"Hvað get ÉG gert" ... pólitísk morgunhugvekja á sunnudegi

Ég sofna hugsandi um tilveruna og vakna hugsandi um tilveruna. Þess vegna þarf ég stundum að stunda hugleiðslu til að róa hugann og það er líka gott að koma hugsunum mínum í farveg og kannski er það þess vegna m.a. sem ég blogga. 

Það er vont að staðna í hugsuninni, þá verðum við eins og ófróju laukarnir í garðinum hér úti á Holtsgötunni sem ekki náðu að verða að túlípönum eða páskaliljum.  Hugurinn flytur okkur hálfa leið, og aðeins hálfa, en restina verðum við að fara í holdi. - 

Hugur og hönd þurfa að fylgjast að, og það er um að gera að láta sig dreyma og það stóra drauma og halda svo af stað. 

Þegar stórir draumar eru dreymdir, þurfa þeir mikið rými.  Ef við sitjum heima í sófa og dreymir drauma þá rekumst við fljótt á loftið í íbúðinni! ..  Það stemmir líka við það að sitja kyrr í sófanum og hugsa. 

Þess vegna er "trixið" - að standa upp, klæða sig vel (ef veðrið er vont) fara út og horfa til himins. 

Þar eru engin takmörk. 

Ég fann lag við þessar pælingar - eða kannski fann lagið mig? -  "Horfðu til himins" með Ný-danskri og svo þegar ég fór að gúgla textann fann ég grein eftir Karl Pétur Jónasson, frá 2. nóvember sl., undir heitinu "Bölmóðssýki og brestir" úr sama lagi og ég hafði ákveðið að nota sem grunntón fyrir hugvekjuna mína, en þar stóð m.a.: 

"Michael Porter sagði það í gær sem mér hefur lengi fundist. Að Íslendingar séu fastir í fortíðinni og einbeiti sér fremur að væli en að uppbyggingu samfélagsins og efnahagskerfisins. Á fáeinum árum hefur íslenska þjóðin breyst úr Evrópumeisturum í sjálfshóli í óskorðaða heimsmeistara í sjálfsvorkunn."

Við þurfum ekkert að kaupa þetta, en ég er sammála því að þarna eru sannleikskorn. 

Jafnframt skrifar Karl Pétur: 

"Þrír samverkandi þættir standa í vegi fyrir áframhaldandi þróun; vantraust almennings á öllu og öllum, velmeinandi, en algerlega vanmáttug ríkisstjórn og fjölmiðlakerfi sem viðheldur bálkesti reiði, bölmóðs og sjálfsvorkunnar með því að kasta í sífellu á hann gömlum, endurunnum fréttum um hrun."

Þarna staðfestir Karl Jónas reyndar lið 1 í liði 2 og 3 eða vantraustinu á öllu og öllum, þ.m.t. ríkisstjórn og fjölmiðlum.  

Hvernig og hvers vegna ætti fólk að treysta vanmáttugri ríkisstjórn (að hans mati) og fjölmiðlakerfi sem viðheldur bálkesti reiði o.s.frv?

Karl Pétur áttar sig líka á þessu og talar um vítahring í þessu sambandi. 

"Hvað get ég gert?"  spyrja þeir í Ný-dönsk og nú verðum við að spyrja okkur hvert og eitt okkar, "Hvað get ÉG gert?" 

Svarið er "Horfum til himins" ..  og hvað er það? - Jú, hafa trú, leyfa sér að vona, hætta að óttast, skammast o.s.frv.  Gera allt sem kemur okkur áfram í stað þess að staðna eins og ófrjóir laukar í moldarbeði. 

"Be the change you want to see in the world" - (Gandhi) 

eða

Vertu breytingin sem þú vilt sjá á Íslandi.

Það er þekkt í meðferðageiranum að við þurfum að byrja á okkur sjálfum,  þegar við erum farin að standa stolt, horfa til himins með höfuðið hátt, elska okkur, virða og hafa sjálfstraust -  þá hefur það smitandi áhrif út á við.  Þá fara þau sem eru í kringum okkur að breytast líka.  Við höfum alls konar orð yfir þetta eins og fiðrildaáhrif og fleira.

Jákvæðni smitar og neikvæðni smitar.  Bölmóðssýki og brestir smita.  

Þetta snýst um viðhorf, að taka afstöðu og að taka ábyrgð á eigin lífi.  Hver og ein/n verður að ákveða sína leið og sjá sína framtíðarsýn. 

Þegar við erum að skoða framtíðarsýn út frá markþjálfun þá byrjum við á að sjá fyrir okkur takmarkið. 

Takmarkið eða sýnin fyrir Ísland væri þá: 

Heilbrigðir og heiðarlegir Íslendingar, sjálfbærni, gagnsæi, jafnrétti, hófsemi..

- Heilbrigð og hamingjusöm þjóð á sál og líkama .. 

Þegar sýnin er komin, þarf að fara að hafa trú á sýnina.  Ekki missa fókus, hvað sem á gengur.  En við þurfum líka að átta okkur á því hvað hamlar,  hverjar eru fyrirstöðurnar og það sem heldur aftur af okkur.

Í tilfelli einstaklinga er það oft einstaklingurinn sjálfur sem er hræddur við að gera mistök, hræddur við eigin framgöngu og að hann hefur ekki trú á sjálfum sér.  En hömlurnar koma líka utan frá, frá aðstæðum og fólki sem vill stöðva framgönguna.  "Framsókn" er í raun besta nafnið á stjórnmálaflokki, en spurning hvort það er réttnefni? ;-) - "Hreyfingin".. movement - er auðvitað allt annað en stöðnun, - en án þess að ég fari hér í fleiri nöfn,  þá verður hreyfing að stefna að einhverju annars er hún stefnulaus.  Þá er ég að tala um hreyfingu almennt. 

Þjóðarskútan verður að hafa skýra stefnu og við þurfum að hafa sameiginlega sýn á framtíðina.  Þess fleiri sem hafa sameiginlega sýn, sem við getum sammælst um og trúað á,  þess betra,  því þá verða hömlurnar færri. 

Mistök eru til að læra af þeim, ekki berja sig með hrísvendi það sem eftir er vegna þeirra.. Spyrja: "hvað gerði ég rangt?" - og varast að falla i sömu holur aftur, - spyrja sig "Hvað gerði ég rétt" og nýta það.  

Þessi framtíðarsýn verður að vera unnin í sátt og samlyndi við landið okkar, - að hún valdi ekki þannig usla að um óbætanlegt tjón á náttúru eða heilsu komi til. 

Við verðum að fara að hreyfast að takmarki og græja okkur vel, með útbúnað og nesti. 

Útbúnað í formi þess sem kemur okkur á leiðarenda, hlífir okkur við veðri og vindum o.s.frv. 

Nestið þarf að vera í formi jákvæðra staðhæfinga, þakklætis fyrir það sem við höfum nú þegar, eins og auðlindir í formi mannauðs, vatns og jarðhita, fisks, lambakjöts,  hreins lofts o.fl. o.fl. 

Við verðum að tengja okkur saman andlega, trúa á árangur og taka sameiginlega ábyrgð.

Hreyfast frá skömm til hugrekkis - frá ótta til kærleika - frá kvíða til vonar - frá fortíð til nútíðar - frá efa til trúar.... 

"Horfum til himins" ... 

 

Pólitískt skipbrot - efnahagslegt skipbrot - en þurfum ekki að bíða andlegt skipbrot ..  Pólitíkin og efnahagurinn hafa áhrif á andann - en það virkar í báðar áttir - andinn getur líka blásið lífi í pólitíkina og efnahaginn ....  

Við þurfum bara að ákveða "Which way to go" ..  eða taka stefnuna og leyfa svo vindinum blása í seglin ..  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þetta var orðið svo langt blogg - en það eru tvö atriði sem ég vil bæta við:

Vegna þess hvað fólk fer margt í flokkspólitíska afstöðu, fylgir sínum "no matter what" - þá hef ég enga trú á flokkapólitík fyrir okkar litla land og tel hana leiða til sundrungar í stað sameiningar. "Sameinuð stöndum við og sundruð föllum við" .. 

Það þarf bara að ráð stjórn sérfræðinga sem stýrihóp í pólitíkinni og taka upp fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. (þetta er í einföldu máli sagt). 

Svo þarf að hleypa þeim sem starfa við byggingar, stofnanir og fyrirtæki að - til að taka ákvarðanir um staðsetningu, aðbúnað o.fl.  Dæmi:  Þegar verið er að ákveða staðsetningu spítala, arkitektúr og innréttingar þarf að spyrja heilbrigðisstarfsfólk. 

Engir vita betur hvað hentar heldur en starfsmennirnir sem koma til með að þurfa að vinna á svæðinu. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 09:57

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð að vanda. Ég er algjörlega sammála þér að kvartið og kveinið er að fara með okkur, það er svo stór hluti þjóðarinnar sem vissi ekkert um erfiðleika fyrr en hrunið dundi yfir og fólk kann ekki að tækla það, við sem eldri erum eigum að vera fyrirmyndir, en hvort þetta tekst er svo annað mál.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.11.2011 kl. 11:15

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir þitt innlegg Ásdís. Ég var að horfa á myndband frá flóttamannabúðum, - og oft þurfum við svona "wake-up-call" - til að hætta að barma okkur og til að vera þakklát fyrir það sem við höfum.  Ekki það að við eigum EINUNGIS að sitja kyrr og þakka, heldur byggja á því sem við höfum nú þegar og því sem við getum þakkað fyrir.  Við eigum nefnilega býsna margt gott.

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 11:23

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Við eigum mjög margt gott og hættir til að gleyma þvi í barlómnum. 

Ásdís Sigurðardóttir, 6.11.2011 kl. 11:25

5 identicon

Aldeilis gaman af svona hugarflugi, þar sem jákvæðnin er "ofar hverri kröfu". Einmitt það sem við þurfum á að halda.

Fleiri svona pistla frá fleira fólki og til samans verður það að flóðbylgju jákvæðni og uppbyggingar á flestum sviðum.

Það er ekki hin mörgu orð sem eru nauðsynleg, heldur að koma kjarnanum að svo hann sjáist og skiljist, það er allt sem þarf.

Takk kæra Jóhanna, mér finnst þú vera uppbyggjandi vera - ein heilbrigð fruma í þjóðarlíkamanum!

Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 12:15

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk ljúfust, auðvitað á barlómurinn að hætta og jákvæðnin að taka við, verst finnst mér að fólkið sem kvartar mest er það fólk sem hefur það bara gott og getur hæglega látið enda ná saman.

Þeir sem virkilega þurfa á hjálp að halda spjara sig, en sumir gefast upp það er fólkið sem við þurfum að ná til.

Guð veri með okkur ollum

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.11.2011 kl. 14:17

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Já Ásdís, ég heyrði um daginn svo dásamlega vekjandi setningu í sambandi við þakklætið.

"Hvað ef að það sem þú vaknaðir með í morgun, væri einungis það sem þú þakkaðir fyrir í gær" .. 

Það er svolítið sjokk að uppgötva ef við höfum alveg látið hjá líðast að þakka nokkurn hlut.  En við fáum að sjálfsögðu nýja blaðsíðu, fyrirgefum okkur meðvitundarleysið og segjum: 

"Hvað ef að það sem þú vaknaðir með á morgun, væri einungis það sem þú þakkaðir fyrir í dag" ..   Þá höfum við ráðrúm til að gera okkar þakkir.

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 14:19

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sigurður Herlufson, þakka þér þitt innlegg og kærar þakkir fyrir það sem þú sagðir um mig, - mér þykir óhemju vænt um það. .. Ég er exta viðkvæm núna því að þó ég sé þokkalega heilbrigð andlega í dag, þá er líkaminn eitthvað að kvarta og flensa hefur gert innreið sína.  Elskuleg systir mín var að færa mér súpu.  Ég fer ekki ofan af því að fólk er gott, og mér þykir óvenju vænt um það.  Það eru bara ekki allir sem kunna að beita góðmennsku sinni og það að vera vondur stafar alltaf af særðri manneskju eða særðu barni og bældum minningum.  

Tilfinningar eru svo mikilvægar, tilfinningar og tár, til að hreinsa út svo við séum ekki með stíflur sem stífla góðmennskuna í okkur! 

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 14:23

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Milla þakka þér enn og aftur fyrir falleg orð, - og gott innlegg.  Ég er svo sammála þér að við vitum að það eru svo margir einangraðir, sumir eflaust með sínar skuldir og geta ekkert gert.  Það versta í heimi er að vera ótengdur - eiga ekki neinn til að segja frá sínum raun-veruleika,  því eins og liggur í orðinu þá er veruleikinn ákveðin raun sem þarf að standast.

Aldrei fyrrr hefur verið meiri þörf á góðri kirkju, góðum andlegum leiðtogum til að sinna náunga sínum.  Við hvert og eitt okkar erum að sjálfsögðu hluti kirkju,  hvaða nafni sem hún nefnist.  Heimskirkjan e.t.v.  

Við erum fædd til kærleika, það að tilheyra samfélagi eða öðru fólki.  Við verðum að finna að við séum hluti einhvers, annars upplifum við einmannakennd, jafnvel visnum og deyjum.  Þetta er niðurstaða konu sem hefur rannsakað samhygð/hluttekningu - eða það að setja sig í annarra fótspor í mörg ár.  

Tek undir lokakveðjuna frá þér.

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 14:28

10 identicon

Í hnotskurn: Ekki fylgjast með eða trúa fjölmiðlum, pólutíkusum, banka-og fjármagnsfyrirtækjum og allri þeirri lygaþvælu sem fer þar í gegn, en trúa á sjálfan sig og göslast af stað.

En þetta er einmitt það sem framtaksamir og ofvirkir íslendingar hafa alltaf gert og gera enn og þessvegna er samfélagið eins og það er. Gjaldþrot hér og ný kennitala þar o.s.f. endalaust.

En verum bjartsýn í íslenska ruglinu og þá fer allt vel.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband