16.10.2014 | 10:29
Ef ég væri ung (yngri) á ný ...
Ég veit ekki hvað margir hafa hugsað svona? - "Ef" eða "Hefði" .. en það er auðvitað vita gagnslaust, því ekki breytum við fortíð. Það er ekki nokkur séns að breyta fortíð, en svo heppilega vill til að við höfum frjálsan vilja og getum gert hlutina (a.m.k. suma) öðruvísi í fortíð. Við ölum ekki upp börnin okkar aftur, - og það eru ýmsir hlutir sem kannski er ekki hægt að gera á sextugsaldri sem hægt var þegar við vorum rúmlega tvítug. - En auðvitað sumt. -
Það sem ég tel að mikilvægt sé fyrir ungt fólk að vita, er það að vera í tengingu við sjálft sig. Vera skýr í hvað það vill og þá sérstaklega hvað er boðlegt. Þ.e.a.s. að vera með sín lífsgildi á hreinu. -
Ég fæ stundum ungar konur í viðtöl, - þær kvarta yfir því að kærastinn vilji að þær horfi með þeim á klám og ef þær kvarta og segjast ekki vilja þá kemur eitthvað "Þú ert bara leiðinleg" - eða "engan tepruskap...." nú eða hvað annað sem sagt er. Þá spyr ég þessar ungu konur: "Hvernig líður þér sjálfri með þetta?" - og auðvitað væru þær ekki mættar til mín að kvarta ef þeim þætti þetta í lagi. - Og þá viðurkenna þær að þeim finnist þetta óþægilegt og niðurlægjandi eða hvaða orð sem þær nota. - Þær þora ekki að standa með sjálfum sér. - Og þá brjóta þær á sjálfum sér í framhaldinu, - upplifa skömm fyrir að "leyfa" - og í framhaldi skort á sjálfsvirðingu. Þannig hefst oft vítahringur sjálfsniðurbrots og vanlíðunar.
Samband byggist að einhverju leyti á málamiðlun. Sama hvaða sambönd er um að ræða. - Sambönd jafningja byggja á að miðla þannig að báðum líði vel og út komi "Win-win" eins og í viðskiptasambandi. - Ef að stigið er á tærnar á öðrum og honum líður eins og lúser - búið að plata hann upp úr skónum, eða misbjóða, þá er einn sem vinnur og hinn sem tapar. - Það er búið að "selja" einhverjum eitthvað sem hann ætlaði aldrei að kaupa.
Í parasambandi, þá upplifir sá sem er búinn að láta misbjóða sér, þetta tap. Tap á eigin gildum, tap á sjálfsvirðingu. Honum líður hreinlega ekki vel. Ef þetta er ítrekað eða jafnvel gagnkvæmt, par er ítrekað að misbjóða hvort öðru, eða annar að misbjóða hinum - og þessu er "leyft" að viðgangast, fjarar fljótlega undan þessu sambandi.
Það sem gerist er þó, að sambandið heldur oft allt of lengi og hvorugur aðili kemur sér út úr þessum skaðlegu aðstæðum. -
Ég tók bara klámið sem dæmi. Það er hægt að misbjóða og misvirða á svo marga lundu eins og fólk veit.
Fólk er hrætt við að standa með sjálfu sér, vegna þess að það er oft hrætt við að missa maka sinn, eða hrætt við að vera kallað "leiðinlegt." - Engin/n vill vera leiðinleg/ur er það? -
Ef að málamiðlun felur það í sér að brjóta á eigin lífsgildum, - og koma út úr henni óánægð/ur og svekktur og upplifa að það sé verið að nota okkur. Þá er hún röng og niðurbrjótandi.
Eftir því sem við erum færari að hlusta á eigin tilfinningar og VIRÐA ÞÆR, Þess betur áttum við okkur á því hvenær okkur er misboðið og hvenær ekki. -
Þetta er ekki alveg svona einfalt. Því að í ástarsambandi er stundum ótti. Ótti við að missa. Þegar óttinn er til staðar, þá getur fólk ekki verið heilt. Það lýgur frekar eða heldur leyndarmál fyrir hvoru öðru. Það segir ekki hvernig því líður RAUNVERULEGA. Allt er gert til að halda sambandi, sem í raun er orðið sjúkt af lygum. Samband þar sem óheiðarleiki grasserar er auðvitað sjúkt. -
Við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á neitt annað en heiðarleika, gagnvart okkur sjálfum líka. Við eigum líka ekki að bjóða maka upp á neitt annað en heiðarleika.
HEIÐARLEIKI er besti og eini fasti grunnur í nokkru sambandi. - Án heiðarleika er ekki virðing, traust og ást. - Ef ást er sönn, er hún frjáls. Hún veitir okkur frelsi til að vera þau sem við erum. Ef við elskum einhvern sem er að þykjast vera annað en hann er, eða við þykjumst vera önnur en við erum þá er að sjálfsögðu skekkja í "ástinni" þarna. Við erum að elska eitthvað sem er ekki. -
Já, ef ég væri ung (yngri) á ný, - myndi ég vilja vita hvað heiðarleikinn skipti miklu máli. Að ekkert entist - raunverulega entist - ef að sannleikurinn er hulinn. - Sannleikurinn kemur alltaf í ljós að lokum. -
Ég er hætt að halda leyndarmál, það get ég á hvaða aldri sem er. Ég er hætt að leyfa einhverjum eða sjálfri mér að komast upp með að ljúga að mér. -
Ég veit hvað er mér mikilvægast af öllu, - og það er frelsið til að vera ég sjálf.
Sannleikurinn er frelsandi, - en eins og barnsfæðing, er hann sársaukafullur. - Eftirfarandi ljóð skrifaði ég þegar ég áttaði mig á "prógramminu" sem ég hafði lifað eftir og því sem ég hafði sjálf notað í mínu uppeldi. - Í því felst engin ásökun, hvorki á sjálfa mig né móður mína. Við kunnum ekki betur eða gátum ekki betur. - En margar mæður og margir feður, eru enn að fara eftir rangri formúlu. Kunna ekki að vera heiðarleg, - og forrita börnin þannig að þau geta ekki staðið með sjálfum sér þegar þau fara í sambönd. - Það stafar af óöryggi foreldranna sjálfra. -
FLÓTTINN FRÁ SANNLEIKANUM OG SJÁLFRI MÉR
Hún er verndandi og góð
kemur inn í lífi mitt fyrir fæðingu
Hún er vanmátturinn og dýrðin
sem skyggir á sjálfan Guð
Kennir mér að þykjast og þóknast
tipla á tánum og setur mig í hlutverk
þar sem ég er stillt og prúð,
sniðug og ábyrg
til að ég fái athygli, elsku og þakklæti
viðurkenningu og samþykki
sem ég verð að vinna fyrir
því annars á ég það ekki skilið
Hún kennir mér að fela og ljúga
og til að halda leyndarmál
til að vernda heiður hússins
og fjölskyldunnar
Hún kennir mér að skammast mín
fyrir sjálfa mig
og lifa með sektarkennd
þar sem ég sveigi frá eigin gildum
og sannleikanum sjálfum
kennir mér að óttast
það að segja frá sársauka mínum
að standa með sjálfri mér
því þá gæti ég misst ...eitthvað og einhvern
og lífið verður einn allsherjar flótti
frá sannleikanum og sjálfri mér
og ég týni því verðmætasta
sem er ég sjálf
Hún er mín meðvirka móðir
Hún er ég
Jóhanna Magnúsdóttir, ágúst 2012
Í minningu dóttur
Elskum meira og óttumst minna. -
ÁST
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.