5.10.2014 | 13:02
Ölvað fólk til vandræða ...
Hvernig væri að við Íslendingar bara hættum að drekka, bara í gær? - Og jú, líka að dópa? Og úr því við erum byrjuð að taka til, hætta þá að reykja líka og borða mat sem gerir okkur veik.
Er þetta hægt? -
"What is wrong in my life that I must get drunk every night" - .. er texti úr lagi Fine Young Cannibals.
Hvað er AÐ þegar að fólk þarf utanaðkomandi vímu til að þrauka - til að "skemmta" sér. Hvað er að þegar að manneskja í hættulegri yfirþyng borðar mat sem hún veit að er næringarlítill en eykur helst á kílóin eins og sykur gerir? - Hvað er að? -
Ég veit hvað er að.
Okkur vantar eitthvað. Við sjálf erum ekki nóg, og við eigum í vanda með að tengjast okkar eigin gleði, okkar innri frið og hamingju. - Við erum vond við hvort annað og við erum vond við okkur sjálf.
Það sem er að: "Ekki nógu mikill kærleikur" - hvorki manna á millum né í eigin garð. Og munum það að agaleysi - getur verið form ástleysis og hnýti ég því hér við þetta upphaf þennan pistil sem ég hef áður birt:
Það að elska sig er að taka ábyrgð á sér, velferð sinni og heilsu, og þá auðvitað hamingju sinni. -
Við tölum stundum um að "vera góð við okkur" - t.d. í mat og drykk, og þá erum við kannski að borða eitthvað sem er okkur í raun óhollt og borðum jafnvel svo mikið af því að okkur verði illt. - Svo tölum við líka, á sama hátt, um að við séum "of góð við okkur" - þegar við t.d. komum okkur ekki í að hreyfa okkur þó að við vitum að hreyfing er mjög góð fyrir bæði líkama og sálarlíf. -
Hvað vantar þarna inn? - Sjálfsaga, - og þá er þessi sjálfsagi í raun jákvæður, eða "tough love" eins og það er kallað, í eigin garð. - Við erum í raun að gera það besta fyrir okkur, sem hlýtur að þýða að við séum að elska okkur nógu mikið til að leyfa okkur ekki að drabbast niður. -
Það sama á við um uppeldi, - þegar við segjum Nei, er það stundum kærleiksríkasta orð sem við getum notað. - Við erum að elska með því að segja Nei, eða aga barn. Við erum líka að taka áhættuna á því að barninu líki ekki við okkur, - ef við segjum Já, við einhverju af því við erum orðin þreytt á að barnið sé alltaf að biðja um aftur og aftur, er það ekki ást heldur úthaldsleysi eða uppgjöf, og það er líka kennsla í neikvæðri hegðun. -
Agaleysi er markaleysi og markaleysi er vont. -
Markalaus manneskja - getur átt erfitt með samskipti við aðrar manneskjur, annað hvort getur hún verið þannig að hún leyfir öðrum að "vaða" yfir sig eða markalaus manneskja "veður" yfir aðrar manneskjur eða inn í þeirra rými. -
Virðing er tengd því að kunna mörk, sín eigin mörk og mörk annarra.
Ef við raunverulega elskum, þá gerum við það sem er raunverulega best - bæði fyrir okkur sjálf og þau sem við elskum.
Ef ég elska mig, þá gef ég mér nærandi mat, gef mér líka stundum það sem er bara gott fyrir bragðlaukana, en kann að njóta þess í hófi, - ég hreyfi mig reglulega, - umgengst fólk sem mér líður vel með og ég set fólki mörk sem misbýður mér, eða forða mér úr návist þeirra, - líka segi ég upp leigu þeirra í hausnum á mér. -
Að sama skapi, ef ég elska börnin mín, þá geri ég það sama fyrir þau, ég gef þeim holla næringu, sætindi í hófi, styð þau til að hreyfa sig, og hvet þau til að standa með sjálfum sér. -
Foreldrar vilja eiga heilbrigð og hamingjusöm börn og börn vilja eiga heilbrigða og hamingjusama foreldra.
Foreldrar vilja eiga börn sem eru laus við vímu, hvað vilja börnin?
Við verðum því að átta okkur á því að agi er ekki bara neikvætt orð, - við notum aga til að kenna sjálfvirkni, en andheiti sjálfvirkni má segja að sé meðvirkni. -
Við verðum að læra að það eru afleiðingar og það er orsakir. Ef við hreyfum okkur ekki - og borðum of mikið, verðum við of þung og þá oft mjög leið. - Það er ekki að elska sig. -
Í öllu þessu ofansögðu er mikilvægt að gera sér grein fyrir því sem við köllum "hinn gullna meðalveg." -
Það er hægt að dekra og ofdekra, og þegar um of-dekur er að ræða erum við að stela bæði þroska og gleði frá öðrum, nú eða sjálfum okkur. - Það er líka hægt að vera of stíf í mörkunum og aganum, og það þarf að gæta að því að fara ekki að ofstjórna.
Það er þroski í því að takast á viið að gera hluti, og það er gleði sem fylgir því að ná markmiðum sínum. -
Ef við erum vanvirk og værukær, er hætta á að við missum bæði þroska og gleði. -
Leikum okkur, hlæjum, gleðjumst, hreyfum okkur og njótum lífsins, - kannski þurfum við aga til að gera það, en sá agi er ást.
Það er gott að vita - að gleðin er orkugjafi.
Margir upplifa að þeir séu í vítahring, - sem erfitt er að koma sér útúr, - gleðin er besta útgönguleiðin, svo gerum allt til þess að gera okkur glöð (alvöru glöð, ekki glöð í gegnum vímuefni) - og sjáum hvort að gleðin verði ekki til þess að við förum að ástunda það sem við raunverulega viljum og vitum að gerir okkur gott! ...
Gleðin er leiðin til gleðinnar. -
GLEÐIN ER EINA SANNA VÍMAN
"Upp, upp mín sál...."
-----------------------------------
Hvernig verðum við þá glöð?
"Svo lít ég bara í kringum mig og sé
Alla þessa fegurð nærri mér
Ég tók því sem gefnu
En staldraði aðeins við
Ég er á réttum tíma á réttum stað
Hverjum get ég þakkað fyrir það?
Ég opnaði augun
Og hjartað..."
(Páll Óskar Hjálmtýsson)
Hamingja og þakklæti eru óaðskiljanleg - en það margir hafa verið að sýna fram á er að það er þakklætið sem skapar hamingjuna en ekki öfugt. -
Hver er þá aðferðafræðin við að upplifa þakklætið? -
Ég staldra við, á réttum tíma á réttum stað (nýt stundarinnar) - ég opna augun og hjartað, lít kringum mig og sé, alla þessa fegurð kringum mig, tók því sem gefnu (án þess að þakka) - en fór að þakka. Opnaði augun og hjartað ... og fann betra líf (hamingjuna)
Við tökum einhverju sem gefnu, - þýðir að það er gefið en við þökkum ekki fyrir það. Andstæðan við að þakka fyrir er vanþakklæti. -
Hvað er það sem er gefið - og við tökum sem gefnu?
- Lífið
- andardrátturinn
- vatnið
- súrefnið
- líkaminn
- fjölskyldan
- náttúran
- fjöllin
- skýin
- .....
Þessi listi getur auðvitað orðið endalaus, - en við áttum okkur oft ekki á ríkidæmi okkar og öllum gjöfunum sem við fáum á hverri stundu, - ef við hinkrum ekki við, opnum augun og tökum með þakklátu hjarta á móti þeim.
En það er meira. Hvað fáum við á hverri stundu? - Þegar við stöldrum við í stundinni? -
Við fáum tækifæri - en ný tækifæri berast okkur á hverri stundu. Þó við missum af einum strætó, þá er það þannig að tækifærisstrætó hættir seint að ganga. - Það liggja mismunandi tækifæri í hverju andartaki, - við höfum tækifæri til að taka ákvörðun, til að velja. -
"Fann á ný betra líf
Af því ég fór loks að trúa því
Að það væri eitthvað annað
Eitthvað meir og miklu stærra"
Það er "eitthvað annað" - sem er lífsfyllingin okkar. Það sem fyllir tóma tilfinningapoka.
Þegar við upplifum að við séum tóm, við upplifum tilfinningu að eitthvað vanti, - þá er það þetta "eitthvað annað" og kannski er þetta "eitthvað annað" tenging við hið heilaga í okkur sjálfum. Við okkar eigið ljós? ..
Við fyllum ekki á það með mat, með áfengi, með vinnu, með öðru fólki.
Við þökkum það sem við áður tókum gefnu, þessum endalausu gjöfum sem hellast yfir okkur á hverri stundu, sem við þurfum bara að staldra við til að þiggja, og taka á móti. Taka á móti lífinu, taka á móti tækifærum lífsins, og þakka þessar gjafir.
Þá verðum við rík og hamingjusöm og eignumst betra líf, - eitthað meir og miklu stærra, en allt sem er.
Þakklátur heimur verður glaðari heimur, heimur sem kann að njóta gjafanna, sem eru gefnar á hverri stundu, hverju andartaki. - <3
Þar sem ég ætla að praktisera það sem ég prédika - ætla ég að elska mig nógu mikið og afkomendur til að hætta að drekka áfenga drykki. Ekki það hafi verið mitt vandamál, jú stundum þegar börnin mín voru lítil þá fannst þeim óþægilegt að foreldrarnir voru að drekka, -foreldrarnir breyttust, urðu öðruvísi.
Áfengi hefur skaðað mína fjölskyldu mikið. hvað með þína? Drykkja er ekki einkamál.
Kannski er stundin runnin upp? - Tækifærið til að velja betra líf?
Ég breyti ekki öðru fólki - en ég get verið breytingin svo ég er til í Betra líf.
HVAÐ VILT ÞÚ?
Ölvuð og til vandræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.