19.10.2013 | 11:11
Dagbók umsækjanda um Staðastaðarprestakall ..
Ég er ein af átta umsækjendum um Staðastaðarprestakall - sem telur sex sóknir, Búðasókn, Hellnasókn, Staðastaðarsókn, Staðarhraunssókn, Kolbeinsstaðasókn og Fáskrúðarbakkasókn. Ég hef á heimasíðu framboðsins, haldið úti dagbók, - svona til að leyfa kjósendum í sóknunum og öðrum áhugasömum að fylgjast með aðdraganda kosninga, en það verður kosið 2. nóvember nk. í félagsheimilinu Breiðablik í Eyja-og Miklaholtshreppi. -
Síðan mín er www.kirkjankallar.wordpress.com
En hér kemur færsla dagsins:
Góðan og gleðilegan dag,
Í dag er 45 ára afmælisdagur Lottu "litlu" systur. - Af því tilefni ætlar hún að bjóða upp á amerískar pönnukökur í hádeginu, og síðan er stefnan að fara uppí sveit, hún með dætur sínar, tvíburana Ísold og Rósu, og ég með ömmubörn Ísak og Elisabeth. -
Til hamingju með afmælið elsku Lotta systir, - það er pinku erfiður þessi afmælisdagur, því þetta er sá fyrsti eftir að við misstum Evu okkar og líka mömmu okkar. Öll tímamót eru þröskuldar í sorgarferli. Það þekkja þau sem hafa reynt og flest höfum við reynt.
Þarna eru þessar tvær eðalkonur, sem fóru úr jarðvistinni á þessu ári, Eva Lind dóttir mín og Valgerður (Vala) mamma mín, en myndin er tekin 2007 þegar nafna hennar móður minnar, Jóhanna Vala, dóttir mín, var kosin Ungfrú Ísland. - Þá var kátt í "höllinni" og þær glöddust ekki minna systirin og amman, yfir titilinum, heldur en ungfrúin sjálf.
-
Myndin hér að neðan er svo tekin 2009 - í lok dags þegar við fjölskyldan höfðum gengið Síldarmannagötur, frá Botnsdal í Hvalfirði yfir í Skorradal og erum komin þarna á pallinn við bústað Björns bróður míns og Addýjar mágkonu, og dönsuðum smá línudans, en þarna er það einmitt afmælisbarn dagsins, lengst til hægri að kenna okkur, Addý í miðjunni og ég lengst til vinstri - síðan horfir Birta bróðurdóttir á og hlær að tilburðunum!
Ég skrifaði ekki dagbók í gær, þann 18. október - en það var afmælisdagur Dóra heitins, (Halldórs Heiðars Jónssonar) pabba hennar Addýjar mágkonu og reyndar, frænda barnanna minna því fv. tengdapabbi og pabbi hennar voru bræður. -
Okkar litla Ísland
Í morgun rifjaði ég upp hugvekju sem ég flutti á aðventu 2009, en hana má lesa ef smellt er HÉR en þar minnist ég m.a. á engil sem ég færði mágkonu minni og aðdraganda að því.
Í þessari hugvekju skrifaði ég m.a.:
"Við höfðum rætt það á leiðinni að við byggjumst max við 12 manns, en þarna var mun fleira fólk og það sem mér brá svolítið við, var að meirhlutinn var börn og unglingar. Ég gladdist því að börnin eru uppáhalds fólkið mitt, en brá því að hugvekjan mín var allt of þung fyrir börnin svo ég ákvað að "fleygja" henni og tala við þau á þeirra tungumáli og fá viðbrögð frá þeim, sem þau vissulega gáfu og tóku þátt.
Sagan sem ég lagði upp með var um brotinn engil, en það var stytta sem ég hafði keypt til að gefa mágkonu minni sem var að missa pabba sinn. Ég var alltaf "á leiðinni" til að fara til hennar með engilinn og geymdi hann í tölvutöskunni minni, en af einhverjum orsökum tafðist ég við það, eða setti annað í forgang. Svo loksins þegar ég ætlaði að taka engilinn upp, þá var hann; .. ég spurði börnin hvort þau vissu .. og þau giskuðu á rétt; engillinn var brotinn.
Ég var heppin, því ég hafði keypt tvo engla, einn fyrir mig sjálfa. Ég ákvað þá að gefa henni minn engil. En sagan fjallaði að sjálfsögðu um það að við eigum ekki að bíða með að gefa. Ekki að bíða með að sýna vinarþel því ef við bíðum of lengi brotnar kannski engillinn í töskunni."
Ég er glöð að ég fékk tækifæri til að vera með þessu prúðbúna fólki kvöldstund. Notalegur og afslappaður andi ríkti og ég fékk svona "itch" að hreinlega flytja upp í sveit, það er að vísu ekki í fyrsta skiptið."
Ein af athugasemdum við færsluna var frá Sigurbjörgu Ottesen en hún hljóðar svona:
"Ég hreinlega varð að kvitta við þessa bloggfærslu hjá þér en ég rakst á nafn "kirkjunnar minnar" á flakki mínu um mbl.is
Ég er semsagt móðir einnar dömunnar á fyrsta bekk í krikjunni og gærkvöldið var frábært og mér þótti yndislegt hvernig þú talaðir til barnanna, dóttir mín talaði einmitt um konuna og englasöguna áður en hún fékk "góða nótt kossinn" í gærkvöldi eftir messuna og hvað hún ætti sniðuga stelpu að halda að það væri tannkrem inn í súkkulaðinu
Ég er nú ekki hissa á að þú hafir fengið þetta "itch" að flytja upp í sveit, enda er þetta dásamlegasta sveit landsins! hahah
Takk fyrir frábæra kvöldstund.
Sigurbjörg Ottesen"
Já, ég fékk "itch" eins og ég kalla það, og öllum þykir sín sveit fallegasta sveitin, - sem er bara dásamlegt. Þarna er Sigurbjörg líka að vísa í aðra sögu sem ég segi gjarnan fyrir jólin, um tannkremið inní súkkulaðinu, en ég ætla að geyma hana þar til í desember í ár, Guð einn veit hvar hún verður flutt.
En aftur til dagsins í dag, - við ætlum í Borgarfjörðinn í dag, og þiggja grill í kvöld í boði bóndans í Skorradal.
Við áttum notalegan dag í gær, og í gærkvöldi leyfði ég börnunum að velja að horfa á mynd eða spila, og þau völdu að spila, svo ég gleymdi mér alveg og við spiluðum nýtt spil sem kallast Zingo (svipað og Bingó) langt fram eftir kvöldi, ég og börnin. -
Það er margt framundan, er með beiðnir um fyrirlestra, kennslu og einkaviðtöl, meira en nokkru sinni, og hef lofað mér í kennslu í sjálfstyrkingu og námstækni á skrifstofubraut í Símenntunarmiðstöð Vesturlands í lok október og eitthvað fram í nóvember. -
Það er mikil æfing í æðruleysi að vita ekki hvert stefnir, vegna þess að ég á 1/8 möguleika á að verða kosin prestur í Staðastaðarprestakalli, það þýðir miklar breytingar og sjónarhóllinn verður þá frá Snæfellsnesi og starfsstöðin og heimilið þar.
Ég á mér stóra drauma um það, og draumar geta ræst <3
Athugasemdir
Ég hef af og til litið inn á síðu þína og í raun ekki lesið mörg önnur blogg sem innihalda jafn mikinn kærleik,æðruleysi og hugsjónarmennsku og birtist hjá þér.
Gangi þér allt í haginn.
hilmar jónsson, 19.10.2013 kl. 11:39
Kærar þakkir fyrir hlý orð í minn garð Hilmar, og takk fyrir ósk um velgengni.
Jóhanna Magnúsdóttir, 19.10.2013 kl. 12:08
Þá er komið að inntöku-prófinu/prófi lífsins:
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1316973/
Jón Þórhallsson, 19.10.2013 kl. 12:55
Jóhanna mín,það er komin hánótt og ég að lesa bloggið þitt. Eg vona að þú hreppir þetta brauð.Ég er gunga þegar kemur að sorglegum atvikum og minnist Evu Lindar á ættarmótinu í Hvammi í Dýrafirði. Þau hafa ekki verið stærri síðan þá,en við hittumst heima hjá Tobbý þessar gömlu í næsta mánuði. Bíð þér góða nótt og óska að draumar þínir rætist.
Helga Kristjánsdóttir, 20.10.2013 kl. 04:12
Jón Þórhallsson, - ég er með bréf upp á embættisgengi frá biskupi Íslands, - hef sent inn um umsókn og hún talin gjaldgeng.
Ég tel mig vera búin að fara í gegnum próf lífsins, á svo margan hátt.
Förum varlega í dómunum.
Kv. Jóhanna
Jóhanna Magnúsdóttir, 20.10.2013 kl. 20:50
Takk fyrir Helga mín, - já stundin sem Eva Lind söng "Það gefur á bátinn við Grænland verður mér alltaf ógleymanleg. :-)
Takk fyrir góðar kveðjur,
Jóhanna
Jóhanna Magnúsdóttir, 20.10.2013 kl. 20:51
Ég er ekki að dæma neinn; en stenst kynvillu-meðvirkni prestana AUGA "GUÐS"?
Munu prestarnir hjá þjóðkirkjunni komast inn um nálaraugað fræga;
sem að getið er um í BIBLÍUNNI?
Jón Þórhallsson, 21.10.2013 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.