Öfugmæli - að skulda gjöf ...

Hvernig er hægt að skulda gjöf? - Er það þá ekki bara orðin skuld? - 

Ég veit að fólk tekur svona til orða, en mér finnst eitthvað óskaplega mikið rangt við þetta.  Það ætti í raun að hætta að hafa þessar "skyldugjafir" - á afmælisdögum, jólum o.s.frv. -  Nú nálgast jólin sem eiga að vera hátíð gleði og friðar,  en fullt af fólki fær ekki frið í sálina vegna þess að það fer að hafa áhyggjur hvað á að gefa hverjum og í sumum tilfellum setur þetta fjárhag fólks á hliðina. -

Gjafir eru yndislegar, - en þær einhvern veginn missa tilgang sinn þegar þær eru orðnar "skylda" eða aðgangseyrir t.d. að afmælisveislum. -  

Stundum eru gjafirnar svo margar að þær drekkja hver annarri.  Eins og um jól og í afmælum.  Einhver hefur vandlega valið gjöf,  sem verður svo bara í gjafahrúgu og stundum hverfur ein og ein gjöf í ruslið ef fólk passar ekki allan umbúðapappírinn.   Já, ég hef séð það gerast.

En svo er það með þessar blessaðar gjafir, - hver er í raun besta gjöfin? -  

Auðvitað er það tíminn.  Að fá vini sína í afmæli - eða vera með fólkinu sínu um jól, er lang, lang, langbesta gjöfin.  

Ég vil ekki að neinn skuldi mér neitt,  - eins og heimsókn eða gjöf.  Ef að fólki langar að gefa eða koma í heimsókn þá væri það yndislegt ef það langaði til þess og það væru forsendur gjafarinnar eða heimsóknarinnar,  ekki vegna "skuldar."    

Við erum alveg með þetta á hreinu,  ég og börnin mín tvö,  og einu sinni skrifaði ég pistil sem er í ætt við þetta sem heitir:   "Þú skuldar mér ekki neitt" ..

 

Eftirfarandi skrifaði ég í 5. desember 2012 

 „Ég ætla bara að láta þig vita það, hér og nú, dóttir góð,  að þú skuldar mér ekki neitt! ...

Ég er búin að fæða þrjú börn í þennan heim.  Börn sem ég er endalaust þakklát fyrir, stolt af og elska gríðarlega mikið.

Við eldri dóttir mín vorum að keyra og ræða jólin,  hvar ætti að vera og fyrir hvern ætti að gera þetta og hitt.  Við ræddum um gamla fólkið, unga fólkið og allt þar á milli.   Án þess að ræða það meira á persónulegum nótum þá er kjarninn þessi:

Ég vil ekki að börnin mín umgangist mig eða sinni mér hvorki í dag né í framtíð,  ekki einu sinni í hárri elli vegna þess að „þau skuldi mér" ..

Þau skulda mér ekki,  vegna þess að ef ég hef einhvern tímann gert eitthvað fyrir þau var það ekki til að fá borgað til baka.

Vissulega hefur hluti af því verið að ég þráði að finna væntumþykju frá þeim,  vegna þess að sjálfri þótti mér ekki nógu vænt um mig,  hvað þá að ég væri verðmæt eða nokkurs virði sem móðir án verka minna.

Þegar ég gerði eitthvað fyrir þau gerði ég það ekki vegna skuldar við þau.   Ef ég skulda þeim eitthvað í dag, er það e.t.v. að treysta þeim betur fyrir sjálfum sér.  Ég var ein af mörgum foreldrum sem var of eftirlát „of góð"  á neikvæðan hátt.   Þ.e.a.s. setti ekki nógu stíf mörk,  gerði hluti fyrir þau sem þau hefðu átt að bjarga sjálf o.s.frv.

Ég fékk svo góða lýsingu á svona framkvæmd einu sinni:

„Mér leið eins og barni sem væri farið að ganga sjálft en mamma hélt svo fast í hendurnar á mér að ég komst ekkert áfram" ..

„Þroskaþjófnaður"  er orðið yfir þetta. 

Við ofverndandi mæður eða feður við rænum þroska af börnunum með ofverndinni.   Með því að láta þau ekki fá tækifæri til að ganga og til að detta og reka sig á.   Hann er vandrataður millivegurinn.

Í dag hvet ég börnin mín til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, fylgja SÍNU hjarta og lifa sínu lífi.   Þau taka tillit til aðstæðna,  stundum þarf að hjálpa mömmu „gömlu" eða gera greiða,  en það má aldrei aldrei vera á forsendum þess að þau standi í skuld við mig.   Stundum er bara þannig að það þarf að hjálpa,  jafnvel þó maður sé ekki í stuði.   Stundum þarf að sinna eldra fólki,  heimsækja einhvern á elliheimilið þó það sé stundum erfitt,  en það er ekki vegna skuldar.

Það skuldar mér enginn neitt,  og það sem ég geri er ekki til að fá það endurgreitt.   Að sjálfsögðu þarf ég að fá borgað fyrir vinnuna mína,  því að öll þurfum við að lifa.

En plís ekki gera eitthvað fyrir mig bara vegna þess að þú skuldar mér. -

Ég á ekki börnin mín,   þau eru ekki mín eign.  Ég er þakklát fyrir líf þeirra og ég óska þeim farsældar,  líka barnabörnunum.   Ég viðurkenni alveg að mér þykir vænna um mín eigin börn og barnabörn en annarra börn,  og þau verða alltaf næst hjarta mínu.  En það þýðir ekki að ég geti ekki elskað önnur börn og þótt þau yndisleg.  Ég á mörg uppáhalds og sinni þeim vel - ekki vegna þess að ég skuldi þeim,  heldur vegna þess að mig langar til þess.

Þegar ég hef verið að passa ömmubörnin,  er það ekki til að opna „reikning" hjá þeim til að þau sinni mér sem fullorðinni.  Ég vona vissulega að ég reynist þeim þannig að þau langi til að umgangast mig sem eldri konu,  þegar þau sjálf verða fullorðin og það á við um öll ömmubörnin,  sem væntanlega verða fleiri en þau þrjú sem komin eru.

Nóg komið í bili - skrifa þetta fyrir mig og ykkur hin sem e.t.v. eruð að íhuga svipaða hluti, en þið skuldið mér ekki neitt ;-) ...

Knús á línuna.

--

Viðbót  skrifaði ég: 30.08.2013.  Þessi pistill var upprunalega skrifaður í byrjun desember 2012,  en mánuði síðar var dóttir mín látin, fyrirvarinn var nær enginn.  Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér,  látum þau sem okkur þykir vænt um hversu mikið við elskum þau og það séu nákvæmlega engar forsendur fyrir því.  Þau þurfa ekki að sanna sig til að vera elskuð.  Það vita börnin mín í dag og það vissi elsta dóttir mín.  Nú segi ég börnunum hennar það,  að amma elski þau fyrir að vera þau og það þurfi ekkert meira til.  <3   Við stelpan mín áttum okkar stundir saman á hennar síðustu metrum og ég var skilin eftir í þessari jarðvist með þær upplýsingar hvað raunverulega skiptir máli.  Þá gjöf vil ég bera áfram,  af því að mig langar það. 

ÁST  


mbl.is Skuldar Clooney brúðargjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband