12.6.2013 | 08:46
Af hverju þykir ofbeldi kvenna við karla fyndið? ..
Sá þennan brandara á Facebook í morgun:
Gúndi gasalegi og Badda bleika voru að versla þegar Gúndi teygir sig í bjórkassa og leggur hann í körfuna.
"Hvað heldur þú að þú sért að gera spyr Badda."
"Þetta er á tilboði, 24 baukar á 3600 kall." Svarar Gúndi.
"Láttu kassann aftur á sinn stað, við höfum alls ekki efni á þessu, segir Badda með þjósti og þau halda áfram að versla.
Nokkru síðar tekur Badda upp andlitskrem á 7200 kr. og setur í körfuna.
"Hvað heldur þú að þú sért að gera ?" Spyr Gúndi.
"Þetta er uppáhalds andlitskremið mitt. Það gerir mig svo fallega." Svarar Badda.
"Það gera nú líka 24 baukar af bjór og þeir kosta helmingi minna!"
Samkvæmt upl. frá bæklunardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss,
Er Gundi allur að koma til."
Ef við snérum brandaranum við, Gúndi hefði barið Böddu og hann endaði: "Samkvæmt upplýsingum frá bæklunardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss, er Badda öll að koma til." - Haldiði að margir myndu hlæja? -
Einhvern tímann skrifaði ég líka pistil um misnotkun Guggu á Ólafi Ragnari í Dagvaktinni, það átti að vera fyndið - en hefði aldrei þótt fyndið ef að eldri maður hefði farið svona með unga konu.
Karlar hafa undanfarið verið að koma út úr skápnum sem þolendur ofbeldis kvenna, - það er ekkert auðvelt og þarf hugrekki til, ef að þjóðarsálin eða andinn í þjóðfélaginu er slíkur að það sé gert grín að þeim þess vegna. Sjálfir upplifa þeir sig eflaust með skömm fyrir að hafa "leyft" ofbeldinu að viðgangast, en það virkar eins fyrir bæði kynin. Allir upplifa skömm þegar þeir átta sig á því að meðan þeir setja ekki ofbeldismanneskjunni mörk - "leyfa" ofbeldinu að grassera með því að upplýsa ekki um það eða jafnvel að taka þátt á móti og þá eru komin mjög vond samskipti, svo ekki sé meira sagt.
Stundum eru báðir aðilar sem beita ofbeldi - annar byrjar í vörn en svo er oft erfitt að átta sig hvor byrjaði.
Ef við tökum Böddu og Gúnda sem dæmi. Hún byrjar á að stjórnast í því hvað hann kaupir, bannar fullorðnum manni að taka ákvarðanir (við vitum ekkert hvort að Gúndi er alkóhólisti eða ekki) - Hún kaupir helmingi dýrari vöru og finnst það bara allt í lagi, ítrekar með því að ákveða hvað má kaupa hver það er sem hefur stjórn, vörnin hans er að gera grín að útliti hennar (sem er líka ofbeldi) því hann er alls ekki sáttur og sem endar með því, augljóslega, að hún beitir hann líkamlegu ofbeldi sem leiðir til spítalavistar.
Já, já - þetta er brandari. En meðan við stefnum í jafnréttisátt þá verðum við að skoða allar hliðar jafnréttis - ekki bara alvarleika þess að konur séu beittar ofbeldi og óréttlæti í þeirra garð.
Það þarf að skoða orsakir fyrir ofbeldi og einnig skoða hvers vegna við samþykkjum frekar - eða finnst ofbeldi gagnvart körlum fyndið þegar það er grafalvarlegt.
Þar eru hugmyndir sem þarf að uppræta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.