19.9.2013 | 07:54
Hallveig Halldórsdóttir (Halla) 19. maí 1928 - 9. september 2013.
Hallveig Halldórsdóttir fæddist í Hafnarfirði 19. maí 1928. Hún lést á gjörgæsludeild Landsspítalans í Fossvogi 9. september 2013.
Hallveig var aldrei annað en Halla frænka hjá mér, enda kallaði mamma mín hana alltaf það. Mamma og hún voru systradætur og samferðakonur í gegnum lífið.
---
Ég frétti af því í janúar að Halla frænka væri komin á spítala, en það var þegar ég var nýkomin heim eftir andlát Evu dóttur minnar og ekki beint móttækileg fyrir neinum fréttum.
Síðar fylgdist ég aðeins með því og heyrði frá Rúrý frænku að hún væri enn á spítala, en svo fór það bara svona á bak við í undirmeðvitundina, þar sem ég var hreint út sagt of upptekin við sjálfa mig og að byggja upp grunn minn sem hafði hrunið. -
Halla var ein af þessum englum í lifanda lífi og þegar ég hugsa til hennar minnist ég hennar hlæjandi. Hún gat gert grín að sjálfri sér og séð björtu hliðarnar. Engildómur hennar fólst m.a. í því hversu vel hún sinnti fólkinu í kringum sig, og hún var alltaf einstaklega góð við mömmu, natin að heimsækja hana þegar hún stóð enn uppi og keyrandi um (komin á níræðisaldur).
Halla var mikill sólardýrkandi og kannski táknrænt og ekki tilviljun að hún var búsett í götu sem heitir Sólheimar! - Þar nýtti hún alla sólargeisla og var fljót að planta sér á stól úti á svölum þegar sólin skein.
Halla tók inn sólargeislana og gaf sólargeislana. Einstaka sinnum kíkti ég í mat eða kaffi til Höllu í Sólheimana, en það var þó oftast þegar hún var að hýsa móðursystur mínar sem eru búsettar í Ameríku, þær Möggu eða Dúddu, en Magga er nú hér á landi og fylgir Höllu síðustu sporin.
--
Þegar við systkinin sáum hvert stefndi með móður okkar sem lést 10. september sl. - reyndi systir mín að ná sambandi við Höllu í gsm síma, en búið var að aftengja númerið. - Þetta var 8. september sl. Hún lét mig vita að hún hefði ekki náð til Höllu og við áttuðum okkur á því að líklegast væri hún enn á spítalanum og við höfðum ekki haft "rænu" á að forvitnast nánar út í það. Þennan dag lá ég og hvíldi mig og fékk þá þessi "sendingu" í kollinn að líklegast ætluð þær mamma að fara samferða úr þessari jarðvist.
Svo fékk ég símtal, nokkrum tímum síðar, um það að Halla frænka blessunin væri dáin.
Já, þær fylgjast að frænkurnar Halla frænka og mamma, inn í eilífðina, en hálfur sólarhringur leið á milli þeirra að þær kvöddu. Það er svolítið merkilegt, finnst mér.
Gengin er GÓÐ kona, og hláturinn hennar mun lifa í minningunni að eilífu og votta ég hennar nánustu samúð mína, því mikill er missirinn af sólinni sem Halla bar með sér, en það er huggun harmi gegn að hún hefur líka skilið eftir sig marga sólargeisla sem okkur er frjálst að nota.
Hún situr væntanlega á himnasvölum og nýtur sín í eilífðinni ásamt öðrum þeim sem farin eru úr jarðvistinni.
Takk fyrir að vera svona skínandi fyrirmynd kæra Halla frænka.
Útför Höllu fer fram í dag kl. 13:00 í Hafnarfjarðarkirkju.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.