Ný Þjóðkirkja með allri þjóðinni innanborðs .... útópía

Of eða Van eru varnaðarorð. - Orðin Of eða Van segja í raun það sem þarf að segja.  Jafnvægi er líka tákn hins gullna meðalvegar. Meðalvegurinn er bara þrælskemmtilegur og innan hans er hægt að eiga hið farsæla líf sem flestir sækjast eftir. 

Innan þessa meðalvegs getum við flippað, verið sorgmædd, glöð, borðað of mikið (stundum) og borðað of lítið (stundum).  þegar við erum farin að borða of mikið alltaf er það orðið of.   Ef vi borðum ekki, eða sveltum okkur er það auðvitað van. 

Dæmi um of og van eru því of - offita eða jafnvel matarfíkn, eða  van - vannæring eða jafnvel anorexía.

Þarna erum við komin út fyrir vegarkant á meðalveginum og út fyrir hættumörk.  Þarna er ég ekki að tala um þægindamörkin eða þægindarammann,  hann rúmast innan hættumarkanna, og ég mæli hiklaust með því að fólk fari reglulega út fyrir þægindamörk sín, þ.e.a.s.  geri eitthvað sem er áskorun, horfist í augu við ótta sinn o.s.frv.  -  

Við þurfum á jafnvægi að halda til að ganga stórslysalaust í gegnum lífið.  Of mikið til hægri eða of mikið til vinstri getur orðið okkur að falli.  Ofmat/vanmat,  offita/vannæring, oftrú/vantrú. 

Hugsum um það sem kemur okkur áfram í lífinu, sem hjálpar okkur að ganga bein, jafnfætis öðru fólki, - það liggur m.a. í því að við erum öll jöfn þegar upp er staðið.  Fæðumst nakin í heiminn og förum nakin úr heiminum.  Það sem við (raunverulega) eigum er innra með okkur.  Við þurfum hvorki að svelta okkur né fita, við erum fullkomin í ófullkomleika okkar.  Ef við trúum þá trúum við og ef við trúum ekki þá trúum við ekki.  Við höfum leyfi til þess, við höfum leyfi til tjáningar að segja sögu okkar, vera við sjálf og segja hvernig við trúum,  og lifa trú okkar. 

Það þarf að stíga varlega til jarðar hvað börnin varðar. Þau eiga að fá að mynda sínar eigin hugmyndir - fá að upplifa gagnrýna hugsun. Velja fyrir sig.  Börnin eru ómótuð, þeim þarf að kenna kærleika með því að vera fyrirmyndir í kærleika, sannleika með því að vera fyrirmyndir í sannleika,  þau geta síðan vegið og metið hvaðan sá kærleikur er upp runninn. 

Ég styð því tillögur mannréttindaráðs, sem ég held að hafi verið bæði of og vantúlkaðar eftir hver á í hlut.  Ég styð að börnum sé gefið Nýja testamentið, en ekki innan grunnskólanna.  Ég styð að allir megi fara með Faðir vorið,  en enginn sé til þess skyldugur. 

Við mannfólkið þurfum að hætta að stríða og finna þess í stað málamiðlanir.  Við erum í raun einn líkami, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Öndum að okkur sama loftinu, göngum á sömu jörð. 

Við syndum í sömu sundlaug.  Svo ef að einn pissar i laugina þá finna allir fyrir því. Hjá því verður ekki komist.

Ég mæli með því að við horfum á það sammannlega, virðum það og þökkum.  Röðum okkur í mengi þeirra sem vilja frið, kærleika og virðingu -  síðan er hægt að hafa mengi sem skarast - þeirra sem trúa á einn eða annan hátt, með eða án Guðs  og svo þeirra sem trúa ekki, á einn eða annan hátt  -    Slíkt mengi og síðan mengi sem sköruðust,  væri hin eina sanna Þjóðkirkja sem væri sem regnhlíf yfir þjóðina.  Kirkja þýðir samfélag og þannig væru í rauninni öll þjóðin í þjóðkirkju,  peningar sem innheimtast til hennar færu til allra sem störfuðu undir hennar þaki og allra meðlima sem gætu nýtt sér þjónustu hennar.  Forréttindi heyrðu sögunni til. 

Fyrirgefum og finnum jafnvægið.  

balance.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð að vanda, ef það væri nú bara hægt að fá fólk til að hugsa og framkvæma í þessum anda, þá væri margt auðveldara.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.12.2011 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband