Trúarlíf Íslendinga

Ég hef ákveðið að opna nýja bloggsíðu, þar sem ég mun velta upp ýmsu sem kemur í hugann. Ég var áður með síðu sem ég hef læst, af prívat ástæðum.

Hér ætla ég ekki að fara ræða félagsfræðilega könnun  sem framkvæmd var á þessu sviði á sínum tíma,  heldur bera upp nokkrar tegundir trúarmengja eða trúleysismengja þar sem það á við, en engir tveir eru nákvæmlega eins í þessum efnum svo ein manneskja gæti tilheyrt fleiri en einu mengi. Svo mætti kannski búa til fleiri og er lesendum frjálst að gera það í athugasemdum.

Andlega mengið 

Fólk sem telur sig trúað, en er ekki háð neinu trúarbragðakerfi né leiðtoga. Það leitar hins góða hvar sem það er að finna,  biður bænir, sendir ljós og kærleik. Æðri máttur (eða Guð) er í öllu og í þeim sjálfum. Þetta fólk er víðsýnt á allt nema ofbeldi. Trúir yfirleitt að til sé handanheimur, andlegar verur o.fl. Fólksið stundar hugleiðslu, Yoga jafnframt því að taka það besta úr hefðbundnum trúarbrögðum.

 

Bókstafs mengið

Fólk sem tekur allt sem stendur í Biblíunni sem skrifað orð Guðs, næstum eins og með hans hendi. (Guðsmyndin yfirleitt af föður). Ef við lifum ekki samkvæmt því orði séum við í slæmum málum og lendum í helvíti eftir dauðann. Þetta fólk viðurkennir ekki mótsagnir í Biblíunni, og talar sig framhjá þeim. Fólkið stundar bænalíf og þá sérstaklega fyrirfram skrifaðar bænir og trúarjátningar. Oft telur þetta fólk sig hólpnara en annað fólk vegna "réttrar" trúar sinnar.

Tækifæris mengið

Fólk sem tilheyrir söfnuði, yfirleitt þjóðkirkjunni en ræktar lítið sem ekkert trú sína opinberlega. Fer í kirkju til hátíðarbrigða, þá aðallega í brúðkaup, fermingar, skírnir og jarðarfarir. Biður heitt þegar bjátar á en ekkert þess á milli. Hefur stundum ekkert lesið í Biblíunni, og pælir ekki mikið í trúarbrögðum yfirhöfuð en þekkir dæmisögur o.fl. frá barnakóla eða sunnudagaskóla. Flestir í tækifærismenginu eru tilbúnir að prófa ýmislegt andlegt utan kirkjunnar eins og miðilsfundi að heimsækja spákonur o.fl.

Vantrúarmengið

Allt sem tengist trú er eitur í huga þessa fólks. Mesta eitur er þó trúarbrögðin, en einnig trú að til séu álfar, óhefðbundnar lækningar og flest andlegt er þeim mjög fjarri. Mikil reiði í garð kirkju og trúarbragða. Vísindi og skynsemi er yfir yfirnáttúrulega hluti hafið og yfirnáttúrulegt eða óþekkt ekki viðurkennt.  Yfirleitt finnst þeim óþarfi að bera virðingu fyrir lífsgildum annarra séu þau byggð að eitthverju leyti á trú.  Biblían væri best geymd á öskuhaugunum. Guð er yfirleitt hið illa í þeirra huga.

Biblíumengið

Þetta mengi er hópur fólks sem les Biblíuna en trúir ekki á hana bókstaflega orð fyrir orð. Það velur úr það sem því finnst höfða til þess og skilur annað eftir. Gerir sér grein fyrir því að Biblían er skrifuð af mönnum, þó með andlegum innblæstri. Sálmabækur eru yfirleitt líka hluti af innblæstri þessa fólk. Fólkið hefur oft mikla tilfinningu fyrir Guði, ræktar trú sína og finnst það helst finna návist hans í samfélagi. Miðlar og annað er yfirleitt af hinu vonda.

Trúlausa mengið Sjá mynd í fullri stærð

Að gefnu tilefni bæti ég við hér einu mengi, en eins og ég sagði fyrr voru þetta bara nokkur mengi - ekkert sem er fast í kassa, og sumir geta tínt margt úr nokkrum mengjum.

Trúlausir, sem hreinlega hafa ekki þörf fyrir neitt sem telst guðlegt, æðri máttur eða yfirnáttúrulegt. Þeir virða Biblíuna sem bókmenntarit en ekki trúararrit, því þeir gera sér grein fyrir mikilvægi hennar í menningarsögunni og við menningarlegt læsi. Þeim finnst það sem er sannanlegt eigi að hafa meira vægi en það sem er ósannanlegt vísindalega. Þeir virða lífsgildi trúaðra og þeirra skoðanir.

----

Hér hef ég aðeins birt topp af ísjakanum, en mengin eru fleiri og viðameiri. Það eru ákveðnir leiðtogar í hverju mengi, menn eða æðri verur sem fólk fylgir.

Sumir geta strax séð sig í einu menginu, en sumir tilheyra, eins og áður sagði, fleiri en einu og jafnvel nokkrum. 

Ég kannast við mig í þessu flestu, þó að síst séu bókstafs - og vantrúarmengið.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Prufa, er að skoða hvernig ég "kvittast" ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 10:36

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Jóhanna, skemmtileg pæling hjá þér, eins og við má búast.

Ég var að reyna að finna mér stað í þessum mengjum og á greinilega heima í fyrsta menginu, þó ég kalli mig heiðinn. Mottó mitt er að virða allt sem er heilagt, því það er sama hvaðan gott kemur. 

Öll trúarbrögð eiga mikið sameiginlegt bæði í táknum og boðskap.  Skörpust eru skilin milli eingyðistrúar (gyðingdóm) og náttúrutrúar.  Kristindómur er að mínu viti orðin í tímans rás blanda af þessu tvennu. Margir bókstafstrúarmenn horfa til þess að kristindómurinn sprettur úr gyðinglegu umhverfi en horfa ef til vill fram hjá því að hann kom fram sem uppreisn gegn kerfinu og komst upp með það í skjóli heiðins umburðalyndis Rómverja, sem gerðu allt sem þeir gátu til að forða aftöku Krists. Kristindómurinn skaut rótum í Rómarveldi en fer ekki að breiðast út fyrr en hann tók upp trúartákn og siði náttúrutrúarfólks. 

Sigurður Þórðarson, 20.9.2009 kl. 10:48

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka innleggið þitt Sigurður. E.t.v. passar ekki allt við okkur úr einu mengjanna, en kannski flest. Ég er sammála því að það sé sama hvaðan gott kemur. Reyndar, þegar ég hef sagt þetta, fæ ég oft skot á mig frá miklum "rökræðurum" um að hvort ég myndi þiggja pizzu úr hendi Hitlers væri hann lifandi, svo að þá sé ekki sama hvaðan gott kemur.

Ég held að það sé í raun hægt að rökræða flesta slíka frasa í kaf og snúa út úr þeim. Ætli við verðum ekki alltaf að miða við að það séu undantekningartilfelli, eins og hér var bent á áðan.

Ég tel að við getum einmitt notað Krist sem fyrirmynd í mörgu, t.d. að vera ekki svona föst í gömlum gildum. Það er þó bara ein af mörgum birtingum Krists í Biblíunni því í öðrum frásögum er hann að segja að við komumst ekkert NEMA í gegnum hann o.s.frv.  og þar birtist mynd hans frekar "arrogant" sorry. 

Kirkjan er að minu mati allt of mikið regluveldi í dag, .. og hef ég með þroska og íhugun líka komist nær og nær menginu sem ég tel upp fyrst, kannski fer ég annað síðar. Trúi þó á Guð, þó sú guðsmynd sé óhefðbundin en Jesú er þó inní þeirri Guðsmynd.

Mikilvægast er að taka ábyrgð á okkur sjálfum, með eða án hjálpar Guðs en ekki að fela okkur  og gjörðir á bak við ábyrgð Guðs og taka enga ábyrgð á okkur sjálfum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 11:07

4 identicon

Ekki nein reiði hjá mér, ég get ekki verið reiður við gamlar bækur eða hjátrú.
Trúarritin eru skammarleg, kenna ekkert nema fordóma, heimsku, græðgi og sjálfselsku... já miðjan í þessu er sjálfselska og undirgefni því fólk telur sig fá verðlaun... svo er dash af hræðslu: Eins og biblían segir: Submit or burn, ef þið leggist í trúarræsið og segið að hinn ímyndaði guð sé bestur þá er allt fyrirgefið... morð, barnaníð.... you name it, það er fyrirgefið.

Þeir sem segjast sjá álfa, framliðna.. eru annað hvort að féfletta fólk eða með heila"skemmd".
Þessu má fletta upp í hinum ímsu vísindaritum, algerlega staðfest.. þó er mbl ekki sammála mér í þessu :)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 11:14

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl aftur Jóhanna, í 7000 ár hafa öll trúarbrögð nema ef til vill gyðingdómur og islam notað hringi og krossa sem trúartákn. Þessar umræður sýna mér að við erum í raun sammála, þó þú kallir þig kristna. Bæði trúum við á lífið og ljósið.

Guðmundur Böðvarsson orti eitt sinn vísu sem vel má heimfæra upp á mitt heiðna skurðgoð og þinn kristna kross:

"þó óskyld nöfn við hrópum hátt//þar hinst í kvíðans banni//við væntum báðir sama svars//frá sama ferjumanni "

 Trúin hefur alltaf fylgt mankyninu. Kannksi dýrunum líka?

"Hve aumur sá, sem engan guð//sér í sínu hjarta//og hefur aldrei sýnir séð//til sólarlandsins bjarta//en mæðist trúar allrar án//í ævi sinnar kilju//og hefur aldrei orkað því//að yrkja sína Lilju-"

Sigurður Þórðarson, 20.9.2009 kl. 12:25

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

DoctorE ég var einmitt að bíða eftir þér, þú ert hið alsjáandi auga þegar viðkemur trúarbloggum!

Þú skrifar:

"Ekki nein reiði hjá mér,"    Hvað rekur þig áfram í að blogga gegn trú, Biblíunni eða trúarbrögðumef það er ekki reiðin í garð trúarbragða?

Ég er ekki sammála um að "trúarritin kenni ekkert nema fordóma, heimsku, græðgi" o.s.frv. 

Mikið af dæmisögunum fjalla einmitt um hið gagnstæða, t.d. sagan af miskunnsama Samverjanum, bara til að taka lítið brotabrot. Veit þú hlýtur að hafa lesið hana.  Að sama skapi er fullt af "þú skalt" setningum sem hafa undirtóninn að ef þú gerir ekki þá gerist eitthvað slæmt. 

Auðvitað eigum við að gera gott vegna þess að við viljum það en ekki vegna þess að einhver segi okkur að gera það. Það er ekki hægt að segja "Þú skalt elska" því að sú ást yrði aldrei einlæg eða heiðarleg. 

Þar sem þú talar um "submit or burn" er eflaust tilvitnun um greinarnar sem á að sníða af og brenna í eldsofninum. 

Það sem þú gerir DoctorE er að blanda öllum þessum flokkum saman, nema vantrúarmenginu og tala eins og allir sem eiga trú tilheyri þessu öllu.

Ég get alveg tekið undir það að það fer í taugarnar á mér allt svona "Við erum hólpin en ekki þið" kjaftæði. 

Varaðu þig á dómhörkunni í garð náungans og rörsýni, svo þú fallir ekki í sömu gryfju og þeir sem þú ert að dæma, s.s. bókstafstrúarfólkið.  Þú hefur ekki reynslu af öllu mögulegu. Margir hafa upplifað hluti og fengið lækningu á óhefðbundinn máta, með t.d. hjálp óhefðbundinna læknisaðferða. Ekki  heldur vanmeta mátt hugans.  Vonandi heimsækja þig álfar í kvöld og stríða þér, ef þú ert ekki bara álfur sjálfur!  

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 13:10

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sigurður, takk fyrir ljóðin. Ég var einu sinni sem áður að hlusta á prédikun (enda söng ég í kirkjukór og hlustaði á þær þó nokkrar) þar sem presturinn talaði um að það væri bara einn slóði upp á fjallið. Það er auðvitað í samræmi við það sem eru talin orð Jesú; "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið" ..  Jesús getur svo sannarlega verið leiðsögumaður fyrir einhverja upp á toppinn á "Kærleiksfjallinu" en persónulega útiloka ég ekki aðra leiðsögumenn eða konur og reyndar alls ekki.

Það er mér líka að meinalausu ef einhver vill komast af sjálfsdáðum upp á tindinn, og telur sig ekki þarfnast leiðsögumanns. Gott mál, á meðan hann fylgir slóða kærleikans.  Gott mál ef það eru goðar eða æsir sem eru leiðarljós. 

Mér finnst lang - líklegast að það séu margir slóðar,  en eitt er líka víst að það eru mörg gil á leiðinni, djúpar holur og jafnvel jarðsprengjur og fólk vill villast af leið, sem þýðir að það er komið í ógöngur - leggst í ólifnað, ofbeldi o.s.frv.  Fólkið getur gengið inn í þoku og finnur enga leið út. Þá er gott að hafa ljós sem lýsir, eða þá að manns eigið  (gáfna)ljós sé nægilegt?

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 13:19

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Verður gaman að fygljast með þessu. Annars myndi ég vilja sjá önnur nöfn á sumum hópunum: Ég myndi til dæmis kalla andlega mengið nýaldarfólk eða nýaldarmengið.

En ég væri ti í að fá útskýringu á þessu:

Guð er yfirleitt hið illa í þeirra [sem eru í vantrúarmenginu] huga.

Smá útskýring á þessu:

Þar sem þú talar um "submit or burn" er eflaust tilvitnun um greinarnar sem á að sníða af og brenna í eldsofninum. 

DoctorE er líklega að tala um þá grundvallarkenningu kristinnar trúar að ef þú ert ekki "í rétta liðinu" að þá mun guð henda þér í helvíti. Þetta er hluti af því sem "Biblíumengið" (finnst það slæmt nafn á þessum hóp) finnst ekki höfða til þess og skilur því eftir.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 20.9.2009 kl. 13:37

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti Rúnar,  í raun er ég í andstöðu við sjálfa mig að búa til svona mengi eða kassa utan um fólk. Mér leiðast stimplar og landamæri og sumir eiga ekki samanstað  í neinum af þessum mengjum, enda tek ég það fram.  Já, nýöld er líklegast það sem algengast er að kalla það sem ég kalla "Andlega mengið" .. nöfnin skipta ekki aðalmáli, innihaldið gerir það.

Að Guð sé hið illa í huga þeirra sem eru í vantrúarmenginu, þýðir eflaust það að margir sem tilheyra þeim hópi (t.d. DoctorE)  eru mjög uppteknir af því að Guð sé einhvers konar fjöldamorðingi, uppteknir af sögunni um Nóaflóð o.fl. 

Hér er grein um að Guð hljóti að vera "vondur, vitlaus eða máttlaus"..  ekki að þetta sé endilega besta dæmið, en þú hlýtur að fatta hvað ég er að tala um.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 13:52

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

P.s. ég er sammála þér að "Biblíumengið" passar ekki alveg á þann hóp. Mætti finna betra nafn á það, sérstaklega sem það tekur ekki allt hrátt upp úr Biblíunni heldur lætur það jákvæða tala til sín, en skilur hitt eftir.

Varðandi óánægju DoctorsE að allir fái fyrirgefningu í kristilegum sið; meira að segja barnaníðingar. Þá hef ég þá skoðun að við komum öll nakin inn í þennan heim, nakin á líkama og sál.  Yfirleitt er það þannig að barnaníðingar hafa verið beittir ofbeldi  eða níð sjálfir sem börn, ef aldrei verður nein fyrirgefningin og sáttin, þá næst eflaust aldrei að stöðva hringrás ofbeldisins.  

Þó við sjálf getum ekki fyrirgefið, í mannleika okkar og breyskleika, er gott ef það er til Guð sem getur fyrirgefið - og að vita af því að öllum er viðbjargandi og allir eiga rétt á að upprisu frá því sem áður var.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 14:00

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Jóhanna, það er ýmislegt þversagnakennt í biblíusögunum og því er örðugt að rata hinn þrönga stíg til vegarins sannleikans og lífsins þó menn kysu að gera það. Þú minntist á miskunnsama Samverjann við doktorinn. Þetta er að mörgu leyti áhugaverð saga. Ekki þóttu Samverjar fínir pappírar meðal gyðinga og ekki var hægt að bendla hinn "miskunnsama Samverja" við bókstafstrú og enn síður við kristindóm, satt best að segja litu gyðingar á Samverja sem heiðingja af semískum uppruna.

Flest trúarbrögð (með fáum undantekningum s.s. gyðingdóm) boða kærleik og umburðalyndi  að því leyti á kristindómur meira skylt við mörg fjölgyðistrúarbrögð en gyðingdóm. Það eina sem ber á milli er sköpunarsagan þar sem guð (af öðrum heimi) skapar manninn í sinni mynd og gerir hann að herra jarðarinnar andstætt náttúrutrúnni sem gerir ráð fyrir að við mennirnir séum hluti af náttúrunni rétt eins og dýrin, gróðurinn, loftið, moldin og steinarnir. Náttúrutrúarfólk telur sig ekki hafa guðlegt vald til að raska umhverfinu, því viss helgi sé í öllu lífi. 

Sigurður Þórðarson, 20.9.2009 kl. 14:15

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti varðandi það sem þú skrifar: "DoctorE er líklega að tala um þá grundvallarkenningu kristinnar trúar að ef þú ert ekki "í rétta liðinu" að þá mun guð henda þér í helvíti.

Ég get ekki tekið undir þetta sem grundvallarkenningu kristinnar trúar.  .. 

Grundvöllur kristinnar trúar er að kærleikur Guðs hafi opinberast mönnum í persónu Krists, lífi hans, dauða og upprisu.  

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 14:18

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Rétt Sigurður,  DoctorE gæti t.d. verið dæmi um hinn miskunnsama Samverja. Mér finnst þessi saga segja svo margt og kenna margt.  Hún segir að þau eru ekki endilega best þau sem stimpla sig sem "kristin"  eða undir merki annarra trúfélaga,  á meðan þau sýna ekki náungakærleika í verki. 

"Í kristinni trú er talað um að Guð horfi á hjarta mannsins, hans innri mann, sem þýðir að það sem skiptir mestu máli er hvernig maðurinn er, hvaða augum hann lítur sjálfan sig og hvernig hann hugsar um og kemur fram við náungann"

leturbreytingin er mín, annars er þetta úr pistli:  

BRS, Trúin og lífið.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 14:24

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég hef heyrt kristinn guðfræðing og prest lýsa því yfir í heyranda hljóði að fjöldamorðingjar og barnaníðingar eigi greiðari aðgang að himnaríki en aðrir vegna þess að iðrun þeirra geti verið einlægari.  Páll postuli sagði einmitt að enginn yrði hólpinn nema fyrir iðrun sína og Lúther samsinnt því.

Ef þessir höfðingjar hafa eitthvað til síns máls sem ég efa ekki þá hef ég ekki áhuga á þannig partýi.  Auðvitað er gott að menn iðrist en mikilvægra er þó að menn reyni að bæta fyrir misgjörðir sínar. 

Samkvæmt kristinni kenningu er syndin brot gegn Guði. Þannig er alverlegast og syndin og sú sem aldrei verður fyrirgefin að trúa ekki á Guð.   Næst alvarlegasta syndin er erfðasyndin.

Þannig er ég syndlaus að eigin mati, þar sem ég heyri ekki undir lögsögu Jehóva en óforbetranlegur að mati þeirra sem trúa bókstafnum.  

Sigurður Þórðarson, 20.9.2009 kl. 14:29

15 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jóhanna ég ætla að melda mig út úr þessari annars skemmtilegu umræðu í bili. Eigið góðan dag og takk fyrir spjallið.

"Trúðu á tvennt í heimi, guð í alheimsgeymi og guð í sjálfum þér"

Sigurður Þórðarson, 20.9.2009 kl. 14:37

16 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir góð og málefnaleg innlegg Sigurður, þarf sjálf að víkja frá fram á kvöldið!

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 14:45

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka reyndar líka Hjalta og DoctorE fyrir athugasemdir, gaman ef fólk nennir að hafa skoðanir og láta þær í ljósi, en skil vel að ekki vilja allir opinbera þær á bloggi eða opinberum vettvangi, því það er oft eins og að henda perlum fyrir svín eða verra.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 15:09

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti Rúnar,  í raun er ég í andstöðu við sjálfa mig að búa til svona mengi eða kassa utan um fólk. Mér leiðast stimplar og landamæri og sumir eiga ekki samanstað  í neinum af þessum mengjum, enda tek ég það fram. 

Ég er alls ekki að gagnrýna þessa aðferðafræði, að búa til einhver "ideal type" sem er gagnlegt en alls ekki algjört. Auðvitað eru grá svæði og sumir passa ekki, en það breytir því ekki að þetta eru gagnlegir flokkar.

Ég myndi líka vilja sjá skiptingu innan sumra hópanna (og á milli hópa). T.d. held ég að hinir svokölluðu "svartstakkar" í Þjóðkirkjunni eru einhvers staðar á milli Bókstafsmenginu og Biblíumenginu (sem ég myndi reyndar kalla hlaðborðskristnimengið, en það er ekki beint hlutlaust nafn á flokknum

Mér finnst líka að Vantrúarmengið ætti frekar að vera mengi í einhvers konar trúleysismengi (sem skaraðist líklega við tækifærismengið).

Að Guð sé hið illa í huga þeirra sem eru í vantrúarmenginu, þýðir eflaust það að margir sem tilheyra þeim hópi (t.d. DoctorE)  eru mjög uppteknir af því að Guð sé einhvers konar fjöldamorðingi, uppteknir af sögunni um Nóaflóð o.fl. 

Mig grunaði að þú værir að tala um að þeir sem væru í Vantrúarmenginu hefðu einhvers konar guðsmynd sem væri illur fjöldamorðingi. Varstu nokkuð að segja það?

Ég held að þeir sem eru í Vantrúarmenginu séu duglegir í að benda á að a) guð biblíunnar er illmenni og b) bölsvandann. En ég held að þetta bendi ekki til þess að þeir hafi einhverja mynd af guði sem illmenni, heldur einfaldlega að gagnrýna misræmi hjá guðshugmyndum trúmanna.

Ég get ekki tekið undir þetta sem grundvallarkenningu kristinnar trúar.  .. 

Grundvöllur kristinnar trúar er að kærleikur Guðs hafi opinberast mönnum í persónu Krists, lífi hans, dauða og upprisu.  

Ég held að flestar (og fjölmennustu) kirkjudeildir heimsins séu ósammála þér.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 20.9.2009 kl. 15:13

19 identicon

Ef við skoðum það siðgæði sem biblían boðar, færum það yfir á Hitler.

Hitler drepur fjölda manns til að hreinsa út það sem honum líkar ekki... sendir síðar klón af sjálfum sér, klóninn gefur slatta af fólki pizzur sem hann þykist hafa búið til úr einni pizzu, breytir vatni í kók með sodastream.. þykist svo fremja sjálfsmorð til að fyrirgefa alsaklausu fólki en aðeins ef það fyrirgefur frumgerðinni af honum sjálfum.. að þá fái fólk líf eftir dauðann.

Við erum að tala um að biblían vitnar í einhver ofsatrúarvitni sem segja að einhver súpergaur hafi gengið á vatni og alles... vitnisburðir sjónarvotta er óábyggilegasta sönnun sem hægt er að hugsa sér, tala ekki um ef meint vitni eru einfaldir og óupplýstir fornmenn og ofsatrúarmenn að auki... og að vitninburðurinn er skrifaður áratugum síðar, skrifaðað og ritstýrt af kuflum frumkirkju.. .
Að trúa svona er náttlega algerlega út í hróa hött.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 18:04

20 Smámynd: Baldur Blöndal

Leiðinlegt að þú skulir setja alla trúlausa undir sama hatt.

Það er hægt að trúa ekki án þess að líta á trú sem eitur.
Það er hægt að trúa ekki án þess að vera reiður.
Það er ekkert að því að vera ósammála einhverjum (eins og þú ert ósammála meðlimum Vantrúar) og samt bera virðungu fyrri þeim og lífsgildum þeirra (eins og þú virðist ekki gera, íronía ironía).

Ég tel með fullri virðingu að þínar skoðanir séu þröngsýnar í besta falli. Það er ekkert að því að veita vísindum meira vægi en yfirnáttúrulegum hlutum enda samkvæmt skilgreiningu ekki hægt að rannsaka þá og þar að leiðandi ekki hægt að sanna þá. Bara vegna þess að einstaklingur trúir ekki á Biblíuna sem orð Guðs þýðir ekki að hún eigi heima á ruslahaugunum- þetta er bara bók og ég tek það ekki að mér að hata bækur.

Það er leiðinlegt að sjá svona hleypidóma.

Baldur Blöndal, 20.9.2009 kl. 18:11

21 identicon

Smá leiðrétting
þykist svo fremja sjálfsmorð til að fyrirgefa alsaklausu fólki en aðeins ef það ELSKAR frumgerðinni af honum sjálfum.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 18:22

22 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kæri Baldur,  þakka þér abendinguna, ég var búin að fá þessa sömu eða svipaða ábendingu frá Hjalta að vantaði annað trúlaust mengi eða eitthvað í þá áttina, þó að það skaraðist að einhverju leyti við þá sem eru "tækifæristrúaðir."

Ég hef því bætt við einu mengi fyrir ykkar áeggjan, það var einmitt bón mín að lesendur bættu í sarpinn.

Ég tók einnig fram að þessi  mengi eru á engan hátt heilög - og það er enginn einn sem fellur endilega nákvæmlega undir eitt af þessum mengjum. Margir vantrúaðir vildu vissulega sjá Biblíuna brenna, ég hef lesið mér mikið til um það sem þeir skrifa. Spurðu DoctorE hvað honum finnst um trú, honum finnst hún örugglega eitur.

Ef ég virti ekki viðmælendur mína, myndi ég ekki nenna að spjalla við þá hér á góðlegum nótum. Eins og þú kannski sérð eru flestir sem hér spjalla  og reyndar allir utan kristinnar kirkju. Margir henda þeim út af sínum spjallborðum og/eða læsa á þá.  Við erum í raun bara að rökræða og að mínu mati á vinalegum nótum.

Ég held að þú hafir, því miður, misskilið mig hrapallega og vona að ég hafi náð að skýra þetta fyrir þér.

Bjó til nýjan flokk sem er kominn á bloggið, þú mátt gjarnan bæta atriðum í hann ef þú vilt.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 19:29

23 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kem síðan inn síðar til að svara rest.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 19:32

24 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hefurðu pælt í því að reyna að búa til einhvers konar graf eða kort út frá þessum flokkum? Það væri gaman að prófa og sjá.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 20.9.2009 kl. 19:45

25 identicon

Trú er ekki eitur, trú er mind control, byggir á lægstu hvötum/þörfum mannkyns.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 19:50

26 identicon

Það vill svo vel til að ég er með helvíti gott myndband um Cult of Christ á blogginu mínu í dag...
http://doctore0.wordpress.com/2009/09/20/cult-of-christ/

Svo verður maður að fara að herða sig því JVJ og aðrir eru nú að stofna stjórnmálaflokkinn hans Gudda... eins og allir vita þá eru stjórnmál og trúarbrögð alveg stórhættuleg blanda... ég sé það alveg fyrir mér að JVJ sendi trúboðalögregluna á eftir mér og mörgum öðrum ef hann verður forsætisráðherra hins eldgamla íslands :)
http://krist.blog.is/blog/krist/

Reyndar sýnist mér að bloggið hér sé að verða undirlagt af bloggurum sem eru að biðja fyrir sjálfum sér og sjá ekkert nema Gudda gamla.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 21:28

27 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Flott þetta Jóhanna, ég er að mestu leyti sammála þessum "mengjum", og líst vel á þetta framtak hjá þér.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 20.9.2009 kl. 22:47

28 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti  þú segir: "Mig grunaði að þú værir að tala um að þeir sem væru í Vantrúarmenginu hefðu einhvers konar guðsmynd sem væri illur fjöldamorðingi. Varstu nokkuð að segja það?"

Já, reyndar var ég að segja það, en það er eflaust meira miðað við DoctorE, auðvitað eiga þeir sem eru í Vantrú ekki að eiga neina Guðsmynd, því að samkvæmt þeim er Guð ekki til.

Guðsteinn, takk fyrir það og  bloggvináttu á nýju bloggi: Fékk þennan "innblástur" í morgun, þegar ég var að pæla í hvernig trúarlífi eða ekki trúarlífi fólk lifir. Reyndar eftir að ég var búin að vera að "berjast" við DoctorE á blogginu hjá Kristni. Það er nú eiginlega eins og að berjast við vindmyllur að ræða við hann blessaðan.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 22:56

29 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég skrifaði: "Grundvöllur kristinnar trúar er að kærleikur Guðs hafi opinberast mönnum í persónu Krists, lífi hans, dauða og upprisu."  

Hjalti svarar: "Ég held að flestar (og fjölmennustu) kirkjudeildir heimsins séu ósammála þér."

Hjalti, upprisa Krists til eilífs lífs er eitt grundvallaratriði kristinnar trúar. Það lærði ég a.m.k. í guðfræðideild H.í. og reyndar er það rökrétt. "Ég lifi og þér munuð lifa" eru ein aðalhuggunarorðin sem eru sögð í hverri einustu útför. Það er ekki að ástæðulausu.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 23:01

30 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti, þessi flokkun er ekki sérlega fagleg hjá mér, var reyndar bara skellt upp í morgun og mætti vissulega vinna hana betur og kannski fleiri flokka. Gröf og annað slíkt gæti komið í framhaldinu, verst að þetta er nú gert í hjáverkum, er mikið upptekin í mínu starfi, en hef það í bakhöndinni að vinna meira í þessu, þar sem þessi mál eru mér hjartfólgin.

DoctorE: "Trú er ekki eitur, trú er mind control, byggir á lægstu hvötum/þörfum mannkyns."

Nú væri gaman að fá hjá þér hvað fleira er byggt á "lægstu hvötum/þörfum mannkyns" ..  Finnst þér t.d. kynlíf há hvöt eða lág hvöt/þörf?

Ef að manneskja er einmana og líður betur þegar hún finnur að hún er alls ekki ein þar sem hún finnur fyrir návist Guðs, er hún þá að sinna lágum hvötum? Nú, ef svo er hvað í ósköpunum er að því og hvað kemur það öðrum við??..

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 23:10

31 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jóhanna, tilvitnun mín í þig var lengri, ég var að vísa til þess að þú teldir þá kenningu að maður fari til helvítis ef maður ekki í réttu liði ekki vera grundvallarkenningu kristinnar trúar. Flestar og fjölmennustu kirkjudeildir heims trúa því. Til dæmis fordæma lútherskir menn þá sem trúa því ekki að "guðlausir menn" kveljist að eilífu.

Hjalti, þessi flokkun er ekki sérlega fagleg hjá mér, var reyndar bara skellt upp í morgun og mætti vissulega vinna hana betur og kannski fleiri flokka.

Já, mig grunaði að þetta væru einhvers konar fyrstu drög.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 20.9.2009 kl. 23:43

32 Smámynd: Ragnheiður

Sæl mín kæra og þið hin.

Ég veit ekki vel í hvaða flokk ég passa helst, þarf nú að skoða ýmislegt almennilega í þeim áður.

Kom bara til að heilsa kærum vini

Ragnheiður , 21.9.2009 kl. 00:09

33 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ágæta stak að nafni Jóhanna Magnúsdóttir og önnur stök, hvaða mengjum sem þið tilheyrið:

Þetta er mjög úthugsuð og áhugaverð flokkun. Ekki veit ég hvaða mengjum það stak sem þetta skrifar tilheyrir, en stakið rámar eitthvað í að hafa lært mengjafræði. Það man ekki betur en að stök í mengjum flokka sig yfirleitt ekki sjálf í mengin, heldur eru sett í viðeigandi mengi af einhverjum fræðimönnum.

En áhugaverð umræða hjá þeim stökum sem hafa tjáð sig á þessu nýja bloggi staksins Jóhönnu. Komið þetta fína mengi athugasemda og á eflaust eftir að stækka enn.

Theódór Norðkvist, 21.9.2009 kl. 00:13

34 Smámynd: Steingrímur Helgason

Gott & áhugavert framtak, mín kæra.  Er kátur með.

Steingrímur Helgason, 21.9.2009 kl. 00:16

35 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Trúarbrögð Guðs eru eins og lystigarður.

Sumir ganga fram hjá honum án þess að taka eftir honum, láta sem hann sé ekki til.  

Aðrir staldra við fyrir utan hliðið, líta yfir, hrista hausinn og halda sína leið.

Enn aðrir ganga inn í garðinn, njóta ilmsins og fegurðarinnar um stund og ganga síðan út.

Þá eru þeir sem ganga inn, og geta ekki slitið sig frá garðinum, njóta hans á alla vegu og ákveða að dveljast í honum.

Síðastir eru þeir sem ganga inn, heillast af öllu en láta sér ekki nægja að dvelja í garðinum og njóta dásemdanna heldur finna sig knúna til að taka þátt í ræktun hans og umhirðu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.9.2009 kl. 01:01

36 Smámynd: Baldur Blöndal

Ég held nú að enginn sé að draga það í efa að hinn Kristni Guð (Jahve) sé fjöldamorðingi, þannig það eru ekki bara einhverjir í Vantrú sem trúa því.

Baldur Blöndal, 21.9.2009 kl. 02:16

37 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þakka þér Steingrímur.

Þakka þér þessa skemmtilegu samlíkingu Svanur Gísli.

Baldur, Jahve er Guðinn sem er kynntur til sögunnar í Gamla testamentinu sem er skrifað fyrir Krist., Guð Gyðinga.  Guðinn í mýtunni um Nóaflóðið sem er saga sem er búin til af manni sem eflaust hefur kannski  upplifað flóðbylgju og býr síðan til sína skýringu, þ.e.a.s. að það hljóti að vera Guð sem hefur látið þetta gerast vegna þess að menn voru farnir að hegða sér eitthvað dónalega.

 Hann kann enga aðra skýringu, ekki frekar en þeir sem álitu þrumur og eldingar vera tákn um reiði Jahve.  Ef við trúum þessari sögu, já, þá er Guð fjöldamorðingi, en þar sem ég er ekki bókstafstrúar þá geri ég mér grein fyrir tilurð sögunnar og þetta er bara útgáfa höfundar af sinni upplifun af náttúruhamförum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 06:47

38 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór,  þú ert skemmtilega ein-stakur!

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 06:48

39 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Hjalti, þú ert "more than a handful" Alltaf þegar þú spyrð, þá detta mér Aravísur í hug.."spurningum Ara er erfitt að svara"  þarf að svara þér síðar, verð að vinna í dag svo ég get ekki sinnt þessum þræði, en kíki hér inn í kvöld.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 06:50

40 identicon

Kynlíf er frumhvöt, án þess þá deyjum við út.. trúin tengir sig inn í kynlífið því þannig fær hún nýja sauði í söfnuðinn.. þess vegna bannar kaþólkska kirkjan getnaðarvarnir, bannar family planning.. fóstureyðingar... kirkjan vill nafnið þitt í kirkjubókina, vill skíra þig aka eyrnamerkja eins og sauð.... en ef þú verður síðar samkynhneigð(ur), þá vill hún þig ekki lengur... hjá kaþólksu kirkjunni er hægt að fá skilnað ef þú td lamast og getur ekki átt börn, ert getulaus... þá er kirkjunni sama um þig... check it out

Þegar ég segi lægstu hvatir þá er ég að tala um sjálfselsku og græðgi... enginn myndi skrá sig í trúarbrögð ef enginn væru verðlaunin, enginn trúir á guð.. allir vilja trúa á eilíft líf... yep Guddi er verðlaunin, taktu þau og enginn fer í dæmið.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 07:36

41 identicon

Uu leiðrétting eilíft líf er verðlaunin.. taktu þau og enginn dýrkar guð..

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 07:37

42 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jóhanna þú þværð hendur  þínar af Nóaflóðinu og öðrum voðaverkum og ég er sammála þér.  Ef við erum virkilega berorð og segjum hlutina umbúðalaust þá hafði Jave guð gyðinga tvennskonar hlutverk. 1. Hann var hefnigjarn hernaðarguð gyðinga. 2. Hann hélt uppi allsherjarreglu  með góðu eða illu en oftar illu.

Guð Krists var kærleiksríkur, mildur, fyrirgaf og hjálpaði minnimáttar óháð öllum skilyrðum. Hann var guð ljóssins og lífsins sem farísearnir vildu taka af lífi en Pílatus þvoði hendur sínar.  Svona sé ég þetta.

Sigurður Þórðarson, 21.9.2009 kl. 07:42

43 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þér er illa við skúffur og landamæri, en samt flokkar þú þig trúaða. Sennilegast Kristtinar trúar og sennilega telur þú hana hina einu réttu eða er vantrúuð á önnur trúarbrögð. Hversvegna skilgreinir þú þig? Hversvegna hefur þú þörf fyrir að opinbera þá skilgreiningu? Er það kannski til að þú getir bent fingri á aðra og aðgreint þá og dæmt? (eins og þú gerir hér og er höfuðeinkenni trúarbragða)

Telur þú afstöðu þína og viðhorf réttari en t.d. vantrúaðra eða trúlausra? Telur þú Vantrúaða eða trú lausa vanhæfa til að sýna kærleik og heiðarleika, almennt siðferði og umburðarlyndi? Hver er munur á Kristnum t.d. og vantrúuðum hvað það varðar?

Er hægt að trúa á eitthvað sem ef ofar náttúru og vera sannfæðrur um það?  Og ef þú gerir það, er það merki um andlega eða mannlega yfirburði og styrk?

Þegar þú talaru um trú hér að ofan. Áttu þá við Altruisma (allmennt innbyggt siðferði og kærleik)eða ertu að tala um veru ofar öllu sem þú ert í sambandi við og gerir þér kleyft að hafa siðferði og kærleika?

Er sá Guð Almáttugur, Alsjáandi, Alvitur og Algóður, Altumlykjandi?  Hvernig rökstyðurðu það ef svo er?

Hefurðu lesið eitthvað eftir trúleysingjann Epicurus? Legg til að þú gerir það, þótt ekki sé nema tilvitnanir. Eins og:

"It is impossible to live a pleasant life without living wisely and well and justly. And it is impossible to live wisely and well and justly without living a pleasant life."

Eða þá frægustu: 

“Is God willing to prevent evil, but not able?
Then he is not omnipotent.
Is he able, but not willing?
Then he is malevolent.
Is he both able and willing?
Then whence cometh evil?
Is he neither able nor willing?
Then why call him God?”

Svo ein að lokum: Hvað knúði þig til að skrifa þessa grein?

Jón Steinar Ragnarsson, 21.9.2009 kl. 07:55

44 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú segist í höfundarlýsingu vera "liberal" guðfræðing og bætir við:

"Reyndar liberal "allt" nema gagnvart ofbeldi og hvers konar kúgun og óvirðingu náunga gegn náunga."

Hver gæti ekki tekið undir þetta?

Í framhaldi af því vildi ég spyrja: Telur þú það ekki óvirðingu, kúgunog jafnvel ofbeldi að kenna óþroska börnum fabúlur biblíunnar, sem sannleik. Nú eða skráþau ómálga í trúfélög?

(Sem Guðfræðingur þá veistu að Bókin er nánast öll ein alsherjar fabúla og jafnvel svo raffíneruð að ekki nokur af lykilpersónum hennar eða tilnefndum skríbentum eiga við nokkur rök að styðjast, hvorki í sagnfræði, né samkvæmt forleifafræðinni. Segirðu alltaf satt til um það þegar þú ert spurð?)

Jón Steinar Ragnarsson, 21.9.2009 kl. 08:08

45 identicon

Láttu ekki svona Sigurður, hlutverk Sússa var að ná til fólks útfyrir gröf og dauða.. kirkjan sá að það gekk ekki nægilega að geta ekki haldið látnu fólki í gíslingu.. þess vegna var Sússi búinn til, hann kom til að fyrirgefa okkur fyrir erfðarsyndina, eplaát Adams og Evu.. það sem stendur eftir Sússa er: Submit or burn

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 08:59

46 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara með þessarri flokkun þarna í upphafi.  Er lensendunum bara ætlað að reyna að finna sinn flokk og tjá þér stöðuna?  Þegar ég les þetta yfir þá sé ég að þetta er nokkuð nærri lagi hjá þér.  Það má alveg sjá þetta svona.

Ég býst við að ég sé stak í sniðmengi vantrúargengisins og trúlausa gengisins.  Ég tel það mjög mikilvægt að trúlausir og vantrúaðir láti mikið í sér heyra og reyni að sporna við uppgangi bókstafstrúargengisins.  Það gengi vill lifa í blekkingu og vill helst banna alla þekkingu sem ógnar henni.  Þegar þetta gengi kemst til veraldlegra valda, þá treður það blekkingu sinni upp á þá sem ekki aðhyllast hana og beitir boðum og bönnum til að fá sitt fram.  Mér stendur t.d. ógn af bókstafstrúnni sem tröllríður USA og virðist vera að smitast til Evrópu.  Þetta fólk berst t.d. með oddi og egg gegn Þróunarkenningunni, sem er orðin vísindalega sönnuð staðreynd, og reyndir að troða sköpunarsögu Biblíunnar niður um kokið á heimsbyggðinni með góðu, eða illu.  Mér stendur lika ógn af Islam, sem hefur þann andstyggilega galla að lög Kóransins eru jafnframt skilgreind lög ríkisins og skilgreind endanlegur sannleikur sem óþarft er að endurskoða.

Mér finnst ömurlegt til þess að hugsa að hér sé verið að stofna kristilegan stjórnmálaflokk.   Ég vona að þjóðin beri gæfu til að kæfa þessa andstyggð í fæðingunni.

Theódór Gunnarsson, 21.9.2009 kl. 10:01

47 identicon

Það er ekki svo mikill munur á islam og kristni, kristnir eru að myrða þá sem þeir telja ekki fara eftir biblíu, þeir ráðast að menntakerfinu.. Bush er líkast til mesti hryðjuverkamaður síðari tíma, allt gert fyrir Gudda, já stríðin hans Bush eru trúarbragðastríð.
Kristnir eru að hafna því að Bush sé kristinn.. en bara sorry, you are totally wrong.

Hver sá sem kýs flokk sem snýst um trúarbrögð, sú manneskja er óvinur mannkyns, óvinur frelsis; Guðinn stendur fyrir einræði og ógnir... þannig er það bara.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 10:48

48 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæl Jóhanna

Það er athyglisvert hjá þér að gera tilraun til greiningar á trúarlífi okkar Íslendinga. Verst þykir mér þó hversu fordómfull þú virðist vera þegar kemur að þeim flokki sem ég tel mig falla undir, vantrúarmengið.

Tökum dæmi: "Mikil reiði í garð kirkju og trúarbragða."

Þetta er mikill misskilningur. Hugsanleg reiði beinist að þeim talsmönnum trúarbragða sem hrokafullir beita óheilindum, útúrsnúningum og blekkingum til að viðhalda óverðskuldaða sérstöðu í samfélaginu. Ef menn aðeins töluðu satt og af auðmýkt væri engin ástæða til reiði.

Annað dæmi: "Yfirleitt finnst þeim óþarfi að bera virðingu fyrir lífsgildum annarra séu þau byggð að eitthverju leyti á trú."

Einfaldlega ósatt. Skamm. Ég hef ekki enn hitt þann vantrúarmann sem virðir ekki rétt annarra til að hafa þá lífsskoðun sem þeir vilja. Lýsingin hjá þér passar reyndar miklu frekar við trúverjendur: Þeim finnst yfirleitt óþarfi að bera virðingu fyrir lífsskoðun sem byggir ekki að einhverju leyti á trú. Þetta virðist t.d. eiga við um þinn eigin málflutning.

Þriðja dæmi: "Biblían væri best geymd á öskuhaugunum."

Þvílíkt bull. Biblían er einstakt rit og verðmæti hennar gríðarlega mikið. Trúleysingjar henda engum ritum á öskuhaugana, það myndi jafngilda ritskoðun og skoðanakúgun. Við látum trúverjendur um það. Ágætt dæmi um slíkt er þegar guðfræðingar, jafnvel þeir sem kalla sig liberal, dæma heilu þjóðfélagshópana sem óvini sína af því þeir hafa aðrar lífsskoðanir en þeir sjálfir.

Fjórða dæmi: "Guð er yfirleitt hið illa í þeirra huga."

Hjalti hefur bent þér á hugsanavilluna þarna. Guð er auðvitað ekkert í hugum trúleysingja, hvorki hið illa né hið góða. Trúleysingjar eiga sjálfsagt erfitt með að leggja trúnað á "hið illa", hvað þá einhvers konar guð.

Fordómar þínir birtast enn frekar þegar þú fjallar um "trúleysingjamengið": Þar eru hinir kurteisu trúleysingjarnir þeir sem "virða lífsgildi trúaðra og þeirra skoðanir". Sem sagt, trúleysingjarnir sem láta vera að gagnrýna trú eða hafa yfirhöfuð skoðun á trú.

Eini þolanlegi trúleysinginn í þínum huga er þá sá sem þegir um trúleysi sitt en fagnar trú annarra.

Þessi setning um trúlausa: "Þeim finnst það sem er sannanlegt eigi að hafa meira vægi en það sem er ósannanlegt vísindalega"

er hreint út sagt kostuleg! Hinn "góði" trúleysingi er sá sem afneitar vísindum!

Hvaða fyrirbæri er það sem er "sannanlegt" en á sama tíma "ósannalegt vísindalega"? Eini skilningurinn sem hægt er að setja í þessa setningu er að hið "sannanlega" séu trúarleg sannindi. Hinn "góði" trúleysingi er sem sagt sá sem viðurkennir trúarleg sannindi ofar vísindalegum?

Mundu "kærleiksboðskap" kristninnar, hið æðsta boðorð skv. Jesú: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Mt 22:34-40)

Hér er maðurinn "hliðstæður" en þó greinilega miklu minna virði en Guð. Þarna birtist lifsskoðun kristninnar: Maðurinn í öðru sæti. Finnst þér skrítið að ég skuli eiga erfitt með að viðurkenna slíka lífsskoðun? Eða að ég skuli geta setið þegjandi hjá þegar vellaunaðir forsvarsmenn hennar leggjast svo lágt að troða henni upp á saklaus börn? En ég virði að fullu rétt þinn og annarra til að hafa þessa lífsskoðun.

Lífsskoðun mín og margra annarra er: "Elska skaltu náungann af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Elskaðu sjálfan þig eins og náungann." Ertu ekki til í að virða rétt minn til að hafa þessa lífsskoðun þó þú virðir ekki lífsskoðunina sjálfa?

Við getum verið ósammála um grundvallar lífsskoðanir en við þurfum ekki að dæma hvort annað út frá grunnhyggnum fordómum. Aldrei dytti mér í hug að dæma alla kristna sem eitt eða annað, þó ég geti haft áhyggjur af áhrifum kristninnar á huga þeirra. Að sama skapi frábið ég mér þessar fordómafullu flokkanir þínar á mér og skoðanabræðrum mínum og systrum.

Brynjólfur Þorvarðsson, 21.9.2009 kl. 11:07

49 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Flott færsla og mjög svo skemmtileg umræða sem er í gangi...

Ég myndi telja mig í Andlega mengið 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 21.9.2009 kl. 11:54

50 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Er í vinnunni og get því ekki sinnt þessum þræði. Vildi samt taka það fram, að gefnu tilefni, að það ríkir ákveðinn misskilningur varðandi vantrúarmengið, það á alls ekkert við alla félaga í Vantrú frekar en t.d. að bókstafstrú á við alla kristna. En vissulega er þetta upplifun mín af því að ræða við suma félaga í Vantrú og þá DoctorE sem ég veit ekkert hvort að er í þeim félagsskap eða ekki.

Mér þykir leitt ef þessi greining er að særa einhverja og/eða hefur snert viðkvæma þræði. Þetta er allt á léttu nótunum og bara almennar pælingar. Ekkert algilt við þetta.

Svara athugasemdum vonandi í kvöld.

Elskum friðinn og strjúkum friðinn.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 11:59

51 identicon

Ég er ekki í neinum félagsskap, bara einn með sjálfum mér; One man "army" :)

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 12:06

52 Smámynd: Theódór Norðkvist

DoctorE, þú ert þá í einstaka mengi (mengi sem er bara með eitt stak.)

Theódór Norðkvist, 21.9.2009 kl. 12:11

53 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Baldur, Jahve er Guðinn sem er kynntur til sögunnar í Gamla testamentinu sem er skrifað fyrir Krist., Guð Gyðinga. 

Jóhanna; Kristni 101: Guð gamlatestamentisins er guð kristinna. Hann er pabbi Jesú. Það getur vel verið að þú trúir því ekki, en kristið fólk almennt (og þar með talið Jesú guðspjallanna!) trúir þessu.

Guð Krists var kærleiksríkur, mildur, fyrirgaf og hjálpaði minnimáttar óháð öllum skilyrðum. Hann var guð ljóssins og lífsins sem farísearnir vildu taka af lífi en Pílatus þvoði hendur sínar.  Svona sé ég þetta.

Baldur, þetta virkar svo lengi sem þú rífur úr Nýja testamentinu þínu allar dæmisögur og allar ræður Jesú sem fjalla um heimsendi og því þegar Jesús mun láta engla henda fólki í eldsofn.

Vildi samt taka það fram, að gefnu tilefni, að það ríkir ákveðinn misskilningur varðandi vantrúarmengið, það á alls ekkert við alla félaga í Vantrú...

Jóhanna: Ég misskildi þig amk alls ekki. Vantrúarmengið var bara "háværir trúleysingjar sem er illa við trú/trúarbrögð eða telur þau slæm/skaðleg". Finnst sjálfsagt að hafa svona flokk (sem ég myndi reyndar hafa undirflokk í trúleysismenginu). En þetta er tilraunin þín

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.9.2009 kl. 12:35

54 identicon

Það er soldið weird, eiginlega alveg rosalega weird að hægt sé að ganga í gegnum guðfræði AKA biblíusögufræði án þess að hætta að trúa, að það sé hægt að ganga í gegnum þetta án þess að sjá að þetta er bara stjórntæki fornmanna blandað með misheppnuðum "vísindum".
Ég get bara tekið þann pól í hæðina að fólk sem hefur gengið í gegnum þann skóla sé að þykjast trúa þessu öllu saman.. nú eða að eitthvað sé hreinlega að :)

Með að guð sé pabbi Jesú... einhverjir kuflar tóku þá ákvörðun að Jesú væri guð og guð Jesú, hann er pabbi sjálfs sín... já nokkrir kuflar á skáldabuxunum tóku þessa furðulegu ákvörðun fyrir þig... :)

It makes no sense..

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 13:15

55 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Nú hefur þú sagt um Vantrú og meðlimi þess félags:

Ég verð að viðurkenna að ég upplifi Vantrúarstöfnuðinn álíka öfgafullan og marga sértrúarsöfnuði. Dómharka er ráðandi á báðum stöðum.

Er ekki fínt að halda því til haga.  Umræðunnar vegna.

Matthías Ásgeirsson, 21.9.2009 kl. 13:56

56 identicon

Hvað skyldu það vera margir sem vita af því að guð Ísraelsmanna hafði gyðju sér til samfylgdar?  Nafn hennar var Asherah.  Af hverju hefur kirkjan þagað yfir þessu?

Sagan af Nóaflóðinu er reyndar mjög gömul. Er upprunalega frá Súmerum, síðar Babiloníu s.br. Gilgameskviða.

Boðorðin 10 eru stolin frá Egyptum.  Í dauðrabók egypta eru sömu "boðorð" og mun fleirri til, rúmlega 40.  Þetta voru staðhæfingar sem hinn framliðni taldi upp og játaði frammi fyrir dómurum handanheimsins og eru þær kenndar við gyðjuna Ma'at.  Af hverju þegja nútíma trúabrögð um þetta?  Er það af því að þá missa þau valdið yfir fólkinu?  Sannleikurinn mun gera yður frjálsa, sagði "einhver" og það er orð að sönnu.

Jóhannes (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 14:24

57 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

 Varðandi guðsmyndir: Guðsmyndirnar í Biblíunni eru ótal margar og mismunandi, eftir hver sögumaður er hverju sinni.  Þetta er ávallt sú guðsmynd sem viðkomandi sögumaður hefur í huga. Guðsmyndir sem birtast í Gamla testamentinu eru margar og einnig í Nýja testamentinu.  

Það er einnig viðtekin venja, m.a. af trúfræðikennurum í H.Í. að tala um Guð gamla testamentisins og Guð Nýja testamentisins. Ef smellt er á hlekkinn sem ég setti undir Gamla testamentisins má t.d. skoða pælingar varðandi kvenlegar guðsmyndir. Enginn pabbi þar á ferð.

Annars ætla ég ómögulega að taka þátt í yfirheyrslu í trúfræði eða kristinfræði, enda annað fólk mun betur til þess fallið að svara því.  Svara helst aðeins fyrir mína eigin guðfræði, og þar er Guð svo sannarlega enginn KARL, DÓMARI, HERSHöFÐINGI o.s.frv.   

Hvort sem við erum trúuð eða trúlaus virðumst við eiga í huga  okkar mynd af Guði. Trúlausir segja að það sé ekki til Guð en rífast og skammast svo yfir ljótri Guðsmynd sem sett er fram af einhverjum höfundum Biblíunnar, en pæla ekkert í því,  eða taka ekki inn í myndina guðsmyndir og hreinlega tilvitnanir annarra höfunda Biblíunnar eins og  "Guð er KÆRLEIKUR" .. 

Hin grimma guðsmynd er því þeirra val og þeir velja úr þá höfunda sem hentar þeirra "antiboðskap" ..

Ég hef margoft rökrætt við vantrúarmenn - hvort sem þeir tilheyra félagsskapnum Vantrú eða eru á eigin vegum, þá eiga þeir til að hæðast að þeim sem trúa öðruvísi en þeir og ausa þá jafnvel skömmum.

Matthías er mættur og minnir mig á að ég hafi sagt Vantrúarsöfnuðinn með dómhörku á við ýmsa sértrúarsöfnuði. 

Er eftirtalin klausa ekki dómharka  í garð kristinnar trúar?

"Kristin trú er hindurvitni. Fyrir þeirri fullyrðingu má telja upp ótal góð rök. Það er í raun skelfileg tilvera sem mætir hinum vantrúaða að sjá sífellt daðrað við heimskuna í samfélagi okkar. Við sjáum skaðann. Við sjáum vitleysisganginn. Og við munum halda áfram að berjast hinni góðu baráttu gegn hinu heimska skrímsli."

 Matthías ef þú ert að gúgla eitthvað sem ég hef skrifað af hverju copy-peistaðir þú ekki t.d. þetta úr athugasemdum mínum um pistil Kristins um DoctorE hluta I.:

"Aðal málið er auðvitað að það erum við sem tökum ábyrgð á gjörðum okkar og getum aldrei og megum aldrei skýla okkur bak við Guð eða guði, eða annað en okkur sjálf."

... meira síðar...

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 16:47

58 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

DoctoE: "þess vegna bannar kaþólkska kirkjan getnaðarvarnir, bannar family planning.. fóstureyðingar... "

DoctorE: Ég er jafn fjarri þvi að vera talskona kaþólsku kirkjunnar og íhaldssemi hennar og þú  ..  Þú þarft að ræða þetta mál við "aðalvininn"

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 16:54

59 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þá er komið að Jóni Steinari:

"Þér er illa við skúffur og landamæri, en samt flokkar þú þig trúaða."

Mér er illa við skúffur og landamæri en sumt kemst maður/kona nú ekkert hjá að skilgreina -  ég ER  t.d. kona og ég ER trúuð,  þarf í raun ekkert að flokka mig sem trúaða, er það bara. Það er erfitt að skýra það fyrir fólki sem ekki skilur það og erfitt að setja sig í spor annarra og t.d. get ég ekki upplifað ákveðnar tilfinningar sem aðeins karlmenn upplifa og þú getur ekki upplifað sumt sem konur upplifa.

"Sennilegast Kristtinar trúar og sennilega telur þú hana hina einu réttu eða er vantrúuð á önnur trúarbrögð."

Það eru áhöld um mína kristni og hef fengið blammeringar hér á bloggsíðum frá "sannkristnum" um að skoðanir mínar segi að ég sé ekki kristin. Það skiptir mig ekki öllu máli.  Hvernig ég kem fram, viðhorf mitt og störf skipta mig mun meira máli en hvort ég sé kölluð kristin eða ekki. Látum bara Krist dæma um það sjálfan. 

"Hversvegna skilgreinir þú þig? Hversvegna hefur þú þörf fyrir að opinbera þá skilgreiningu? Er það kannski til að þú getir bent fingri á aðra og aðgreint þá og dæmt? (eins og þú gerir hér og er höfuðeinkenni trúarbragða)"

Það er oft gott fyrir lesandann að vita deili eða bakgrunn þess sem skrifar. Á hvaða forsendum hann gerir það. Ég skilgreindi mig sem mjög liberal "allt" nema gagnvart ofbeldi og kúgun.  Það var til þess að fólk sem læsi vissi það að ég væri víðsýn og ekki íhaldssöm. Já, ætli það sé ekki bara þess vegna Jón Steinar, hvort sem þú trúir þeirri skilgreiningu eða ekki.

Varðandi þessi mengi sem ég setti upp; þá var það nú bara leikur á sunnudagsmorgni sem hefur orðið að leik fram á mánudagskvöld og nú eru fleiri farnir að leika með. 

Það mín skoðun að enginn er betri eða verri af því einu saman  að hann hafi á sér stimpil trúar eða trúleysis. Menn og konur verða að vera heil og vera náunganum náungi og ýmislegt fleira í þeim dúr til að teljast góð.

Ég benti á dæmisöguna um miskunnsama Samverjann hér fyrr í blogginu í þessu samhengi.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 17:19

60 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór: " Mér stendur t.d. ógn af bókstafstrúnni sem tröllríður USA og virðist vera að smitast til Evrópu.  Þetta fólk berst t.d. með oddi og egg gegn Þróunarkenningunni, sem er orðin vísindalega sönnuð staðreynd, og reyndir að troða sköpunarsögu Biblíunnar niður um kokið á heimsbyggðinni með góðu, eða illu."

100% sammála þér! .. Mér stendur  líka ógn af trúarsöfnuðum sem ota Biblíunni að samkynhneigðum og telja þá brjóta gegn lögum Guðs. Hún er hættulegt rit þegar hún er notuð sem lögbók, sérstaklega þar sem hægt er að velja úr henni hvaða lög sem henta  illsku eða vankunnáttu viðkomandi.  

Trúartrix eða trúarbrögð eru hættuleg í höndum vondra manna og það eru allt of margir í þeim gírnum í þessari veröld, ég er alveg sammála því. 

En að fólk eigi samfélag þar sem það trúir á kærleika, ljós og frið, guðsmynd sem er góð það get ég bara alls ekki séð að skaði einn né neinn. Margar einmana sálir (og jafnvel ekki einmana) eiga sér vin eða vinkonu, og það er Guð, hvers vegna vilja sumir taka þennan Guð frá þeim og rétta þeim tómið í staðinn? 

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 17:32

61 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Miskunnarsami samverjinn var allaveganna ekki kristinn.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 21.9.2009 kl. 17:43

62 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Jóhanna,

Ég er svosem sammála þér um að fólki eigi að vera frjálst að mynda einhverrskonar saumaklúbba utan um hugmyndir sínar um almættið.  Mér finnst bara fáránlegt að það skuli verða til þessar risastóru stofnanir, sem hinar ýmsu kirkjudeildir í heiminum eru, og Islam er, og svo framvegis.  Mér finnst fráleitt að stofnun eins og kirkjan, sem hefur yfirbragð stórs ríkisfyrirtækis, skuli taka að sér að kenna börnum og ungmennum augljósar goðsagnir sem staðreyndir.  Starfsmenn á vegum þessarrar stofnunar fullyrða að sköpunarsaga Biblíunnar sé söguleg staðreynd, að Nóaflóðið hafi átt sér stað og að Nói hafi safnað í örkina pörum af öllum dýrum jarðarinnar og haldið þeim á lífi í dallinum mánuðum saman.  Sögum nýja testamentisins er haldið fram sem staðreyndum og ungviðinu talið trú um að ef það kjósi ekki að meðtaka þessar augljósu goðsagnir sem staðreyndir, þá muni þau að öðrum kosti brenna í helvíti um alla eilífð.

Mér finnst einfaldlega að þetta ætti allt saman að vera gengið yfir núna þegar við vitum svo miklu meira um raunverulega gerð tilverunnar en men gerðu þegar þessar sögur urðu til.  Ég er ekkert að halda því fram að Guð sé ekki til, einfaldlega vegna þess að ég veit ekki einu sinni hvað þetta orð þýðir.  Það eru flestir með sínar einkahugmyndir um þetta hugtak og fæstir sammála um það, enda er orðið að mínu viti gersamlega merkingarlaust.

Theódór Gunnarsson, 21.9.2009 kl. 18:05

63 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

It´s raining men  Hallelujah! ..  

Næ engan veginn að svara öllum spurningum eða að kommenta á allt. Þakka þó viðbröðin og ykkar nennu við að pæla.  Reyni samt að svara sem flestu.

Siggi: Gaman að sjá kunnuglegt andlit, eða réttara sagt kunnuglegan búk.

Tjah.. var miskunnsami Samverjinn kristinn eða ekki kristinn? Það er spurningin. Hann hegðaði sér a.m.k. á ákveðinn hátt sem Jesú þótti til fyrirmyndar.  

Verð að yfirgefa bloggið núna vegna lífs utan skjás.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 18:15

64 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías ef þú ert að gúgla eitthvað sem ég hef skrifað af hverju copy-peistaðir þú ekki t.d. þetta

Ég tók ekki þátt í þeirri umræðu.

Auðvitað hefur þú bullandi fordóma gagnvart Vantrú og trúleysingjum yfir höfðu, það sýna palladómar þínir í þessari umræðu.

Hvort sem við erum trúuð eða trúlaus virðumst við eiga í huga  okkar mynd af Guði. Trúlausir segja að það sé ekki til Guð en rífast og skammast svo yfir ljótri Guðsmynd sem sett er fram af einhverjum höfundum Biblíunnar, en pæla ekkert í því,  eða taka ekki inn í myndina guðsmyndir og hreinlega tilvitnanir annarra höfunda Biblíunnar eins og  "Guð er KÆRLEIKUR" .. 

Auðvitað pælum við í því.  Svo brosum við bara að þessari markleysu því "Gvuð er kærleikur" segir okkur ekkert um Gvuð eða kærleik.  Þetta er bara frasi sem fólk notar þegar það vill ekki játa að það trúi Gvuð Biblíunnar.

Matthías Ásgeirsson, 21.9.2009 kl. 18:37

65 identicon

Kristni er orðin útvötnuð, menn berjast við að halda viðbjóðnum í bókinni frá fólki, breyta orðalagi við þýðingar og annað í þeim dúr.
Kaþólska kirkjan er einfaldlega að halda í ruglið.. en einnig hún er ekki að fylgja biblíu, skurðgoðadýrkun er mál málanna.. kirkjan er nú að túra england með bein úr löngu dauðum dýrlingi, segja að lækningarmáttur sé í beininu... þetta kemur rétt eftir að kirkjan fordæmdi fölsuð lyf fyrir fátæklinga.

Annars er málið þannig vaxið.. annaðhvort fylgið þið biblíu 100% eða alls ekki... það gengur ekki að velja sér ~1% úr bókinni og dissa allt hitt.
Þetta er allt svo silly krakkar, give it up.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 18:48

66 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góð spurning Jóhanna.

 Hver er fyrirmynd og hver er sporgöngumaður?  Hver mótaði Samverjann og hver mótaði Jesú og hvaða áhrif höfðu þeir hvor á annan?  Ekki spurning um að þeir voru báðir flottir.  "Guðfræðingar" rýna stöðugt í hvaða áhrif gyðingdómur hafi haft á Jesú en gleyma alveg að hugleiða hvaða áhrif umburðalynd heiðin áhrif hafa haft á hann. 

Ég dáist að þrautseigju þessara vel lesnu en staurblindu manna sem bræða saman kenningar Jesú um kærleik,  fyrirgefningu  og refsingar við  Mósebók eins og um sé að ræða graut í sömu skál. 

Sigurður Þórðarson, 21.9.2009 kl. 18:54

67 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með þessa áhugaverðu síðu Jóhanna mín og lífið þitt allt.
ekki veit ég hvaða viðundur ég er, en veit bara að ég trúi á það góða og að maður eigi að breyta eftir því.

Kærleik til þín ljúfust

Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.9.2009 kl. 19:07

68 Smámynd: Eva

Passa hreint ekki inn í neinn af þessum flokkum , hvernig sem ég reyni og velti nú fyrir mér hvort það sé gott eða slæmt ???? ;)

Eva , 21.9.2009 kl. 20:02

69 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er einnig viðtekin venja, m.a. af trúfræðikennurum í H.Í. að tala um Guð gamla testamentisins og Guð Nýja testamentisins. Ef smellt er á hlekkinn sem ég setti undir Gamla testamentisins má t.d. skoða pælingar varðandi kvenlegar guðsmyndir. Enginn pabbi þar á ferð.

Jóhanna: Mig grunar að þetta eigi að vera svar til mín. Það getur vel verið að þessi trúfræðikennari tali um guð Gt og guð Nt, það breytir því ekki að samkvæmt kristinni trú er guð Galma testamentisins guð kristinna manna. Í guðspjöllunum er líka augljóst að Jesús telur guð Gamla testamentisins vera guð, ekki að það skipti neinu máli fyrir þig.

Það getur vel verið að þú viljir ekkert gera með þennan illa guð hafa, en þá sting ég upp á því að þú notir annað heiti yfir þig til þess að aðgreina þig frá frá því fólki sem er venjulega kallað kristið. Þú getur t.d. kallað þig markíonista eða eitthvað.

Síðan vildi ég gjarnan fá að vita hvað þú átt við með því að tala um "dómhörku", ef það þýðir að hafa neikvætt viðhorf til ýmissa trúarskoðana, þá erum við í Vantrú vissulega dómharðir. En ég held að það passi við alla.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.9.2009 kl. 20:12

70 identicon

Sigurður þú ert sá sem ert blindur, þú ert blindaður af verðlaunum.. .sem þú færð aldrei því þú verður fargin steindauður maður.

Það er ekki mikið um heimildir frá tímum meints Jesú, þær heimildir sem þó eru tilstaðar nefna bara alls ekki súpergaurinn þinn.. bara sorry.
Fyrir utan það að meintur frelsari á að vera meintur guð líka, það sem þú ert að segja er að hann sé skitsói sem gengur berserksgang, ofbeldi er lausnin á öllu hjá þessum guði þínum.. hann á að hafa skrifað einhverja kexruglaða bók sem spáði fyrir um meintan frelsara... sem gekk ekki upp, þess vegna viðurkenna gyðingar ekki hann Sússa karlinn...  meintur frelsari planaði svo eigin þykjustu plat dauða sinn,  enn og aftur var ofbeldi lausnin á öllu... lét þykjustu drepa sig til að fyrirgefa erfðarsyndina og að hver sá sem dýrkaði hann myndi ekki verða pyntaður að eilífu.
Sweet boðskapur maður... þetta er eiginlega guðlast... ekki satt

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 20:12

71 identicon

Best væri að hafa bara tvö mengi.

1. Fólk með gagnrýna hugsun sem leitar sannleikans. 

2. Fólk sem trúir á yfirnátturu og lifir í lygi.

Óttar G. (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 20:24

72 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég dáist að þrautseigju þessara vel lesnu en staurblindu manna sem bræða saman kenningar Jesú um kærleik,  fyrirgefningu  og refsingar við  Mósebók eins og um sé að ræða graut í sömu skál. 

Sigurður Þórðarson: Hefurðu lesið til dæmis Matteusarguðspjall? Þar er Jesús endalaust að boða að hann muni koma með englum sínum og henda vondu fólki (t.d. þeim sem fylgja ekki lögum Móse!) í helvíti. Þessi glansmynd þín af Jesú passar engan vegin við Nýja testamentið.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.9.2009 kl. 20:24

73 identicon

Við verðum að sýna krissunum smá skilning, þeir hafa bara ekki lesið bókina sína... Frá blautu barnsbeini voru þeir að líma englahár og glansmyndir af súperhetjunum sínum á meðan þeim var sagt hvað Sússi AKA Guddi elskaði þá geggjað mikið.

Enn aðrir hafa fallið ofan í brennivínsflöskur eða fíkniefni, átt við erfiða sjúkdóma að stríða og því verið extra opnir fyrir einhverju dogma með að þeir séu elskaðir af yfirnáttúrulegum verum... að lífið hér á jörðu sem hefur reynst þeim erfitt sé ekkert til að hafa áhyggjur af, það bíði miklu betra líf eftir dauðan ef þeir gangi í einhvern trúarklúbb og borgi til hans og umboðsmanna hans... umboðsmennirnir eru búnir að lesa biblíu skrilljón sinnum, tala jafnvel við karlinn í geimnum sem segir þeim hvernig sé best að vera til að komast í alsæluna.

Ég er ekki að taka neitt frá ykkur, enginn sem bendir ykkur á þessar staðreyndir allar með trúarbrögð er ekki að taka neitt frá ykkur... við viljum ykkur vel, við viljum ekki að þið hengið líf ykkar og annarra á lygasögur og falskar vonir

Peace

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 20:48

74 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir innlitið Milla, alltaf notalegt að fá þig í heimsókn. Þú ert ekkert viðundur að trúa á hið góða, viljum við það ekki öll? 

Kær kveðja í þitt hús.

Eva Lind, vertu velkomin - ég á einmitt dóttur sem heitir Eva Lind!  

Ég ætlast ekki til að neinn passi akkúrat í þessa ramma eða kannski bara í brot af nokkrum. Eins og ég sagði í upphafi erum við hvert og eitt einstök og með okkar skoðun eða tilfinningu fyrir trú eða trúleysi. Þetta var bara til gamans gert - og hefur að vísu vakið upp margar spurningar og pælingar, en það er svo yndislegt við okkur mannfólkið að við erum svo margbreytileg. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 22:30

75 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég tilheyri einu af mengjunum þínum Jóga!

Það er víst tækifærismengið, en ég vil líka leyfa því að fylgja að ég bið stundum, ekki til að frekjast eða biðja um hjálp - heldur bara til að skila kveðju til látinna ættingja og ástvina..

En svona til að benda á það, talandi um mengi, þá er hægt að vera utan mengja og líka tilheyra nokkrum.. þetta lærir maður í stærðfræði!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 21.9.2009 kl. 22:31

76 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir innleggið þitt Róslín mín unga og takk fyrir fróðleikinn um mengin. Hárrétt að það er hægt að vera utan mengja og tilheyra nokkrum. Held það sé kallað sniðmengi þegar þau skarast.  ..

Annars er ég vonlaus í stærðfræði - þess vegna fór ég í guðfræði þar sem kennt er að 1+1+1= 1.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 22:38

77 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór skrifar: "Sögum nýja testamentisins er haldið fram sem staðreyndum og ungviðinu talið trú um að ef það kjósi ekki að meðtaka þessar augljósu goðsagnir sem staðreyndir, þá muni þau að öðrum kosti brenna í helvíti um alla eilífð"

(leturbreyting mín)

Hvar er ungviðinu talin trú um þetta? Úff þetta er hræðilegt. Ég kannast nú ekker við þessar lýsingar - og starfaði þó í barnastarfi á tímabili.  Reyndar tel ég að börn taki ekki sögunum um Nóa og félaga alvarlegar en sögum um Hans og Grétu, svo alvarleikinn er nú ekki svona mikill.  Auðvitað þarf alltaf að passa upp á að börnum sé aðeins kenndur fallegur siðferðisboðskapur en ekki einhver illska.

Ég er ekki fylgjandi stjórnmálaflokki Jóns Vals og Co., það er alveg slétt og fellt í mínum huga.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 23:04

78 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. tek það fram að ég var ekki nægilega hrifin af því barnaefni sem mér var skaffað (sérstaklega ef það innihélt sögur úr GT)  og bjó til mitt eigið efni. Tengdi það við það sem var að gerast í kringum okkur,  t.d. var þáttur í sjónvarpinu til styrktar fötluðum börnum á laugardagskvöldi sem margar fjölskyldur fylgdust með og þá ræddum við um slíka hluti á sunnudegi.

Við ræddum um hvernig þau kæmu fram við önnur börn, hvort þau væru að lemja eða  o.s.frv..  inn í umræðuna blandaðist  hugmyndin um Jesús, sem kenndi að það ætti að elska náungann eins og sjálfan sig. Við ræddum um þakklæti fyrir að eiga pabba og/eða mömmur, systkini o.s.frv.  Gleðina og kærleikann.

Börnin höfðu mikinn áhuga á þessu og ég get fullyrt að ekkert barn skaðaðist af þessari samveru.  Á meðan þessu stóð var örugglega slatti af börnum heima að horfa eftirlitslaus á barnaefni í sjónvarpinu.  Kannski lítur einhver á það sem hollara.

Jæja, nú þarf þessi kona að fara að sofa. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki getað náð að svara öllu sem hér hefur komið fram eða verið spurt um.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 23:15

79 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. ekki vanmeta börnin, þau vita sínu viti og eru reyndar okkar bestu kennarar.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 23:17

80 identicon

Það er nú ekki svo langt síðan að það kom í fréttum að prestur var að segja við börn að þau væru með sár eða ör á sálinni sem aðeins Sússi gæti læknað... þið getið örugglega googlað þetta.
Báðum strákunum mínum var rænt og settir inn í kirkju.. komu heim með biblíu og alles.. þetta er ekkert nema barnaníð, árás á fjölskylduna í mínum huga.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 23:32

81 Smámynd: Eva

Takk fyrir það :)) Ætli ég sé ekki bara svona brota brot ;) Eða bara tíðni og orka ?Hver veit ekki ég .........

Eva , 22.9.2009 kl. 02:41

82 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Jóhanna

Án þess að ég ætlist til þess að þú takir undir málstað Vantrúarmanna, þá hlýtur þú að skilja þær áhyggjur sem menn hafa af því að trú sé álitin góð og eðlileg.

Þú ert auðvitað ósammála, en hlýtur að átta þig á því að fyrir sumu fólki sé það óásættanlegt að nánast hvaða blaðri sem er í nafni trúar teljist eðlilegt að haldið sé fram við börn og fullorðna.

Getur þú þá skilið að menn leggist gegn slíku og að það sé ekki hatrammt eða reiðilegt, heldur einfaldlega fólgið í viðlíka sannfæring og þinni eigin um ágæti þíns málstaðs.

Ef þú getur tekið undir þetta myndi ég ætla að þér þætti sjálfri lýsing þín á Vantrúarmanninum dálítið undarlega neikvætt orðuð.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 22.9.2009 kl. 08:22

83 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Kristinn,

Ég skil áhyggjurnar og hef þær sjálf. Ég hef alltaf áhyggjur þegar fólk tekur ekki ábyrð á eigin verkum. Ég þekki til manna sem krossa sig bak og fyrir en berja síðan fólk "í Guðs nafni". Það er hættan.

Ég tel að sá valdi er á haldi, en svo er bara spurning hvort að mannskepnan valdi eða ekki?  Auðvitað er ég ósammála að "hvaða blaðri sem er sé haldið að börnum" hvort sem það er í nafni trúar eða ekki.  Sumir vilja taka jólasveininn, tannálfinn, páskakanínuna og hvað sem þetta nú allt er í burtu, þar sem í raun er verið að  segja börnunum ósatt.

Ég get vel skilið að menn leggist gegn slíku, og ég skil ákafann og eldmóðinn. Ég held að við ættum reyndar ÖLL að berjast gegn öfgatrú, trúarbrögðum sem lætur fólk hætta að taka ábyrgð á sjálfum sér.

Þegar ég er sett undir sama hatt og einhver brjálaður sjónvarpsprédikari sem hótar eldi og brennisteini ef fólk trúir ekki þá verð ég særð. Kannski særast þeir sem fylkja sér undir Vantrú vegna þess að þeir eru settir undir þennan öfgahatt. Ég bætti við einhvers konar trúleysismengi. Kannski má leggja þessi tvö saman og deila í með 2, þá kannast menn kannski frekar við sig.

Vantrúarmenn eru eflaust jafn ólíkir innbyrðis og með mismiklar áherslur eins og þeir sem flokka sig undir Trú.  Þetta er því rétt ábending og vona ég að í framtíðinni verði ég ekki spyrt við öfgatrúboð og helvítisprédikara.

Ágætur vinur minn og fv. samstarfsfélagi er á öndverðum meiði skoðanalega. Hann birti einhvern tímann blogg um nýja Biblíuþýðingu að nota ætti Biblíuna sem klósettpappír og fleiri hafa orðað það.  Ég myndi segja að það flokkaðist undir einn hluta af því sem ég set þarna undir Vantrúarmengið, þ.e.a.s. að Biblían væri best geymd á öskuhaugunum. Biblían er ekkert "major" dæmi fyrir mér varðandi mitt trúarlíf og gæti lifað án hennar, en hún er svolítið heilög fyrir mörgum og mér finnst óþarfi að gera svona lítið úr því sem öðrum er heilagt. Það er auðvitað hægt að misnota Biblíuna eins og reyndar það er hægt að misnota svo margt. Hamar er til að smíða með en það er hægt að rota mann með honum líka og er stórhættulegur í höndum rangra aðila.

Ég hef ekki tíma, þar sem ég er að hefja störf dagsins, til að fletta upp í viðræðum við félaga í Vantrú, en þú getur fundið þetta allt sem ég nefni í orðum sumra þeirra og þar er notuð meinhæðni, gert lítið úr, fólk kallað heilalaust sem trúir o.s.frv. 

Að lokum: Ég held að við viljum það sama, "Peace on Earth and Goodwill for all Mankind."

Þetta er spurning um að vinna saman að því og kannski finna okkar "sniðmengi" þar sem við mætumst.

Ég er 100% til í samvinnu gegn afturhaldsöflum, gegn trúarkúgun sem annarri kúgun. Ég er til í samvinnu gegn þeim sem tala gegn samkynhneigðum í skjóli trúar, gegn mannréttindum í skjóli trúar o.s.frv.   Það er MJÖG margt í kirkjunni sem ég er ósammála og væri örugglega búið að brenna mig á báli hefði ég farið undir Rannsóknarréttinn á sínum tíma vegna "rangrar" trúar. 

Nú eru menn með mjög íhaldssamar hugmyndir að fara að stofna "kristinn" stjórnmálaflokk og ég er fyrsta manneskjan í röð til að berjast gegn þessum ákveðna flokki. 

Þakka annars áhugavert og málefnalegt innlegg.

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 09:14

84 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég hef ekki tíma, þar sem ég er að hefja störf dagsins, til að fletta upp í viðræðum við félaga í Vantrú, en þú getur fundið þetta allt sem ég nefni í orðum sumra þeirra og þar er notuð meinhæðni, gert lítið úr, fólk kallað heilalaust sem trúir o.s.frv.

Mér þætti afar skemmtilegt að sjá tilvitnun í "féaga í Vantrú" sem kalla fólk "heilalaust sem trúir".

Skemmtilegt að slengja þessu fram en taka um leið fram að maður hafi ekki tíma til að fletta þessu upp. 

Matthías Ásgeirsson, 22.9.2009 kl. 09:51

85 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Hjalti,

Ég hef aldrei haldið því fram að Nýja Testamentið væri skrifað undir engum áhrifum frá gyðingdóm, slíkt væri fráleitt.  Ég held aftur á móti að guðfræðingar vanmeti heiðin áhrif sem fram koma í Nýja Testamentinu og fram koma í mörgum dæmisögum Krists. 

Vísindin eru alltaf hlutlæg. Ef maður byrjar á að trúa einhverju bókstaflega og fer síðan að rannsaka málið kemst maður að því að það var "rétt" sem maður trúði annars hefur maður ekki trúað því.    Þess vegna held ég að þeir sem eru ekki bókstafstrúar séu læsari á Biblíuna en hinir sem sjá ekki skóginn fyrir einstaka trjám.

Sigurður Þórðarson, 22.9.2009 kl. 11:25

86 identicon

Hjátrú þróast eins og allt annað, guð gyðinga var einu sinni fullt af guðum.. sem var steypt saman í einn.. guðinn hefur skipt um nafn og alles.. síðan stökkbreyttist dæmið yfir í kristni og svo íslam.... allt púra fake og FAIL
Evolution, it's everywhere.

DoctorE (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 11:46

87 identicon

Njóta sumir þess ekki bara að geta barið á fólki og kúgað í guðs nafni?  Falið óþveran í sér á bakvið trúarsetningar?

Ég má þetta, guð segir það, það stendur í biblíunni.

Jóhannes (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 13:01

88 identicon

Svo megum við ekki gleyma öllum hlutmengjunum, sammengjunum og andmengjunum. Þetta hlýtur allt saman að skipta máli

Svo þarf þarf Doktorinn að fara átta sig á því að það eru ekki allir trúaðir bókstafstrúa eins og hann vil meina og röksemdafærsla hann gengur út frá.  Ótrúlega grunn heimspeki hjá Doktornum, þótt maður geti haft mjög gaman af frösunum hans þá er hann ansi einhæfur kallinn og þjáist af rörsýni. 

Líka frekar léleg röksemdarfærsla að benda á hluti sem standa í Biblíunni til að afsanna tilvist guðs. Held að það sé ansi lítið brot trúaðra sem trúa því sem stendur í Biblíunni.

Jóhannes, sumir njóta þess að berja fólk og kúga í guðs nafni, aðrir gera það í nafni lýðræðis eða annarra lífsskoðana. Það er bara algengt að fáfrótt fólk beiti annað fólk ofbeldi ef það er ekki tilbúið að gangast undir fáfræði þess. Hefur ekkert með trúa að gera!

Hvað ætli bandaríkjamenn séu búnir að drepa marga í nafni lýðræðis?

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 13:55

89 identicon

Jæja Bjöggi.. ertu eitthvað skárri ef þú trúir pínku ponsu.. er ríkiskirkjan ekki í gangi í dag einmitt vegna þessa... þúsundum milljóna sóað bara vegna þess að þú trúir á 3ja eða 4ða hvern bókstaf.
Þú getur reynt að segja að ég sé grunnur og rörsýnn.. en You are doing it wrong dude

DoctorE (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 14:17

90 identicon

P.S. Mesti hryðjuverkamaður síðari tíma, hann Bush var í trúarbragðastríði.. hefur ekkert með lýðræði að gera.. hann var td að reyna að hindra að spádómur biblíu rættist.

Kynna sér efnið og skrifa svo.. or look silly

DoctorE (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 14:28

91 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Takk fyrir mikið og gott svar Jóhanna.

Svo ég varpi nú einhverju fleira fram, þá ætla ég að spyrja þig út afstöðu þína til helstu ný-guðleysingjanna í dag: Sam Harris og fleiri. Hugmynd þeirra sumra er sú að með því að líða trú án sannana af einhverju tagi, hvort sem trúað er á friðarguðinn Óla Prik eða Jahve gamla, sé verið að gefa óafturkræft grænt ljós á allt bull.

Sé trú liðin er nefnilega erfitt að ákveða hvenær hegðun í nafni hennar er í lagi og hvenær ekki. Er í lagi að standa uppi á kassa niðri í bæ og hvetja til fjöldamorða á rauðhærðum, af því að guðinn mans segir manni að það sé næst á dagskrá? Ef ekki, hvað er það þá sem ákvarðar hvar draga skal mörkin?

George Bush virtist trúa því að hann eigið að heyja stríð við miðausturlönd, að það væri vilji guðs. Hversu frábært er það þá að það þyki jákvætt að ganga um og tala um vilja guðs? Hver getur bannað einum að tjá sig um vilja guðs en leyft öðrum?

Það er vilji guðs míns að ég standi á nóttinni og horfi inn um gluggann hjá þér, Jóhanna. Sorry, ég veit að það er dálítið perralegt og óþægilegt fyrir þig, en þú ert trúuð eins og ég, þú hlýtur að skilja og virða vilja míns guðs eins og ég virði vilja þins.

Ef trú mín má ekki segja mér neitt sem ekki hentar samfélaginu, er trúin þá ekki orðin að innantómu hjali um góðmennsku, eins og orðið er á Íslandi? Er það eina réttlætanlega og þolanlega trúin? Er hún þá bundin siðferðislögmálum samfélagsins hverju sinni? Er trúin þá orðin hentugt og vel tamið gæludýr sem gengur við hlið eiganda síns eins og kjölturakki? Er það trú sem við getum verið sammála um að sé fín?

Ef svo er, er ljóst að orð Guðs þurfa að passa inn í fyrirfram ákveðinn ramma og það þykir mér undarlegt að gildi um guði sem eru almáttugir og alvitrir. Mun fólk ekki alltaf sprengja sig út úr þeim ramma með ranghugmyndir sínar?

Í þessu ljósi þykir mér ljóst að sem flestir þurfa að tjá sig um að trú sé blekking og gildi samfélaga séu ærði gildum trúfélaga. Það er þá allavega eitthvað sem samfélagið kemur sér saman um, a.m.k. í lýðræðislegum ríkjum.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 22.9.2009 kl. 15:09

92 Smámynd: Kristinn Theódórsson

George Bush virtist trúa því að hann eigið að heyja stríð við miðausturlönd, að það væri vilji guðs. Hversu frábært er það þá að það þyki jákvætt að ganga um og tala um vilja guðs? Hver getur bannað einum að tjá sig um vilja guðs en leyft öðrum?

"ætti" átti þetta að vera.

Kristinn Theódórsson, 22.9.2009 kl. 15:40

93 identicon

Bush var á meðal annars að berjast gegn "Gog & Magog"

Hann fór með bænirnar sínar á hverjum degi.. sem í sjálfu sér er sönnun fyrir því að bænir virka ekki
http://www.youtube.com/watch?v=QF88nB1SRCM

Þarf ég að minnast á Geir Haarde og bæn hans til Gudda með að blessa ísland.. D'OH ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 16:18

94 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég er enn að bíða eftir heilalausu dæmi.

Matthías Ásgeirsson, 22.9.2009 kl. 20:20

95 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Matthías, ég var svo upptekin að skrifa nýtt blogg og skrapp á kvikmyndahátið (The Blessing) að ég hreinlega gleymdi þér á bið á þessum þræði. Þú veist alveg hvað ég við, þú hlýtur að kannast við hvernig þeir sem gætu samsvarað sig við vantrúarmengið skrifa um trúfólk. Ég tók bara sem dæmi þetta með heilalaus, en auðvitað á ég við allt í þá áttina eða sambærileg orð.

Þetta er tekið úr kommentum hjá Vantrú, örugglega skrifað af þeim sem eru undir umræddu vantrúarmengi, miðað við skrifin, þetta eru örugglega ekki ofurkrissar..

"Með því að gerast trúarnött hefur Jón bælt niður neyslufíkn sína (ef það hefur þá tekist) og tileinkað líf sitt til að fullnægja annarri gerviþörf. Ég get trúað að líf hans sem heilalaus rotta í lífsgæðakapphlaupinu hafi verið merkingarlítið, en að gerast sauður í hjörð kristinna er bara vottur um áframhaldandi heilaleysi."

"Það er semsagt ekki af því að kristnin sé vitræn eða Biblían gáfuleg, nei þið lepjið heilalaust upp það sem forfeðrum ykkar var nauðgað til að trúa. Þetta gerir það að þið getið aldrei orðið sannfærandi, sama hvað þið reynið. Ef þræll segði ykkur að honum þætti gott að láta berja sig, mynduð þið trúa honum ?"

Hér er einn sem gagnrýnir Mofa á bloggi:

"Mofi = Moðhaus  = Heilalaus = Sköpunarsinni = trúarnöttari = þvæla.."

Tinni (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 20:05

"Kristindómurinn er nefnilega, rétt eins og öll önnur trúarbrögð, alveg hrikalega vitleysisleg og sjúk pæling."

Eigðu gott kvöld ;-)

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 22:05

96 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þetta er tekið úr kommentum hjá Vantrú, örugglega skrifað af þeim sem eru undir umræddu vantrúarmeng 

Þú sagðir "félagar í Vantrú".

Athugasemdir vantrúarsinna eru merktar á Vantrú.  Fyrsta athugasemdin er ekki eftir félaga í Vantrú.  Það er enginn Tinni í Vantrú, þannig að næsta athugasemd á síðunni hans mofa er heldur ekki eftir félaga í Vantrú.

Í þriðju athugasemd er Birgir ekki að segja að fólk sem trúir sé heilalaust.

Ég geri því ráð fyrir að þú ætlir að taka athugasemd þína til baka.  Jafnvel biðjast afsökunar.

Matthías Ásgeirsson, 22.9.2009 kl. 22:35

97 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Kæri Matthías,

Varðandi eftirfarandi málsgrein:

Ég hef ekki tíma, þar sem ég er að hefja störf dagsins, til að fletta upp í viðræðum við félaga í Vantrú, en þú getur fundið þetta allt sem ég nefni í orðum sumra þeirra og þar er notuð meinhæðni, gert lítið úr, fólk kallað heilalaust sem trúir o.s.frv. "

dæmist dauð og ómerk ..

Elti ekki ólar við svona - lærum af mistökum  .. 

Peace

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 23:04

98 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jóhanna, það er spurning hvort þú ættir að bæta tóma menginu við í flokkuninni.

Theódór Norðkvist, 22.9.2009 kl. 23:12

99 identicon

Þessi hentisemi-Guðfræði þín Jóhanna, er náttlega algjörlega útí hött . Hvaða villutrúarsöfnuður sprettur svo út frá þér er óráðin gáta, en verður líklega nefndur gaypreyers eða free-prayers . Sameinast svo að lokum mormónum, eða álíka culti .Kristnidómi til háborinnar skammar og vanvirðingar, svo seint gleymist .

enok (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 23:26

100 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Enok, takk - mér líst vel á "Gay-Prayers"  Gleðibænahópurinn ;-) ..

Látum Krist dæma um kristni okkar...

"Í kristinni trú er talað um að Guð horfi á hjarta mannsins, hans innri mann, sem þýðir að það sem skiptir mestu máli er hvernig maðurinn er, hvaða augum hann lítur sjálfan sig og hvernig hann hugsar um og kemur fram við náungann"

leturbreytingin er mín, annars er þetta úr pistli:  

BRS, Trúin og lífið.

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 23:35

101 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Theódór, ég er ekki alveg að fatta?  Tóma menginu? Hvernig er það?

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.9.2009 kl. 23:39

102 identicon

enok er ofurkrissi, hann er tilbúinn í allt til að fá framhaldslíf með klárasta galdrakarli í heimi.
Hann ætti að fá sér aðra bók, rosalega erfitt að hlusta á fólk sem les bara eina bók ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 00:05

103 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tóma mengið er mengi með engu staki. Ekki mengi af "tómu" fólki, það er allavega ekki stærðfræðilega skilgreiningin. Orðaleikur.

Theódór Norðkvist, 23.9.2009 kl. 00:36

104 identicon

SÆl, Gaman að lesa þetta hjá

þér og er ég þér sammála með fólkið í tækisfæri menginu, en ekki alveg sammála með þá trúlausu.

Ég er sjálf trúlaus og er ég það vegna þess að ég var ekki alin upp í neinni trú. Ég ber virðingu fyrir trúm annarra og skoðunum, þótt ég sé kanski ekki alveg sammála þeim. Manneskjan er meðvituð um dauðann en hræðist hann. Flestir þurfa einhverja hugarró og ég held að trúarbrögð í dag hjálpi okkur að komast yfir ástvinamissi. En svo eru þeir til sem sætta sig bara algjörlega við það að hverfa þegar tíminn er búinn, njóta bara þess tíma sem þeir hafa á jörðinni. Þeir eru ekkert að pæla í trúm annarra, nema þegar er verið að reyna að troða þessum boðskap á þá og börnin þeirra, t.d í skólum.

Ég tel mig samt alveg vita ástæðuna fyrir biturleika flestra trúlausra. Þeir vilja það sem er mannskyninu fyrir bestu, en forsögur flestra trúarbragða eru ekki fallegar. 

Dísa (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 08:01

105 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

[ummælin] dæmist dauð og ómerk ..

Elti ekki ólar við svona - lærum af mistökum  .. 

Þakka þér fyrir.

Ef þú skoðar þær umræður sem við félgar í Vantrú tökum þátt í sérðu fljótt að stór hluti þeirra er nákvæmlega eins og þessi "rimma" okkar.  Fólk setur fram fullyrðingar, gjarnan um Vantrú.  Við krefjumst þess að fólk rökstyðji.  Úr verður löng deila.

Eini munurinn er að í fæstum tilvikum er fólk tilbúið til að játa að það hafi haft rangt fyrir sér.

En alltaf skulum við vantrúaðir dæmdir öfgamenn fyrir að leyfa fólki ekki að hafa skoðanir :-)

Matthías Ásgeirsson, 23.9.2009 kl. 08:41

106 identicon

Ég er öfgamaður.. ég byggi ekki tilbeiðsluhallir, ég fer ekki fram á að fá sérréttindi, ég sel ekki neitt, ég er ekki með sjónvarpsstöð, ég klæðist ekki furðufötum, ég lesi ekki bara eina bók, ég lofa ekki neinu sem ég get ekki staðið við, ég tel mig ekki hafa öll svörin, ég vil sama rétt fyrir alla...
Ég er með eitt blogg og set athugasemdir með að fólk láti ekki selja sér framhaldslíf samkvæmt tuði í einhverjum fornmönnum sem vissu ekkert í sinn haus, fornmönnum í valdabaráttu.
Ég er öfgamaður.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 08:59

107 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Já, þú ert einn af þessum öfgafullu trúleysingjum

Matthías Ásgeirsson, 23.9.2009 kl. 10:37

108 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mér finnst sumt sameiginlegt með Guði og DoctorE :) 

Báðir skyrrast við að láta aðra vita hver þeir raunverulega eru og hafa fyrir því góðar og gildar ástæður.

Báðir tala þess vegna til sinna viðmælenda (mannkyns) óbeint.

Báðir tala eins og þeir viti eitthvað sem fáir eða jafnvel engir aðrir vita.

Báðir kveða sömu vísuna eins oft og eins lengi og von er til að einhver hlusti.

Báðir segjast berjast gegn mannillskunni og græðginni

Báðir segjast ekki geta gefið svörin við öllu, en gera það samt

Báðir nota litríkt og kraftmikið líkingamál

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.9.2009 kl. 11:03

109 identicon

Nú er ég sátt með þig ;)

Ég get sett mig inn í nýja trúlausa mengið :D

Dísa (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 15:37

110 identicon

Svanur minn... ekki byggja tilbeiðsluhöll í kringum mig.. ok... úps ég gleymdi að ég er ekki að bjóða nein verðlaun eða ógnir ;)
Án þessa þá er ekki hægt að búa til trúarbrögð og guði í kringum þau...

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 16:18

111 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæl Jóhanna

Ég sakna þess dáldið að þú skulir ekki hafa haft tíma til að svara innleggi mínu. Ég sé eftir frekari lestur að þú ert sjálf ill-flokkanleg, heiðarleg og réttsýn kona sem fundið hefur sína trú. Til hamingju með það.

Sjálfur hef ég verið trúlaus frá unglingsárum en alltaf talið mig hafa á einhvern hátt rangt fyrir mér, trú væri eitthvað sem allir ættu að hafa og trúleysi væri "skrítið". Eftir mikla leit og pælingar komst ég á miðjum aldri í snertingu við Vantrú og þar mætti ég í fyrsta skipti hópi manna og kvenna sem þorðu að vera trúlaus og láta vita af því. Mér fannst ég frelsast undan samviskubiti og þörf til ranghugmynda, ég mátti loksins hafa mínar skoðanir og vera sáttur við þær.

Ég hef tekið félaga mína í Vantrú mér til fyrirmyndar og reynt eftir fremsta megni að benda á valkostinn við trú, að trúleysi er lífsskoðun sem hægt er að velja sér. Að maður þurfi ekki að vera bæklaður eða vondur eða illa innrættur ef maður er trúlaus. Samfélagið er í mikilli andstöðu við trúleysi en á síðustu 5 - 10 árum hefur umræðan opnast gríðarlega.

Í dag eru trúleysingjar ógn við ríkjandi skipulögð trúarbrögð. Við fáum enda að kenna á árásum þeirra og fordómum. Við erum útmáluð sem öfgasinnar, ofstækismenn, sértrúarsöfnuður. Ríkisstarfsmenn halda því opinberlega fram að við séum vont fólk sem ekki geti elskað, geti ekki þótt vænt um náungann, geti ekki vitað muninn á réttu og röngu. Það svíður undan orðum þeirra.

Það sem hryggir mig varðandi bloggfærslu þína, Jóhanna, er að þú tekur undir fordómana og dreifir þeim enn frekar. Einu góðu trúleysingjarnir eru þeir sem viðurkenna trú en stunda hana ekki, samkvæmt flokkun þinni. Einu góðu trúleysingjarnir eru þeir sem þegja og makka rétt og samþykkja "trúarleg sannindi" ofar vísindalegum sannindum.

Bloggfærsla þín særir mig, þú ræðst að mér og félögum mínum ekki vegna skoðana okkar heldur vegna þess að við þorum að láta þær í ljós. Vegna þess að við höfum sannfæringar sem við viljum standa við, skoðanir á lífinu og tilverunni sem eru minnst jafn góðar og þínar, skoðanir sem við viljum fá viðurkenndar sem raunverulegar manneskjulegar skoðanir.

Lífsskoðun mín er tekin á ská úr nýja testamentinu og ég birti hana hér aftur: "Elska skaltu náungann af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Elskaðu sjálfan þig eins og náungann."

Þetta tel ég vera bestu lífsskoðun sem hægt er að hafa og ég er reiðubúinn til að verja hana og til að benda á galla annarra lífsskoðana sem ganga gegn þessari grundvallarlífsskoðun. Kristni er ein þeirra.

Nú veit ég ekki hver þín trú nákvæmlega er en ég held að við höfum svipaðar lífsskoðanir. Mín hefur samt vinninginn því hún er svo miklu einfaldari og setur ábyrgðina að fullu leyti á mínar herðar. Þín lífsskoðun krefst óútskýranlegrar yfirnáttúrulegrar veru með yfirnáttúrulega krafta, veru sem tekur af þér ábyrgð á eigin lífi.

En mikið væri gaman ef þú hefðir tíma til að tjá þig lítillega um þessar pælingar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.9.2009 kl. 19:07

112 identicon

Trúin á Guð býr í hjarta hvers manns - hvað sem vantrúar kverúlantar segja.

Jón K (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 22:22

113 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæll Brynjólfur, ég bið þig afsökunar (og sjálfa mig) á því að hafa ekki svarað þér. Þakka þér fyrir að kalla mig heiðarlega og réttsýna, og þakka þér fyrir að sjá það þrátt fyrir hvað ég skrifa.  Ég var reyndar ekki búin að gleyma þér, var síðast að hugsa um það í morgun að ég þyrfti eiginlega að gera sér blogg til að svara fyrra innleggi þínu, þar sem mér fannst það svolítið yfirþyrmandi og stórt. En auðvitað lest þú ekki hugsanir mínar. Ég skrifaði bloggið um trúhneigðina í fyrradag, þegar sá andi kom yfir mig, en mun geyma blogg - sem ég mun tileinka þér um helgina, þar sem í kvöld er ég að fara að horfa á Gaukshreiðrið í Dómkirkjunni .. hljómar svolítið "scary" en þar verður Milos Forman sjálfur með erindi.

Tilgangur minn með bloggfærslum á ekki að vera særandi, tilgangur minn í lífinu er að vera ljós, ást og þar eftir götum, enda leggjum við ekki ljós okkar undir mæliker.

Þú segir:

Lífsskoðun mín er tekin á ská úr nýja testamentinu og ég birti hana hér aftur: "Elska skaltu náungann af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Elskaðu sjálfan þig eins og náungann."

Þetta er líka lífsskoðun mín, og í samræmi við tilgang minn á þessari jörð. Að elska mig og þykja vænt um sjálfa mig og elska síðan náungan eins og sjálfa mig.

Aðeins ef okkur þykir vænt um okkur sjálf þykir okkur vænt um náungann, því ef við hötum okkur sjálf þá fer náunginn í taugarnar á okkur líka.

Ég kasta mér ekki undan ábyrgð á sjálfri mér, ég trúi að Guð hafi skapað MIG í sinni mynd til þess að ég gæti skapað.  Formið skiptir engu máli, þó við séum sköpuð maður og kona. Við erum öll skaparar (eins og Guð) .. Við höfum mátt til að skapa og velja.

Nú er ég búin að skrifa meira en ég ætlaði, vil fá að hugsa þetta meira áður en ég læt flæða meira. Helgin ætti að vera róleg og þá get ég rætt meiri guðfræði og tilgang við þig og aðra. Þangað til þarf ég að vinna mín skyldustörf sem trufla nú frá umræðu sem er mér hjartfólgin. Ekki það að mér leiðist starf mitt, en þar er ég með sama tilgang, að gefa af mér, vera örlát á það ljós sem ég hef að gefa.

 

Jóhanna Magnúsdóttir, 24.9.2009 kl. 09:42

114 identicon

Já Jón.. þu hugsar með hjartanu.. það skýrir ansi margt.. ;)

Það er ekki nokkur munur á að trúa á guð og að trúa á stokka og steina, galdrar eru ekki raunverulegir... þegar þið eruð dauð, þá eruð þið dauð; Game over, no continue.

DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 10:51

115 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, það má svo sem reyna að flokka fólk á ýmsa vegu, en mér sýnist flestir geta tilheyrt hlutmengi úr Tækifærismenginu.

Fólk sem tilheyrir söfnuði, yfirleitt þjóðkirkjunni en ræktar lítið sem ekkert trú sína opinberlega. Fer í kirkju til hátíðarbrigða, þá aðallega í brúðkaup, fermingar, skírnir og jarðarfarir.

Það kæmi mér ekki á óvart, ef einhvern tímann tekst að framkvæma félagslega könnun sem leiðir í ljós viðhorf fólks til 'sinnar trúar', að um 90% manna tilheyri þessu hlutmengi, kristinna, Gyðinga sem múslima.

Annars gaman að fá bloggara úr skólakerfinu hér inn. Allt of fáir skólamenn þora/geta tjáð sig hér vegna stöðu sinnar sem setur þeim ákveðna -þagnarskyldu- á herðar.

Sigurður Rósant, 27.9.2009 kl. 10:08

116 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Líklegast er þetta rétt hjá þér Sigurður Rósant, fæstir eu nokkuð að pæla í hvort þeir trúi eða ekki og fara í kirkju og biðja jafnvel bænir af gömlum vana en ekki af trúarþörf eða nauðsyn.

Ég hef leyft mér að blogga á persónulegu nótunum og frekar opinskátt,  hef skilningsríkan yfirmann sem leyfir mér að vera ég - og koma fram eins og ég er. Gæti ekki unnið undir öðruvísi kringumstæðum, en skil auðvitað þá sem gera það vegna þess að við þurfum jú öll að framfleyta okkur. 

Takk fyrir heimsóknina!

Jóhanna Magnúsdóttir, 27.9.2009 kl. 12:27

117 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Skemmtilegar pælingar.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.10.2009 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband