Allir þurfa að eiga sér viðreisnar von

Ég er búin að vera að hlusta á Brené Brown í bílnum, en bíllinn er mín skólastofa.

Við eigum langt í land með að rétta okkur af, losa okkur undan spennitreyjuviðmiðum samfélags, þar sem við sitjum uppi með skömm.  Skömm sem er þeirrar gerðar að hún er eins og djúp hola sem er engin leið að komast upp úr. - 

Konur upplifa skömm þegar þær mæta ekki viðmiðum samfélags, eða þegar að "kemst upp um þær" að þær eru ekki súperkonur, karlar upplifa skömm þegar þeir mæta ekki viðmiðum að vera alltaf sterkir og standa sig. - Það versta er að við - konur og karlar ölum á þessum viðhorfum hjá hvort öðru, - meðvitað eða ómeðvitað. - Við þorum ekki að vera þau sem við erum, - í raun - vegna þess að við erum hrædd við að missa tengsl, tilheyra ekki lengur, vill okkur einhver ef við sýnum okkar raunverulega andlit? -

Kjöraðstæður skammar eru þögn, leynd og dómharka. Það sem getur mögulega komið okkur frá henni er skilningur og samhygð. 

Allir þurfa að eiga sér viðreisnar von. 

Skömm og fíkn eru nær óaðskiljanlegir hlutir, - og ef við skiljum ekki hvernig skömmin virkar er nær ómögulegt að komast út úr fíkn. -   

 Brené Brown sagði söguna af stráknum, - en þetta gerðist í Bandaríkjunum, - sem var sagt af þjálfara sínum að fara á línuna og mæta þar mótherjum. - Strákurinn var hræddur og þjálfarinn kallaði hann "Pussy" -  og það skilja það væntanlega flestir sem lesa þetta. 

Hræðsla stráksins við að bregðast og viðurkenna hræðsluna - og þannig e.t.v. missa af því að vera í liðinu, missa virðingu félaganna o.s.frv.  var þó sterkari en hræðslan við að fara á þessa línu og mæta andstæðingunum. -  

Hann fór - en hræðslan breyttist í reiði og æsing,  og það vonda við þessa reiði og æsing - að það varð hluti af skaphöfn hans.  Þegar hann varð eldri og fór í samband bar hann þessa reiði með sér. 

Þetta er sönn saga og þessi maður áttaði sig á því á fullorðinsárum hvernig hann varð þessi reiði og ofbeldisfulli maður.  Það er ekkert alltaf sem hægt er að finna nákvæmlega stund eða stað, og stundum og oftast eru þetta bara margir atburðir - dropinn sem holar steininn. 

Maðurinn starfar nú sem ráðgjafi að vinna með karlmenn og tilfinningar.

Það er mikil pressa á körlum og það er mikil pressa á konum að mæta viðmiðum,  verst er ef við erum að viðhalda þessu.  Konur tala oft um að þær vilji að karlmenn sýni meiri tilfinningar og séu opnari, en reyndin er víst sú,  skv. rannsóknum Brené Brown,  að  þegar þeir fara að gera það þá mæta þeir skrítnum viðbrögðum kvenna - jafnvel niðurlægingu, dómhörku eða að þeir séu óspennandi. -

Þeir fara því aftur í hlutverkið sem ætlast er til af þeim.  

Það eru því ekki bara karlar sem eru fastir í feðraveldishugmyndafræði - heldur líka konur.  

Sýnum skilning - það er nefnilega ekki alltaf allt sem sýnist.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband