2.6.2013 | 18:45
Ofbeldi kvenna - ofbeldi karla - hver byrjaði? ..
Hver hefur ekki lent í því að stilla til friðar þar sem börn eru að leik, eða a.m.k. fylgst með þeim í leik sem gekk of langt, - annað fer að gráta og byrjar að ásakar hitt, en þá segir það "hann/hún" byrjaði! -
Ég held að í raun, að ofbeldi milli fullorðinna sé ekkert ósvipað í eðli sínu, eða þ.e.a.s. hvernig það byrjar.
Ég sé ekki alveg fyrir mér að einhver vakni eins og Láki og segi "Í dag ætla ég að vera vondur" ..
Oft er það vankunnátta í samskiptum (lært hegðunarmynstur skv. fyrirmynd) sem veldur því að einhver byrjar og einhver tekur því illa eða verður særð/ur og bregst við með ofbeldi. -
Stjórnun (manipulation) er ofbeldishegðun, en það er ekkert víst að sá eða sú sem er að stjórna eða reyna að fá sínu fram átti sig á því. - Það er hægt að stjórna á svo lúmskan hátt, með því að ala á sektarkennd hjá hinum aðilanum, með því að fara í fýlu, þegja, neita hinum aðilanum um eitthvað sem hann þarfnast nema það sé gert o.s.frv. - Sá eða sú sem vill fá sitt fram notar ákveðin stjórnunartæki og ef hann eða hún fær ekki það sem hann eða hún vill getur færst "fjör" í leikinn.
Ef að honum eða henni eru sett mörk, fer það eftir hversu "frek/ur" aðilinn er eða ákveðinn í að fá sínu framgengt hvað hann gengur langt. Hverju er til fórnað? - Eru börnin notuð? - Eru hótanir um sjálfsvíg? - Er vorkunnarspilið notað? - Hótað að fara í blöðin og kjafta frá einhverju sem er viðkvæmt?
Þarna erum við komin í einhvers konar stríð.
Það þarf sterk bein til að rísa yfir svona stríð og svona stjórnun. Það þarf sterkan vilja til að taka ekki þátt, ekki fara á sama plan og sá eða sú sem notar svona tæki og tækni. -
En það þarf líka styrk til að láta ekki stjórnast og eiga á hættu að fá á sig alls konar dóma og e.t.v. að missa tengsl við fólk sem skiptir þig máli.
Þetta er ekki einfalt.
En allt hófst þetta með barnaleik, - "Það er honum að kenna" - er það ekki?
Allt er þetta vegna þess að einhver byrjaði og einhver var særð/ur - eða var það kannski vegna þess að einhver var særð/ur og byrjaði þess vegna?
Ég lærði það í mínum uppvexti að sá vægði sem vitið hefði meira, og notaði það óspart á mín börn - en þau voru hætt að þola þennan frasa "Sá vægir er vitið hefur meira" - kannski vegna þess að þá komst sá eða sú sem var frekastur eða frekust upp með frekjuna sína.
Það á auðvitað ekki að vera afleiðing þess að vægja. Við kennum engum neitt með því, eða jú kannski að ef þú frekjast áfram þá færðu það sem þú vilt. Það gætu börnin lært ung. Þess vegna verður að segja stop og setja mörk.
Það getur verið vandlifað í okkar stóra heimi.
Mér leiðist pinkulítið að tala um karla sem svona og konur sem hinsegin eða öfugt. Karlar beita ofbeldi og konur beita ofbeldi, það er síðan persónubundið og fylgir e.t.v. eðli og/eða uppeldi hvernig ofbeldi er beitt.
Ef hver og ein manneskja liti í eigin barm, skoðaði sinn sársauka - sitt ofbeldi, þá væri kannski hægt að fara að sjá og skilja til að breyta. Eflaust ekki fyrr.
Stundum skiptir ekki máli hver byrjaði, - jú kannski til að skilja ferlið, en það skiptir máli að enda ofbeldi - og það er ekki endilega alltaf gert með því að þegja og vægja, heldur einmitt að tala og segja "hingað og ekki lengra."
Ef að einhver blandaði handa þér ógeðisdrykk sem væri þeirrar gerðar að þú yrðir veik/ur og byði þér eða heimtaði að þú drykkir hann - þá myndir þú ekki, vegna þess að þú vildir vera almennilegur við viðkomandi eða hlýða, eða jafnvel ekki gera vesen, drekka drykkinn. Þú myndir ekki drekka drykkinn bara vegna þess að þú "elskaðir" þann sem byði hann svo mikið.
Sú "ást" væri a.m.k. ekki raunveruleg - sú ást væri ást þrælsins eða ambáttarinnar.
Ég minni á orðin í söng Páls Óskars "Ó hvílíkt frelsi að elska þig" -
Í ástinni er frelsi og í frelsinu er ást.
Ekki ofbeldi.
Hvorki ofbeldi kvenna né karla.
Svo ef þú telur þig elska einhvern sem beitir þig ofbeldi, hugsaðu þig tvisvar um, er það þrælslund eða er það kannski vorkunnsemi? - Er það af vana? - Ertu gengin/n í lið með þeim sem tekur þig í gíslingu og farin/n að verja hann/hana.
Ef þú hefur þörf fyrir að vera vondu/ur eða stjórna öðrum manneskjum þá líttu í eigin barm, hvað er það sem þig vantar annað en sjálfsvirðingu og sjálfsöryggi - en þau sem hafa sjálfsvirðinguna í lagi eiga ekki að hafa þörf fyrir að upphefja sig á kostnað náungans. Þau eiga ekki að þurfa að pota, meiða, særa o.s.frv. - Þau þurfa ekki að byrja og þau segja nei takk við hverjum þeim ógeðisdrykk sem að þeim er réttur. -
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.