Minning - Gunnar Petersen 20.4.1930 - 17.5.2013

Nú er hann farinn hinum megin tjaldsins, hann Gunnar Petersen fyrrum samstarfsfélagi úr Menntaskólanum Hraðbraut þar sem ég starfaði sem aðstoðarskólastjóri og hann yfirsetumaður m/meiru.

Gunnar fæddist í Reykjavík 20. apríl 1930. Hann lést 17. maí 2013.  

GQUQPVDA

Þetta fæðingarár 1930 kom einu sinni til tals hjá okkur,  eftir að ég hafði verið að setja upp lista á kaffistofunni með afmælisdögum starfsfólks,  en ég hafði skrifað 1940 og þannig gert hann 10 árum yngri, enda grunaði mig engan veginn háan aldur hans. 

Gunnar kom og leiðrétti mig og ég varð svo hissa á hversu vel hann bar aldurinn,  mig hafði ekki grunað að hann væri, á þeim tíma sem þetta var skrifað komin nálægt áttræðu,  en spurði þá um leið hvernig í ósköpunum hann héldi sér svona unglegum? -  

"Það er sexarinn"  svaraði þá Gunnar.

Ég var smá stund að kveikja,  og reyndar kveikti ekkert - hélt jafnvel að þetta væri eitthvað "dónó" - en Gunnar bætti þá við;  "Það er einn gin og tónik klukkan sex á hverjum degi! -

Þessi saga varð sagan okkar og oft sögð í stærra hópi og okkur þótti hún alltaf jafn fyndin.

Þessi hávaxni og glæsilegi maður - sem bar aldurinn svona gífurlega vel hafði nefnilega húmor,  og sérstaklega fyrir sjálfum sér.  Gunnar passaði einstaklega vel inn í hópinn á kaffistofunni,  en þar var oft unun að sitja og hlusta á "spekingana spjalla" en þar á meðal voru þessir líka fróðu og skemmtilegu "öldungar"  sem höfðu frá svo mörgu áhugaverðu að segja.  Stemmingin var oft engu lík, og Gunnar lagði þar sitt af mörkum. 

Gunnar hafði líka gaman af því þegar að hann, eitt skipti sem oftar,  tók þátt í að taka á móti grunnskólanemum í skólakynningu, að hann hefði verið spurður hvort hann væri skólastjórinn.  Hann hafði beðið á ganginum og tók á móti námsráðgjöfum og nemendum með handabandi, alltaf kurteis og virðulegur. - Ekki skrítið að einhverjir héldu hann "stjórann" .. 

"Væntumþykja" er orðið sem kom í hugann þegar ég frétti af andláti Gunnars, reyndar gagnkvæm væntumþykja því að alltaf fann maður fyrir hlýju og velvild frá honum.   Gunnar hafði verið samferða föður mínum í körfuboltanum í gamla daga og hann gaf mér mynd af þeim saman,  og sagði mér að sýna móður minni sem ég gerði og mundi hún vel eftir Gunnari.  

Gunnar var hugulsamur á fleiri máta - og því fékk ég að kynnast m.a. þegar ég kvartaði undan krónískri hálsbólgu tók Gunnar upp símann,  hringdi í son sinn, lækninn og pantaði tíma fyrir konuna - sem endaði með kirtlatöku (og bættu lífi í framhaldi af því).  

Gunnar var hvetjandi og góður maður,  einstaklega samviskusamur og tók starf sitt hátíðlega. Hann átti jafnframt fjölda aðdáenda meðal starfsfólks og nemenda í Hraðbraut,  en hann hafði þessa hæfileika þjónandi leiðtoga,  sem eru svo mikilvægir.  Það móðgaðist enginn þegar hann kallaði yfir hópinn fyrir próf "allir að pissa" -  en við hin kímdum einmitt og ég hugsaði með sjálfri mér;  "þetta getur enginn sagt með eins virðulegum blæ og Gunnar Petersen."  

En nú er hann farinn þessi elska,  eins og svo margir.  Það var svo undarlegt að fyrsta manneskjan sem kom í huga minn að láta vita að hann væri allur var dóttir mín,  Eva Lind - sem líka starfaði á tímabili með okkur í Hraðbraut og þótti vænt um Gunnar eins og mér og okkur öllum samstarfsmönnum.  En Eva mín fór nokkrum mánuðum á undan honum,  og þessi hugarfluga að láta hana vita var auðvitað fljót að fara í gegn,  hún vissi um brottför hans á undan mér og hefur væntanlega verið í móttökunefndinni. 

Ég votta fallegu konunni hans, fjölskyldu hans allri og vinum mína dýpstu samúð. 

Blessuð sé minning þín Gunnar minn og takk fyrir mig.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband