Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu umboðsmanns barna:
"Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti hefur ákveðið að standa fyrir degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og er hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010 Verkefnastjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana á vegum ríkisins. Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, s.s. að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu."
Við hjá Lausninni, sjálfsræktarsamtökum höfum tekið þessari áskorun og höfum fengið Eyjólf Gíslason í lið með okkur, en hann hefur undanfarin ár farið með fyrirlestra í skóla um átröskun, samkynhneigð og einelti, því oft vill þetta fylgjast að. Þ.e.a.s. margir samkynhneigðir, svo sem aðrir sem eru ekki í "norminu" lenda í því að vera lagðir í einelti.
Lífið væri svolítið skrítið ef við værum öll eins og steypt í sama mótið, piparkökukarlar-og kerlingar.
Dagurinn 8. nóvember 2011 hefur yfirskriftina: "Í þínum sporum" en það minnir á mikilvægi þess að gera sitt besta til að setja sig í annarra spor. Dómharka er andstæðan við að setja sig í spor annarra eða sýna samhug.
Þau sem beita mestri dómhörkunni eru oft þau sem eru særð dýpst sárunum og hafa bælt þau.
Það þarf því að beina sjónum að uppruna og orsök eineltis, um leið og að við tökum höndum saman um að vernda eineltisþolendur. Finna leiðir út úr vítahringnum sem einelti er.
Hugrekki er að opna hjarta sitt og segja frá - bæði þau sem hafa stundað einelti og þau sem hafa verið lögð í einelti.
Hugrekki er að taka á málum á uppbyggilegan hátt, og þetta hugrekki þurfa allir að sýna - yfirvöld - skólar - fjölmiðlar - foreldrar - vinir.
Hugrekki er að skipta sér af, þar sem við sjáum á börnum brotið, því að allt of mörg börn lifa við allt of erfiðar aðstæður og þurfa í sumum tilfellum að taka á sig ábyrgð sem er langt fram yfir þeirra þroska, óeðlilegar aðstæður sem þau bregðast við á eðlilegan máta. Eðlilegur máti getur verið að skera sig, borða sér til óbóta, svelta sig, leita í fíknir - allt til að forðast andlegan sársauka.
Hugrekki er að viðurkenna að við erum hluti af samfélagi, samfélagi dómhörku - særðs samfélags. Við erum flest særð börn særðra barna. Þaðan kemur dómharkan, þaðan kemur skömmin, þaðan kemur kvíðinn, óttinn og eineltið.
Ef að allir, hver og einn einasti - liti í eigin barm og hætti að benda, myndi spyrja sig:
"Getur verið að ég hafi einhvern tímann stuðlað að einelti, eða eru það alltaf hinir?"
Við erum samfélagið, börn þurfa að vita að þau hafa mjúka lendingu og mjúkan faðm til að koma í - þau verða að vita að einhver komi til með að skilja þau. Verða að fá að vita að það er til lausn út úr vítinu. Þau verða að sjá útgönguleiðina og fá bjartari famtíðarsýn, - þannig fyrst fer að rofa til og þau geta farið að fá trú á sjálfum sér og samfélaginu.
Fullkomleiki barna felst í því að vera ófullkomin, við verðum að virða ófullkomleikann, láta þau vita reglulega að þau séu verðmæt. Vermæt án nokkurs utanaðkomandi. Verum stolt af þeim eins og þau eru, ekki eins og við ætlum þeim að vera. Verðmæt án þess að þurfa að sanna verðmæti sitt með einkunnum, útliti, árangri í íþróttum, - gefum þeim hrós og verum stolt af þeim fyrir að vera þau sjálf.
Það er skilyrðislaus ást og við eigum að láta þau vita af henni. Hvort sem þau gera mistök eða vinna verðlaun eru þau alltaf jafn dýrmæt og mannhelgi þeirra er óskert.
Þegar þau vita af því, þá upplifa þau innra verðmæti og það er grunnurinn að ytra verðmæti.
Hið ytra er gagnslaust, yfirborðskennt og falskt ef engin innistaða er fyrir hendi, eða ef að innistaðan er bæld.
Við erum ekki fædd í hlutverk, heldur erum við fædd til að vera við. Erum fædd til að upplifa kærleika og það að tilheyra samfélagi. Þegar samfélagið samþykkir okkur ekki verðum við veik og visnum.
Í sumum tilfellum verður það óbærilegt og við stimplum okkur út úr samfélaginu, sem tekur ekki á móti okkur.
Setjum okkur í spor annarra - og líka í eigin spor, þannig skiljum við spor annarra.
Við erum öll eitt, að upplifa sams konar tilfinningar, allt frá góðum til vondra tilfinninga.
Ég upplifði einelti sem barn og kynferðislegt áreiti eldri stráka, ég upplifði það að vera særð og ég tók seinna þátt í einelti þar sem sársauki minn bitnaði á stelpu sem mér var falið að bera ábyrgð á. Ég var 9 ára, en stríði enn við þá skömm. Það var á Jaðri sem mér var sagt að bera ábyrgð á þessari stelpu sem var send þangað í ljósi þess að ég myndi gæta hennar, það var á Jaðri þangað sem að litli bróðir minn var líka sendur og þegar hann var veikur þurfti ég að henda öðrum krökkum út úr herberginu til að vernda hann, þegar þau komu eins og hungraðir úlfar að sækjast eftir sælgætinu sem hann fékk að eiga vegna þess að hann var veikur og það var á Jaðri sem mér var sagt að passa upp á frænku mína.
Það var líka á Jaðri þar sem ég þorði ekki að fara að pissa á kvöldin, því að ein starfstúlkan hafði sagt að hún sæi draug á ganginum á næturnar. ;-) .. æi þetta var erfitt.
Ég var níu ára þegar að mér var falin ábyrgð á þremur einstaklingum, og það var ég, barnið sem hafði misst pabba sinn sjö ára, pabba sem sýndi henni hlýju, hún kúrði með fyrir framan sjónvarpið á kvöldin með hinum systkinunum og bað bænirnar með henni en hafði svo bara dáið - og ekki þekktist áfallahjálp í þá daga.
Sumarið áður en ég fór á Jaðar fór ég á Silungapoll, - þar leið mér illa og þá var mér sagt að eina leiðin fyrir mig til að fá að vera heima væri ef að Hulda systir, tólf ára, samþykkti að passa mig á daginn, en fyrir gætti hún litlu systur, sem þá var bara tveggja. Ég stend því í eilífri þakkarskuld við Huldu, en spyr í leiðinni hvar voru allir hinir fullorðnu? - Mamma stóð ein eftir með fimm börn þegar pabbi dó á aldrinum átta mánaða til tólf ára, komin í fulla vinnu til að sjá fyrir heimilinu.
... Þetta átti að fjalla um einelti, en þróaðist í mína sjálfskoðun, - eineltið hélt áfram í unglingadeild bæði í Fella- og Hólabrekkuskóla, - en systir mín passaði upp á mig áfram og studdi mig, - ein manneskja getur skipt sköpum þegar um einelti er að ræða. Það voru ómerkilegir hlutir sem samnemendur mínir fundu upp á að hæðast að, fötin mín sem voru svolítið öðruvísi, gleraugun mín - en það þótti sumum eðlilegt að kalla gleraugnaglámur á þau sem voru með gleraugu, einn strákur kallaði mig "blue glasses" - þegar ég fékk mér blá gleraugu, brjóstaleysi mitt varð að áhugaefni hjá strákum í 10. bekk. En vegna þessarra hæðnisglósa vegna útlits, varð ég eflaust enn uppteknari af útliti míni en góðu hófi gegndi í framhaldsskóla, þrátt fyrir að verða það sem samfélagið samþykkti sem flotta unga stelpu - þar sem ég fékk aðdáun og virðingu, jafnvel þeirra sömu sem höfðu hæðst að mér áður, - þá fannst mér ég aldrei nóg og leitaði að fullkomleikanum.
Þetta kostaði mig þá hugmynd að ég væri aldrei nóg, aldrei nógu flott, aldrei nógu góð. Sjálfstraustið var brotið og .... við skulum ekki hafa frásöguna mikið lengri, því ég á að mæta í vinnuna mína!
Hlúum að innra verðmæti barnanna, þau eru nóg - eins og þau eru, hið ytra kemur sem bónus, en hið innra er nóg.
Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, það sem hér á undan fer er hluti af mínum skóla til þroska. Mikilvægasta skóla sem ég hef stundað.
Vegna þessa og síðan fleiri krákustíga sem ég hef fetað á leiðinni, mótlæti og meðlæti - er ég sú sem ég er í dag. Ég kann að setja mig í spor annarra, bæði þeirra sem beita ofbeldi og sem hafa þolað ofbeldi. Þess vegna er dómharka fjarri mér.
Eina fólkið sem ég á enn eftir að sættast við er það sem veit en lærir ekki eða vill ekki læra af mistökunum.
En ég hef líka þegið gjöf ófullkomleikans og því fyrirgef ég mér, sætti mig við sjálfa mig, samþykki mig og elska mig. Aðeins þannig er ég fær um að veita náunga mínum það sama.
Ég hef valið minn starfsvettvang, að sinna fólki og hlusta á fólk. Deila af reynslu minni og vera með opinn faðm - hlusta án þess að dæma.
Munum samt sem áður, eftir því að hörðustu dómarnir koma oft frá þeim sem bera stærstu sárin ..
Verum hugrökk, opnum hjörtu okkar og fellum grímur - segjum satt - því að sannleikurinn veitir okkur svo sannarlega frelsi.
Frelsið til að vera við sjálf, - líka "öðruvísi" ..
Enn og aftur: spyrjum ekki bara: "hvað eiga hinir að gera"- heldur "Hvað get ÉG gert" ..
Það sem þú veitir athygli VEX - veitum því KÆRLEIKANUM athygli á þessum degi gegn einelti og ástundum hann, kærleikanum til okkar sjálfra og annara - aðeins þannig náum við að uppræta eineltið.
Athugasemdir
Æ gleymdi, - hér er tengill á námskeiðið hans Eyjólfs - og hægt er að panta einkaviðtöl hjá Eyjólfi á eyjolfur@lausnin.is - mér á johanna@lausnin.is
Við mætum fólki með opnum huga og faðmi ;-)
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.11.2011 kl. 09:18
Marta B Helgadóttir, 8.11.2011 kl. 12:13
Takk Marta mín.
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.11.2011 kl. 12:46
Ætla að bæta þessu við því mér finnst það passa við: “Að segja sögu sína getur verið erfitt, en ekki næstum því jafn erfitt og að eyða lífi sínu í flótta frá henni. Að fella niður varnir er áhættusamt, en ekki næstum eins hættulegt og að leyfa sér ekki að upplifa elsku, gleði og því að tilheyra — reynsluna þar sem við upplifum okkur sem mest berskjölduð. Aðeins þegar við erum nógu hugrökk til að horfa inn í myrkrið, náum við að átta okkur óendanlegum mætti ljóssins.
― Brene Brown (þýðing Jóhanna)
Jóhanna Magnúsdóttir, 8.11.2011 kl. 12:47
Allar umræður um einelti eru til góðs og munu eflaust vekja marga til umhugsunar un vandamálið. Mig langar aðeins til að segja þetta. Umræðurnar virðast ekki ná til þeirra sem helst þurfa að sjá þær. Eða hvernig getur annars þrifist einelti í skólum ár eftir ár. Ég trúi því ekki að það sé ekki hægt að uppræta þennan viðbjóð. Það getur ekki verið að skólayfirvöld vinnni af heilindum að því að koma í veg fyrir þennan ósóma ef hann grasserar í sömu skólunum ár eftir ár.
Ég held að hér sé bara um eina lausn að ræða. Þeim skólastjórnendum sem ekki ráða við sín störf þarf skilyrðislaust að víkja til hliðar. Þau eiga ekki að fá leyfi til að eyðileggja börn. Burt með þessa óntjunga. Sigrún
Sigrún Björgvinsdóttir, 8.11.2011 kl. 14:47
Þú fitjar hér upp á mjög alvarlegu umræðuefni.
Einelti sem börn verða fyrir í sambandi við skólasetu ættu að vera brot á mannréttindum en eru það trúlega ekki.
Hafa skólar okkar, almennt, sent bréf til foreldra um hvernig þeir geti greint hvort barn þeirra er beitt einelti og bent þeim á hvaða hjálp skólinn geti gefið í því sambandi?
Agla, 8.11.2011 kl. 19:54
Sigrún, þakka þér þitt innlegg. Einelti er ekki eingöngu bundið við skóla og hæpið að skólastjórar einir saman geti tekið á sig alla ábyrgð á einelti. Ég er hér í þessum langa pistli að benda á ábyrgð hvers og eins.
Í einelti er aldrei eitt fórnarlamb. Börn sem taka þátt í einelti læra það einhvers staðar, mér finnst hæpið að fyrirmynd þeirra sé skólastjórinn. Á meðan að við vísum hvert á annað náum við seint að vinna gegn einelti, - við verðum að taka höndum saman gegn einelti. Finna orsökina og stöðva vítahringinn.
Hvar ætli þau börn sem hafa tekið þátt í einelti á barni sem tekur líf sitt séu stödd? Þau hljóta að upplifa hrikalega skömm og sektarkennd, kannski bara ung börn. Ef ekki er unnið með þessi börn getur þetta haft áframhaldandi skaðleg áhrif.
Þess vegna skrifaði ég um dómhörkuna í samfélaginu, - og mikilvægi þess að allir geti talað út um vanlíðan sína. Öll börn.
Það sem á undan kemur, útilokar ekki það að svartir sauðir séu meðal skólastjóra og þeir geti einhverjir gert betur, - í öllum skólum eru námsráðgjafar og ýmsir sem sinna félagslífi nemenda og sinna þeim og í raun þurfa allir starfsmenn að vanda sig. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og þess vegna ítreka ég mikilvægi okkar sem eigum að teljast fullorðin - sem fyrirmynda.
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2011 kl. 00:24
Sæl Agla og takk fyrir athugasemdina, já mér fannst það mikilvægt að taka þetta upp á þessum degi gegn einelti, - en auðvitað eiga allir dagar að vera dagar gegn einelti - dagar með kærleika.
Ég er ekki málsvari skólanna, en ég þykist vita að flestir ef ekki allir skólar vinni eftir eineltisáætlunum, eða eigi að gera það. Ég þekki aðeins til starfa námsráðgjafa og hjúkrunarfræðings í einum grunnskóla borgarinnar og sá að þessir starfsmenn leggja líf og sál í vinnu sína. Helst myndi ég gagnrýna starfsmannaskort og aukið álag á starfsfólk, sem gerir það að verkum að erfiðara er að sinna hverjum nemanda eins og skyldi. Sparnaður bitnar því miður á þeim sem síst skyldi, börnunum.
Foreldrar ættu endilega að kynna sér allt um einelti, fullt af efni á netinu sé leitað - foreldrafélög geta boðið upp á kynningar og fyrirlestra.
Fræðsla, hópefli, sjálfstyrking, lífsleikni mætti vera mun sterkari þáttur í skólastarfi að mínu mati og margra annarra, en þarna er verið að spara eins og í svo mörgu.
Alltaf er verið að slökkva elda, í stað þess að stunda eldvarnir.
Við getum alltaf gert betur, skólayfirvöld, starfsfólk, foreldrar og samfélagið allt.
Börnin tala oftast um að þeim sé strítt í frímínútum, - það mætti efla gæslu úti við og kannski leiða börnin meira í leik. - En enn og aftur held ég að þarna sé verið að spara.
Jóhanna Magnúsdóttir, 9.11.2011 kl. 00:46
Einelti er dauðans alvara, ég á dóttur sem er lögð í einelti. Hún fær engan frið í skólanum. Hún vill fara í annan skóla, en getur það ekki. Skólastjórnendur leyfa eineltinu að viðgangast. Ég hef farið á fundi og allir þykjast starfa eftir Olweusar reglunni að einelti sé ekki liðið. Það er mín skoðun að ef einelti er ekki stoppað, þá er það leyft. Og því miður er einelti leyft í Valhúsaskóla. Og þetta er ekki eina barnið mitt sem hefur lent í slæmu einelti í þessum skóla.. Samt eru ekki sömu skólastjórnendur og voru fyrir 10 árum síðan... Það er eins og gerendurnir séu friðhelgir, það má ekki reka þá úr skóla eða gera neitt sem foreldrar þeirra skilja.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.11.2011 kl. 01:34
Ég er sammála öllu sem hér hefur komið fra. Einelti er um allt samfélagð. Ég hef kynnst því af eigin raun. Og börnin heyra þessa afstöðu bæði heima og annars staðar. Ég er bara að reyna að segja. Það verður að stoppa þetta. Ef ekki með góðu, þá með illu. Með lagasetningu um nýjan refsiskala.
Sigrún
Sigrún Björgvinsdóttir, 9.11.2011 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.