18.12.2013 | 10:33
Stóri dómurinn er fallinn ...
Stóri dómurinn er dómurinn yfir því að aka undir áhrifum áfengis. - Dómurinn er sá að ung stúlka í blóma lífsins lætur lífið. -
Við ættum að hrökkva við, hvert og eitt okkar og líta í eigin barm.
Hvort sem fólk fær sér "bara" einn eða marga, ALLIR ættu að sjá sóma sinn í að hætta að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Því maður veit aldrei hvert það leiðir, og flestir eru "heppnir" að sleppa. Skaða aðeins sjálfa sig eða keyra á ljósastaur. -
Ég trúi því ekki að fólk hugsi: "Já, konan fékk bara eitt ár fyrir manndráp af gáleysi, þá er ok að keyra fullur"..
Dómurinn er fallinn, og skilaboðin eru skýr, - EKKI aka undir áhrifum áfengis og ekki sitja með fólki í bíl sem er undir áhrifum, því þá erum við samsek.
Líf er ómetanlegt. Það er á einhverjum kvarða sem er ómælanlegur.
Við fáum ekki líf til baka með því að taka annað líf, eða læsa fólk inni.
Það er margt sem áfengi hefur skemmt, eða fólk sem hefur ánetjast áfengi hefur skemmt. Það skemmir börnin sín, það skemmir friðinn, það skemmir og skemmir og stundum eru afleiðingarnar ekki svona uppi á yfirborðinu eins og við þennan hræðilega atburð.
En áfengisneysla er dauðans alvara.
Það er 20 ára aldurstakmark inn á bari, en það er ekkert aldurstakmark inn á heimili og þar sitja börn uppi með foreldra sína, - sem oft drekka úr hófi fram. -
Dóttir mín flutti fyrirlestur á Lionsfundi hjá afa sínum, þegar hún var 15 ára. Hún tók eftir því að flestir karlarnir voru með drykk, en endaði fyrirlesturinn á að benda þeim á að aka nú ekki heim eftir drykkinn. - Held að fæstir hafi tekið mark á því, en ég var stolt af henni að þora að benda þessum körlum á það.
Þessi dóttir mín hét Eva Lind Jónsóttir og lést 8. janúar sl., líka í blóma lífsins, en eftir skömm en erfið veikindi. Afi hennar er látinn líka. -
Þegar ég las lýsinguna á Lovísu Hrund Svavarsdóttur, jákvæðni hennar og lífsgleði, fannst ég mér vera að lesa lýsinguna á Evu Lind. - Sömu björtu eiginleikarnir, jákvæðni, gleði o.s.frv. -
Hvaða lærdóm eigum við að draga af þessu öllu saman. - Eigum við að stilla fókusinn á þessa einu konu, sem í dómgreindarleysi sínu og augljósum alkóhólisma framdi mesta gáleysi allra tíma, - það að verða annarri manneskju að bana? - Ég get ekki ímyndað mér annað en að hún muni dvelja bak við rimla hugans alla ævi. Og hvaða áhrif hefur þetta haft í hennar fjölskyldu? Alkóhólismi hefur dominó áhrif, - hann fellir svo marga.
Á bara að kenna þessari einu konu lexíu, eða ætlum við að læra ÖLL af því sem hún gerði? - Lærum við ekki af því nema hún sé lokuð lengi inni? -
Ég veit að ég er að snerta mjög viðkvæma fleti hér, þeir eru viðkvæmir því dauðinn er það og hann er hræðilegur, það þarf ekki að segja mér um óbærileika þess að missa barnið sitt. -
Líf Lovísu Hrundar Svavarsdóttur er í raun svo mikils virði að fyrir það yrði aldrei greitt. Þó að konan sem olli árekstrinum dveldi bak við rimla alla ævi, yrði það aldrei greitt upp. -
Hlustum, lærum, og gerum ekki eins. -
Lærum af björtu sálunum sem eru farnar, sem vilja skilja eftir hjá okkur sína birtu og sinn boðskap.
Setjumst ekki undir stýri undir áhrifum, ekki eftir einn einasta drykk, og virðum þannig líf Lovísu Hrundar og annarra sem fallið hafa fyrir hönd þeirra sem hafa ekið undir áhrifum áfengis- eða annarra vímuefna. -
Síðast en ekki síst, vil ég segja að ég samhryggist aðstandendum Lovísu Hrundar af öllu hjarta og bið alla heimsins engla að styðja þau í gegnum þennan tíma sem er nú að ganga yfir. -
Dæmd fyrir manndráp af gáleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er nauðsynlegt þegar rætt er um þetta mál að hafa það í huga að konan fer ekki í fangelsi. Þennan eins árs dóm verður að skoða í því samhengi.
Í fyrsta lagi þá þarf enginn að fara í fangelsi sem fær 12 mánaða dóm eða minni nema hann sé of hættulegur til þess að gegna samfélagsþjónustu eða geti það ekki vegna neyslu.
Í öðru lagi þá eru níu mánuðir skilorðsbundnir, þannig að það er ekki fangelsisdómur nema það komi til annað gróft brot.
Í þriðja lagi þá afplánar engin nema helming af óskilorðsbundnum dóm, nema hann sé síbrotamaður eða mjög hættulegur samfélaginu, þá erum við að tala um 2/3.
Því erum við að tala um dóm sem inniheldur enga fangelsisvist nema konan sé í mikilli neyslu. Ef hún er í mikilli neyslu, þá erum við að tala um 45 daga fangelsi.
Það er ekki í lagi að tala um þetta eins og um eins árs fangelsisvist sé að ræða.
Ég tek samt alveg undir orð þín um að fólk fer ekki sérstaklega út að keyra drukkið af því hún fékk vægan dóm. Fælingarmáttur refsinga í afbrotafræði snúast bara alls ekki um það. Fælingarmátturinn fellst hins vegar í því að fólk hugsi sérstaklega um að keyra ekki vegna þess að refsingin er mikil. Það er mikill munur þar á.
Hefði þessi dómur hljóðað upp á 13 mánuði óskilorðsbundna, þá hefði það gjör breytt þessu máli. Konan hefði þá þurft að afplána sex og hálfan mánuð í fangelsi eða meðferð ef meðferðarstofnun samþykkti að taka hana þar inn.
Ég verð að segja fyrir mig að sex og hálfur mánuður í meðferð fyrir manneskju sem hefur orðið manni að bana fyrir slíkt gáleysi er meiri hjálp en refsing. Auk þess væri dómstóll búinn að setja inn fælingarmátt.
Dómarar hins vegar völdu þá leið að hafa dóminn það vægan að ekki kæmi til vistunar.
Þó þrettán mánuðir hefðu dugað til þess að koma konunni í meðferð, þá tel ég rétt að ganga lengra enda margir sem deyja í umferðinni af þessum völdum.
Ég vill sjá hert viðurlög við vímuefnaakstri og skilvirkari.
Til dæmis allt eftirfarandi:
Rökstuðningur minn er sá:
Vímuefnaakstur er á samfélagslega ábyrgð og við þurfum að taka á því saman með hertum viðurlögum.
Þegar vímuefnaakstur leiðir til manndráps, þá á að sjálfsögðu að dæma sem næst þeim refsiramma sem lög bjóða upp á enda um vítavert gáleysi að ræða. Refsiramminn er sex ára fangelsi.
Heimir Hilmarsson, 18.12.2013 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.