Að skammast sín eða skína

Ætla að setja þetta blogg inn hér líka - en upprunalega skrifaði ég það á þessum slóðum HÉR.

--

Eins og fram kemur á þessari síðu, og margir vita - starfa ég með sjálfsræktarsamtökum sem vinna gegn meðvirkni, en meðvirkni verður oftast til í bernsku, og þá ekki við einstaka áfall, heldur við langvarandi vanvirkar/óeðlilegar aðstæður.

Það þarf reyndar ekki mikið til þess að skekkja myndina, - hina eðlilegu mynd. Það er í raun nóg að hafa alist upp hjá foreldri/foreldrum sem er óöruggt og/eða með lélega sjálfsmynd.

Það er gott að taka það fram í upphafi, að það er ekki við neinn að sakast - flestir foreldrar gera sitt besta.

Sá eða sú sem er meðvirk leitar  eftir samþykki umhverfisins fyrir tilveru sinni, vegna þess að hún eða hann á erfitt með að samþykkja sjálfa/n sig. -  Verðmætamatið er brenglað og er háð hinu ytra. 

Viðkomandi þarf að sanna sig, en fær eða gerir aldrei nóg að eigin mati.  Sama hversu mikið er gert, fullnægja fæst ekki,  því í raun er það sem vantar það að þekkja sjálfa/n sig, treysta, elska og samþykkja.

Andstæðan við samþykkið er afneitun, - eða jafnvel skömm á sjálfum/sjálfri sér.  

Skömmin er undirrót svo margs óæskilegt og oftar en ekki fíknar og ofbeldis, - og hún kemur m.a. af því að í bernsku hefur eitthvað verið sagt og/eða gert sem hefur alið  á þessari skömm. Fræjum hefur verið sáð og þau fengið að vaxa.

Starfið mitt felst í því að vinda ofan af skömminni, endurprógrammera, - eða eins og ég segi stundum í gamni -  að "heilaþvo" -  vegna þess að í raun er búið að heilaþvo marga einstaklinga til að trúa því að þeir séu ekki nógu verðmætir,  það er það sem hefst í bernsku og helst því miður oft áfram, - og svo tileinkar einstaklingurinn sér neikvæðu "röddina" og fer í raun að tala niður til sín og illa um sig,  eins og hann hefur alla tíð lært.

Það fyrsta sem við gerum er að vakna til meðvitundar um þessa "rödd" -   "er ég virkilega svona neikvæð/ur í eigin garð?" -   Fólki bregður stundum við þegar það áttar sig á því að það myndi aldrei tala við vini sína eins og það talar við sjálft sig. 

"Skammastu þín, - aldrei getur þú nú gert neitt rétt, oh hvað þú ert nú óalandi og óferjandi í raun, lítilmannleg vera, ljót og leiðinleg" -

Ég er ekki að ýkja - fólk talar svona til sín.

Til að snúa við ferlinu þarf að snúa við blaðinu. -  Standa sjálfan sig að verki, til að byrja með og þá ekki fara í ásökun eða áframhaldandi skammir, heldur einmitt að fyrirgefa sér,  og fara í uppbyggilegt og jávætt sjálfstal.  Stundum þarf að jafna ballestina þannig að sjálfstalið verði "ýkt" - það er eins og hugræn atferlismeðferð í eigin garð.  

Tala fallega við okkur við öll möguleg tækifæri,  byrja daginn á jákvæðu sjálfstali,  þakka okkur fyrir líkama okkar, sál og anda.  Horfa í spegilinn, inn í augu okkar og hrósa þessari verðmætu sál, og segja  "góðan daginn elsku .......  mín/minn"  - Mikið ert þú yndislega falleg/ur í dag" .. og já, jafnvel þótt við séum með svokallaða "ljótu" erum við falleg,  því ég er ekki að tala endilega um hið ytra útlit.  Þó að við verðum að sjálfsögðu að samþykkja það líka, - heldur hið innra,  því að það er það sem lætur okkur geisla.

Til þess að fara að elska sig, virða og samþykkja - þarf að fyrirgefa sér, það þarf að þakka sér, og það þarf að nýta sér öll möguleg uppbyggileg ráð sem til eru í bókinni.

Talandi um bækur!

Margir eiga stafla af sjálfshjálparbókum,  en það er ekki nóg að lesa, það þarf að framkvæma.  Margir eiga líka lýsi og d-vitamín uppí skáp, en það virkar ekki nema það sé tekið.

Hið andlega vitamín felst í mörgu, en hið andlega vitamín er það sem þarf til að öðlast sjálfsþekkingu og hugarró,  en bæði er styrktarstuðlar þess að við lifum í farsæld.

  • Við verðum í fyrsta lagi að tala, segja sögu okkar og hafa hugrekki til þess - því að segja sögu okkar hjálpar að losa um hrúðurkarlana sem hafa sest á sálina. Ef að í sögu okkar er eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir, þá er það þannig að skömmin "hatar" að láta tala um sig, því þannig minnkar hún og jafnvel eyðist.
  • Við þurfum að læra leiðir til að fá hugarró með slökun, hreyfingu, hugleiðslu.
  • Stunda jákvætt sjálfstal
  • Veita athygli hinu góða, jákvæða, og jafnframt þakka það, því eins og klysjan segir: "það sem þú veitir athygli vex.
  • Muna að það ert ÞÚ sem berð ábyrgð á eigin farsæld, og þarft fyrst og fremst að næra þig til þess að hafa möguleika á að næra aðra.  Þannig að myndin af farþeganum í flugvéinni sem setur súrefnið á sig fyrst til að hjálpa barni er mynd sem gott er að hafa í huga.  Ef við nærumst ekki sjálf, endum við eins og mamman í kartöflugarðinum.
  • Við þurfum að hugsa andlega næringu á svipaðan hátt og líkamlega, byrja daginn á hollu og hugsa um það allan daginn. -  Við þurfum að forðast neikvæða umræðu, hvort sem er í fjölmiðlum, heima fyrir eða á vinnustað.  Týpískt andlegt sukk væri að dettta inn í öfundsýkis-og baknag um náungann. 
  • Við þurfum að endurnýja orðaforðann - sortéra hið ljóta frá og hætta að blóta, tala illa um o.s.frv. - og muna eftir bergmáli lífsins.  Það sem við látum frá okkur ratar yfirleitt heim aftur.
  • Við þurfum að fara að vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur og öðrum,  leita sannleikans og heilindana og forðast leyndarmál og lygar. 
  • Upplifa verðmæti okkar - án hins ytra.  
  • Við erum ekki starfið okkar, börnin okkar, foreldrar okkar, stétt né staða, menntun eða menntunarleysi. -  Við eum manneskjur fyrst og fremst sem eigum allan tilverurétt - eigum allt gott skilið.
  • Við þurfum að samþykkja okkur sem manneskjur og hætta að reyna að vera fullkomin, ef við höldum því áfram náum við aldrei sátt.
  • Við þurfum að hætta að skammast okkar fyrir sjálf okkur!
Það þarf í raun hver og ein/n að finna sína leið að sjálfri/sjálfum sér.  Allt ofangreint hef ég notað, og ég hef líka notað bæn, tónlist, ljóð og sálma til uppbyggingar. -  Fátt hefur styrkt mig betur en línurnar úr 23. Davíðssálmi,  sálmi sem fólk heyrir oftast í tengslum við útfarir en er sálmfur trúnaðartraust og lífsfyllingar.   - Þeim sem finnst óþægilegt að tala um Guð/Drottinn geta hreinlega skipt því út fyrir "ÉG" -   því mikilvægi þess að ganga lífsgönguna með sjálfum sér er ekki síðra en að ganga hana með Guði.   - Ég sjálf trúi því að vísu að það sé eitt og hið sama.  Þ.e.a.s. þegar við göngum með Guði göngum við með okkur. -

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta  (bresta  þýðir hér "skorta")
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.


Það má eiginlega segja að þessi sálmur sé "kvíðalyf", að viðbættri útiveru!  Í honum kemur líka fram að lífsbikar minn er barmafullur og ég túlka það að ég sé NÓG.  Sama hvað gengur á hið ytra,  ég er alltaf nóg og á alltaf nóg - á meðan að ég er með sjálfri mér og með Guði.
----

Ég er með embættispróf í guðfræði, hef lokið kennsluréttindanámi og hef starfað á mörgum sviðum, - en það sem hefur verið minn mikilvægasti lærdómur er lífsreynsla mín.  M.a. sú reynsla að ég hafi verið í þeim sporum að leita eftir samþykki,  elsku, viðurkenningu.  Sú reynsla síðan að uppgötva að ég er verðmæt manneskja og var þarna allan tímann. -   Öll menntunin, þekkingin, hlutverkin mín sem móðir, eiginkona, dóttir, systir, kennari, ráðgjafi, sölumaður, leiðbeinandi eða hvað þetta heitir allt eru auðvitað hluti af þessari reynslu. -  Það skyldi ekki vanmeta það.

EN

"Suffering is the best teacher" - segir Eckhart Tolle, en hann bætti því við að það sé hægt að læra án þjáningarinnar.  Við lærum með því að framkvæma -  endurtekningin skiptir máli - alveg á sama hátt og við lærum tungumál  með endurtekningu - þá lærum við að gera góða hluti með endurtekningu (í raun á sama hátt og við lærðum vondu hlutina á sínum tíma).

Manneskjan er eins og gróðurbeð,  við þurfum að hreinsa til - henda illgresi, ná því upp með rótum, og sá sólblómafræjum í beðið okkar í staðinn. -  Síðan þarf að gefa beðinu tíma til að jafna sig, leyfa fræjunum að spíra,  því að það er ekki hægt að toga þau upp úr jörðinni með afli. 

Þessu beði þarf að hlúa að,  veita því þá næringu og birtu sem það á skilið - og leyfa svo Guði að sjá um restina.

Hættum svo að skammast okkar og skínum sem aldri fyrr!  Lifum sátt við Guð og menn - og okkur sjálf!
emoticon

p.s. þessi pistill gæti verið svo miklu miklu lengri, en ég tel að kjarninn hafi náðst - sem er að við erum öll verðmæt - "no matter what" -


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 20.12.2011 kl. 11:57

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottust.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2011 kl. 12:43

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.12.2011 kl. 02:11

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Uppáhaldssálmurinn minn!

Hrönn Sigurðardóttir, 21.12.2011 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband