22.9.2009 | 18:33
Af hverju má ég ekki vera trúhneigð?
Ég er trúhneigð. Já, mér finnst gott að trúa á Guð. Sumir eru inni í skápnum með það því þeir eru hræddir um að það sé asnalegt og það sé gert grín að þeim. Sú hræðsla er ekki að tilefnislausu, því það þykir svona frekar "lame" í sumra augum að vera trúaður og vera eitthvað að tala um það yfirhöfuð eða opinbera.
Svo er það náttúrulega þannig að sumir fullyrða allt illt sé framkvæmt af trúhneigðum. Þeir halda að mín trúhneigð felist í því að ég sé að fremja níð á börnum, smali þeim nauðugum viljugum inn í sunnudagaskólann troði lygi ofan í hálsinn á þeim og lesi yfir þeim helvítisprédikanir. "Submit or burn" segir felumaðurinn DoctorE að ALLIR trúhneigðir segi við litlu saklausu börnin. Hann er þá eflaust að vitna í eitthvað brjálað myndband sem hann hefur grafið upp í leit sinni að einhverju vondu um trúhneigða. Svo sannarlega finnur hann eitthvað vont, en ef hann færi í leit að myndböndum um trúlausa ætli hann fyndi engin voðaverk framkvæmd af þeim. Er heimurinn ekkert nema sól og gleði og valhoppandi DoctorarE-ar í kærleikshalarófu í anda Lotusdömubinda ef að trúhneigðum er útrýmt?
Öll voðaverk heimsins eða a.m.k. langflest eru skv. "þeim sem vita betur" framkvæmd af trúhneigðum og þess vegna vilja þeir af-trúa mig. Þeir telja nefnilega að trúhneigð sé svo hættuleg að hún sé hættulegri en að reykja sígarettur og vilja bjarga trúhneigðum frá sjálfum sér og öðrum.
Ég elska samkynhneigða, gagnkynhneigða, tvíkynhneigða, sjálfkynhneigða, ókynhneigða, trúhneigða og ótrúhneigða alveg jafn mikið. Ég fatta ekki hvað trúhneigð eða kynhneigð kemur við hvort manneskjan telst ill eða góð. Allir þurfa að bera ábyrgð á eigin illsku og samkynhneigðir eru ekkert verri eða betri en annað fólk vegna kynhneigðar og trúhneigðir eru hvorki verri né betri vegna trúhneigðar.
Það kemur hneigðinni bara ekkert við. Ef fólk er vont er það vont, ef fólk er vitlaust er það vitlaust, ef fólk er gott er það gott.
Auðvitað eru til sumir trúhneigðir sem stunda ofbeldi og segja það sé vegna þess að þeir séu trúhneigðir að ofbeldisguði sem segi þeim í Biblíunni að dæma fólk t.d. með aðrar hneigðir og þeir séu sko miklu betri en hinir því þeir séu með rétta hneigð "DÖH" .. við önsum essu ekki.
Á hvaða öld lifum við? Lifum við árið 0 eða 2009? Eigum við að fara eftir símaskrá sem var skrifuð árið 0? Hver ætli svari? Það þarf að fatta að það er búið að endurnýja símaskrána. Reyndar engir símar árið 0 en það er aukaatriði ;-)
Live and let live og látum hvort annað í friði með trú eða trúleysi okkar .. virðum lífsskoðanir og lífsgildi náungans ... Að sjálfsögðu berjumst við gegn hinu illa, það er til gott fólk í öllum trúarbrögðum og gott fólk í Vantrúarbrögðum (sem eru ekki trúarbrögð, svo ég særi nú engann) .. Vinnum saman að hinu góða og berjumst gegn hinu illa, en verum ekkert að pæla hvar í flokki við stöndum, já já konan bjó til mengi í blogginu á undan - en það var bara til að leika smá .. búum nú til eitt sammengi þar sem hið góða fær að þrífast og pælum ekki í hneigð hvers annars .. Á að vísu við í pólitíkinni líka, en það er efni í annað blogg..
Give peace a chance ..
p.s. mig langar að biðja þá sem ætla sér að skrifa og eru eitthvað reiðir, leiðir eða sárir, að anda djúpt finna hvað það er yndislegt að vera á lífi og tjah.. bara taka þetta svolítið á "chillinu" ..
Athugasemdir
Smala börnum í Sunnudagaskóla! pfff... hef ekki heyrt það skrýtnara....
Held að það hafi alltaf verið ég sem smalaði einhverjum með mér þangað því mér þótti svo gaman, og að safna límmiðum fannst mér bara æði (þó ég mætti ekki oft).
Brúðuleikhúsið og allur söngurinn.. endalaust gaman (allavega í minningunni!)
En trúfrelsi er eitthvað sem ætti að taka upp allstaðar, allir mega trúa á það sem þeir vilja trúa á, fólk á ekki að skjóta trú annarra á bólakaf og hrauna yfir annað fólk hvað það geti verið vitlaust útaf því það leyfir sér að trúa.
Ég hef alist upp við það að fólk trúir á margt í kringum mig, eina sem ég hef sett út á er að múslimar borða ekki svínakjöt - bað bara um að fá að vita hversvegna og fékk spurningu minni svarað! Svo eru engar trúardeilur neinstaðar nema í netheiminum... eina staðnum sem fólk þorir að koma almennilega fram með sínar skoðanir..
Róslín A. Valdemarsdóttir, 22.9.2009 kl. 18:43
Ég er með helvíti sára tannpínu. Það er allt trúarbrögðum að kenna.
Kem með eitthvað af viti í kvöld. Takk fyrir skemmtileg skrif.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 22.9.2009 kl. 18:45
Hmmm, ég veit ekki afhverju ég fékk þennan risafont þarna.
Kristinn Theódórsson, 22.9.2009 kl. 18:45
Love you too
Sigrún Jónsdóttir, 22.9.2009 kl. 18:51
Ég þarf nú ekki að anda djúpt til að finna hvað það er yndislegt að lifa, lífið og allt í kringum okkur er eitt stórt undur, ef við ekki tökum eftir því þá ættum við að fara að hugsa smá.
Hættum að stjórna í öðrum, virðum skoðanir annarra og leifum öllum að njóta sín
Give the peace a chanse
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.9.2009 kl. 18:52
Þakka þér innilega Róslin fyrir þitt innlegg, það er ekki síst mikilvægt að fá innlegg svona ungrar manneskju eins og þú ert, því að við verðum bara forpokaðri og þröngsýnni með aldrinum og það nær eflaust hámarki á mínum aldri, og fer svo vonandi að batna aftur og verðum dásamleg 100 ára! ... p.s. mér fannst líka gaman í sunnudagaskólanum, en ekki segja neinum hehe..
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 18:58
Takk Kristinn, með stóru Kái. Góður með tannpínuna .. spurning um að kalla á tannálfinn til hjálpar.
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 19:00
Love you 3 Sigrún, takk fyrir heimsóknina
Sömuleiðis Milla, það er nú ekki vandamál fyrir þig að gefa gefa friðnum tækifæri
Nú bíð ég bara eftir hjartanu frá DoctorE knúsí, knús...
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 19:01
humm, fyrst fannst mér kolvitlaust að jafna trúhneigð við kynhneigð, en þegar betur er að gáð er það bara snjallt hjá þér. Því trúhneigð virðist vera inngróin manneskjunni og mögulega jafn mikið af líkamlegum orsökum og kynhneigðin.
En hvernig er ástandið á landinu ef fólk þarf að skammast sín fyrir trú sína, vera í vörn, vera inní skápnum - er framtíð okkar sú sem var í Albaníu um árabil á seinustu öld? Þar voru trúarbrögð endanlega bönnuð 1968, margir liðu píslavætti næstu árin, en fólkið hætti ekki að trúa (bæði kristnir og múslimar). Upp til fjalla risu altari og bænastaðir.Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 22.9.2009 kl. 19:08
Af hverju er Gud alltaf í felum? Af hverju heyrist ekkert frá theim fedgum Gud og Jesú?
Allah og Buddah eru einnig í felum. Allir thessir Gudir eru felugudir.
Af hverju ekki ad treysta felumanninum DoctorE BETUR en felugudunum?
DoctorE er thó í skriflegum samskiptum vid daudlega.
Rósmundur Krásmundsson (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 19:28
Þakka Sveinbjörn, úff hvað mér brá ég hélt þú ætlaðir að fara að skamma mig fyrir að jafna trúhneigð við kynhneigð, en til að taka af allan vafa er ég ekkert að gera lítið úr samkynhneigð .. miklu frekar að benda á þessa vitleysu sem viðgengst að samkynhneigðir fái ekki réttindi á við gagnkynhneigða.
Það hafa verið ofsóknir á báða bóga, trúmenn hafa ofsótt trúlausa eða þá sem þeim þótti hafa "ranga" trú og á öðrum stöðum er það öfugt þar sem ríkið hefur bælt niður trúarhópa.
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 19:28
Rósmundur Krásmundsson, .. hefur þú ekki lesið "A Conversation with God"
Ég tel að Guð sé alltaf að skrifa og tjá sig í gegnum okkur, öll tónlistin, ljóðin, dásemdirnar sem hafa verið skrifaðar eru að mínu mati verk sem eru guðleg. Guð opinberar sig í því að vera nálægur þeim sem finna fyrir honum/henni/því, ég vil ekki einskorða Guð við pabbahlutverkið, því Guð er ekkert frekar kynvera en eitthvað annað.
Ef allir sem eru í felum eru guðir þá væri fólk nú varla að koma út úr skápunum eða hvað?
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 19:34
p.s. DoctorE kemur vonandi einhvern tímann út úr skápnum - vonandi verður veröldin öruggur staður, hann er hræddur við að vera ofsóttur af "ofurkrissum" eða "trúarnötturum" ef hann gerir það. Það er svakalega sorglegt ef fólk getur ekki tjáð sig, jafnvel þó hann særi suma ansi svakalega, án þess að þurfa að óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar.
Þetta er ekki grín, og langt frá því, - ég veit að þetta er ástæða þess að hann kemur ekki fram undir eigin nafni.
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 19:37
Um 'Dokkza' ...
Ég hef alla vega ekki náð þeim lægðum að eineltazt við bloggfélaga mína, hvort zem að þeir kjóza að koma fram undir kennitölunni, nafni eða öðru, enda hreinlega er ekkert forvitinn um hvort að viðkomandi zé 14tán ára zwekktur zweidazdrágur eða 64jggra ára aldraður múrari.
Ég enda var ekkert að leyna því í innleggjum mínum að mér þótti miður að bloggi hanz væri lokað, þó að það væru nú ekki á mínum leztrarlizta, því að einz & ég trúi á trúfrelzi annara, & minn Guð, þá trúi ég líka á malfrelzi zem & ber virðíngu fyrir trúleyzi þeirra zem að zlíkt kjóza...
Steingrímur Helgason, 22.9.2009 kl. 20:22
Amma mín heitin er kannski besta manneskja sem ég hef hitt. Hún var mjög trúuð, trúði jafnt á álfa og Krist enda átti hún enga Biblíu. Hún fórnaði til álfa og fór með kristilega bæn allt var þetta gert í kærleik og einlægni. Það var mannbætandi að vera í návist ömmu, eitt af því sem ég get þakkað henni er barnatrúin og aldrei dytti mér í hug að skensa fólk fyrir trú þess.
Sigurður Þórðarson, 22.9.2009 kl. 21:39
Skrapp á kvikmyndahátið - og sá myndina The Blessing, það var áhugaverð mynd um unga konu með fæðingarþunglyndi og samband hennar við annars vegar móður sína og hins vegar við nýfædda dóttur sína.
-----
Takk fyrir þitt innlegg Zteingrímur, er zammála þessu.
Takk sömuleiðis Sigurður, takk fyrir að deila þessari frásögn af henni ömmu þinni. Við þurfum á fleiri svona ömmum að halda og frásögum af þeim. "Allt gert í kærleik og einlægni" er svona lykilsetning og er í raun það sem skiptir mestu máli.
Ég átti svona yndislega ömmu líka, sem var gefandi og hlý og á svipuðum nótum og þín. Það er gjöf sem aldrei er aftur tekin.
Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 22:17
Flottur pistill Jóhanna takk fyrir mig :) Frá mínum bæjardyrum séð væri jafn heimskulegt að banna trúbrögð og það að hafa bara einn alheims trúarbrögð.
Og spurning er guð til...eh-uh!.... hvaða/hverra guð og hvernig væri hann skilgreindur eða mældur? Satt að seigja hef ég ekki hugmynd , bara opin fyrir öllu. Nema kreddu og fordómum.
Við búum í síbreytilegum heimi og það þykir mér bæði skemmtilegt og spennandi ;)
Kkv
Eva , 23.9.2009 kl. 01:08
Matthías Ásgeirsson, 23.9.2009 kl. 09:23
Nú er mér persónulega almennt illa við DoctorsE, en ef þú ert að vísa til síðustu umræðu, þá talaði hann um að "submit or burn" kæmi frá biblíunni og þá sérstaklega Jseú. Sé ekki að hann hafi sagt að allir "trúhneigðir" segi þetta við litlu börnin og hann er ekki að vitna í "eitthvað brjálað myndband" heldur er hann að vitna í Jesú. Ef þú vilt segja að hann sé "eitthvað brjálaður", þá get ég svo sem tekið undir það.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.9.2009 kl. 10:11
Strákar asskoti eruð þið "stóryrtir" .. ég verð að geyma að svara ykkur þar til í kvöld. Brjálað að gera í vinnunni og má ekki svíkjast um.
Jóhanna Magnúsdóttir, 23.9.2009 kl. 10:30
Er þetta ekki röng hugtakanotkun? Manni er kennt um eitthvað að ósekju, en óttast eitthvað að tilefnislausu, eða án tilefnis.
Fyrirgefðu þetta, Jóhanna. Ég vildi gjarnan að fólk leiðrétti mig oftar og geri ég þér hér með þann óleik, í von um að það verði goldið í sömu mynt.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 23.9.2009 kl. 13:19
Takk fyrir ábendinguna Kristinn, tek henni fagnandi og er búin að leiðrétta.
Jóhanna Magnúsdóttir, 23.9.2009 kl. 14:19
Sæl Jóhanna
Þú fyrirgefur afskiptasemina en þegar ég las þessa síðustu færslu þína þá þótt mér hún bara helvíti góð undir lokin.
Ég var að enda við að skrifa athugasemd við síðustu færslu þína og svo þegar ég las byrjunina á þessari færslu fannst mér þú vera enn við sama heygarðshornið, alhæfingar og fordómar í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. En þetta eru kannski bara fordómar hjá mér.
Annars þykir mér merkilegt að lesa hugmyndir þínar um Guð. Það fyrsta sem mér datt í hug var: Til hvers? Af hverju ertu yfirhöfuð með einhverja hugmynd um Guð? Mér sýnist af skrifum þínum að þú sért að yfirfæra það sem er gott við þig (og aðra) yfir á einhverja óskiljanlega yfirnáttúrulega veru í stað þess bara að leyfa því að eiga heima þar sem það er: Hið góða býr í þér og mér, ekki Guði. Tónlistin, ljóðin, öll fegurðin í því sem við mennirnir getum skapað er okkur mannanna. Af hverju að taka heiðurinn af okkur, gera okkur að fötluðum hálf-manneskjum sem ekkert geta gott gert nema fyrir tilstilli eitthvers guðs?
Það erum við sem erum frábær, af hverju megum við ekki bara viðurkenna það og efla enn frekar þessa mögnuðu sköpunargáfu, þennan hæfileika til góðs, sem við erum fædd með? Af hverju að eigna það einhverju guði sem enginn sér, enginn veit hvar er, enginn skilur, enginn finnur? Af hverju megum við ekki eiga okkur sjálf?
Guð er eins og gamall kærasti sem vill eigna sér allt gott og skella skuldinni á okkur af öllu því sem fór úrskeiðis. Hann heldur því sjálfur fram að hann sé ómissandi, að við séum ekkert án hans. Hann neitar okkur um okkar eigið líf. Samviskubit, niðurlæging, vanmat á getu okkar eru vopn hans. Óhamingja er afleiðingin.
Er ekki betra bara að elska náungann og sjálfan sig og láta gamla afbrýðissama kærasta sigla sinn sjó?
Brynjólfur Þorvarðsson, 23.9.2009 kl. 19:26
Sæll aftur sömuleiðis, var ekki búin að lesa þetta áður en ég svaraði hinu. Held við séum að nálgast. Gamlir kærastar .. ..
Skrifa meira síðar, og svara líka öðrum og vil nota þetta tækifæri til að þakka þolinmæðina.
p.s.
Ástæðan fyrir að bloggið mitt heitir naflaskoðun er að þetta eru skoðanir út frá eigin nafla "so to speak" við sjáum í raun öll hlutina út frá eigin sjónarhóli, okkur er ekki gefið að sjá með annarra augum, finna verki annarra o.s.frv. Getum aðeins borið ábyrgð á okkar eigin framgöngu eða afturgöngu
Jóhanna Magnúsdóttir, 24.9.2009 kl. 10:13
Það er farið að aukast að mér sé líkt við guð, Hjalti segir að ég sé brjálaður...
Þú ert klárlega ekki kristin Jóhanna... þú trúir á einhvern annan guð en guð biblíu, virðist ekki vera mikið inni í biblíu og Sússa, skilaboðin hans voru klárlega: Submit or burn.. og ekkert annað.
Sama er með íslam, sem táknar einnig SUBMIT or else.... enda mikið byggt á gamla testamenti eins og NT
Það er ekki nein ást, enginn kærleikur eða miskunn.. þú gerir eins og bókin segir eða verður pyntuð að eilífu, reyndar skilst mér að í íslam eigi menn möguleika á að komast úr helvíti, þurfi ekki að hanga þar að eilífu.. nema náttlega þeir allra allra verstu.
Menn geta talað um ömmur sínar og afa, mömmur og pabba.. að þau hafi verið trúuð og góð.. fæst þeirra hafa líklega ekki lesið neitt mikið í biblíu eða reynt að sjá hvað hún stendur fyrir... rétt eins og íslendingar fara og láta skíra börnin sín inn í kristni.. vita ekkert um kristni nema kannski, Sússi var svo góður, barnavinur mesti. bla bla.
Það er það sem prestar og flestir trúboðar leggja fram fyrir ykkur.. en þetta er bara ekki rétt.... hann var látin koma til að ógna ykkur útfyrir gröf og dauða... love the church or you are fucked forever... Sússi gaf ykkur séns með að fórna sjálfum sér til sjálfs sín.. svo að hver sem leggst undir lögmálið fái lúxus en hinir brenna í vítislogum.
Svo drapst hann alls ekki.. enda ódrepandi samkvæmt bókinni... hver var fórnin eiginlega???? Ég sé enga fórn í að þykjast dauður og fara svo heim í himnaríki.. fyrir utan það að ég get ekki séð að einhver geti tekið sök annarra á sig.. það er ekki gott siðgæði, reyndar alveg fáránlegt.
Það eru menn á Fillipseyjum sem láta krossfesta sig árlega, minnir að einn hafi gert þetta í ~30 skipti.
En no worries, hann er uppskáldaður.
P.S. Ég er ekki óvinur ykkar.. skipulagið er það.
DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 21:42
... Eins og bókin segir, segir þú DoctorE .. heldur þú að ég trúi á talandi bók ... Mér sýnist á skrifum þínum að eini maðurinn sem þú sért að reyna að sannfæra sért þú sjálfur.
Jóhanna Magnúsdóttir, 24.9.2009 kl. 22:21
Ekki vera með útúrsnúninga Jóhanna, það er ekkert athugavert við að segja að einhver bók segi eitthvað.. nema ef menn taka það bókstaflega :)
Ég þarf ekki að sannfæra mig um neitt í sambandi við guði.. ég er með það á tæru að þeir eru manngerðir að öllu leiti.. enda hafa þeir alla verstu eiginleika manna til að bera... það liggur í augum uppi.
Þetta er eins og að veiða fisk.. sumir nota flugu, aðrir spún... trúarveiðistöngin notar eilíft líf sem beitu, ef það dugar ekki þá er farið út í dínamít eða eitthvað í þá áttina til að reka "fiskana" að strönd trúarinnar
DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 22:37
Ég var að tala um Jesú ekki þig. Jóhanna hélt að talið um "hlýða eða helvíti" kæmi frá einhverju "brjáluðu myndbandi" þegar það kom frá Jesú. Þannig að maður hlýtur að álykta að hún telji Jesú vera brjálaðan.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 24.9.2009 kl. 22:49
Hhaha djö mar.. sorry misskilningur :)
DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 23:40
Var þetta þá bara djók þegar þú sagðir "sumir fullyrða allt illt sé framkvæmt af trúhneigðum"?
Þú verður að fyrirgefa, ég er bara dálítið fattlaus.
Að spurningunni. Ég veit ekki hver bannar þér að vera trúhneigð. Þú kýst að tjá þig opinberlega og þá geri ég ráð fyrir að fólk megi gagnrýna málflutning þinn, vera ósammála þér og færa rök fyrir því.
Varla viltu banna fólki það?
Matthías Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 11:51
Sæll Matthías, nú fer að róast - svo ég get farið að svara einhverju af því sem þú hefur verið að tína úr færslum mínum. Mest kemur á óvart, eða kemur kannski ekkert á óvart? .. að þú skulir þú ekki finna það hjá þér rétta sáttarhönd og taka t.d. undir það að við verðum að vinna að því góða. Þú ferð með logandi ljósi um færslur mínar að leita að einhverju sem þú getur mótmælt eða fundið rökvillu í.
Minnir mig helst á pabbann sem kom heim og öskraði á strákinn sinn að taka upp fatahrúguna af miðju gólfinu. Rökræðan fór að snúast upp í það hvort að fatahrúgan væri á miðju gólfinu eða ekki. :-/ .. = leidd frá því sem skipti máli.
Varðandi nýjustu spurninguna:
Eins og þú sérð er færslan öll í ýkjustíl.
Og veistu það að sumir fullyrða það að trúarbrögð t.d. séu rót alls ills.
Fólk bannar mér ekki beint að vera trúhneigð en mikið rosalega fer það í taugarnar á sumu fólki og mikið er gert grín að því og það óvirt.
Það sem mér finnst að við ættum að læra af okkar samræðum. Það er ekki hægt að setja alla trúaða undir sama hatt, og ekki alla vantrúaða/trúlausa undir sama hatt. Það er himinn og haf á milli oft á tíðum. Kannski er hugsjónin að við getum öll verið vinir álíka útópíuleg og að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, en við erum þó á öðru vitrænu plani en dýrin, þó stundum megi deila hvort er hærra plan.
Jóhanna Magnúsdóttir, 25.9.2009 kl. 18:13
Jóhanna, vildi bara segjas að það er lofsvert að þora að standa við trú sína. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir þeim sem þora það.
En ég leyfi mér engu að síður að "ráðast á" trú þína eins og aðrar skoðanir sem ég tel rangar og sem geta haft neikvæðar afleiðingar. Nemendur mínir viðra oft rasisma eða óþol gagnvart útlendingum almennt, slíkt læt ég aldrei ótalið.
Er þá trú þín, sakleysisleg og mannvæn eins og hún er, sambærileg við sterastýrðan stórmennskukjaft unglingsdrengja, nú eða raunverulegan rasisma og ekta hatur? Nei, auðvitað ekki.
En það er engu að síður mín skoðun að trú sé varasöm og geti verið hættuleg. Þess vegna berst ég gegn henni almennt og öfgum hennar sérstaklega. Yfirlýst trú einstaklings, t.d. þín yfirlýsta trú á n.k. algyðisupphaf alls góðs, skapar rými yfirnáttúru í hugum þeirra sem á hlýða. Það er þetta rými sem vafasamur boðskapur getur fyllt síðar meir, jafnvel hrein blekking.
Barn sem lærir biblíusögur út frá námsefninu sem kirkjan hefur samið fyrir grunnskólana fær ranghugmyndir um lífið og tilveruna. Ekki alvarlegar í sjálfu sér, en ranghugmyndir þurfa pláss og þegar þetta pláss hefur verið opnað er hægt að planta í það fræjum mannvondra kenninga á borð við erfðasyndina eða fórnardauða Krists.
Þú fyrirgefur því "árásir" mínar á trú þína, þær eru vel meintar - þú ert einfaldlega of góð manneskja til að ég geti horft framhjá því að þú blekkir sjálfa þig með þessum hætti, rýrir sjálfsálit þitt, dregur úr mennsku þinni og afneitar hinni sameiginlegu ábyrgð okkar á hamingju okkar allra.
Brynjólfur Þorvarðsson, 25.9.2009 kl. 22:16
"En það er engu að síður mín skoðun að trú sé varasöm og geti verið hættuleg. Þess vegna berst ég gegn henni almennt og öfgum hennar sérstaklega. Yfirlýst trú einstaklings, t.d. þín yfirlýsta trú á n.k. algyðisupphaf alls góðs, skapar rými yfirnáttúru í hugum þeirra sem á hlýða. Það er þetta rými sem vafasamur boðskapur getur fyllt síðar meir, jafnvel hrein blekking."
Sæll Brynjólfur, þakka enn hlý orð í minn garð - EN - það er svo margt sem er varasamt en ótrúlega skemmtilegt. Trú er að mínu mati yndislegt "fyrirbæri" .. og ég held að henni þurfi bara að beina í réttan farveg, þá er ég ekki að tala um að einn sé betri en annar, bara að sá farvegur sé ekki öfgafarvegur o.s.frv.
Sólin er líka hættuleg - ef við liggjum of lengi í sólbaði brennum við okkur eða í versta falli fáum húðkrabbamein.
Þetta snýst allt um val mannsins og frelsi hans til að velja. Mæli með kvikmyndinni Pleasantville í þessu samhengi. Trúin er litur lífsins. Hvers vegna skyldum við hafa fjölbreytileikann? Af hverju ekki bara allt í svörtu og hvítu.
Svona að lokum, ég skil alveg hvað þú ert að fara, ég ætla ekki einu sinni að reyna að fara út í þessa krossfestingar- og erfðarsyndarrumræðu, hún er svo flókin!
Jóhanna Magnúsdóttir, 26.9.2009 kl. 14:46
Það þykri mér nú full gróft Jóhanna ef þú ætlar að segja að líf mitt sé litlaust sökum þess að enginn trú sé til staðar.
Ásta Elínardóttir (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 11:42
Sæl Ásta, sé að þetta er ekki nógu skýrt orðað hjá mér ef þú upplifir þetta sem gróft. Ég er að tala þarna um myndina Pleasantville, þar sem lífið breytist úr svart hvítu í lit við að stelpa er að rétta vini sínum epli. Það er verið að minna á frelsið við að velja.
Það er margt sem litar líf okkar og mismunandi eftir hver við erum, ef ég segi til dæmis að börn séu ljós lífsins, þarf það ekki að vera algilt og gilda um alla. En það gildir fyrir mig. Ég get ekki sagt þér eða öðrum hvað liti þeirra líf.
Þú veist best sjálf hvort líf þitt er litríkt eða litlaust, hef bara ekki grænan grun um þitt líf hehe.. Tala bara frá mínum sjónarhóli, sem þú getur einmitt lesið um í nýjasta blogginu mínu.
Jóhanna Magnúsdóttir, 27.9.2009 kl. 12:22
Það er vissulega rétt, Jóhanna, að hvert og eitt okkar á að hafa rétt til skoðana okkar. Í þínum huga er trú það sem gefur lífinu lit. Það er frábært. Ég tek það ekki sem ásökun um að ég sái í svart-hvítu. Ég hef mína lit-gjafa.
Brynjólfur Þorvarðsson, 27.9.2009 kl. 19:12
Þetta komment mitt var nú aðalega skrifð í kímni þar sem að æði oft fær maður að heyra um litleysi þess að hafa ekki trú og að telja trú ekki nauðsynlega. Og mér fannst að með líkingu þinni á Pleasantville myndinni þar sem að allir tóku lit í lokin og maður hefði þá haldið að það væri trú samkvæmt þínum skrifum.
Mér finnst líf mitt langt frá því að vera litlaust en það er ekki vegna þess að til eru mörg trúarbrögð heldur vegna þess að það er til svo ósköp margir aðrir hlutir. Þessvegna þykir mér hálf gróft (ekki brotið á mér heldur lýsing á þínu trúarlífi) að þú teljir trúleysið vera svart og hvítt.
En og aftur vil ég samt segja að þetta er ritað með bros á vör.
Ásta Elínardóttir (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 12:38
Í mínum huga er trúleysi um það að forðast að bulla. Það er andstyggð á því að vera fullorðin manneskja sem fyllir hausinn á sér af bulli til að þurfa ekki að horfast í augu við heiminn eins og hann er, en geta þess í stað lifað í blekkingu í heimi sem hentar betur. Trúleysi fylgir gjarnan sama andstyggð á öllu öðru bulli - ekki bara bulli um yfirnáttúru, guði og djöfla. Trúlausir vilja hafa það sem sannara reynist.
Jólasveininn er ekki til og það á við um svo margt annað sem harðfullorðið, vel lesið og ágætlega greint fólk trúir. Ég geri mér alveg grein fyrir að afstaða þín til tilverunnar getur verið ágætis hreiður að kúra í, þar sem allt er svo sætt og gott, en það gerir það ekki að minna bulli. Þessi guð þinn er t.d. í algerri þoku og orðið er gersamlega merkingarlaust. Þetta er t.d. alls ekki guðinn í Biblíunni, -hvorki í gamla eða nýja testamentinu. Ég tek því undir með Doktor E þegar hann segir að þú sért ekki kristin. Þú ert það a.m.k. ekki nema í menningarlegum skilningi. Séð þaðan er ég meir að segja kristinn líka.
Theódór Gunnarsson, 28.9.2009 kl. 22:03
Theódór, bók hefur ekki gert mig að því sem ég er í dag og skapað mínar lífsskoðanir.
Ég veit ekki á hverju hefur gengið í þínu lífi, en mitt hefur steytt á skeri allnokkrum sinnum, það hjálpar mér að hafa það sem ég kalla trú, en þú eflaust bull, í hausnum á mér, þó ég telji mig ekkert vitlausari en fólk er flest.
Heimurinn er sem betur fer að miklu leyti fallegur, sérstaklega ef fókusinn er á fegurðinni. Það þýðir þó ekki að hið ljóta sé ekki til staðar og við eigum að lifa eins og það sé ekki til.
Kannski er minn sannleikur annar en þinn sannleikur? og getum við þá dæmt sannleika hvors annars? Allt er í heiminum hverfult, það er sannleikur einn daginn að ólífuolía sé það hollasta sem til er og næsta dag er hún orðin óholl. Sannleikur dagsins í dag er lygi dagsins á morgun.
Ef að ég upplifi trúna sem mína liti, hvers vegna í ósköpunum ætti ég að fara að henda litakassanum mínum? .. Ég er kannski svona mikið barn í hjarta en ekki "harðfullorðin" ...
Jóhanna Magnúsdóttir, 29.9.2009 kl. 00:05
Allt í gúddí Ásta, ... það er oft erfitt að tjá sig á prenti, því að orð segja aldrei allt, heldur viðmótið - og ég vil líka - eins og þú - taka það fram að ég skrifa líka með bros á vör og með gleði. Reyni að læða brosköllunum inn í til að ég misskiljist ekki. Ég er engan veginn "reið" kona, né þekkt fyrir slíkt - aftur á móti er ég glöð kona og þekkt fyrir það miklu frekar
Takk fyrir að nenna að skrifa athugasemdir hjá mér, ég læri auðvitað af hverri athugasemd! ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 29.9.2009 kl. 00:09
Það hefur ýmislegt gegnið á í mínu lífi, ekki síður en annarra, en ég þarf ekkert á einhverju bulli og hindurvitnum að halda til að takast á við það. Svo er ekkert til sem heitir minn sannleikur og þinn sannleikur. Sannleikurinn er ekki smekksatriði.
Auðvitað mátt þú að sjálfsögðu hafa þetta allt eins og þér þóknast og ég er viss um að þú ert geðug og þægileg manneskja að umgangast. Það ber ekki á neinum öfgum í neinu sem þú skrifar, kanske meira af þeim hjá mér. Málið er bara að það ert þú sem ert að bera á borð fyrir aðra hverjar þínar trúarskoðanir eru og það kallar auðvitað á að þú fáir viðbrögð.
Þetta er ekkert illa meint hjá mér.
Theódór Gunnarsson, 29.9.2009 kl. 08:33
Smá viðbót. Mér finnst þú grafa sjálf undan því fyrir mig að það sé til eitthvað sem kalla mætti "minn sannleik og þinn sannleik". Þetta með ólífuolíuna er gott dæmi. Málið er að annaðhvort er hún holl eða ekki. það að menn trúi því að hún sé holl einn daginn og komist svo að því að hún hafi ekki verið það þegar betur er gáð, þýðir ekki að það hafi verið sannleikur og sé það svo ekki lengur. Það var þá aldrei sannleikur.
Ég tek fram að ég hef enga skoðun á hollustun ólífuolíu, en ég geri ráð fyrir að þú hafir bara gripið hana af handahófi.
Theódór Gunnarsson, 29.9.2009 kl. 08:40
Ég tók ólífuolíu sem dæmi, vegna þess að ég vann hjá fyrirtæki sem seldi ólífuolíu fyrir allnokkrum árum, - það var endalaust verið að þræta um hvort hún væri holl eða óholl, greinaskrif o.s.frv.
Takk fyrir athugasemdirnar Theódór. Ég læri stöðugt og þroskast, læri eflaust minna af þeim sem eru mér alltaf sammála.
Jóhanna Magnúsdóttir, 29.9.2009 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.