5.4.2012 | 12:40
Þökk sé þeim sem þjóna þeim sjúku og öldnu
Eftir að ég lauk guðfræðinámi mínu árið 2003, fékk ég starf við aðhlynningu aldraðra á sambýlinu Eirarholti, sem er einn af þjónustukjörnum á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. - Ég starfaði þar í tæpt ár, eða þangað til að mér var boðið annað starf og 100% hærri laun. -
Ég hef oft hugsað hvað það væri hollt að hafa ummönun aldraðra eða þjónustu við þá sem skyldufag, eða a.m.k. valfag í framhaldsskólum, eða jafnvel háskólum. -
Ég lærði mikið í guðfræði í háskólanum, en ég skildi guðfræðina og þjónustu hluta hennar fyrst af alvöru þegar ég fór að starfa á Eir. -
Fótaþvotturinn
Ég man eftir að vinkona dóttur minnar bauð mér að halda "Volare" kynningu, og í því fólst fótabað. - Hún mætti heim og fyllti bala fyrir okkur allar og setti eitthvað dásamlegt dauðahafssalt í balann, eða hvað það var og svo fengum við krem og alls konar lúxus.
Það er svo skrítið að þegar fæturnir á manni eru í lagi, þá virkar það oft á allan kroppinn. -
Mér varð fljótlega hugsað til gamla fólksins á Eir og sérstaklega til einnar góðrar vinkonu minnar. Því var það það við fyrsta tækifæri að ég bauð henni upp á fótabað.
Þar sem ég kraup við fætur hennar og nuddaði með ilmandi kremi eftir að hún hafði notið þess að hvíla lúnu æðaberu fæturnar, sem höfðu borið hana í gegnum langt líf, upplifði ég það hvað það fólst í þjónustunni við aðra og hvað verið var að tala um í Biblíunni.- "Berið hvers annars byrðar" ..
Þetta fyllti mig af vellíðan, að finna hvað henni þótti þetta gott og að hafa getu til að auka á virðingu hennar og lífsgæði.
Ég upplifði þetta ekki bara einu sinni, heldur í hvert skipti sem ég hafði tækifæri til að hjálpa fólki með virðingu að fara í baðið sitt, sem sumir áttu mjög erfitt með. -
Þetta starf er ekki einungis svona þakklát, það skal tekið fram, því þetta er oft mjög mikil erfiðisvinna og reynir bæði á líkama og sál. Það eru ekki alltaf allir samvinnuþýðir, og það getur reynt bæði á andlegt og líkamlegt þrek. -
En þeir sem hafa upplifað það að þjónusta fólk, ekki bara andlega, heldur líkamlega, hvað það þarf mikla þolinmæði, auðmýkt og virðingu. -
Ég minnist þessa alls nú á skírdegi, - sem er nefndur skírdagur m.a. í minningu þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna, - en orðið skír merkir í raun hreint, óblandað, skær, bjartur/björt, saklaus. -
Upprunalega orðið á grísku er katharsis, skrifað á grísku κάθαρσις sem þýðir m.a. hreinsun. Það á uppruna í sögninni καθαίρειν, kathairein, að hreinsa, eða gera tært jafnvel. -
Jesús þvær fætur Péturs. Mynd eftir málarann Ford Maddox Brown (1821-1893).
--
24Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. 25En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. 26En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. 27Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
Í mínum huga er fólkið sem þjónar öfum okkar og ömmum, mömmum okkar og pöbbum fólkið sem kemst næst því að lifa í þeim kristilega kærleiksanda að þjóna og elska náungann eins og sjálfan sig. Vissulega er það starf, en launin segja eiginlega frekar að þarna sé um þræla og ambáttir að ræða, enda má benda á það að orðið embætti er komið af orðinu ambátt, líka forseta-og biskupsembætti. -
Þjónustan er því göfugusta starfið, en því miður virðist heimurinn oft ekki sjá það, eða a.m.k. ekki meta það til þeirra launa sem fólk í þjónustu á skilið. -
En hver og ein/n sem hefur þjónað hinum gamla og/eða sjúka veit hvað ég er að tala um. -
Ég vil því þakka því starfsfólki sem leggur líf sitt í það að þjóna á hjúkrunarheimilum, þjóna á spítölum, þjóna fólki í neyð, hvort sem það er andlega eða líkamlega. Því það á svo sannarlega virðingu og þakklæti skilið og að sjálfsögðu að fá mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.