Hvað verður um brotnu börnin? ... eigum við að lesa sögu þeirra?

 

Þessi pistill fjallar m.a. um ástæður mínar fyrir að styrkja útgáfu bókar.  Bók eftir Sævar Poetrix, sem er jafnframt kærasti dóttur minnar. Kalla hann stundum - hér í pistlinum "ófyrirmyndartengdasoninn." 

 

Nýlega las ég frétt um móður sem beitti ungan son sinn ofbeldi, m.a.  lamdi með stólfæti.  Hægt er að sjá fréttina hér á DV

Nú hef ég um nokkurra ára skeið starfað við ráðgjöf. Ráðgjöf við fólk á öllum aldri. Yngsti viðmælandinn átta ára og elsti áttræður. -  Áður starfaði ég í sex ár sem aðstoðarskólastjóri, og þar kynntist ég bakgrunni sumra nemendanna, eða "grunnleysi" frekar.  Sum voru vanrækt og önnur voru "ofrækt" - eða bjuggu við of- eða óttastjórn þannig að lá við taugaáfalli. - 

Börn alast upp við allskonar aðstæður og líklegast elst enginn upp við "fullkomnar" aðstæður og þær verða þá alltaf til að setja einhver brot í börnin eða sjálfsmynd þeirra. 

Frásagnirnar eru svo svakalegar sumar, að ég held að ekkert komi mér á óvart lengur.  Allt þrífst þetta á meðan enginn segir frá - á meðan leyndarmálin eru haldin og allir láta eins og allt sé í lagi þegar það er ekki í lagi. 

Þegar við lifum fótósjoppuðu lífi og fyrirmyndirnar eru falskar. 

Í flestum fjölskyldum (stórfjölskyldum) er einhver sem misnotar alkóhól eða ólögleg fíkniefni, ofbeldi grasserar af einu eða öðru tagi, kynferðislegt, andlegt, líkamlegt, ofbeldi orða, ofbeldi þagnar - stundum allt þetta. Það eru sjúkdómar sem herja á, andlegir sem líkamlegir og oft erfitt að skilja á milli.    Þær eru fáar undantekningarnar, eða fjölskyldurnar sem sleppa. 

En nú er for-formálinn orðinn nógu langur.  Í janúar 2013 missti ég eldri dóttur mína úr sjaldgæfum sjúkdómi.  Það var eins sorglegt og það getur orðið.  Ef sársaukaskalinn toppar sig í 10 þá var það 11.   

Það var við þessar hrikalegu aðstæður að yngri dóttir mín kynnti mig fyrir kærasta sínum, Sævari Peotrix.   Hann kom með henni út, þar sem eldri dóttir mín lá fyrir dauðanum á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.  Þar passaði Sævar upp á kærustuna sína. Síðar var hann með henni þegar hún fékk fréttirnar af andlátinu.  Hann fór í gegnum ferlið með henni og var til staðar fyrir hana.   

Siðan hefur ýmislegt gengið á margt gott, en sumt alls ekki gott í þeirra samskiptum, og það er ekki mitt að fara út í smáatriði eða stór hvað það varðar.

En eitthvað hefur breyst.  Einver vilji - og vakning sem ég hef séð og ég trúi á meðan annað kemur ekki í ljós. 

Sævar var brotið barn, - hann segir frá upplifun sinni í upphafi bókarinnar. - Systir hans birti fljótlega pistil um það að hann væri að ljúga eða segja rangt frá, þannig að síðar neyddist hann til að birta játningu móður sinnar - til að bera af sér að hann væri að ljúga. Það er reyndar ekki einsdæmi og  þetta er vandmeðfarið og börn upplifa eflaust æskuna mismunandi.

Ég veit að hann var ekki að segja frá þessu til að fá vorkunn, ekki frekar en  nokkur þolandi - eða til að finna sökudólga - heldur til að segja frá rótum sínum og bakgrunni því það skipti máli fyrir það sem á eftir kom.  Sagan er einhvers konar ævisaga og upplifanir og þá sleppir þú ekki bernskunni, jafnvel þó það sé sárt fyrir ættingjana.  Að segja frá æsku sinni er ekki "afsökun" fyrir hvernig við erum eða "ásökun" - heldur til að skilja.  Fólk gerir sitt besta miðað við eigið uppeldi og bakgrunn.  Stundum verður þetta "Besta" bara alls ekki gott. 

Börnin mín koma úr meira "fínpússaðra" umhverfi.  En ekki er alltaf betri músin sem læðist en stekkur.  Þar voru öll þessi atriði til staðar í nánustu fjölskyldu.  Ofneysla áfengis, ofbeldið sem ég taldi upp,  gífurleg meðvirkni og óheiðarleiki en allt leit vel út á yfirborðinu.  

Ég var "hin meðvirka móðir" - sem hélt leyndarmálin, ruggaði ekki bátnum o.s.frv. - og kenndi börnunum mínum að halda leyndarmálin "heiður hússins"  með minni hegðun. Ég uppskar mikla skömm, - skömmina við að svíkja sjálfa mig. 

"Ófyrirmyndartengdasonurinn" er að skrifa bók.  "Hvernig á að rústa lífi sínu og vera alveg sama."   Það er alltaf talað um það í meðferðavinnunni að frelsið komi þegar okkur er farið að vera sama um það sem "fólk segir" - að við förum að lifa fyrir okkur sjálf en ekki til að þóknast og geðjast.  Þegar við förum að segja sannleikann, en ekki leita eftir því í augum annarra hvað það vill heyra og segja það síðan. -

Sannleikurinn getur verið dýrkeyptur. - 

Við erum öll brotin börn brotinna barna.  Við erum öll særð börn særðra barna.  -  Málið er að við þurfum að hætta að dæma okkur sjálf og hina líka.  Andstæða dómhörkunnar er samhugur.  Við þurfum á vinsemd að halda og þá líka sjálfsvinsemd.  Það að sýna samhug sýnir að við setjum okkur í spor hinna, eða reynum það af fremsta megni. Við getum það aldrei 100 prósent. - En við dæmum ekki því við höfum ekki gengið í skónum þeirra. -  

Það er mikilvægt að spila vel úr sínum spilum.  Foreldrar eru eiginlega eins og spilin sem við fáum gefin.  Sumir fá "hunda" - þ.e.a.s. að það er næstum vonlaust að sigra í spilinu - eða lífinu því að þessir hundar tæta og rífa börnin í sig. - En stundum sleppa börnin undan álögunum, undan öllum ljótu orðunum, og ákveða að hætta að trúa að þau séu svona mikið vandamál eins og búið er að telja þeim trú um - og rísa upp eins og fönixar.  Aflæra - eða rústa því sem þeim var kennt, um eigin óverðugleika og taka upp á því að lifa eigin lífi.  

Ég tók þá ákvörðun, þegar ég las fyrsta kaflann í sögu "Ófyrirmyndartengdasonarins" að styrkja útgáfuna á Karolina fund.   Nú eru aðeins örfáir tímar til stefnu og aðeins 46 prósent hefur náðst. - 

Reynir Traustason ritstjóri DV setti inn sitt verkefni og fékk fjáröflun á mettíma.

Mér finnst að bókin - eða verkefnið hans Sævars eigi alveg skilið fjármögnun líka.  Hvað ef að drengurinn sem ég minntist á hér í upphafi, - fer að skrifa bók á fullorðinsárum? -  Hver er líkleg saga hans? - Sum börn sem fara þá leið sem Sævar fór lifa ekki til að skrifa sína sögu.

HÉR er hægt að smella á tengil á verkefnið,  lesa og tryggja sér eintak.  Kannski sé ég eftir þessu, eftir að hafa lesið alla bókina, en kannski sæi ég líka eftir að hafa ekki hvatt aðra til að styrkja. Fylgi nú hjarta mínu í þessu eins og öðru, og er hætt að þagga niður eigin rödd. 

Megi englar alheimsins umvefja okkur öll, öll særð börn þessa heims. 

ÁST 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Komið í 47 % .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2014 kl. 10:17

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Eftirfarandi formála hafði ég áf facebook:  

14 tímar til stefnu - og ég get ekki gert ekki neitt. Þetta er ekki skrifað af skyldurækni, ekki skrifað af meðvirkni (þó að kannski hafi ég dregið að skrifa þetta - einmitt vegna þess að meðvirkni stöðvaði mig) - en ég væri svo sannarlega meðvirk ef ég léti "aðra" stöðva mig. - Málið er mér tengt, eða aðilinn sem skrifar. Hann er "ófyrirmyndartengdasonurinn." Enginn er fullkominn, og ekki ég heldur, og það er í raun ekki mitt að dæma. - En nóg um það. Það eru 14 tímar til stefnu og ég tel að það sé í raun kraftaverk, miðað við lífsgöngu þessa drengs að hann hafi "lifað af" til að skrifa heila bók. 
Ég hélt það myndi nást inn fyrir þessu ritverki á mettíma. Lesið gjarnan pistilinn og sjáið hvort að ykkur langar að lesa og styrkja útgáfuna. (Karolina fund er allt eða ekkert, það þýðir að ekki er dregið af kortum ef ekki næst full fjármögnun).

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2014 kl. 11:26

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

48 %  ...kemur hægt og bítandi en 12 tímar eftir .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2014 kl. 12:53

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

58 %  og 4 tímar! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2014 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband