31.8.2013 | 13:33
Biskup Þjóðkirkjunnar tali á Hátíð vonar - rétt eða rangt?
Margt hefur verið rætt varðandi Hátíð vonar, - og pistilinn "Elskan mín, ástin mín, skammastu þín" skrifaði ég m.a. í tengslum við umræðuna sem kom upp varðandi Gay Pride og viðbrögð.
Það er ýmislegt sem er gott að hafa í huga þegar við tökum afstöðu eða látum okkar álit í ljós.
Get ég horft á atburðinn frá sjónarhorni kærleika og skilnings - með samhug? - Lífið er ekki í svart hvítu - heldur í lit, eins og regnbogafáninn ber með sér.
Annað sem er eitt af því sem ég kalla; einkennum andlegrar vakningar" er að við skulum varast að dæma of hart þau sem eru sofandi þegar við teljum okkur sjálf vöknuð. Svipað og sá sem hættir að reykja verði ekki of dómharður á athafnir þeirra sem enn reykja.
Getum við sett okkur í fótspor þess sem hefur verið alin/n upp í harðri sértrúarstefnu eða bókstafstrú þar sem sjálfstæð hugsun er nær bönnuð? Hvar værum við sjálf stödd þá?
Talað hefur verið um "hatursumræðu" - en þetta er ekki hatur, heldur ótti, ótti við það sem fólk ekki þekkir. Oft er talað um fordóma sem fáfræði.
Ótti og traust/trú eru andstæður.
Ef við trúum af einlægni og með öllu hjarta óttumst við ekki. Við treystum Guði og látum af stjórnsemi og sletturekuskap faríseanna, sem telja sig réttláta.
Fyrst þegar ég heyrði af því að sr. Agnes ætlaði að tala á þessari hátíð fannst mér, eins og mörgum, rétt að hún myndi halda sig frá, en ef ég nota áðurnefndar forsendur og það sem hér er sagt að framan, þá getum við alveg tengt þetta við frásögu í Biblíunni.
Sagan er sögð í Matteusarguðspjalli (9:10-9:17):
Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: ,,Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?`` Jesús heyrði þetta og sagði: ,,Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.`
Ég held reyndar það þurfi einfeldning til að sjá ekki samlíkinguna þarna, - biskup er ekki að samþykkja dóma Graham (sem er þá tollheimtumaðurinn/syndarinn í þessari dæmisögu) með því að tala á samkomunni, og ég tel það mun betri nálgun hjá henni og kærleiksríkari en að halda sig fjarri.
Kristin trú snýst m.a. um að setja ljós þar sem myrkur er. Hvernig á biskup að vera ljós þessum manni og hans líkum ef hún mætir þeim ekki og lýsir? Við fermingu játumst við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins og það væri skrítið ef biskupinn fylgdi ekki þeim leiðtoga.
Meira úr Mattheusarguðspjalli:
"Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum."
Ég tel að biskup sé að fylgja þessum boðskap guðspjallsins og því sé það fjarri að hún sé að samþykkja samkynhneigð sem synd, eða að taka á nokkurn hátt undir hugmyndir Grahams um hana með því að tala á Hátíðinni, heldur einmitt hið gagnstæða.
Það að tala ekki saman leysir aldrei nein deilumál - tölum saman en ekki sundur.
Við erum öll eitt.
Það er svo gott að hafa það í huga, eins og fram kemur í bréfi Páls postula til Galatamanna:
"Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú." - Þessu hljótum við, sem teljum okkur kristin, að trúa.
Hér má svo smella yfir í pistilinn "Elskan mín, ástin mín, skammastu þín."
þennan pistil vil ég svo enda á sama hátt.
Elskum meira og óttumst minna.
Athugasemdir
Biskup íslensku þjóðkirkjunnar á ekkert erindi á Hátíð vonar.hún er trúlaus eins og flestir "prestar" þjóðkirkjunnar.Forsvarsmenn Hátiðarinnar eiga að afþakka komu hennar.
Sigurgeir Jónsson, 31.8.2013 kl. 22:04
Hún á vitaskuld að tala. Samtöl og ávörp, líka yfir þeim og meðal þeirra sem maður er ósammála, eru verkfæri til að brúa bil, auka skilning og sætta.
Guðmundur Brynjólfsson, 1.9.2013 kl. 10:57
Sitjandi biskup á að velta því fyrir sér hvernig hún geti vakið VON í sinni eigin aðal-miðju /Hallgrímskirkjunni.
="Ræktaðu garðinn þinn".
Er sígilt máltæki sem gæti átt við hér.
Jón Þórhallsson, 1.9.2013 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.