Almenn skynsemi á undanhaldi fyrir bókstafstrú á regluverk?

Kjarni þessa pistils: 

Ég hef engar áhyggjur af kirkjuheimsóknum barna, - það eru foreldrar sem eru aðaltrúboðarnir og fyrirmyndirnar í lífi barna sinna.  Það eru þeir sem eru stærstu áhrifa-og mótunarvaldar ekki kirkjustofnanir. Það má alveg hafa áhyggjur af uppeldi sumra foreldra, nú og uppeldi í skólum, líka þeirra sem kenna bókstafstrú á regluverk, hvers eðlis sem það er. 

---

Maður nokkur keypti sér pakka af Lasagna, þ.e.a.s. það eina sem vantaði var hakkið og osturinn. Lasagnaplöturnar, sósurnar, kryddið o.fl. voru í pakkanum. 

Hann las utan á pakkann, hann fór nákvæmlega eftir uppskrift, og setti réttinn i ofninn. Stillti á þar til settar gráður og stillti klukkuna á 25 mínútur eins og stóð á pakkanum.  Eftir 20 mínútur fann hann brunalykt, en á pakkanum stóð 20 mínútur svo hann beið i 5 mínútur í viðbót - en þá var sósan og osturinn ofan á lasagnanu orðið vel brennt.  Hann varð reiður, - ekkert að marka leiðbeiningarnar! -  Hann hafði ekki áttað sig á því að ofnar eru misjafnir og hann átti t.d. glænýjan ofn - og kannski hafði hann óvart stillt á grill eða? - 

En þessi pistill er ekki um lasagna, - eða matreiðslu, heldur einmitt um almenna skynsemi.

Það er svo augljóst, eða ætti að vera augljóst, að uppskriftir eru skrifaðar til leiðbeiningar. Reglur og regluverk ætti að vera það líka, og ættu að vera til að auðvelda okkur mannfólkinu lífið. - Svo er það stundum að reglurnar og regluverkið verða að bókstafstrú og það er ekki hægt að hnika.  "Reglurnar eru svona - punktur" - 

Reglur eru ekki aðeins settar til leiðbeiningar, en stundum eru þær settar til verndar. Verndar börnum, verndar fólki á öllum aldri, - til verndar fötluðum og ófötluðum. 

Á hverju ári, fyrir jól byrjar fólk að vitna í reglur til verndar börnum sem fara í kirkjuheimsóknir.  Ég skil sjónarmiðið, - því að þar kynnast börnin kristinni trú og kirkjulegum hefðum og siðum og mætti flokka það undir trúboð.  Trú á Guð og Jesú Krist.
(Fólk óttast ákveðinn heilaþvott eða ranga innrætingu).  

Trúboðið stendur reyndar alla daga. Og þar eru foreldrar lang, lang, lang sterkasti trúboðinn.  Börnin verja mestum tíma heima, þar sem þeim er sagt hverju þau eiga/mega trúa, hvernig þau eiga að lifa og vera. Þar fá þau stanslausa innrætingu um hver þau eru og hvað þau eiga að gera.  Þau fá það í gegnum samtal við foreldra, þau heyra skoðanir (trú) foreldra o.s.frv.   Ef að foreldrar eru of ýtnir með sínar skoðanir og trú er mjög líklegt að barnið fari í uppreisn einhvern tímann á ævinni.  Þegar ég er að tala um trú, er ég ekki endilega að tala um trúarbrögð, heldur bara trú almennt.  T.d. hvaða trú hefur einstaklingur á sjálfum sér?  Er hann t.d. svartur sauður og ómögulegur?   Hver kenndi honum það? 

Ég hef ekki miklar áhyggjur af örfáum heimsóknum í kirkju, eða að þar fari fram einhver heilaþvottur.  Tala nú ekki um ef að börnin hitta prestinn eða fara í kirkjuna einu sinni eða tvisvar á ári. Hvaða áhrifavaldur er það?  Foreldrar eru eins og guðir hjá börnum sínum.  Þau trúa foreldrum sínum best af öllum.  Það eru þau sem byggja grunninn fyrir líf barnsins.  Þau eru að sjálfsögðu sterkust þegar þau eru yngst, áhrifin, en síðan koma inn áhrif kennara í skóla, áhrifa félaga og áhrif samfélags almennt og fjölmiðla.  Þetta er að sjálfsögðu allt í bland, - fjölmiðlar byrja mjög snemma að hafa áhrif á líf barna, bæði beint og í gegnum foreldra. 

Pistillinn er með yfirskrift um bókstafstrú og regluverk.  Mér finnst eins og ákveðinn rétttrúnaður hafi færst út fyrir kirkjuna - kirkjuna sem keppist nú við að verða víðsýnni og stækka faðminn.  Kirkjuna sem kennir m.a. að hvíldardagurinn var gerður mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins.  Kristin kirkja á Íslandi er ekki ferköntuð og íhaldssöm. Þar veit fólk að almennrar skynsemi er þörf þegar Biblían er lesin og ekki er verið að boða reglur sem ekki virka á samfélag dagsins í dag.  Biblían er eins og lífið,  þar eru sögur, allt frá þeim ljótustu til þeirra fallegustu.  Að sjálfsögðu tileinkar sér enginn með göfugt hjarta og almenna skynsemi ljótu sögurnar.  

Ef við ætluðum að vera jafn "verndandi" og þau sem vilja vernda börnin frá kirkjuheimsóknum, þá þyrftum við helst að vernda þau frá tölvuleikjum, sjónvarpi, - og gífurlega miklum áróðri sem þau fá á heimilum sínum.  Það er talað um að foreldrar viti alltaf eða oftast hvað börnum þeirra er fyrir bestu.  Æ, nei því miður.  Ég er búin að vinna það lengi í ráðgjöf og að hlusta á fólk, sem er að vinna úr "trúboði" foreldra sinna,  trúboði að þau séu ómöguleg, frek, leiðinleg, löt, einskis nýt, að því get ég ekki trúað.  Foreldar eru flestir, sem betur fer,  mjög svo velviljaðir,  en kunnáttan er ekki alltaf fyrir hendi eða getan.  Þau voru e.t.v. sjálf alin upp við að hafa ekki trú á mátt sinn og megin, og auðvitað yfirfærist það á börnin þeirra, nema að þau hafi náð að styrkja sig.

Fólk hefur áhyggjur af heilaþvætti í kirkjunum, en áttar sig kannski ekki á því að heilaþvotturinn fer fram heima.  Þar eru aðal "þvottavélarnar" -  hitt er bara heimsókn.  

Sú manneskja eða þær manneskjur sem hafa mest áhrif á líf barna, eru þær manneskjur sem þær tengjast mest og best. - Þess vegna skulum við foreldrar, afar og ömmur, frænkur og frændur, kennarar barnanna, formlegir sem óformlegir líta í eigin barm og skoða hvaða "trú" við erum að kenna þeim.  

Barnið mun vaxa úr grasi, og þá er mikilvægasta trúin sú að það hafi trú á að það sé verðmætur einstaklingur, manneskja sem stendur sterk í æðruleysi, kjark og sátt við sjálfa sig.  

Fyrir mig er það mikilvægt að Guð sé með í jöfnunni, - því það hefur stutt mig í gegnum ævintýragöngu lífsins.  

Ég held persónulega að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeirri hefð að bjóða börnum í kirkju fyrir jólin, - nú eða í Smáralind eða hvert sem er.  Það sem við þurfum að vinna að er að viðhalda almennri skynsemi, að leyfa þeim að melta sjálfum hvað er satt og hvað er ósatt og að þau opni ofninn þegar þau finna brunalykt, en treysti ekki í blindni á leiðbeiningarnar. 

Ég hef á seinni árum kallað mig trúboða, - en starf mitt hefur falist í því að boða fólki trú á sjálft sig, að virða sig, að treysta sér, að fyrirgefa sér og að elska sig, síðast en ekki síst og að elska sig er að taka ábyrgð á eigin lífi, heilsu, líðan, tilfinningum o.s.frv. 

"Guðir" nútímans (fólk) stendur stundum í veginum fyrir þessum Guði sem elskar skilyrðislaust, fyrirgefur skilyrðislaust - þeim Guði sem býr í hjarta hverrar manneskju, viskan sem hvíslar og stundum kallar en fær ekki áheyrn, því það má ekki hlusta. Beturvitrungarnir eru allt um kring.  Þessir með regluverkið á hreinu, og vita allt hvað er betra fyrir þig en þú og viskan í þinu eigin hjarta. 

Hver manneskja þarf að rifja upp eigin stórfengleika, muna hver hún er og ganga óhrædd til lífs og verka.  Tengjast sjálfri sér - og sinni innri rödd, og vera skaparinn sem hún er sköpuð til að vera. 

Að vera sköpuð í Guðs mynd hefur ekkert að gera með útlit - heldur allt með hið innra.  Við erum skaparar, að eigin veröld.  Þess sterkari sem við verðum að því leyti þess minna skiptir hverju við mætum, - þá veljum viið ávallt það góða vegna þess að heilbrigð, almenn skynsemi - viskan er virk. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Heyr, heyr, frábær pistill og hverju orði sannara :-)

Högni Elfar Gylfason, 14.12.2014 kl. 13:02

2 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

Aðalmálið í þessarri umræðu er að það er verið að fara á skólatíma, og því verða til 2 hópar barna, þeir sem fara og þeir sem fara ekki.

Þarna er verið að stía í sundur börnunum vegna trúarskoðanna.

Í almenningsskóla á ekki að búa til aðstæður þar sem börnunum er stillt í ólíkar fylkingar vegna skoðanna.

Farsælast væri að farið verði í slíkar ferðir eftir skólatíma, þá væri hægt að setja dæmið upp þannig að þeir sem vildu fara með mundu mæta eftir síðasta tíma á ákveðinn stað, en þeir sem vildu ekki fara færu þá he

Hvers vegna er gengið út frá því að allir vilji fara og aðeins þeir sem vilja ekki fara þurfa sérstaklega að skrifa beiðni þess eðlis, væri ekki réttara að allir fengju miða heim til að láta skrifa undir, já eða nei.

------------------------------------------------------------------------

Svo kemur að því sem öðrum finnst vera aðalmálið, trúboð.

"að leyfa þeim að melta sjálfum hvað er satt og hvað er ósatt" þegar að verið er að tala um börn sem enn trúa á jólasveininn, er hægt að ætlast til þess að börnunum í kirkjuferðum að þau skynji sannleikann.

"almennrar skynsemi er þörf þegar Biblían er lesin og ekki er verið að boða reglur sem ekki virka á samfélag dagsins í dag"  orð guðs er eilíft, eigum við mennirnir að vera túlka hvað guð segir, hver hefur gefið okkur það vald að gera það sem við túlkum úr biblíunni, en ekki guðs vilja.

"Guði sem elskar skilyrðislaust, fyrirgefur skilyrðislaust", hvernig stendur þá á því að það er helvíti til, því ef hann fyrirgefur skilyrðislaust væri engin þörf fyrir það.

"Þegar ég er að tala um trú, er ég ekki endilega að tala um trúarbrögð, heldur bara trú almennt.  T.d. hvaða trú hefur einstaklingur á sjálfum sér?  Er hann t.d. svartur sauður og ómögulegur?   Hver kenndi honum það? "  þarna er gott dæmi um vankannta á íslenskri tungu.  þarna er verið að tala um tvennskonar "trú",  trúin á t.d. guð án þess að hafa sönnun fyrir tilvist hans og trú á sjálfan sig með tillit til undanfarandi reynslu.

Á ensku eru þetta "faith" og "belive" sem hefur tvær ólíkar merkingar en á íslenska tungu er þetta "trú"

Ólafur Ingi Brandsson, 14.12.2014 kl. 14:17

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er engin hefð.

Eg kannast ekkert við þetta úr minni barnaskólagöngu og ef eg spyr fólk sem var í skóla á svipuðum tíma, uppúr 1970 og framyfir 1980 og jafnvel um 1990 - það kannast nánast enginn við þetta.  Nánast enginn.

Þetta virðist því bara nýtilkomið.

Þar fyrir utan eru skóli og kirkja aðskilinn.  Sitt hvor hluturinn.

Svona kirkjustúss á ekki heima inní skólastarfi og á skólatíma.

Hissa á því að allir geti ekki fallist á það.

Umræða um kristinfræðslu í skólum og/eða trúarbragðafræðslu er annað mál, að mínu mati.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.12.2014 kl. 14:41

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir athugasemdirnar, - ég skrifaði þetta í gærmorgun en hafði ekki tíma til að sinna blogginu, og nú er vinnudagur.  Vonandi kemst ég í að veita viðbrögð á næstu dögum! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 15.12.2014 kl. 07:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband