Allt kvennabaráttunni um "að kenna" að færri karlmenn fengu Nóbelsverðlaun í ár?

Ég fékk þá athugasemd inn hjá mér í fyrra bloggi frá Theódóri Gunnarssyni að það væri orsakasamhengi á milli kvennabaráttunnar og þess að karlmenn hrökkluðust úr langskólanámi og því jafnframt bætt við að konur yrðu aldrei ánægðar.  

 Athugasemdin hljóðaði svona:

"Hvað meinarðu eiginlega?  Af hverju þarf þessi andskoti að heita feminismi? Ef það er nauðsynlegt fyrr konur að sveipa um sig feminisma, af hverju er þá ekki rétt að karlmenni komi sér upp maskúlínisma?  Eigum við bara að liggja kylliflatir þar til þið eruð búnar að valta gersamlega yfir okkur?"

Ef ég bregst fyrst við þessu, þá tel ég að svonefndur maskúlínismi hafi verið ríkjandi afl mjög lengi og femínismi því aðeins afl sem er og var að reyna að rétta af þá slagsíðu sem er komin á heimsskútuna. Ekki til að valta yfir einn né neinn og alls ekki til að velta henni, heldur til að rétta hana af.  Ég vona jafnframt að Theódór átti sig á því að ég á börn og barnabörn af báðum kynjum og á skjólstæðinga af báðum kynjum í nemendum og fleirum og hef engan hug á að styðja neinn -isma sem valtar yfir þau. 

Svo áfram með athugasemd Theódórs: 

"Ég veit ekki hver skýringin er, en ég trúi ekki að það séu ekki tengsl milli árangurs kvennabaráttunnar og þeirrar staðreyndar, að karlar eru um það bil að hrökklast úr langskólanámi."

Er kvennabaráttan að fæla karlmenn frá námi?  Er kvennabaráttan að banna karlmönnum eitthvað sem konur mega í námi eða hafa aðgang að varðandi nám?

Það sem er að skemma fyrir námi margra stráka í dag er óhóflegir tölvuleikir, óreglulegur svefn, of mikil vinna með skóla, hreyfingaleysi,  vímuefnanotkun og skortur á sjálfsaga og vissulega aga heima fyrir líka. Þetta á við um einhverjar stelpur líka, en í færri tilfellum. Þetta er vert að skoða og þarna má gera betur.  Þetta eru þó atriði sem ég get ekki séð að hægt sé að kenna kvenabaráttunni um. 

 "Með sama áframhaldi verður sá hæfasti, þegar meta skal hvaða umsækjandi er hæfastur til að sinna eftirsóttustu störfunum, alltaf kona vegna þess að það verður engum langskólagengnum karlmönnum til að dreifa.  Ég get alveg skilið að það þurfti að breyta ástandinu eins og það var, og ég veit að konum finnst aldrei nóg komið, en ég fæ ekki annað séð en að karlmenn þurfi að fara að athuga sinn gang.  Það gera þeir ekki með því að gerast feministar."

Ég hef meiri trú á karlmönnum en það að þeir hætti nú allir að sinna framhaldsnámi. Theódór skilur að það þurfti að breyta ástandinu, - það er vel - en finnst honum þá nóg komið núna.  Er skútan farin að sigla bein - eða finnst honum að nú sé farið að halla á hina hliðina hvað jafnrétti varðar? Hvað með stjórnir, hvað með laun, hvað með fólkið uppi í "Umræðunni" á blog.is - þykja raddir kvenna þar jafn merkilegar röddum karla? 

Ég skal viðurkenna að mér finnst halla á karla í ákveðnum málum og það eru t.d. mál varðandi forsjá barna eftir skilnað, það er skráning í trúfélag móður og eflaust einhver fleiri slík mál. Jafnréttið verður að virka í báðar áttir. 


Úr Hjallastefnuhugmyndafræði. "Kynjaskipting er notuð til að tryggja jafnræði stúlkna og drengja og gefa báðum kynjum uppbót á þeim sviðum sem ekki tilheyra hefðbundnum kynjahlutverkum. Þannig hafa kynin farið á mis við ólíka þjálfun í samfélagi sem ekki hefur enn náð jafnréttismarkmiðum sínum." 

Tekið skal fram að Margrét Pála er feministi - sú sem hannaði þessa stefnu. 


Bottom line: Þó að konur hafi náð uppbót í námi o.fl. þýðir það ekki að karlmenn gjaldi fyrir kvennabaráttuna og eigi ekki að hræðast það t.d. að fleiri konur fái að skína, sæki nú nám eða vinni nóbelsverðlaun. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að skoða hvað er hægt að bæta í veröld karlmanna þannig að þeir nái að skína sem flestir, hvort sem það er í námi eða vera lausir við það sem hrindir þeim út í ofbeldi.

Það er mér að meinalausu að nota engan - isma eða hugtök um þá vinnu. Held það sé best að kalla þetta ekki neitt svo við séum að fókusera á viðfangsefnið en ekki að rífast um hugtök.

Friður Heart

p.s. Maria Sklodowska, síðar Curie, sú kona sem hlaut fyrst Nóbelsverðlaun, þurfti að yfirgefa heimaland sitt Pólland, vegna þess að konum var, þar í landi, bannaður aðgangur að háskólum. Móðir hennar dó þegar hún var ung en faðir hennar sem var kennari, fór á móti straumnum þegar hann hélt bókum að dætrum sínum ekki síður en syni. 

 

 


mbl.is Aldrei fleiri konur hlotið Nóbelinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég held það hljóti nú mestmegnis að vera þessum konum sjálfum "að kenna" að þær hafa náð þessum árangriEn það byggist líka á því að þær hafa haft jafna möguleika til náms og karlmenn... og nýtt sér þá. Skil svo engan veginn hvernig hægt er að kenna kvennabaráttu um að karlmenn sækja síður í langskólanám... konur eru ekkert að berjast gegn körlum, þær eru að berjast fyrir því að allir séu jafnir... kvenmenn og karlmenn

Jónína Dúadóttir, 13.10.2009 kl. 06:42

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Við sem ekki fórum í háskóla erum sem sagt fórnarlömb feministanna. Ég eftirlæt ykkur Jónínu að rökræða það við Tedda.

Annars er ég orðinn hundleiður á öllum þessum ismum og istum sér í lagi dogmatistum.  Ef einhver segir mér að Hjallastefnan hafi reynst vel fær maður strax áhuga og vill heyra meir en ef einhver segir manni að hann eða hún sé hjallastefnuisti, þá loka ég eyrunum. 

Í Austurbæjarskólanum voru tveir félagsráðgjafar annar var maóisti  og hinn femíisti  og skýrðu þeir öll heimilisvandræði út frá sínum isma. Annar út frá stéttabaráttunni en hinn út frá "kúgun karla á konum og börnum".  

Sigurður Þórðarson, 13.10.2009 kl. 09:20

3 identicon

Við skulum hafa eitt á hreinu... ekki myndi ég, ef ég væri kona, vilja vera uppfyllingar píka... og sem karl vildi ég ekki vera stöðutyppi.
Jæja ok, ég myndi kannski vilja þetta ef ég væri í klámmyndum ;)

Þegar fólk er farið að spá í hversu margir karlar og konur eru í þessu eða hinu... setja svo inn uppfyllingar píkur eða stöðutyppi... ég myndi fíla mig sem fatlaðan í svona stöðu.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sammála þér Jónína, karlar og konur eiga að hafa jafnan möguleika til náms. Ég fékk svo ágætt innlegg inni á Facebook frá Ármanni vini mínum - um að mestu skipti að vera ánægður í náminu og því er ég svo hjartanlega sammála. Spurning hvort að  strákar/karlar séu óánægðari eða skólinn henti þeim verr og það er atriði sem reyndar er reyndar í skoðun og er ástæðan fyrir aðskilnaði kynjanna í Hjallastefnuskólum.

Mín hugmynd er að eitthvað prógram, svipað og unglinganámskeið Dale Carnegie í sjálfsstyrkingu myndi hjálpa bæði stelpum og strákum og gera þau öruggari í námi svo í lífinu öllu. 

Takk fyrir þitt innlegg. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 13:22

5 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Sæl Jóhanna og takk fyrir ítarlegt svar.

Þetta með maskúlínistann er nú meira meint sem grín af minni hálfu, en samt get ég ekki neitað að það er smá alvara á bak við það samt sem áður.  Ég á sjálfur 5 börn, 2 stelpur og 3 stráka, og mér finnst frábært að dætur mínar skuli sitja við sama borð og strákarnir.  Eldri dóttir mín er t.d. nýútskrifaður læknir og sú yngri er líka að klára háskólanám.

Ég er í rauninni bara að benda á hvað jafnréttisbaráttan er nánast 100% kvenmiðuð og ég er að ergja mig á að þú skulir t.d. vilja kalla hana feminisma og halda því fram að þessi barátta sé best rekin undir merkjum feminismans.  Frá mínum sjónarhóli ætti JAFNRÉTTISBARÁTTA ekki að vera einhver 'ismi og alls ekki feminismi.

Ég tók þetta með háskólanámið bara sem dæmi um hlut sem mér finnst að ætti að skoða.  Þetta er mjög slæm þróun ef þetta heldur áfram svona.  Ég tók einmitt fram að ég vissi ekki hver skýringin er á þessari breytingu, enda virðist enginn vita það með vissu.  Það er samt eitthvað undarlegt að eiga sér stað.  Sumir hafa t.d. verið að giska á að skólakerfið hafi þróast þannig að strákum líði verr í skóla núna en þeir gerðu áður.  Ég er í rauninni ekkert að skammast út í kvenfólkið, heldur er ég að benda á að það mætti e.t.v. fara að sinna karlpeningnum dálítið líka.  Ef það er t.d. tilfellið að strákarnir hrökklist úr námi vegna þess að þeir geti ekki slitið sig frá tölvuleikjunum, þá þarf að taka alvarlega á því máli á einhvern hátt.

Eins og þú bendir t.d. á þá eru réttindi karla fótum troðin þegar kemur að forsjá barna sem dæmi.  Alltaf er líka verið að tala um heimilisofbeldi þar sem algerlega er einblínt á karla sem gerendur, þó að allir viti að margir karlar eru þolendur, og þá sérstaklega þegar um er að ræða andlegt ofbeldi.

Ég get líka tekið sem dæmi þegar barn kemur undir í skyndikynnum.  Þá er karlinn algerlega réttlaus, meðan konan hefur allt í hendi sér.  Hún getur eytt fóstrinu án þess að bera það undir karlinn, og hún getur líka ákveðið að eiga barnið gersamlega án tillits til aðstæðna karlsins. Hann verður einfaldlega að sætta sig við hennar ákvörðun hver sem hún verður.  Svo á hann bara að borga og kerfið gengur algerlega erinda kvennanna.  Ef eitthvert réttlæti væri fyrir hendi í svona málum þá ætti karlinn að hafa eitthvað um málið að segja.  Hann ætti t.d. að geta krafist þess að barnið fái að fæðast, og hann ætti líka að geta krafist fóstureyðingar, nema konan ákveði að eiga barnið ófeðrað og þá sé hann laus allra mála

Að lokum vil ég benda á að það er ekki búið að vera auðvelt að alast upp sem strákur þessi bráðum 60 ár sem ég hef lifað.  Það er búið að agnúast út í okkur sundur og saman allan þennan tíma, karl-eðlið hefur verið niðurlægt og rægt og okkur hefur verið talið trú um að við séum fæddir illir.  Ég veit að þessi orð eru hörð og öfgafull, en ég hef þau svona til að ég skiljist.

Theódór Gunnarsson, 13.10.2009 kl. 13:26

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Já, Sigurður - er það ekki bara! .. Svo er aftur á móti pæling þetta með þessa smölun allra í langskólanám og þá í bóknám.  Ég þekki sorglega mörg dæmi um nemendur sem eru að rembast á rangri hillu, eru ósátt og hafa hreinlega enga gleði út úr sínu námi. Ég þekki sem betur fer líka þá sem hafa síðan fundið sína hillu hvort sem er í bóknámi, þá í annars konar skóla, eða þá hreinlega í iðnskóla - kvikmyndaskóla eða bara í einhverju allt öðru. Brautirnar eru nefnilega svo margar og möguleikar óteljandi.  Ungur maður mjög tengdur mér er t.d. að hlaða niður fyrirlestrum frá Harvard um stjörnu- og eðlisfræði og hlustar á þetta fullur eldmóðs, og gaman að hlusta á hversu hann er orðinn fróður um slíka hluti, en hann hefur ekki fundið sig í hefðbundnu námi. Eflaust erum við líka of hefðbundin og niðurnjörfuð í námsskrám - og þá náum við ekki eins vel fram í fólki mörgu af því sem það er mjög fært til að nema. Það á að steypa allt of marga í sömu mótin og fjölbreytileikanum ekki fagnað.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 13:28

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

DoctorE,  það er hægt að orða hlutina á snyrtilegri máta en þú gerir - en það yrði eflaust stílbrot á þínum málflutningi. Þú hefur sagst ungur í anda, ég er farin að álíta að þú sért barn í anda.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 13:34

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. geri mér samt grein DoctorE að þú ert að ræða kynjakvótann. Ég hef skrifað mína skoðun á honum, þarf að fletta því upp, en það sem niðurstaða mín var að kynjakvóti á alls ekki við nema það á að hafa sem jafnasta dreifingu kynja í stjórnun landsins. Kvenlegar áherslur eru yfirleitt öðruvísi en karllegar, og þá er ég ekki bara að tala um litinn á fötum nýbura á fæðingardeild.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 13:41

9 identicon

Veistu að mér finnst rosalega leiðinlegt og hreinasta vitleysa að tala undir rós..... ég geng það langt að segja að rósamál og ofurkurteisi sé til þess fallin að slá ryki í augu okkar....

Við skulum ekki kæfa málflutning með væmnu rósamáli.. .hin alvarlegustu mál geta sýnst akkúrat no problemo ef rósamáli er beitt um og of

DoctorE (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 15:33

10 identicon

Máli mínu til stuðnings þá nefni ég alþingi íslendinga.. þar hamast menn við að kalla hvor aðra hæstvirta.. kurteisishjalið er búið að lina menn svo upp að ekkert stendur eftir nema rústir einar.... og við sitjum í rústunum og kurteisishjalið heldur áfram.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 16:01

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk Theódór, ég held að við séum í reynd bara nokkuð sammála. Við ættum ekkert að vera að setjast undir ákveðin skilti, þau rugla bara málin, sérstaklega þegar hver skilgreinir þau á sinn hátt og kannski eftir hentisemi.

Ég skil lokaorðin þín, það hefur þótt sjálfsagt að gera grín að körlum og ef t.d. karlmaður tilkynnir ofbeldi af hendi konu er oft bara hlegið að honum.  Við fengum nasaþefinn af þessu í Dagvaktinni þegar Gugga nauðgaði Ólafi Ragnari og það átti að heita fyndið. Mér og mörgum fleirum var ekki skemmt, og er það ekki vegna þess að ég hafi ekki húmor. Hef bara ekki húmor fyrir nauðgunum. Ef þessu dæmi hefði verið snúið við hefði heyrst hljóð úr horni. 

Einnig var lengi vel sýnd íslensk auglýsing þar sem vanfær kona var látin notfæra sér góðvild karlmanns, hún þóttist  missa veskið sitt og á meðan stal hún  síðasta kjötbitanum sem maðurinn hafði ætlað sér að versla í kjötborðinu. Þetta þótti sérstaklega fyndið. 

það er misskilinn feminismi að konur eigi að ná sér niðri á karlmönnum. Það sem íslenskir "feministar"  hafa gert einna ljótast í garð íslenskra karla erþegar Askasleikir var látinn óska sér "að karlar hætti að nauðga" ..  sú smekkleysa fór vægast sagt fyrir brjóstið á mér - að í raun alhæfa svona um alla karla.

Það er því ekki það sama að vera feministi og að vera feministi, svipað og  það er ekki það sama að vera kristinn og vera kristinn.  Við þekkjum eflaust flest að það getur verið himinn og haf á milli þankagangs tveggja einstaklinga sem báðir telja sig kristna.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 21:06

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég á gamla en lífsglaða  frænku sem er á elliheimili þar sem karlmenn eru einungis 10% vistmanna. Þegar ég spurði hvernig hún hefði það sagði hún mér að böllin væru hundleiðinleg því það væru engir karlar og vonlaust að komast á séns.

Hún vill koma á kynjakvóta á elliheimilinu.

Sigurður Þórðarson, 13.10.2009 kl. 21:39

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 21:59

14 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

þessi broskall var að sjálfsögðu vegna umbeðins kynjakvóta á elliheimilinu!

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 22:01

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

DoctorE,  ég tel að við getum alveg talað hreint út án þess að tala um kynfæri. Kynjakvóti kemur kynfærum ekkert við, en vissulega kyni. Karlar og konur stjórna ekki með kynfærum heldur (vonandi) heilanum - og stundum með hjartanu.

það er munur á hvernig konur hugsa og karlmenn, a.m.k. enn í dag - svo það er nú bara þess vegna sem ég tel að það sé æskilegt að fá ólík sjónarmið inn á þing. Það eru vissulega samt til karlar sem hugsa líkt og konur og öfugt, en reglan er að það sé munur, hvort sem það er eðlis- eða uppeldislegt. 

Það er stjórnunarlega jákvætt að hafa sem flest mismunandi viðhorf í gangi, og mismunandi hæfileika. því væri það best að t.d. á alþingi Íslendinga væri sem fjölbreyttust flóran, þá líka fólk úr mismunandi starfsstéttum, sem gæti sett sig í spor þjóðarinnar, en ekki einhver ósnertanleg "hæstvirt"  elíta.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.10.2009 kl. 22:11

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jóhanna gömlu konunni var ekki skemmt.

Hvaða lausn sérð þú á hennar málum?

Sigurður Þórðarson, 13.10.2009 kl. 22:13

17 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jóhanna, nú ætla ég að vera hreinskilinn við þig:

Þú ert ekki týpan til að vera isti. Istar eru alltaf að tala um hver sé sannur isti og hverjir fari út af sporinu á hinum eina og sanna isma. Þú ert vel menntuð, vel gefin og víðsýn og getur rætt málin frá öllum hliðum en ekki inni í boxi eins og margir istar vilja gera. 

Ég vona að þú takir þetta ekki illa upp. 

Sigurður Þórðarson, 13.10.2009 kl. 23:02

18 Smámynd: Ragnheiður

Jóhanna mín er ekki í boxi, það er sko alveg hárrétt hjá Sigurði.

Mér leiðast allar skilgreiningar og vil helst hafa fólk eins og það er skapað en þigg að það sé innan ramma hegningarlaganna.

Ég var barn þegar kvennafrídagurinn var og ég man viðbrögð kvennanna í mínu nærumhverfi og ja...við getum sagt að þau hafi ekki verið vinsamleg.

Ég er aðeins penni en okkar kæri DoktorE

Ragnheiður , 14.10.2009 kl. 14:13

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég viðurkenni að ég er mjög fordómafullur.

Mér finnst meira en sjálfsagt að styðja kvenréttindabaráttu eins og maður styður mannréttindabaráttu. Það er ekkert gaman að samskiptum við hitt kynið nema það ríki virðing eða þannig vil ég hafa það.

En um leið og ég heyri "isti" þetta eða hitt þá gjósa upp fordómarnir. Ég veit að þetta er ekki réttmætt og jafnvel heimskuleg af mér. Svona er þetta bara. 

Sigurður Þórðarson, 14.10.2009 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband