakkuk 3:14 eða Sírkaksbók 36:12 

Ég birti að sjálfsögðu engin ummæli um að mola höfuð hér!

Þeir sem vilja geta farið inn á biblian.is og farið í leitarheiti og skrifað molað höfuð.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 11:43

7 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jóhanna, ertu að segja mér að lögmaðurinn hafi sagt að það eitt að vitna í þetta væri brot á lögunum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2009 kl. 11:47

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Nei, það er ekki rétt, það var tekið fram (þegar ég skoða tölvupóstinn betur)  að athugasemdin hafi hafist á þessum ummælum og þessi tvö atriði talin upp, ég er eflaust að oflesa eitthvað inn í þetta eða þá þetta var ekki sérlega skýrt.

Eflaust er það túlkun Sigvarðar á ummælunum og í framhaldi af þeim,  sem var býsna svæsin,  sem hefur verið meginástæða þess að ég fékk athugasemd um að fjarlægja þetta, en spurning hvort að ummælin úr Biblíunni ein og sér myndu duga sem brot á landslögum? ..

Ég hef nú sent Árna póst þar sem ég spyr hvort að aðeins þessi tvö ummæli myndu duga sem brot á almennum hegningarlögum.  Ekki það að ég hafi í hyggju að birta þau.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 12:02

9 identicon

Það má taka undir afstöðu ritstjórnar ef afstaðan er gegn því að nota rit sem er mörgum heilagt hvaða kynhneigð sem fólk hefur, það að nota ritið til að aðskilja einstaklinga frá því sem er þeim dýrmætt, þeirra trú og að vega að sjálfsmynd þeirra  og vekja upp sekt og hugsanlega sjálfsfyrirlitningu, það er raunverulega mannskemmandi og  lífs-hættulegt, jafnvel þó að sá sem vitnar í biblíu gerir sér ekki grein fyrir því í einfeldni sinni.

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 12:42

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það erbara sorglegt að vita af þessum skammsýnu fordómafullu mönnum sem fela sig á bak við trú og biblíuna, en eru uppfullir af einhverju allt öðru, og eru auðvitað fyrstir til að kæra þá sem vilja anda á móti.  Svei því bara. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2009 kl. 13:20

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

"Skammsýni og og fordómar"  mega mín vegna vera einkamál fólks. Mér er líka slétt sama hverju fólk trúir og ég myndi aldrei láta mér detta í hug að vasast í því, svo framarlega sem fólk kemur kristilega fram við hvort annað.  

Ég  nenni þess vegna ekki að hafa skoðun á hvort ein trúarbrögð séu öðrum betri. Brennur, grýtingar og limlestingar tel ég fortakslaust óréttlætanleg hvort sem það er gert með trúarbrögðum eða öðru

Sigurður Þórðarson, 8.12.2009 kl. 13:56

12 identicon

Ég ætla að vinsamlegast biðja þig Jóhanna að hætta að vera alltaf að nafngreina mig í bloggum þínum. Um daginn tókstu tilvitnun frá mér af annari síðu. Ég hef ekki gefið þér leyfi til að gera það. Ég hef ekki fengið neina ranga fræðslu.Mér finnst líka að þú þufir að passa þig í því sem þú segir. Ég baðst afsökunar í gær ef ég hefði sært einhvern, því það var ekki ætlunin. En það hefur þá greynilega farið framhjá þér. Það eitt að vera setja sig í dómarasæti í þessu máli og grýta mann með orðum er eitthvað sem þú ættir að skoða. Ég sé að sjálfssögðu eftir því að hafa tekið þátt í þessari umræðu þinni um samkynhneigð. Staðan í landinu er víst orðin þannig að það má víst ekki segja neitt um neinn án þess að verða kærður. Með nafngreiningum á bloggi þínu, ert þú sjálf að brjóta þessa reglu.

Sigvarður (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 15:53

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jóhanna, ENGINN af þeim textum, sem þú tilgreindir, segir það sem Sigurður hélt fram ("Biblían boðar m.a. að rekist fylgjandi Jehóva á einstakling sem trúir á annan Guð skuli mola höfuð þess einstaklings ..."). Og hann hefur raunar sjálfur viðurkennt, að "Þetta var heldur ekki orðað nákvæmlega svona ...", og hvergi er raunar stafkrókur í Biblíunni fyrir þeirri meginafstöðu, sem fram kom í upphaflegri fullyrðingu hans. En þetta er nú dæmi um það, hve lítils má sín orð Guðs, að jafnvel svo skýrum manni finnst í lagi að tala þannig léttúðuglega um Guð okkar kristinna manna. – Og ekki stóðstu þig nógu vel í vörninni, Jóhanna!

Jón Valur Jensson, 8.12.2009 kl. 16:39

14 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Hvað er blessaður kúturinn hann Sigvarður að tala um?  Nafngreinir hann sig ekki sjálfur?  Skammast hann sín fyrir nafnið sitt?  Þetta er allavega óvenjuleg viðkvæmni, s.b.r. þegar Jakopi varð á að fara rangt með nafnið hans, þá lá við að hann rifi af honum hausinn.  Einkennilegt.

Theódór Gunnarsson, 8.12.2009 kl. 16:42

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

5 Mós 17.2-5

Ef hjá þér finnst, í einhverri af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, maður eða kona, er gjörir það sem illt er í augum Drottins Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmála hans, og fer og dýrkar aðra guði og fellur fram fyrir þeim, eða fyrir sólinni eða tunglinu eða öllum himinsins her, er ég hefi eigi leyft, og verði þér sagt frá þessu og þú heyrir það, þá skalt þú rækilega rannsaka það, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið í Ísrael, þá skalt þú leiða mann þann eða konu, er slíkt ódæði hefir framið, að borgarhliðinu _ manninn eða konuna, og lemja þau grjóti til bana.

5 Mós 13.6-10

Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: "Vér skulum fara og dýrka aðra guði," þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Jón Valur, eru þetta ekki villimannsleg og viðurstyggileg boðorð?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2009 kl. 16:51

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það getur vel hugsast að eitthvað í biblíunni stangist á við hegningarlög, eða gæti það eftir því hvernig þau eru notuð í einhverju samhengi. Þá verða trúarritin að lúta í lægra haldi fyrir landslögunum af því að landslög eru ekki trúarlög. Þetta er ekki flóknara en þetta. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.12.2009 kl. 18:49

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti og Jón Valur, þið eruð flottir í að skylmast um textana.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:03

18 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Rétt að kikka inn og segja: ,,Þú ert frábær" en ef kommentin hjá þér eru ósnyrtileg þá má loka á þau.

Kærleik til þín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.12.2009 kl. 19:11

19 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég vona að þetta eigi ekki eftir að draga einhvern leiðinda dilk á eftir sér.  Ég hef ekkert út á þínar færslur að setja.  Finnst þær bara fínar og margar marktækar Jóhanna mín.

Ía Jóhannsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:37

20 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sælar,  Þú ert frábær líka Milla, sammála því - loka bara á komment í framhaldi af þessu ef þau eru "ósnyrtileg!

nei, nei Ía,  þetta dregur engan dilk á eftir sér, ég þarf bara að vera betur vakandi yfir þeim sem skrifa hjá mér og ekki hleypa neinum að sem talar illa um náungann, hvort sem það er viljandi eða óviljandi.

Það varð allt vitlaust þegar ég lokaði á DoctorE, svo ég opnaði aftur fyrir hann,  en nú er mbl.is búið að loka alveg á hann.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:56

21 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Sigurður líka - takk fyrir innlitið, ég er sammála því. Landslög eru æðri trúarlögum, að vísu eru lög kærleikans æðri öllum lögum - en það getur samt sem áður verið hættulegt ef menn túlka kærleikann eftir sínu nefi!

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:57

22 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Svaraði þér Sigvarður á blogginu um "að byggja á sandi" .. þú ert ungur og átt vonandi eftir að læra.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:59

23 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri Jón Valur,

ég tel mig hvorki vera að tala af léttúð og enn síður að skrökva um það sem sem ég las. Mér er enginn akkur í því að hallmæla Biblíunni og enn síður kristinni trú sem ég er að mörgu leyti hlynntur.  Ég ítreka að þegar ég nefndi "Jehóva" þá var það algerlega mitt eigið orðalag, til þess gert að að aðgreina hann frá öðrum Guðum.

Ég hef ekki tíma til að fletta þessu upp en vildi heldur ekki vera vændur um "að kristnir menn þurfi að standa í einhverri vörn gegn mér".  Þess vegna hringdi ég í Guðstein Hauk sem staðfesti að þennan texta væri í ll Mósebók. Ekkert er mér fjær en að  skattyrðast við fólk trúað fólk. Raunar skil ég ekki af hverju kristið fólk sem þekki kærleiksboðskap Krists betur en ég ætti að móðgast yfir þessum texta sem augljóslega er í mótsögn við það sem hann boðaði.

Sigurður Þórðarson, 8.12.2009 kl. 20:19

24 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þetta Siggi.  Auðvitað er það kærleikurinn sem skiptir öllu máli, viðhorf og hugarfar til náungans.  Að vera sérfræðingur í réttum textum er tja.. ágætt, en það er kannski ekki endilega mælikvarði á kærleika.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 20:32

25 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Tek undir með kærum bloggvini mínum og Truntusólarhöfundinum Sigurði Þór Guðjónss. 

- Eins og talað úr mínum munni. 

Stundum er eins og menn séu beinlínis að peista heilu dálkcentimetrana af texta til þess eins að drepa niður umræðuna. 

Marta B Helgadóttir, 8.12.2009 kl. 20:48

26 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk kærlega Jóhanna um þetta erum við sammála.

Mér þykir miður ef ég hef sært einhvern en það er óþarfi að taka orðum mínum þannig enda er ég ekki fróður um Biblíutexta.  Sjálfur hef ég mikinn áhuga fyrir Eddukvæðum og hef meira gaman að ræða þau við þá sem þekkja þau en hina. Þess vegna ætla ég ekki að gaspra meira um Biblíuna.

Ég get samt varla stillt mig um að minnast viðskipta Krists við farisea og orða hans um þá.  Ekki minnist ég þess að Kristur hafi vænt þá um kunnáttuleysi í Orðinu.  Sagði hann ekki einmitt eitthvað á þessa leið: Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið?    En nú er ég hættur.

Sigurður Þórðarson, 8.12.2009 kl. 21:06

27 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Siggi segðu endilega eins mikið og þú vilt, ég skal bera ábyrgð á þér og ég verð varla skömmuð af blog.is fyrir þín skrif!

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.12.2009 kl. 22:37

28 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sko, átta mig ekki alveg á þessu - hvað þá með blogg eins og næstefst er í heitum umræðum núna ?  Er það bara í lagi.

Annars er eg yfirleitt ekki mikið fyrir boð og bönn - samt sko, mér hálblöskrar hvernig fólk lætur.  Verð að segja það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.12.2009 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband