Kassafóbíujátning.. (á ekkert skylt við trúarjátningar) ..

Ég steig upp í gráu Honduna mína og lagði viðhaldið (fartölvuna) varlega í framsætið. Ók sem leið lá alla leið út á Granda,  framhjá ákvörðunarstaðnum Bónus,  þar sem ég var stödd í öðrum heimi, man samt ekki hvar, en snéri auðvitað við og lagði á stæðinu fyrir utan verslunina.

Ég tryggði mér eitt stykki gula kerru og gekk inn í búðina, og byrjaði að fá smá kvíða í magann. Róaðist aðeins þegar ég sá að við innganginn voru til sölu rósabúnt og ég gladdi sjálfa mig með að kaupa appelsínugular rósir, en það er liturinn minn þessa dagana, reyndar mánuðina.

 Einhvern tímann var ég að pirra mig á því að ég fengi svo sjaldan rósir, en tók þá meðvituðu ákvörðun að vera ekki að vænta einhvers sem væri ólíklegt að ég fengi og ef mig langaði svona mikið í rósir þá keypti ég þær bara sjálf! 

Ég bar rósirnar upp að köldum nebbanum, lokaði augunum sem snöggvast og dró djúpt inn andann. Ilmurinn var notalegur....

Það þýðir víst lítið að flýja veruleikann á grúfu í rósablöðum, ég varð að fara að versla því ég var að fara að halda matarboð í tilefni 83 ára afmælis mömmu. Ég reyni að forðast svona stórverslanir, en veisla úr Pétursbúð (minni uppáhaldsverslun) hefði orðið of kostnaðarsöm. 

Ég verslaði eina köku með bleiku kremi til að hafa í eftirrétt, en síðan þetta hefðbundna sem allir vilja; kjúklingalundir, brokkolí, rjómaost, hvítlauksbrauð, mango, avocado, kartöflur, spelt pasta, spínat, kristal .. váts hvað þetta er skemmtilegt blogg, upptalning á matvöru! LoL .. Ég fatta það reyndar um leið og ég skrifa þetta hversu svöng ég er orðin.  

EN nú er komið að því, ég þarf að fara með fulla gula innkaupakörfu á kassann og það er það sem ég kvíði alltaf og finnst eiginlega með því leiðinlegra sem ég geri. Skil ekki alveg þessa fóbíu en samt..

Miklu betra þegar Vala er með, þá raðar hún á beltið og ég í poka eða öfugt.  Slík samvinna er gulls ígildi. Ég gleymi ekki þegar við fórum einu sinni (fyrir löngu) í Fjarðarkaup og konan á kassanum bað Völu um að fara að athuga verð á einhverju.  Ég varð eins og kona í VR auglýsingunni, það var verið að ryðjast inn í systemið okkar!!! W00t "Vala raðar á beltið og ég raða í poka" og ég fór á límingunum..

En nú er Vala í Ameríku að versla í Publix eða einhverri álíka verslun, þar sem kerfið er miklu þægilegra reyndar, þá setur afgreiðslufólkið matvöruna í þar til gerðan pappírspoka á standi um leið og búið er að skanna. Ekkert stress fyrir viðskiptavininn, sem bíður með bros á vör eftir að pokarnir fyllist.. 

Nei, þarna stend ég ein gegn þessu kassamonsteri og þarf að ná því að setja vörurnar á í kapphlaupi við kassadömu með strípur,  sem harmonera að vísu við bleikt kremið á kökunni sem ég keypti.

Eitt núll fyrir henni, og svo æsist leikur því að hún finnur ekki númerið fyrir avocadoið og ég næ forskoti, hjúkkit... en hún er vön og váts hvað hún er fljót að skanna allt í gegn og það gerist sem ég óttast:  ég missi stjórn.  Vörurnar hrúgast upp og ég óttast um lífrænt ræktaða kókósjógurtið og mandarínurnar sem fara að velta úr pokanum ..   

Mitt í mínu svitakasti við kassann segir stelpan með bleiku strípurnar með vélrænni röddu "hvað marga poka?"  Ég blokkerast alveg en næ svo að ropa út úr mér hásri röddu: fjóra poka takk!  Þá spyr hún "ertu viss?" Ha?? Þessu hef ég ekki lent í áður, ha, jú ég er viss - eða sko ég held það og fæ snert af ákvörðunarkvíða.  Vildi samt ekki vera leiðinleg og spyrja hana hvort þau væru með spákonur á svæðinu (fyrir þau sem trúa á slíkt) nú  eða matsmenn sem gætu sagt fólki nákvæmlega fyrirfram hvað fólk þyrfti marga poka. 

Það mætti kannski gera þetta að íþróttagrein?  A.m.k. samkvæmisleik. "Gettu hvað þarf marga poka?"  Það á ekki að setja fólk undir svona mikla pressu! 

 "Tuttugogtvöþúsund,tvöhundruðfimmtíuogsjö" .. úff hún er búin að skanna allar vörurnar og stimpla inn pokana, svo ekki verður aftur snúið. Þessir fjórir verða að duga.  Ég tek fram skaddað Visakortið, en það kom brestur í það undan álaginu við að vera í hlutverki bílrúðusköfu sl. sunnudagsmorgun. 

Enn voru vörur ófrágengnar í poka og ég gjóaði augunum að næsta viðskiptavini sem beið spenntur eftir að hans vörur færu af stað og svo aftur að mínum vörum og pældi í því hvort honum finndist ég ótrúlega "slow" ..  en ég skrifaði stafina mína á slipsið,  hirti afritið,  hélt mínu striki og var á heimstími í þessu kassahlaupi  ..  enn einu sinni hafði ég sigrast á því að fara í gegnum systemið í Bónus, þó að blóðþrýstingurinn hækkaði og kaldur svitinn sprytti fram á ennið.  Sem betur fer hafði ég notað 8x4 um morguninn. 

Ég er fegin að ég þarf ekki að fara oft í svona matarinnkaupaleiðangra í stórverslanir og get haldið mig við að rölta á inniskónum út í  Pétursbúð þar sem ég fæ mínar lífrænt ræktuðu vörur þar og speltflatkökur.  Ekkert stress á kassa, bara vingjarnleg andlit og svo setur afgreiðslufólið matvöruna í poka fyrir mann. Kissing  .. ótrúlega notó ..  Áfram Pétursbúð!!

Nú eru rósirnar komnar í vasa, konan búin að setja upp svuntu, tónlistin á "fóninum" og klár í eldamennskuna og að taka á móti mínu fólki til að halda upp á afmæli móður minnar elskulegrar! Wizard

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 3.11.2009 kl. 17:35

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mátti til með að klæmast svolítið. Christian glitter er málið.

Er ekki búinn að lesa, en kíki á þetta síðar.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 18:00

4 Smámynd: Ragnheiður

til hamingju með hana mömmu þína, smelltu á hana aukaknúsi í dag. Þakkaðu fyrir að eiga hana...oooo...ég sakna minnar mömmu

Ragnheiður , 3.11.2009 kl. 18:57

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skemmtileg frásögn.  Stressþröskuldurinn þinn er greinilega hannaður fyrir hjólastóla.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 19:08

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ásdís! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.11.2009 kl. 20:43

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jón Steinar, ég þorði ekki einu sinni að vona að einhver myndi senda mér svona glansmyndir. Glöð er ég að þurfa ekki að finna þær sjálf! knús og krams..

-- 

Stressið er upp og ofan, fer eftir aðstæðum, en stórmarkaðir eru ekki minn tebolli .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.11.2009 kl. 20:45

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Ragnheiður mín, það vantaði bara að við töluðum ítölsku miðað við fjörið hérna áðan..  og nú er ekki lengur neinn "glans" á mínu heimili, svo það er eins gott að láta hendur standa fram úr ermum..   .. Gef mömmu auka knús frá þér. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.11.2009 kl. 20:48

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er nú svo sem enginn Kringlukarl heldur og uni mér vel við einfaldleikann hér á norðurhjara. Skrifaði einhverntíma um svona kringluferð.

Ég hef líka mikið velt stressinu fyrir mér og held að það stafi oftast af ranghugmyndum um okkur sjálf og aðra.  Vitlaus viðhorf til lífsins kannski. Þessvegna er mikilvægt að velta þessu stöðugt fyrir sér, svo maður haldist á sporinu, sem manni líður best á.

Er tiltölulega lítið stressuð manneskja, þótt margir telji það ekki augljóst.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 21:18

10 identicon

Ég hef mjög gaman af því að versla í Bónus. Finn ekki fyrir vott af stressi né hraða. Ég fer hægt um og brosi mikið. Hleypi iðulega einum eða tveimur á undan mér í röðinni og spjalla jafnvel við aðra viðskiptavini. Ég tek mér minn tíma í að pakka í pokana og hef aldrei orðið óþolinmóð við bið því lífið er bara of skemmtilegt til að flýta sér of mikið.

EN svo fór ég um daginn í Bónus og situr það mjög í mér. Ég fer í gegnum búðarferðina brosandi og er það kemur að mér að borga (ég er alltaf bara með reiðufé) þá kemur í ljós að ég hef týnt 5000 krónum. Kassastarfsmaðurinn var yndislegur og hjálpaði mér að grisja út vörur til baka svo ég næði mér niður í rétta upphæð og þyrfti ekki tómhent heim. Við brosum bæði en allt í einu segir maðurinn er á eftir mér er í röðinni mjög fúll ,,taktu nú pokana bara upp úr og hættu að tefja fyrir okkur hinum."

Ég var svo sár því að mér dettur bara ekki til hugar að vera svona óþolinmóð eða þá ókurteis við ókunnuga manneskju og þá allra síst núna þegar að flest allir eiga í einhverjum fjármála erfiðleikum. Enginn annar þarna inni virtist pirraður og flestur settu nú bara upp skelfingarsvip við ummæli mannsins.

Ég kláraði nú samt afgreiðsluna og þakkaði starfsmanninum svo kærlega fyrir en þetta situr svo í mér þessi óþolinmæði frá bláókunnugri manneskju.

Ásta Elínardóttir (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 22:08

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þitt innlegg Ásta. Ég tek það fram að ég segi frá í "ýkjustíl" þetta er svona bland af raunveruleika og sögu. Geng um brosandi og flestir halda mig alltaf glaða.

Auðvitað er besta viðhorfið að láta hlutina ekki ergja sig. Ég er í raun að gera grín að sjálfri mér og þessari hræðslu við að fara í gegnum búðarkassann. 

Fólk á misjafna daga - og ég býst við að við höfum öll einhvern tímann misstigið okkur í samskiptum við einhverja sem hreinlega áttu það ekkert skilið.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.11.2009 kl. 23:43

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir vísanirnar þínar Jón Steinar, ég las Kringluferðina og fannst mannlífslýsingin skemmtileg og sönn.  Byrjaði á stressinu, en ákvað að geyma mér það, því það var svo ítarlegt.

Viðhorf okkar til manna og málefna skipta miklu og hvernig við bregðumst við. Mikilvægara að velja sér viðbragð en að bregðast við. (Þetta er stolið frá Guðna í RopeYoga).. 

Auðvitað á ekki að láta aðrar manneskjur stjórna því hvernig okkur líður, ég er að verða býsna flink í því, enda fengið mikla skólun á því sviði.

Jóhanna Magnúsdóttir, 3.11.2009 kl. 23:47

13 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með mömmu þína Jóhanna mín og veistu þú átt alveg þinn tíma við kassann, ég er löngu hætt að stressast.

Knús knús og kærleik
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.11.2009 kl. 08:47

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar Milla mín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 8.11.2009 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband