18.10.2009 | 22:56
Af hverju að drekka, reykja eða dópa? ...
Ég datt inn á eina heitustu umræðuna hér á blogginu þar sem verið var að ræða hassnotkun, lögleiðingu o.s.frv. Umræðan var býsna hörð og köntuð með eða á móti en á því voru að vísu ýmsar varíasjónir. Ég hef oft hugsað hvað það er sem fólk er að gera þegar það er að drekka áfengi, reykja hass eða sígarettur eða taka kókaín, e-töflur o.s.frv?
Í framhaldi af því mætti spyrja sig hvers vegna við borðum meira en líkamanum er hollt.
ÁSTÆÐUR
- Deyfing? Fólk notar í einhverjum tilfellum vímuefni, eða önnur efni til að fylla upp í tómarúm, deyfa erfiðar tilfinningar, róa taugarnar o.s.frv.
Af hverju að deyfa þann anda sem við höfum í okkur með aðskotaefni? Er til önnur leið?
- Félagslegt fyrirbæri ?
Drykkja er hjá mörgum algjörlega af félagslegum toga. Við drekkum kampavin, rautt eða hvítt af því það er "stemmning" Kaffi og koníak líka af því það er stemmning.
Fólk reykir líka í einhvers konar grúppum, það þekkist meira að segja að fólk finni sér "félaga" í pípunni sinni .. í einhverjum tilfellum eru reykingarnar eins konar ritual.
Sumir eru svo feimnir að þeir þora ekki að nálgast hitt kynið, nú eða sama kyn í þeim tilfellum sem það á við, nema undir áhrifum. Þá eru þeir í raun ekki að sýna sitt rétta andlit.
Annars konar og heilbrigðari víma?
Hvaða víma er líkamanum skaðlaus og helst gagnleg? Víman við samveru af ýmsum toga góða fjallgöngu, útiveru, leikhús, bíóferð, keilu, bóklestu, sundferð, söng, dans, líkamsrækt, hugleiðslu, kynlíf .... ?
Gleðin er besta víman, söng Rúni Júl, og hittir að mörgu leyti naglann á höfuðið. Það er þá okkar markmið að vera glöð - finna út hvað það er sem gleður okkur og finna gleði í hinu hversdagslega. Finna máttinn sem felst í núinu eins og höfundurinn "Eckhart Tolle" bendir á í samnefndri bók sinni.
Í einhverjum tilfellum er fólk lokað og gjörbreytist við áfengið. Það þarf þá að taka á því á annan máta, t.d. að fara á sjálfsstyrkingarnámskeið hjá Dale Carnegie. Þetta er líka atriði sem þarf að blanda mun betur inn í skólakerfið, þ.e.a.s. sjálfsmyndaruppbygging, því að sterk sjálfsmynd byggir líka upp öruggari nemendur og gerir þau sjálfstæðari hugsun og þá vonandi öruggari fyrir neikvæðum áhrifum umhverfis. Við græðum öll, því að upp vaxa sterkari þjóðfélagsþegnar.
Allt of margir þola illa áfengi og önnur vímuefni en nota þau samt, verða ofbeldishneigðir eða gera hluti sem þeir skammast sín fyrir. Fjölskyldur hafa flosnað upp vegna áfengis- og vímuefnaneyslu og fleira sem ég þarf ekki að telja upp hér. Ég er ekki að banna neitt, enda ekki í mínu valdi, bara að benda á þessi atriði, reyndar er þetta bara svona hugsað upphátt blogg, eftir lestur minn á bloggi Gunnars Kristins.
Ef raunveruleikinn er ekki fullnægjandi, hvað þurfum við þá að bæta í samfélaginu til að fólk sættist við raunveruleikann og þurfi ekki að deyfa sig til að afbera lífið eða til að vera glöð? Og hver er hin sanna gleði?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:57 | Facebook
Athugasemdir
Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.10.2009 kl. 23:30
Svanur, ég horfi upp á ungt efnilegt fólk flosna úr námi vegna þess að það fer í "ruglið" eins og það er kallað. Ég hef séð heilu fjölskyldurnar falla eins og dominó vegna eins fjölskyldumeðlims sem hefur ánetjast áfengi og/eða öðrum efnum og ekki höndlað það.
Fyrir utan að þetta kostar bæði andlega og líkamlega heilsu, þá kostar þetta fullt af peningum sem gætu farið í betri hluti.
Ég tel að betur megi gera.
Jóhanna Magnúsdóttir, 18.10.2009 kl. 23:48
Það sem þú segir er reynsla flestra þannig að þú svo sannarlega staðhæfir hið augljósa. Og eins og þú standa flestir afar ráðalausir frammi fyrir þessum vanda. - Því miður þá er ég vantrúaður á að Dale Carnegie og kenningar hans nái að endurmóta hjörtu fólks og siðgæði.
Hvaða glaða unga og hvíta fólk (fyrir utan einn) er þetta á myndinni með greininni?
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.10.2009 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.