8.11.2009 | 23:31
Feðradagurinn 8. nóvember 2009
Þetta blogg er tileinkað feðrum á feðradegi. Líka stjúp-og fósturfeðrum og öllum þeim sem hafa sinnt föðurhlutverki hvort sem það er af líffræðilegum toga eða að hafa gengið börnum í föðurstað.
Pabbar eru bráðnauðsynlegir, ekki síður en mömmur. Það sem börnunum þykir auðvitað vænst um er ef að foreldrunum kemur þokkalega saman. Þá ekki síst ef að svo óheppilega fer að þau geti ekki, af einhverjum ástæðum, búið saman.
Það er eitt óréttlætið sem ég verð að minnast á, og það er "sjálfkrafa skráning barna í trúfélag móður."
Einhvern veginn er ég þannig þenkjandi að mér finnst jafnrétti þurfa að ganga í báðar áttir.
Hverjar eru lausnirnar? Foreldrar komi sér saman um trúfélag eða ekki trúfélag? Viðurkennum við ekki að foreldrarnir séu jafn miklir foreldrar barns, eða er reiknað með að móðir eigi meira í barni þar sem hún bar það undir belti? Hver er forsenda fyrir þessu, veit það einhver?
Vildi bara velta þessu upp á þessum fallega feðradegi, þó hann hafi nú endað með rigningu og roki, var hann dásamlegur hjá undirritaðri. Hádegisverður hjá systur, fjöruferð og ís með litlum kút og síðan vatnslitaðar myndir úr fjöruferð og málað fjórtán hæða hótel og flugvélar, auk ofurhetja af öllu tagi. Í kvöld fauk ég svo í Lágafellskirkju þar sem mér var boðið að sjá um bænastundina - ótrúlega nærandi samvera.
Gunnbjörg Óladóttir prédikaði af algjörri snilld, um "skrípaleikinn" trú - já, þetta væri auðvitað skrípaleikur að ræða ást, kærleika og miskunn.
Dagur kominn að kveldi, ég óska pöbbum þessa lands til hamingju með feðradaginn og minni okkur á að þegar við hjálpum börnunum okkar, þurfum við að setja súrefnisgrímuna á okkur fyrst og síðan á þau.
Það þýðir m.a. að við verðum að vera þokkalega í lagi og með skýran koll til að sinna börnunum. Ef við erum súr, reið, örg o.s.frv. út í maka okkar, þá gæti það farið svo að það bitnaði ekki aðeins á honum, heldur á barninu. Það virðist vera að gerast allt of oft í forsjármálum, börnum er neitað um rétt til að hitta pabba sinn, eða feðrum er fjarstýrt af ráðríkum, reiðum og/eða særðum mæðrum með hótanir um takmarkaða forsjá. Börn á ekki að nota sem vopn.
Áfram pabbar!
Dögg Páls er með svona meira "professional" færslu um þetta og vísa ég í hana hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Gunnbjörg Óladóttir prédikaði af algjörri snilld, um "skrípaleikinn" trú - já, þetta væri auðvitað skrípaleikur að ræða ást, kærleika og miskunn. "
Ég verð nú að segja að þessi Guðbjörg er fyrsta manneskjan, sem ég heyri draga slíka ályktun.
Kannski var þetta gert af kvenlegri rætni, með því markmiði að kasta rýrð á einhverja, með að leggja þeim þetta í munn. Ef svo er þá er varla hægt að leggjast lægra í ómerkilegheitunum. Er þetta tónninn í Kristnum í dag? Er þetta eitthvað, sem þér finnst nærandi? Hvað nærir þetta?
Ótrúlegt.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 00:29
Æ ekki fara á límingunum Jón Steinar. Ég þarf að fá þessa prédikun i heild hjá henni, það var ekki gáfulegt hjá mér að setja þetta svona fram. Þú værir örugglega hrifinn af þessu í réttu samhengi.
Stundin var nærandi já, falleg tónlist, fallegur söngur og góður félagsskapur. Það er góð næring.
Ég á að vera farin að sofa, búin að bjóða góða nótt og alles og stór dagur framundan.
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2009 kl. 01:03
Ég er pollrólegur Jóhanna, en svona lít ég á þetta. Hvað það er í prédíkunninni, sem leiðréttir þetta veit ég ekki. Var hún á háðskum nótum?
Þú veist alveg hvað ég meina. Það segir enginn nema hún að það sé skrípaleikur að ræða ást, kærleika og miskunn. (hef aldrei skilið af hverju fólk talar um ást og kærleika sem eitthvað aðskilið raunar. Kannski er það vitnisburður um dýpt rédíkunarinnar eða kannski bara grunnhyggni).
Segi þetta í fyllstu einlægni og er ekkert æstur. Annað hvort er manneskjan eitthvað galin að segja slíkt og meina það, eða þá að hún er illkvittin, háðsk og rætin. Sem mér finnst raunar trúlegra. Þætti gaman að vita til hverra hún var að vísa, ef það er raunin.
Þú kannski kemur með réttlætinguna á morgun.
Góða nótt. Vonandi dreymir þig réttlátt og fallega og sérð þetta sömu augum í fyrramálið.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 01:12
Fyrir mér er til einföld lausn á þessu. Barninu verði hlíft við því 'trúarrugli' sem býr í höfði foreldra þeirra og sleppi algjörlega við að vera skráð í trúfélag, þar til því skal vera leyfilegt að gera það sjálft, í samræmi við kosningaaldur eða þar til það telst fullorðið, 18 ára.
Hugsaðu þér stúlkubörn og smádrengi sem þola það í dag að vera umskorin án þess að ráða nokkru um það sjálf.
Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku eru farin að leyfa umskurn barna gegn greiðslu. Kostar aðeins 6000 danskar eða um 150 þúsund íslenskar.
Hugsaðu um alla 'einkaskólana' þar sem börn trúarruglaðra foreldra dvelja kannski 10 - 11 ár æsku sinnar. Fara svo í framhaldsskóla, umskorin, umturnuð eða öfugsnúin. Hrökklast þaðan í einkaskóla 'trúarruglsins' og koma útskrifaðir sem þúsund sinnum öfgafyllri en foreldrar þeirra. Við fylgjumst svo með brjálæðislegum 'vilja guðs - gjörningum' þeirra og botnum hvorki upp né niður í þessu heimsástandi.
Sigurður Rósant, 9.11.2009 kl. 16:00
Takk kærlega fyrir þetta, Jóhanna mín.
Það sem þú talar um hér - og það sem kemur fram í blogginu hjá henni Dögg, er eitthvað sem ég og Pétur, maðurinn minn, erum algjörlega sammála. Við erum svona dæmigerð íslensk stjúpfjölskylda og hefur hann, þessi elska, heldur betur fengið að finna fyrir ráðríkum, reiðum og/eða særðum mæðrum með hótanir um takmarkaða forsjá - og alls kyns veseni öðru.
Það þarf eitthvað að gerast hér á landi, til að komast fyrir þetta háttalag einstæðra mæðra. Það er nefnilega svo ljótt hvernig þær haga sér margar, neita feðrunum um að umgangast börnin - en svo mega þeir andskotast til að borga meðlagið!
Það þarf að verða vitundarvakning um þetta í íslensku þjóðfélagi.
Kær kveðja
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 16:16
Óskaplega er fólki mikið í mun að leggja þér orð í munn Jóhanna. Ætlaði reyndar að kommenta á næstu færslu fyrir neðan en síðustu tvö innleggin þar voru svo ljót að ég færði mig aðeins á hærra plan ;)
Þetta er kommentið frá mér ""
Hrönn Sigurðardóttir, 9.11.2009 kl. 21:14
Heil og sæl hér og takk fyrir athugasemdir, ég hef verið svo upptekin við vinnu að ég hef lítið getað litið við. Það er eins og ég hafi opnað fyrir eitt pandóruboxið enn þarna í færslunni á unda, tek undir með þér Hrönn að þar er umræðan orðin leiðinleg og fólk að hnýta í hvert annað.
Takk fyrir kommentið þitt! ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 10.11.2009 kl. 16:57
Ásdís mín, þessi mál eru mér ekki óskyld - því miður. Þekki fleiri en eitt og fleiri en tvö, og mikil sorg þar á bakvið. Takk fyrir innlitið.
Jóhanna Magnúsdóttir, 10.11.2009 kl. 16:58
Sæll Sigurður Rósant, ég er á móti öllum þeim aðgerðum á börnum sem geta skaðað þau fyrir lífstíð.
Persónulega álít ég að skírn geti ekki verið skaðleg, og sé í mesta lagi eins og léttur hárþvottur, þ.e.a.s. ef að það er séð frá sjónarhóli trúlausra, því varla álíta þeir að neitt "gerist" við skírn ef þeir trúa ekki á skírnina? Það er því ekki ofbeldi og skilur ekki eftir varanleg merki á barninu.
Við þurfum samt sem áður að vera meðvituð, hvað við erum að uppfræða börn og hvernig við gerum það.
Jóhanna Magnúsdóttir, 10.11.2009 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.