10.12.2011 | 12:07
GUÐ Í OSS ..
Eftirfarandi eru nokkrar tilvitnanir sem ég skrifaði niður úr bókinni "Kristur í Oss" - og mínar upplifanir af þessum setningum. Þær þurfa ekki að vera þínar - því að hver og ein/n sér út frá sínum sjónarhóli, bakgrunni, menntun, þekkingu o.s.frv.
- Að vera heilagur er að vera heill - Fátt hlýtur okkur að þykja eftirsóknarverða, mannfólkinu, en að ná að verða heil. Flest erum við brotin eða særð að einhverju leyti, en við höfum tækifæri á að heila okkur, það gerum við helst með því að næra elskuna og svelta óttann.
- Þar sem Guð er, þar eru engar takmarkanir - Þarna er líka hægt að tala um endalausa uppsprettu möguleika sem felast í því að vera "Human Being" - en ekki "Human Doing" - Að leyfa sér að treysta, trúa og bara að vera til án þess að gagnrýna, dæma, setja merkimiða á o.s.frv. - ÉG ER
- Heimurinn er hugsun Guðs - Ég hef gaman af því að leika mér að orðinu samviska. SAM - VISKA, - sem væri þá líka World Consciousness - Sumir vilja tala um Guð sem Consciousness. Það er svolítil búddísk pæling í þeirri Guðsmynd, - þ.e.a.s. Guð er hafið og við dropar hafsins, - og reyndar vísindaleg líka, þar sem við erum öll líffræðilega tengd, og efnafræðilega tengd jörðinni. - Vísindi og trú eru ekki andstæður í mínum huga, heldur ná þarna tengingu. WE ARE ALL ONE. - Það sem þú gerir þínum minnsta bróður gerir þú mér o.s.frv.
- Biblían er stigi hinna dauðu kennisetninga, hinna dánu einstaklinga - Kennisetningar á blaði eru dauðar kennisetningar, - aðeins sá sem les getur lífgað þær við. Það erum VIÐ með okkar guðlega kjarna sem ákveðum hvort þær eru sannar fyrir okkur. Enginn sem eru lifandi í dag, getur sagt okkur hvað hann var að meina þegar hann skrifaði það sem hann skrifaði. Það erum við, hin lifandi sem getum valið það sem talar til okkar og það sem talar ekki til okkar. Það á hver og ein/n að gera fyrir sig. Þú getur hlustað á ritskýringar hinna lifandi, og samþykkt þær eða hafnað, en það er engin/n sem getur sagt fyrir þig hvort þær eru rangar eða réttar, þú ein/n veist það.
- Mannlegt mál er algjörlega ófullnægjandi til að túlka andleg sannindi - (höf. tekur það fram í upphafi að bókin sé skrifuð með það í huga, að gera sitt besta en þessi takmörk séu fyrir hendi) - Mjög mikilvægur punktur, - hið andlega er í kyrrðinni - Guð er í kyrrðinni - í þögninni milli orðanna. "Silence is golden" ...
- Sköpunaröfl eru ósýnileg - myndin á striga listamannsins er aldrei sú sama og kemur á strigann - Læt þetta standa eitt ó óútskýrt...
- Himnaríki er vitund um Guð, ekki staður - Himnaríki er innra með okkur, - þegar við erum komin heim, heim til okkar sjálfra upplifum við himnaríki. Þegar við ERUM, þegar við upplifum lífsfyllingu sem kemur að innan en ekki utan. Við erum sátt, sleppum hlekkjum skammar og ótta, "The way to heaven IS heaven" .. Gangan er ekki frá Guði, Til Guðs, heldur Í Guði (skv. speki Súfista) Að ganga í Guði er að ganga í sjálfum/sjálfri þér. "You never walk alone"
- Kirkjur og kapellur eru aðgreiningarmúrar - Heitt svæði þarna! Sjálfri finnst mér notalegt að koma í kirkjur og kapellur, þeim fylgir róandi andi og yfirleitt fæ ég góða andlega næringu í krikju. Hús þar sem allir eru velkomnir er ekki aðgreinandi, - en ég skil pælinguna í þessu.
- Hlýddu andanum innra með þér - Láttu hjartað ráða för, - ekki láta hugsunina þvælast of mikið fyrir þér! Ef þú sérð barn detta í sjóinn, ferðu ekki að analysera hvort þú ætlir að bjarga því eða ekki. Þú stekkur á eftir því til að reyna að bjarga. Það er "first impulse" - Þegar við finnum innra með okkur hvað er rétt, þá er í 99% tilvika (kannski örlítið sjaldnar) sem við höfum rétt fyrir okkur. Oft breytum við af leið, vegna þess að "einhver annar" sagði eitthvað annað, eða við förum að hugsa hvað aðrir segja, en hlustum ekki á andann innra með okkur, - berjum okkur svo fyrir að hafa ekki hlustað á innsæið!
- Láttu hjarta þitt vera fullt af Guði - Fyrir mér er þetta að fylla á "tankinn" - lífsfyllingin sem kemur þegar við fyllum okkur af Guði. - Oft ruglar fólk þessari tilfinningu við að langa í mat, áfengi, sígarettu o.s.frv. - "When food is love" - "Eins og hindin þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, Ó Guð" .. (42. Davíðssálmur) Tilfinningapokar og tómleiki er oft fylltur með fíknum, fíkn kemur vegna þess að tilfinningar gera vart við sig og við kunnum ekki að taka á móti þeim. Fíkn er til að flýja, deyfa, forðast, afneita .... Guði? ..
- Það er í hjartanu sem skilningurinn býr -
- Smámunasemi má ekki ná valdi á lífi okkar og taka stjórn -
- Hver einstaklingur skapar framtíð sína með hugsun sinni - Þess vegna er svo mikilvægt að veita athygli því góða, næra það og rækta - hugsa fallegar hugsanir um sig og náunga sinn, veita hinu góða athygli og þakka það á hverjum degi. Guð skapaði þig í sinni mynd - til að skapa.
- Heilinn nærist af andanum -
- Leitaðu ekki elskunnar, gefðu hana - það er næring - sælla er að gefa en að þiggja, það sem við gefum frá okkur kemur til okkar. Þannig er bergmál lífsins. Við köllum "Ég elska þig" í bergið og það bergmálar "Ég elska þig" til baka. - Það sama gildir um "Ég hata þig" ..
- Bænin er andardráttur lífsandans -
- Það er röng afstaða að bíða eftir sælu í fjarlægri framtíð - Mátturinn er í Núinu, eins og frægt er orðið. Sælan er núna, ekki "þegar" - ekki eftir 10 kíló, ekki þegar þú ert kominn þangað, búinn með námið, orðinn milljónamæringur, komin/n í sambúð .... NÚNA er allt sem er.
- Þegar þú biður fyrir veiku fólki sjáðu það þá heilt fyrir þér en ekki veikt - Sendum ekki áhyggjur okkar í þau sem við biðjum fyrir, sjáum þau fyrir okkur heil, umvafin ljósi og kærleika, það er betra fyrir þau og betra fyrir okkur. Engin/n græðir á því að við séum í rusli yfir líðan annarra. Sýnum samhygð með því að vera fyrir fólk og næra það en ekki snúa því við þannig að aðrir þurfi að hafa áhyggjur af okkur og búa þannig til vítahring.
- Þú ert alltaf - og munt verða -
- Hið eina sem hefur hjálpað þér til æðri þekkingar á Guði hefur komið innan að - Þetta er í sama dúr og það sem stendur um Biblíuna. Það sem þú lest ákveður þú að innan hvort að þú trúir eða ekki. - Orðin eru ekki lifandi, það ert þú sem ert lifandi og glæðir þau lífi.
- Hugsun er útöndun orðsins - Orðið er innra með þér
- Þú ert vegna þess að Guð er - Við erum sköpuð í Guðs mynd
- Það er óttatilfinning sem skapar aðgreinandi múra - Það er óöryggi við það sem er öðruvísi sem gerir okkur hrædd, ótti við að við séum eins jafnvel - eitthvað sem við viljum ekki vera.
- Sjáðu og viðurkenndu aðeins það góða í þínum nánustu - traust þitt á þeim skapar í þeim nýja von - Flestir ef ekki allir, hafa mikla kosti - og þegar við veitum kostunum athygli þá vaxa þeir. Ef við veitum göllunum athygli vaxa þeir. Gallinn við mann sem kreystir tannkremstúpuna öðru vísi en þú vilt, getur orðið að einni risavaxinni tannkremstúpu sem eyðileggur heilt hjónaband. Er það vandamál þitt eða þess sem kreystir túpuna, hvernig hann gerir það?
- Elskaðu af öllu hjarta, sál og huga og þér mun enginn hlutur ómögulegur - "Love is all you need" sungu Bítlarnir - það þarf sterkan karakter að elska af öllu hjarta, sál og huga .. en spennandi markmið og ætti að vera markmið okkar allra.
- Kristur er uppspretta sem aldrei þrýtur - Kristur er táknmynd mennskunnar, lífsins og um leið Guðs, - Lífið er eilíft - Guð er eilífur - Kristur er eilífur - Þú ert eilífur - sál þín er eilíf .. "Þegar við deyjum komumst við að því að það er enginn dauði" .. sagði Eckhart Tolle - ég tek undir þessi orð. Ég get ekki "sannað það" en ég trúi því.
- Við erum öll þríein og lifum á þremur tilverustigum, sviði andans, sálar og líkama -
- Leyndardómur við lestur Biblíunnar er innblástur (þinn eigin innblástur ekki þeirra sem skrifuðu) - Sama og stendur að ofan -
- Bækur skal nota sem farvegi - Vörumst að verða bókstafstrúar eða taka hluti of bókstaflega, vörumst kenningar og kreddur.
- Eilífðin er núna - "The Power of NOW"
- Kastaðu á djúpið, djúpið er Guð
- Hangið ekki við hlekkina, sleppið þeim - Ótti og skömm eru mestu óvinir okkar, en við viljum oft halda fast í bæði ótta og skömm. Hvað gerist þegar þú leyfir þér að sleppa takinu? -
1.Jóh.4:18 - Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.-
Lifðu í lukku en ekki í krukku, - lifðu lengi en ekki í fatahengi ...
(góð speki úr minningarbókum grunnskólaáranna).
Athugasemdir
Heil og sæl! Þú ert afbragðs predikari Jóhanna,gaman að sjá hvað þú hefur verið að ,,pæla,, í grunnskóla. Oft hefur mig langað að fá botn í sumt sem stendur í Biblíunni. Nálgist maður niðurstöðuna;"Orðin eru ekki lifandi,það ert þú sem ert lifandi",breytist viðhorf mitt. Síðan;"Leyndardómurinn við lestur Biblíunnar er innblástur þinn,ekki þeirra sem skrifa". Að lokum "Vörumst að verða bókstafstrúar,eða taka hluti of bókstafslega,vörumst kenningar og kreddur. Akkurat,fátt fer meira í taugarnar á mér.Þakka fyrir góða mín,m.b k.v.
Helga Kristjánsdóttir, 11.12.2011 kl. 09:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.