Minningarbrot tengd Halldóri Heiðari Jónssyni, f. 18.10.1935 d. 10.10.2009

 Í dag er bæði gleði og sorgardagur og í morgun kom í hugann ljóðið hans Tómasar; Hótel Jörð, því að í dag á hún litla systir mín 41 árs afmæli og að í dag verður Halldór Heiðar Jónsson, tengdapabbi hans bróður míns og jafnframt bróðir fv. tengdapabba, kvaddur hinstu kveðju, en hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut, þann 10. október sl. liðlega viku fyrir 74 ára afmælisdaginn sinn.

Útför hans fer fram í Hjallakirkju í dag kl. 13:00

Ég kynntist Halldóri, eða Dóra eins og hann var alltaf kallaður fyrir liðlega 30 árum þegar Bjössi bróðir kynnti okkur fyrir tengdaforeldrum Ragnheiðar (sem er kölluð Addý) þáverandi kærustu sinnar, sem varð að sjálfsögðu kona hans og móðir barna þeirra síðar. Þar að auki ágæt vinkona mín og systkina minna og höfum við átt margar góðar "systra"- og fjölskyldustundir saman, og er skemmst að minnast Huldukotskvennaferðanna okkar og að sjálfsögðu Síldarmannagötuævintýris sem farið var nú á haustdögum.

Dóri pabbi hennar Addýjar kom mér fyrir sjónir í pari, parið við Dóra var að sjálfsögðu konan hans, kjarnorkukvenmaðurinn Helga Jóhannsdóttir og minntist maður sjaldan á annað þeirra í einu, HelgaogDóri var svona samföst stærð einhvern veginn, enda samhent hjón og áttu tómstundir og hugðarefni sameiginleg og þá helstan veiðiskap.

Okkur systkinum fannst fyndið að búslóð Helgu og Dóra var eiginlega öll eins og búslóð mömmu, og svo áttu þau Ford Escort eins og mamma. Einhver "lúmsk" tenging þarna í gangi og skemmtileg. Þarna kynntist ég líka Sissa, Rúna, Tóta og Krumma, en Addý átti sem sagt fjóra bræður - sem voru og eru reyndar enn miklir grallaraspóar og hafa það eflaust frá pabbanum.

Tenging mín við fjölskyldu Addýjar mágkonu varð seinna meiri, þar sem ég var gift Jóni Þórarinssyni, bróðursyni Dóra í 20 ár og höfðum við þá verið saman í tvö ár á undan eða frá 1980. Börnin okkar eru því skyld í bæði móður og föðurætt, enda eru sérstök bönd á milli þeirra og þá helst elstu dætra okkar; Birtu og Evu, en þær eru nær því að vera systur en frænkur í hugsun. Ég veit að dætrum mínum þykir vont að geta ekki fylgt Dóra í dag, en þær eru báðar búsettar erlendis.

Börn Guðrúnar Þorkelsdóttur frá Valdastöðum í Kjós  og Jóns Þórarinssonar frá Ánanaustum sem bæði eru látin, voru upphafleg sex talsins, en Ragnheiður sem var fædd 1942 lést aðeins 12 ára að aldri, og minnist ég þess þegar "amma Guðrún" eins og við kölluðum hana, sagði frá þeirri sorg að missa barnið sitt. Halldóra Borg, eða Dóra eins og hún var alltaf kölluð lést fyrir aldur fram árið 2002 og nú er enn hoggið í systkinahópinn þegar Dóri er burt kallaður.

Eftirlifandi systkini eru þau fyrrverandi tengdapabbi minn; Þórarinn Þorkell, Guðmundur Reynir og Þórleif Drífa, allt fólk sem hefur snert mitt líf á meiri eða minni hátt eins og þessi fjölskylda öll. Stórfjölskylduferðir voru farnar ár hvert og á meðan amma Guðrún lifði voru jólaboð hjá henni og síðar í Kiwanisheimilinu í Kópavogi.

Hvar kemur svo Dóri elskulegur inn í þennan mikla fjölskyldupakka. Jú, hann var svona þessi stapili, sterki - ekki beint málglaða týpan, en gaf samt ótrúlega mikið af sér með nærveru sinni og kímni. Svo mátti Dóri eiga það að hann klikkaði aldrei á kossinum og lét sér ekki nægja að heilsa fálega. Það var eitthvað mjög hlýtt við nærveru þessa stóra manns og ekki var hann með látalæti eða að sýnast og því var kveðjan alltaf einlæg.

Hugur minn er nú hjá systkinum Dóra og fjölskyldum þeirra og hugur minn er hjá börnum, tengdabörnum og barnabörnum Dóra. Hugur minn er síðast en ekki síst hjá Helgu sem eftir stendur eftir ein úr pari, en það er huggun harmi gegn að minning um góðan mann lifir og Helga á góða að sem munu án efa umvefja hana, en Helga hefur sjálf alltaf verið eins konar kjarni í fjölskyldu sinni og mun hún örugglega halda því hlutverki áfram.  

Heart

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með systir Jóhanna mín, og ég samhryggist þér vinamissinn það er aldrei gott að missa þá sem manni þykir til koma, en ef þeir þurfa að fara þá blessum við það og sendum upp í ljósið.

Kærleik til þín og þinna
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.10.2009 kl. 07:41

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 19.10.2009 kl. 07:51

3 identicon

Ah, that sounds like a difficult day ahead. My brother died this year, just after his birthday, and somehow that was worse. It seems as if a person should die just before their birthday, and not just after.

Lissy (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 09:10

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Halldór var gæðamaður, góður piltur og alltaf jafn yndislegur. Innilegar samúðarkveðjur.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 19.10.2009 kl. 11:15

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 19.10.2009 kl. 14:24

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.10.2009 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband