1.12.2009 | 18:53
Þórarinn Þorkell Jónsson, minning
Þórarinn Þorkell Jónsson, fv. tengdafaðir minn fæddist í Reykjavík 7. júní 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans Kópavogi 23. nóvember sl. Foreldrar hans voru hjónin Jón Þórarinsson, skipstjóri frá Ánanaustum í Reykjavík, f. 29.6. 1905, d. 10.11. 1967, og Guðrún Þorkelsdóttir, húsfreyja frá Valdastöðum í Kjós, f. 11.8. 1911, d. 28.11. 1982. Systkini Þórarins eru: 1) Halldór Heiðar, f. 18.10. 1935, d. 10.10.2009, eftirlifandi maki Helga Jóhannsdóttir, f. 10.11. 1935. 2) Guðmundur Reynir, f. 10.1. 1940, maki Kolbrún Halldórsdóttir, f. 28.10. 1941. 3) Ragnheiður, f. 10.5. 1942, d. 15.11. 1954. 4) Halldóra Borg, f. 30.7. 1945, d. 10.5. 2002, eftirlifandi maki Kristján Kristjánsson, f. 18.4. 1944, samb.k. Kristín Einarsdóttir. 5) Þórleif Drífa, f. 6.9. 1951, maki Finnbogi B. Ólafsson, f. 1.2. 1949. Hinn 20. febrúar 1960 kvæntist Þórarinn Þorbjörgu Jónsdóttur, f. 20.12. 1939. Foreldrar hennar voru Jón Eiður Ágústsson, málarameistari Reykjavík, f. 24.10. 1909, d. 27.4. 1974, og Helga Þorbergsdóttir húsfreyja, f. 7.11. 1909 á Þingeyri við Dýrafjörð, d. 14.8. 1978. Börn Þórarins og Þorbjargar eru: 1) Jón, f. 26.7. 1960, maki Birna María Antonsdóttir, f. 8.3. 1977. Börn Jóns eru: a) Eva Lind, f. 2.9. 1981, maki Henrik Jörgensen, f. 25.1. 1974, börn þeirra eru Ísak Máni, f. 27.4. 2004 og Elisabeth Mai, f. 7.5. 2009. b) Jóhanna Vala, f. 25.9. 1986. c) Þórarinn Ágúst, f. 25.9. 1986, samb.k. Ásta Kristín Marteinsdóttir, f. 27.8. 1991. Móðir þeirra er Jóhanna Magnúsdóttir. 2) Helga Halldóra, f. 27.4. 1965, maki Dagur Jónasson, f. 17.10. 1961. Börn þeirra eru: a) Breki, f. 18.3. 1995. b) Hulda, f. 2.1. 1997. Sonur Dags er Kristmann Freyr, f. 22.1. 1986, samb.k. Auður G Pálsdóttir, f. 27.2. 1988. 3) Bryndís, f. 26.9. 1971, maki Halldór Geir Þorgeirsson, f. 6.11. 1970. Börn þeirra eru: a) Snær, f. 21.12. 1997. b) Eik, f. 24.10.,2000. c) Nói, f. 28.8. 2002. d) Ilmur, f. 29.12. 2006. 4) Þórarinn Eiður, f. 20.10. 1976, samb.k. Alexandra María Klonowski, f. 8.10. 1979. Þórarinn stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með verslunarskólapróf 1957. Að því loknu hélt hann til Englands til enskunáms. Þórarinn fór í löggildingarnám í endurskoðun við Háskóla Íslands 1962-1965 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi 31.1. 1966. Þórarinn fór ungur til sjós með Halldóri bróður sínum og föður þeirra. Hann starfaði síðan hjá Hirti Péturssyni endurskoðanda frá 1959 til 1962. Hann var skrifstofustjóri og síðan framkvæmdastjóri hjá Kristján Ó. Skagfjörð frá 1962 til 1973. Þórarinn hóf rekstur eigin endurskoðunarskrifstofu árið 1970 og starfaði sem endurskoðandi allt til dauðadags, lengst af á Grensásvegi 16 í Reykjavík, eða síðan 1987. Þórarinn sat í ýmsum stjórnum og nefndum, m.a. í aðalstjórn SÁÁ 1984-1990, í stjórn Þróunarsjóðs Lagmetis, í stjórn Kristján Ó. Skagfjörð 1992 og sem stjórnarformaður frá 1993-1997/8 og stjórnarformaður Þorbjarnar Fiskaness hf 2000-2004. Þórarinn var einn stofnfélaga Lionsklúbbsins Týs sem stofnaður var 1973. Þar gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum og var endurskoðandi klúbbsins frá upphafi. Hann spilaði bridge með Krummaklúbbnum og blak með Blakendum. Útför Þórarins fór fram frá Langholtskirkju í dag, þriðjudaginn 1. desember.
Mig langar að skrifa hér nokkur þakkar- og minningarorð til afa barnanna minna; Þórarins Þorkels eða afa Kela og minnist um leið bróður hans Halldórs Heiðars eða Dóra sem var jafnframt tengdafaðir Björns bróður míns, en Dóri lést 10. október sl.
Enn á ný hefur verið hoggið skarð í samheldinn systkinahóp. Ragnheiður var sú fyrsta til að fara, en hún lést aðeins 12 ára gömul, Halldóra Borg kvaddi síðan í maí árið 2002. Dóri í október sl. eins og áður hefur komið fram og nú rúmum mánuði síðar fellur Keli frá í nóvember. Þau sem standa eftir úr systkinahópnum eru Guðmundur Reynir og Þórleif Drífa.
Ég kynntist Dóra og þá Helgu konu hans áður en ég kynntist Tobbý og Kela, en bæði voru þessi hjón samrýmd hvort á sinn hátt. Helga og Dóri voru eins og áður hefur komið fram tengdaforeldrar Bjössa bróður og það var því skemmtileg tilviljun sem olli því að ég kynntist syni Kela og Tobbýjar; Jóni Þórarinssyni fv. eiginmanni mínum og barnsföður. Börnin okkar eru því skyld í báðar ættir!
Þessi fjölskylda; afkomendur Guðrúnar Þorkelsdóttur frá Valdastöðum í Kjós og Jóns Þórarinssonar frá Ánanaustum átti og eiga marga siði og hefðir eins og gengur og gerist í fjölskyldum, en eftirminnilegust þykja mér jólaboðin hjá ömmu Guðrúnu, og seinna jóla-eða nýársboð í Kiwanisheimilinu í Kópavogi, en toppurinn voru auðvitað fjölskylduferðirnar þar sem Dóra heitin stjórnaði jarðarberjagarði, hókí póki og fleiri fjörugum leikjum.
Ég man eins og gerst hafi í gær, eftir magnaðri spennunni þegar verið var að setja upp tjöldin, með sínu ómissandi tauti og röfli sem þó risti ekki dýpra en svo að það breyttist í sælu og gleði um leið og tjöld voru risin og farið var að grilla pylsurnar. Ættarhöfðingjarnir, eins og systkinin og makarnir kölluðu sig stundum, skiptust á að skipuleggja og alltaf var fjör, þó gengi stundum á með vondu veðri og vindum og í verstu tilfellum þyrfti að flýja. Ein slík ferð endaði í grillveislu í garðinum á Otrateig, en þar var það Keli sem var á sínum uppáhaldsstað, en það var við grillið.
Það var einmitt á Otrateignum sem ég kynntist þessum elskulega hjónum með stóra faðminn fyrst, en síðan lá leið þeirra í Garðabæinn og þá í Hafnarfjörð og við bjuggum ávallt nærri. Keli var einstaklega hlýr og yndislegur tengdafaðir og afi og áttu þau amma Tobbý alltaf pláss fyrir börnin mín enda voru þau mjög hænd að þeim og er andlát afa þeirra þeim afskaplega erfitt núna. Við yljum okkur þó við góðar og fallegar minningar af afa, traustum og sterkum með sitt þó milda og kankvísa bros.
Bræðurnir Dóri og Keli áttu það sameiginlegt að heilsa eins og góðra herramanna er siður, með vænum kossi en nú verð ég að láta mér nægja að senda þeim fingurkoss þangað sem þeir eru nú saman komnir, ásamt foreldrum og systkinum sem á undan eru farin. Þangað sem fjölskyldan mun að lokum öll koma saman í himneska fjölskylduferð þar sem kannski verður örlítið tautað og röflað, en síðan sest niður við varðeld og sungið hver með sinni röddu.
Hugur minn er nú hjá ömmu Tobbý sem hefur staðið sterk við hlið afa í erfiðum veikindum, í gegnum súrt og sætt, hugur minn er hjá Helgu hans Dóra, einnig sterkri og duglegri konu og hugur minn er einnig hjá Gumma og Þórleifu sem hafa nú á skömmum tíma misst tvo bræður. Börnum Kela; Nonna, Helgu, Binnu og Eisa og börnum Dóra; Addý, Sissa, Rúna, Tóta og Krumma votta ég innilega samúð mína, mökum þeirra og afkomendum öllum og öllum fjölskyldumeðlimum og vinum sem eiga um sárt að binda og sakna.
Elsku Keli, þakka þér fyrir mig, Þakka þér fyrir að vera svona góður afi barnanna minna og þakka þér fyrir að vera þú.
Jóhanna Magnúsdóttir (Jóga)