27.11.2013 | 17:27
Ég skrifa til að lifa
Þann 8. janúar 2013, missti ég frumburðinn minn, dótturina Evu Lind Jónsdóttur f. 1981 úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi, hún skildi eftir sig tvö yndisleg börn sem eru nú fjögurra og níu ára, og búa hjá pabba sínum í Danmörku.- Þann 10. september sl. lést svo öldruð móðir mín, - hennar tími var kominn, en það vakti upp meiri sorg. Ég hef tekist á við sorgina, m.a. með því að veita henni farveg í skrif, - og stundum hreinlega vakna ég um miðja nótt og verður "mál" að skrifa og það gerðist sl. nótt og læt ég það fylgja hér með.
"Stundum finn ég verk í hjartanu, ég vakna við hann, og hjartað slær svakalega hratt.
Held að það sé sorg mín að brjótast um en þá tek ég enn og aftur ákvörðun að lifa út fyrir öll landamæri meðan mér er gefin gjöf lífsins.
Sorgin sefast og ég læt huggast, vegna þess að ég elska svo mikið.
Dauðinn er partur af þessu öllu, og vegna hans kann ég að meta lífið, ekkert er sjálfsagt og því nýt ég næturinnar og dagsins í dag - því ég veit ekkert hvað verður á morgun, eða hinn og það er allt í lagi.
Ég skrifa til að lifa.
TAKK "
Minningarsíða þar sem sjá má skrif mín um Evu Lind, en það er mér líka kært að það sem ég skrifa sem mína huggun, virkar sem huggun fyrir aðra sem hafa misst, við skiljum hvert annað og við erum svo mörg sem höfum misst. - Fæstir sleppa.