5.11.2011 | 11:05
Prinsar eða prinsipp? ... obboðslega mikið hugsað upphátt ..
Þegar ég var lítil stelpa átti ég nokkra drauma, þegar ég lék ég mér í skóginum í Lindarbrekku vissi ég að mig langaði til að vera Indjáni, - náttúrubarn sem gengi um berfætt, stundaði útivist og nyti landsins gæða.
Þegar ég var heima í stofu að horfa á dans - og söngvamyndir var ekki vafi í mínum huga að mig langaði að vera dans-og söngkona. Ég klæddi mig í tjullkjóla og dansaði heima fyrir framan spegil.
Svo fór ég í skólann og fékk spurningu í minningabók hvað ég vildi verða, og svaraði í gríni að ég vildi verða kennari því það væri svo gaman að kríta á töfluna, - en þarna var ég komin í óvissuna.
Í 8. bekk fékk ég athugasemd frá kennaranum mínum sem ég gleymdi aldrei "Þú ættir að verða rithöfundur" .. það var eftir ritgerð um líf í fiskabúri og tilbreytingaleysið við að vera fiskur...
Eftir að þrautlesa íslenskar og erlendar ástarsögur, sem voru auðvitað allar með rætur í örvæntingarfullri Öskubusku, sofandi Þyrnirósu eða hálfkæfðri Mjallhvíti, var ég reyndar komin yfir í það að vera bara bjargarlaus kona sem myndi hitta prinsinn á hvíta hestinum sem myndi bjarga mér.
"Sterka karlmannlega þögla týpan" - Þögnin átti að vísu að vera vegna þess að hann var e.t.v. örlítið særður, og ég (hin fullkomna fyrir hann) átti að vera sú sem læknaði sárin. (Þekkið þið mynstrið?) -
Ég fann manninn, en hafði týnt sjálfri mér. Myndin varð að glansmynd en svo kunnum við hvorugt á hitt þegar upp var staðið, föttuðum ekki að það þarf hver og ein manneskja að bjarga sjálfri sér, en hún bjargar ekki öðrum. Af hverju ætli enginn hafi upplýst hvað gerðist hjá Öskubusku, Þyrnirósu, Mjallhvíti og prinsunum þeirra eftir brúðkaupið. Af hverju var ekki skrifað um hvað fólst í þessu: "Þau lifðu hamingjusöm til æviloka" ... voru þau bara viðstödd í Núinu og fóru í læri hjá Eckhart Tolle? -
Ég hef alltaf haft yndi af því að dansa og fæ enn fiðring í fæturnar að horfa á fólk dansa. Ég hef líka yndi af því að syngja. Ég stundaði jazzballett sem unglingur, og dansaði mikið framan af, en dansinn er hálftýndur. Ég var alltaf syngjandi, og söng í kór í tvö ár, en mikið til hætt að syngja. Ég elska að vera útí náttúrunni og finnst ekkert yndislegra á góðum degi en að ganga berfætt og synda í vatninu.
Ég vissi það þegar ég var lítil hvað ég vildi gera, en eitthvað í umhverfinu stöðvaði mig. Kannski náði ég að týna mér og sjálfstraustinu snemma - líklegast þegar ég fór að lesa um ósjálfbjarga konurnar?
Rithöfundaráskorunin liggur enn í mér, - mig langar mikið til að skrifa bækur. Bækur fyrir bæði börn og fullorðna - fyrir mig. Um tilveruna, - bækur sem eru hvatning fyrir okkur til að lifa lífinu OKKAR, ekki annarra, hvatning til söngs og dans og óður til náttúrunnar.
Mig langar að skrifa um verðmæti sálarinnar, skömmina sem eitrar hana, þakklætið fyrir hversdaginn, dómhörkuna, hluttekninguna ... allt milli himins og jarðar sem viðkemur tilvist okkar og sem tengir okkur betur við náttúruna, lífið, leikinn, sönginn og dansinn.
Þannig gæti ég kannski orðið það sem ég óskaði mér sem barn. Ég er bara hálfnuð með lífið.
..
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? ... hvað ætlar þú að gera núna?
Er líf þitt þitt val? -
Ég játa það að stundum langar mig bara að syngja eins og Donna í Mamma Mia, - "Money, Money, Money .... " - og játast prinsinum i staðinn fyrir prinsippinu og láta bjarga mér í staðinn fyrir að bjarga mér sjálf. Ef ég fer að blogga frá grískri eyju þá vitið þið að ég er "fallin" ....
Prinsippin mín hafa verið mér dýrkeypt - en skóli lífsins er líka verðmætasti skólinn þegar upp er staðið.
Takk fyrir að gefa þér tíma til að lesa, mér finnst mínar pælingar koma öðrum við, eins og annarra pælingar koma mér við - því við lærum af hvert öðru, lærum að skilja okkur sjálf í gegnum aðra...
Við þurfum e.t.v. að muna eftir því að við höfum ýmislegt fram yfir fiskana í fiskabúrinu ...
við höfum val...
Verð samt að enda á þessu ;-)
Athugasemdir
Vil taka það fram að ég stilli prinsinum hér upp sem andstæðu prinsips, - svo þarf ekki að vera í öllum tilfellum, það fer eftir okkar eigin afstöðu og hversu heil við erum sjálf og ómeðvirk.
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.11.2011 kl. 11:08
Þú ert frábær, hvaða stúlku hefur ekki dreymt um draumaprinsinn, verða fræg dansmær eða söngkona, og allann þann pakka. Svo fullorðnumst við lærum á lífinu og þá er aðalatriðið að vita þegar upp er staðið að við erum frábærara og færar í flestan sjó, sem manneskjur meðal annara mannvera.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.11.2011 kl. 13:50
Sæl kæra! Ég geymdi mér að lesa þetta þar til ég hefði næði. Hef oft sagt við vini míina,maður þarf 8-10 líf til að stunda (verða) það helsta sem var á óskalistanum.Íþróttir voru hátt skrifaðar hjá mér og hljóðfæraleikur. En þú ert enn þá ung, já bara kornung til að byrja rithöfundaferilinn. Amma vinkonu minnar samdi skáldsöguna ,,Maður og mold,, Var þá 70+ hét Sóley í Hlíð. Sendi heilla-kveðjur til þín.
Helga Kristjánsdóttir, 5.11.2011 kl. 18:24
Þakka þér Ásthildur mín.
Rétt hjá þér, við eigum víst flestar svipaða drauma og svo gengur örugglega annar hver Íslendingur með bók í maganum!
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.11.2011 kl. 21:40
Takk fyrir góðar kveðjur Helga, já ég er víst ekki dauð úr öllum æðum. Lífið rétt að byrja - eða svona "nýja lífið" -
Jóhanna Magnúsdóttir, 5.11.2011 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.